Ársreikningurinn fegraður

Mér hefur þótt meirihlutinn í borgarstjórn vilja túlka Ársreikning 2023 í ansi björtu ljósi þegar raunveruleikinn er ekki alveg svo bjartur eftir allt saman. Í dag hefur átt sér stað fyrri umræða um Reikninginn. Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur lagt áherslu á eftirfarandi atriði í Reikningnum:

1. Afkomu A- hluta er enn óásættanleg þrátt fyrir nokkurn bata

2. Félagsbústaðir, þetta er viðskiptamódel sem ekki gengur upp. Flokkur fólksins mun ekki samþykkja hækkun á leigu

3. Erlent lán sem Reykjavíkurborg ætlar að taka til að greiða viðhald myglu og raka í leikskólum. Þetta er neyðarúrræði því borgin nýtur ekki lánstrausts hér eins og þyrfti

4. Óefnislegar eignfærslu. Ábending ytri endurskoðanda að stafræn verkefni verða að sýna óumdeildan ávinning til að teljast hæfar til eignfærslu og þar með afskrifta. Afskriftir þróunarverkefna hafa gengið út í öfgar að mati Flokks fólksins

5. Nauðsynlegt er að fá óháðan aðila til að gera úttekt á stjórnunarháttum og meðhöndlun fjármagns á þjónustu- og nýsköpunarsviði. Það er löngu tímabært að borgarbúar fái úr því skorið í eitt skipti fyrir öll hvort þeir miklu fjármunir sem þeir hafa verið að greiða í stafræna vegferð frá 2019, hafi skilað sér í formi tilbúinna lausna.
 
borg. 7.5. nr. 5
Ræðu oddvita Flokks fólksins í heild sinni má sjá hér:

Markmiðið að sem flestir ungar komist á legg

Flokkur fólksins hefur átt áheyrnarfulltrúa í umhverfis- og skipulagsráði í 6 ár og hefur þar látið til sín taka eins og í öðrum ráðum sem Flokkurinn á sæti í. Á nýafstöðnum borgarstjórnarfundi óskaði borgarfulltrúi Flokks fólksins eftir umræðu um tjarnir í borgarlandinu og umhirðu þeirra.
Meðal þess sem Flokkur fólksins lagði áherslu á var að meirihlutinn myndi marka stefnu um framtíð tjarna í Reykjavík. Engin slík er til. Í því felst m.a. að skilgreina ferli sem lýsir áætlun um hvernig breytingum frá núverandi ástandi skuli náð og hver sé æskileg eða viðunandi staða eftir tilsettan tíma.

Í Reykjavík eru margar tjarnir, flestar manngerðar. Stærsta tjörnin er Reykjavíkurtjörn. Sumar tjarnir eru til að jafna streymi leysingavatns og hindra að leysingavatn af götum fari beint t.d. út í Elliðaár, (settjarnir) en aðrar til að fegra umhverfið. Það var aðallega tvennt sem borgarfulltrúi Flokks fólksins lagði áherslu á í umræðu sinni um tjarnir í borgarlandi. Í fyrsta lagi umhirða og þrif í kringum tjarnir og í öðru lagi hólma í tjarnir til að mynda friðland fyrir fugla.

Þrif og umhirða

Í tjörnum í borgarlandinu er að finna talsvert rusl og þar er plast mest áberandi. Ef horft er til Reykjavíkurtjarnar er áberandi oft á tíðum hvað hreinsun er ábótavant. Þetta atriði er eitt af því sem þyrfti að vera skýrt kveðið á um í stefnu borgarinnar um tjarnir. Ef hreinsa á tjörn almennilega þarf að fara út í þær með háfa og veiða ruslið. Netháfar eru einfalt verkfæri og tíðkast notkun þeirra víða. Einhver þarf að vakta þessa hluti með reglulegum og kerfisbundnum hætti.

Hólmar

Í Reykjavík ganga kettir lausir.  Hólmar eru griðastaður fugla. Þar eru þeir t.d. varðir fyrir köttum. Það ætti að vera kappsmál allra og stuðla að því að flestir ungar komist á legg. Fæstar manngerðar tjarnir eru með hólma. Til dæmis eru tiltölulega nýgerðar fjórar settjarnir með fram Elliðaám en engin með hólma. í Úlfarsárdal eru manngerðar tjarnir og fleiri í bígerð, aðeins ein með hólma. í Fossvogsdal er einn hólmi. Tjörnin í miðbæ Reykjavíkur bæri marga hólma til viðbótar þeim tveimur sem eru manngerðir.

Hólmar þurfa ekki allir að vera eins,. þ. e. lágir og grösugir. Ásamt slíkum gætu sumir verið með stórt tré, sem hentar spörfuglum eða einhverjum mannvirkjum sem hentuðu sem hreiðurstæði. Mismunandi hólmar í sömu tjörn gætu laðað að sér mismunandi fuglategundir. Með mörgum ólíkum hólmum gætu fjöldi fugla fengið frið til að koma upp ungum. Flokkur fólksins hefur áður bent á að hólmar ættu að vera í eins mörgum tjörnum og unnt er. Undirtektir meirihlutans við þessum ábendingum hafa ekki verið miklar, raunar engar.

Stefnumörkun um tjarnir í borgarlandinu

Stefna er gjarnan mótuð um ýmis mál í Reykjavík, stór sem smá, og ættu tjarnir í borgarlandinu ekki að vera undanskildar. Oft hefur meirihlutinn beitt þeim rökum að hin og þessi framkvæmd, svo sem að gera eitt og eitt blómabeð, eða setja blómapott á bílastæði, eða að beita einhverjum ofanvatnsleiðum sé til að auka „líffræðilega fjölbreytileika“.  Telja má víst að með fjölgun hólma í tjörnum til að skapa friðland fyrir fugla mun líffræðilegur fjölbreytileiki í borgarlandinu án efa aukast.

Flokkur fólksins vill sjá borgarstjórn sýna meiri metnað þegar kemur að Reykjavíkurtjörn og öðrum helstu tjörnum í borgarlandinu. Við sem störfum við Tjörnina sjáum vel ástand hennar, sem er vissulega mismunandi en því miður oft frekar bagalegt. Almennt mætti huga betur að því að gera aðstæður við tjarnir í borgarlandinu betri, að þær biðu upp á áningu svo hægt sé að njóta þeirra. Til dæmis að setja fleiri bekki og jafnvel borð í kring sem gefur fólki kost á að staldra við þær, tylla sér á bekk og jafnvel borða nesti á meðan það nýtur umhverfisins.

Greinin er birt í Morgunblaðinu 30. apríl 2024


Startup-kúltúr“ í stafrænni vegferð Reykjavíkurborgar

Nú þegar Reykjavíkurborg er búin að eyða yfir 20 milljörðum í stafræna umbreytingu á vegum ÞON (þjónustu- og nýsköpunarsviðs)hefði þurft að staldra við og skoða hvað borgarbúar hafa raunverulega verið að fá fyrir peninginn í tilbúnum stafrænum lausnum.

Vissulega hafa einhverjar stafrænar lausnir litið dagsins ljós síðustu ár en tilbúnar afurðir eru hins vegar ekki í neinu samhengi við það ævintýralega fjármagn sem nú þegar er búið að eyða. Allt of mörg verkefni hafa verið illa skilgreind og mörg hafa dagað uppi í tilraunasmiðjum ÞON eða hafa einfaldlega ekki enn litið dagsins ljós.

Núverandi meirihluti heldur áfram að vera sama gagnrýnislausa málpípa þessa sviðs þrátt fyrir að það blasi við að farið er með fjármagn af mikilli lausung og ábyrgðarleysi. Píratar hafa sérstaklega mært þessa vegferð í blindri meðvirkni. Tugum milljóna hefur verið eytt í dýran húsbúnað, dýran tækjakost, skemmtanaviðburði með tilheyrandi veitingum og kaupum á erlendri ráðgjöf sem óljóst er hvernig hefur skilað sér í verkefnin.

Dómgreindarleysi og skortur á eftirfylgni

Á fundi borgarstjórnar þriðjudaginn 5. mars ætlar meirihlutinn að ræða um meintan ávinning stafrænnar umbreytingar fyrir borgarbúa. Í gegnum tíðina hefur borgarfulltrúum verið boðið upp á uppskrúfaðar kynningar um þau verkefni sem sögð eru vera í vinnslu hverju sinni og ósjaldan er það tekið fram að árangur sviðsins sé á heimsmælikvarða – án þess að einhver rök séu færð fyrir þeim fullyrðingum.

Það er ömurlegt að horfa upp á alla þá sóun og bruðl sem átt hefur sér stað á þjónustu- og nýsköpunarsviði. Flokkur fólksins hefur reynt að halda uppi eftirliti og aðhaldi og einnig bent Innri endurskoðun á mikilvægi þess að gera úttekt á sviðinu því hér er um gríðarlegt fjármagn að ræða. Starfsmannavelta sviðsins er kapítuli út af fyrir sig. Það liggur við að það sé daglegt brauð að fólk sé ráðið og rekið – nú síðast einn af skrifstofustjórum sviðsins sem rekinn var á meðan viðkomandi var í veikindaleyfi.

Uppgötvunar,- tilrauna,- og þróunarfasi

Það sem sviðið virðist hafa lagt mesta áherslu á er að vilja finna upp hjólið. Margt af því sem er í tilraunafasa eru lausnir sem aðrir eru löngu komnir með. Áhersla sviðsins hefur verið á hin ýmsu mælaborð og viðburðadagatöl eins og það sé aðalatriðið. Á sama tíma eru þær mikilvægu stafrænu lausnir sem fólk er virkilega að bíða eftir sagðar sífellt vera „leiðinni“.

Þrjú uppáhaldsorð ÞON er“uppgötvunarfasi, tilraunafasi og þróunarfasi“. Samstarf við ríki og önnur sveitarfélög hófst seint og er lítið og yfirborðskennt eftir því sem Flokkur fólksins kemst næst þrátt fyrir augljósan ávinning sem slíkt samstarf felur í sér. Samlegðaráhrif og samþætt virkni og útlit stafrænna lausna er öllum í hag – ekki síst almenningi sem þarf að nýta sér þjónustuna.

Enn í dag vantar mikið af grunnlausnum t.d. á skóla- og frístundasviði en þar hefði stafræn vegferð átt að byrja og í samvinnu við önnur sveitarfélög. Í gögnum frá skóla- og frístundasviði segir m.a. „að ekki verði hjá því litið að þjónustu- og nýsköpunarsvið beri ábyrgð á upplýsingatækni og gagnastjórnun Reykjavíkurborgar og þjónustu á þeim sviðum“.

„Startup kúltúr“

Fulltrúar Flokks fólksins töldu að loksins hefði einhver vaknað og gert sér grein fyrir þessu gengdarlausa bruðli þegar fréttir bárust að leggja ætti niður skrifstofu sviðsstjóra og færa verkefnin annað. En það virðist því miður ekki hafa verið raunin. Stafrænni vegferð borgarinnar hefur verið líkt við fyrirbærið „Startup cult“ sem skilgreinist m.a. þannig að fólk kaupi sig inn í umhverfið og ásýndina hvort sem það er verið að skila vöru eða ekki. Dæmigerður forstjóri slíks fyrirtækis kjaftar sig inn á fólk og tekst að selja fólki einhverja draumsýn. Þjónustu- og nýsköpunarsvið minnir sannarlega á hugmyndafræði þeirra tegunda fyrirtækja sem leggja upp með áætlanir sem alls óvíst er að muni verða að veruleika og þar sem farið er með fjármagn eins og um áhættufjármagn sé að ræða.

Fulltrúar Flokks fólksins eru ekki þeir einu sem gagnrýnt hafa framkvæmd stafrænnar umbreytingar borgarinnar, heldur hafa Samtök iðnaðarins og margir fleiri s.s.einkafyrirtæki og einstaklingar gert það einnig. Flokkur fólksins fær daglegar ábendingar frá þeim sem þekkja til þessara mála hjá borginni og hafa gjörsamlega blöskrað bruðlið. Opinberir fjármunir eins og skattur og útsvar á aldrei að vera meðhöndlað af áhættusæknum stjórnendum eins og hvert annað áhættufjármagn sem ekkert er víst að muni skila sér í verðmætum.

Höfundar: Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins og Einar Sveinbjörn Guðmundsson, kerfisfræðingur sem skipar 3 sæti á lista Flokks fólksins í Reykjavík

Birt í Morgunblaðinu 5. mars 2024


Í dag verður skipt um borgarstjóra

Í dag verður skipt um borgarstjóra. Búið er að boða til aukaborgarstjórnarfundar og eigum við borgarfulltrúar að greiða atkvæði. Tillaga meirihlutans er eins og löngu er vitað að Einar Þorsteinsson verði næsti borgarstjóri. Auðvitað má spyrja hér til hvers að kjósa? Sú skipti sem hér um ræðir er innbyrðis ákvörðun meirihlutans, mál sem flokkur í minnihluta hefur ekkert um að segja eða gera. Jafnvel þótt allur minnihlutinn greiði atkvæði gegn Einari þá verður hann samt borgarstjóri.
Meirihlutinn er jú meirihluti.
 
Auðvitað óskar fulltrúi Flokks fólksins Einari velfarnaðar í þessu embætti sem er stórt og ábyrgðarmikið. Flokkur fólksins óskar þess einnig að honum beri gæfa til að taka skynsamar ákvarðanir, ákvarðanir sem gagnast fólkinu og verði til að betrumbæta velferðina, skólamálin og almenna þjónustu við fólkið. Flokkur fólksins vill vera bjartsýnn en ef horft er á þann tíma sem liðinn er frá kosningum er ekki gott að segja hvernig þróun mála verður. Fram til þessa hefur Einar tekið stefnu Dags og hugmyndir um hvernig á að stjórna borginni og gert þær að sínum eftir því sem best er séð. En svo veit maður auðvitað aldrei.
 
En það þarf að bretta upp ermar svo mikið er víst. Ekki gengur að halda áfram að skerða þjónustu. Fátækt og ójöfnuður hefur aukist á vakt þessa og síðasta meirihluta. Það sýna nýlegar niðurstöður Þjóðarpúls Gallup en 14% landsmanna áttu að eigin sögn ekki fyrir jólahaldinu og eru það 5% fleiri en árið áður. Þetta er slæm þróun. Kjörorð Flokks fólksins er fæði, klæði og húsnæði og þessi þrjú orð er rauður þráður í gegnum allt starf Flokks fólksins. Með þetta að leiðarljósi höldum við áfram okkar baráttu í borgarstjórn það sem eftir er af þessu kjörtímabilinu.

Borgarskjalasafn og svo Borgarbókasafnið, hvað næst?

Nú á að skerða opnunartíma bókasafna. Hvað kemur næst? Skólabókasöfn? Það er sífellt verið að tilkynna um skerðingar á þjónustu við fólk í Reykjavík. Það eru leikskólarnir, sundlaugarnar og núna bókasöfnin. Það er flestum í fersku minni tillaga þjónustu- og nýsköpunarsviðs með KPMG skýrsluna í vasanum að leggja niður Borgarskjalasafn.

Ég hef lýst áhyggjum mínum af skólabókasöfnum að þeim muni einn góðan veðurdag vera steypt saman á einhverjum einum stað í borginni eða tveimur. Það er einhver herferð í gangi gagnvart bókasöfnum. Sviðum er gert að hagræða en það hlýtur að vera hægt að hagræða með öðrum hætti en að skerða beina þjónustu við fólkið. Annað eins er nú bruðlað í borginni. Nú nýlega var sem dæmi ákveðið að veita heimild fyrir áframhaldandi undirbúningi, verkhönnun og gerð útboðsgagna vegna endurhönnunar á Austurstræti. Ef horft er til annarra sviða þá má skoða hagræðingu í ráðningum og skipuleggja verkefni betur þannig að skilvirkni verði meiri frekar en að skerða þjónustu.


Verum amman, afinn, frændinn, frænkan, vinurinn og nágranninn

Með hækkandi aldri leitar hugurinn gjarnan á þessum tíma til jólanna í „gamla daga“ eins og barnabörnin myndu orða það. Þá var öldin sannarlega önnur. Þá eins og nú, ríkti ójöfnuður í samfélaginu, sumir höfðu gnótt, aðrir minna og enn aðrir ekki neitt. Ég og fjölskylda mín, (mamma einstæð móðir með 4 börn) voru ein þeirra fjölskyldna sem hafði ekki mikið á milli handanna. En það var hún amma Sigga (Ólafía Sigríður Þorsteinsdóttir) á Ásvallagötu 1 sem færði okkur ýmislegt nýtt og spennandi sem fátæk fjölskylda hafði  ekki efni á. Amma gaf rausnarlegan pakka og sem barn rölti ég oft til hennar frá Víðmelnum þegar maginn var tómur. Hjá henni smakkaði ég í fyrsta sinn á ævinni kjúkling, sennilega um 10 ára aldur.

En mikið hlakkaði manni nú til jólanna

Þegar hugsað er til jólanna á bernskuárunum þá man ég svo vel hvað tilhlökkunin var mikil. Manni hlakkaði til að fá hátíðarmat og annað, eins og epli og konfekt sem ekki sást almennt á borðum yfir árið. Algengur matur á þá daga var þverskorin ísa og hamsatólg og kjötfarsbollur og kál. Ekki amalegt auðvitað.

Mesta tilhlökkun barns var sannarlega að fá pakka. Gjafir voru oft eitthvað hentugt. Ein minning  um jólagjöf stendur upp úr hjá mér og það voru jólin þegar ég var 9 ára og fékk töflur (inniskó). Ég hafði sagt mömmu að mig langaði í töflur því stelpurnar í bekknum voru í svoleiðis. Ég upplifi enn stundum mínútuna þegar ég opnaði þennan pakka og vissi að í honum voru töflur. Hjartað var að springa og spenningurinn eftir því. Vá hvað ég yrði smart í nýju töflunum þegar ég kæmi í skólann eftir áramótin.

Með aldrinum hefur upplifunin og tilfinning eins og tilhlökkun tekið á sig aðrar myndir. Mesta breytingin er kannski sú að margt það sem einkenndi jólin áður fyrr getur fólk nú fengið allt árið um kring. Það er ekki lengur einhver sérstakur „sparimatur“, matur sem tilheyrir aðeins stórhátíðum. Það er þó sannarlega tilhlökkunarefni að upplifa jólaljósaflóðið og hvíld frá daglegu amstri er kærkomin.

Börnin og jólin

Það er alveg sama á hvaða aldri maður er, það er alltaf jafn gaman að fylgjast með börnunum og upplifa jólin í gegnum þau. Það yljar að sjá spenning og tilhlökkun þeirra. Þess vegna er það líka svo vont að vita að ekki öll börn geta haldið gleðileg jól eða verið áhyggjulaus yfir þessa miklu „hátíð barnanna“.  Í Reykjavík er dágóður hópur barna og foreldra þeirra sem búa við erfiðar aðstæður t.d. v. fátæktar eða veikinda. Börn foreldra sem glíma við langvinn veikindi, líkamleg eða geðræn eiga oft erfiða daga. Veikindi af hvers lags toga spyrja einfaldlega hvorki um félagslega stöðu eða efnahagslega afkomu og sannarlega ekki hvaða tími ársins er. Gæðum er misskipt. Ef maður hefur ekki öruggt húsaskjól eða mat á diskinn þá er erfitt að hlakka til nokkurs. Ég trúi því að allir hafi tækifæri og geti fundið tilefni til að vera þessi „amma eða afi, frændi eða frænka, vinur eða nágranni“  sem getur látið gott að sér leiða til barna sem búa við skort eða vanlíðan hvort heldur þau eru nær eða fjær. Fyrir  fjölskyldur sem búa við góðar aðstæður bíður skemmtilegur tími.  Börn sem geta notið jólanna til fulls safna um hver jól nýrri dásamlegu minningu sem jafnvel lifir með þeim um aldur og ævi.

Gleðileg jól.

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, sálfræðingur og oddviti Flokks fólksins í Reykjavík

 


Er ég eldri og einmana

Ein af 19 tillögum Flokks fólksins lagðar fram við seinni umræðu Fjárhagsáætlunar á fundi borgarstjórnar 5. desember er að stofnað verði stöðugildi fagaðila til að bjóða eldra fólki sálfélagslega þjónustu. Margir sem komnir eru á þennan aldur eru einmana. Sumir hafa misst maka sína og aðrir eiga jafnvel ekki fjölskyldu. Því fjármagni sem varið er í stöðugildi sem þetta mun margborgar sig fjárhagslega og jafnvel leiða til þess að draga mun úr notkun lyfja hjá þessum hópi.  Fjármagnið skal sækja á svið sem geta hagrætt hjá sér, skipulagt sig betur og dregið úr yfirbyggingu.

 

Velferðartækni kemur ekki í staðinn fyrir nærveru og snertingu

Enda þótt velferðartækni hafi rutt sér til rúms getur ekki allt eldra fólk tileinkað sér þá tækni eins og gefur að skilja. Því má segja að þessi hópur sé sennilega sá sem er minnst tæknivæddur ef borið er saman við aðra hópa. Þetta er einnig sá hópur sem ekki hefur hæstu röddina og er gjarnan hógvær og lítillátur. Fjölmargir leita sér einfaldlega ekki stuðnings. Finna þarf þá sem þarfnast félagsskapar og vilja persónulegt samtal og koma til þeirra með tilboð um hvort tveggja eftir atvikum.

 

Það hafa verið gerðar ýmsar kannanir á einmanaleika eldra fólks. Meðal niðurstaðna er að Ísland sé að koma vel út í alþjóðlegum samanburði þegar um 5% telja sig einmana. Það er skoðun okkar í Flokki fólksins að gera má ráð fyrir að þeir séu margfalt fleiri. Kannanir ná ekki til allra. Þeir sem eru einmana eru þeir sem ekki eiga fjölskyldu, þeir sem búa einir og þeir sem eru á hjúkrunarheimili. Það er ekki síður vöntun á félagsskap fyrir þá sem komnir eru á hjúkrunarheimili. Starfsfólk er undir álagi og oft er undirmannað. Aðstæður eru víða þannig að meirihluti starfsfólks skilur ekki mikla íslensku og tala hana jafnvel takmarkað

Það er áfall fyrir marga að vera komnir á hjúkrunarheimili og verður enn erfiðara ef einmanaleiki sest að. Það er átakanlegt að vita að inni á hjúkrunarheimilum eru allt of margir sem eru einmana. Flokkur fólksins lagði til í febrúar 2023 í annað sinn að stofnað verði sálfélagslegt meðferðarúrræði fyrir eldri borgara sem búa á hjúkrunarheimilum eða í heimahúsi. Tillagan var felld. Nú er gerð enn ein tilraunin.  Ekkert jafnast á við samtal, nálægð og snertingu. Það er ekki nóg að auka eingöngu velferðartækni heldur þarf einnig að standa vörð um samveru og nálægt. Maður er jú manns gaman.

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, sálfræðingur og oddviti Flokks fólksins í borgarstjórn Reykjavíkur.

 


Baráttan endalausa fyrir að frístundastyrkurinn fái að halda sínum upphaflega tilgangi

Málið endalausa í borginni er baráttan um að  frístundakortið eða frístundastyrkurinn fái sinn upphaflega tilgang aftur. Ég hef barist og lamist í þessu máli frá því ég steig í borgarstjórn.
 
Ég get ekki lýst nógu vel langri baráttu Flokks fólksins í borginni að frístundarstyrkurinn fái bara að hafa þann tilgang og markmið sem honum var ætlað upphaflega. Tillagan og greinargerðin skýra þetta vel en hún var lögð fram í borgarráði í gær:
 
Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarráð samþykki að fela menningar-, íþrótta- og tómstundaráði að breyta gildandi reglum um frístundakort frá 8. júní sl. á þann hátt að ekki verði hægt að nota frístundakortið til að greiða fyrir frístundaheimili eða tungumálanám. Til að hjálpa efnaminni foreldrum að greiða þá nauðsynlegu þjónustu fyrir börn sín eru aðrar leiðir í boði og hægt að sækja um sérstaka styrki í því sambandi. Barn á ekki að þurfa að líða fyrir fátækt foreldra sína. Það á bæði að geta verið á frístundaheimili, sótt tungumálaskóla ef því er að skipta og á sama tíma nýtt frístundastyrk sinn til að stunda íþróttir eða tómstundir.
 
Einnig er lagt til að heimilt verði að færa eftirstöðvar styrksins á milli ára og flytja styrkinn milli systkina. Jafnframt verði því beint til ráðsins að hefja vinnu við að nútímavæða reglurnar m.a. með tilliti til þess að barn getur átt lögheimili hjá báðum forsjárforeldrum.
 
Greinargerð:
 
Upphaflegur tilgangur Frístundakortsins/styrksins er að öll börn og unglingar í Reykjavík á aldrinum 6–18 ára geti tekið þátt í frístundastarfi óháð efnahag og félagslegum aðstæðum. Enn þá er hins vegar sá galli á gjöf Njarðar að reglur heimila að nota megi kortið eins og gjaldmiðil til að greiða frístundaheimili og tungumálaskóla fyrir barnið. Sé það nýtt í þeim tilgangi er ekki hægt að nota það líka til að greiða íþróttir eða tómstundir fyrir barnið.
Til að hjálpa efnaminni foreldrum að greiða þá nauðsynlegu þjónustu fyrir börn sín eins og frístundaheimili eru aðrar leiðir í boði. Hægt að sækja um sérstaka styrki í því sambandi. Foreldrar t.d. þeir sem eru efnaminni eru hins vegar ekki alltaf með vitneskju um það og telja sig því þurfa að grípa til frístundastyrks barnsins.
Þetta er fulltrúi Flokks fólksins ekki sáttur við. Barn á að geta verið á frístundaheimili, sótt tungumálaskóla ef því er að skipta og á sama tíma nýtt frístundastyrk sinn til að stunda íþróttir eða tómstundir. Fulltrúi Flokks fólksins hefur orðað þessa hluti ótal sinnum sl. 5 ár í borgarstjórn en ekki náð að opna augu borgarmeirihlutans. Áfram er því haldið að berjast í þeirri von að meirihlutinn og Menningar- íþrótta og tómstundaráðs sem nú hefur forræði yfir frístundakorti/frístundastyrknum sjái ljósið.
Einnig er lagt til að hægt verði að færa eftirstöðvar styrksins milli ára og að heimilt verði að flytja styrkinn milli systkina. Nútímavæða þarf reglur frístundastyrksins. Í því sambandi þarf að hafa í huga að barn getur átt lögheimili hjá báðum sínum forsjárforeldrum.

Háð og spott úr sal borgarstjórnar

Það var í desember 2021 sem borgarfulltrúi Flokks fólksins lagði fram tillögu í borgarstjórn um skipulagða byggð fyrir eldra fólk sem koma mætti fyrir víðs vegar í Reykjavík. Segja má að sjaldan hafi meirihlutinn gert eins mikið grín að nokkurri tillögu frá minnihlutanum, „að nú vildi Flokkur fólksins fara að búa til gettó fyrir eldra fólk“. Fleira í þessum dúr var varpað fram í sal borgarstjórnar frá meirihlutafulltrúum. En það var aldeilis ekki hugsun borgarfulltrúa Flokks fólksins. Eftir samráð og samtal við fjölmarga eldri borgara og hagsmunasamtök var tillaga Flokks fólksins á þann veg að íbúðasvæði í borginni verði skipulögð þar sem sérstök áhersla er lögð á þjónustu við eldra fólk og að íbúasvæðið væri hannað með tilliti til þeirra þarfa.

Meirihlutinn felldi tillöguna en aðrir minnihlutaflokkar utan Flokks fólksins sátu hjá. Rök meirihlutans voru þau að þetta væri ekki það sem þessi hópur þarf né vill. Nú hefur annað komið á daginn. Og skjótt skipast veður í lofti því meirihlutinn leggur nú sjálfur til sambærilega tillögu sem kallast Lífsgæðakjarnar.

Hér má sjá alla greinina en hún er einnig birt í Morgunblaðinu í dag.
https://kolbrunbaldurs.is/skjott-skipast-vedur-i-lofti-i-husnaedismalum-eldri-folks/


Fyrirspurn um aðkeypta ráðgjafa-, greininga og verkfræðiþjónustu

Reykjavíkurborg kaupir óhemju mikla þjónustu af ráðgjafa-, greininga- og verkfræðifyrirtækjum.

Einnig er heilmikil aðkeypt þjónusta frá fyrirtækjum sem bjóða þjónustu á sviði stefnumótunar og fjármögnunar.

Til að átta mig á hversu umfangsmikil þessi kaup eru lagði ég fram fyrirspurn í borgarráði í vikunni 

Óskað er eftir upplýsingum um aðkeypta ráðgjöf Reykjavíkurborgar á tímabilinu 2019-2023. Upplýsingarnar óskast sundurliðaðar eftir sviðum/skrifstofum þar sem fram kemur hvaða ráðgjöf er keypt, af hverjum og fjárhæð kaupanna.

Vísað til umsagnar fjármála- og áhættustýringarsviðs.


Ferðavenjukönnun, svipaðar niðurstöður og í fyrra og árið þar áður

Kynntar voru niðurstöður Ferðavenjukönnunar í vikunni. Niðurstöður eru svipaðar og á síðasta ári og árinu þar áður. 

Hér er bókun Flokks fólksins frá umhverfis- og skipulagsráði í gær og fyrirspurnir sem ég lagði fyrir í borgarráði í morgun

Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Samkvæmt ferðakönnun haustið 2022 kemur fram að einkabíllinn er yfirgnæfandi mest notaði samgöngumátinn. Það á eftir að vinna mikla vinnu til að aðrir samgöngumátar geti tekið við af einkabílnum. Sem betur fer má ætla að rafbílum sé að fjölga gríðarlega. Til stendur að hækka álagningu á rafbíla en ekkert liggur fyrir um ívilnanir. Engu að síður eru orkuskiptin í fullum gangi og vonandi verður ekki bakslag í þeim efnum. Fjölgun bíla kemur ekki á óvart í ljósi þess að ekki er um aðra alvöru valkosti að ræða. Hjólandi vegfarendum hefur vissulega fjölgað en eru engu að síður aðeins 5%. Ekki allir treysta sér til að hjóla um hávetur í vondu veðri. Ferðum almennt séð hefur fækkað sem rekja má e.t.v. til þess að í Covid kenndi fólki á fjarfundakerfi í stórum stíl og hefur fólk nýtt það síðan. Strætó bs. hefur dregið saman þjónustu sína vegna fjárhagserfiðleika og aðeins 5% notar strætó sem eru einu almenningssamgöngur borgarinnar. Borgarlína verður ekki raunveruleiki í Reykjavík á komandi árum eftir því sem heyrst hefur í máli forsætisráðherra. Það hlýtur þess vegna að þurfa að gera eitthvað róttækt til að hressa upp á einu almenningssamgöngurnar sem til eru hér.

 

Fyrirspurnir fyrir borgarráð 21.9.

Nýlega voru kynntar niðurstöður Ferðavenjukönnunar. Þar kemur fram að hlutfall þeirra sem nota strætó stendur í stað,  eingöngu 5% íbúa nota strætó.

Í könnuninni var spurt um ástæður og eru þær reifaðar í spurningu 25 í könnuninni sem sjá má á vef Reykjavíkurborgar undir fundi umhverfis- og skipulagsráði frá 20.9. 2023.

Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvort framkvæmdastjóri og stjórn Strætó ásamt eigendum byggðarsamlagsins hyggist taka þessar niðurstöður alvarlega og gera þær breytingar sem kallað er eftir til að freista þess að fjölga í hópi viðskiptavina Strætó? Helstu ástæður sem nefndar eru sem ástæða fyrir að fólk vill ekki nota strætó og velur frekar annan ferðamáta eru m.a.:

Of lítil tíðni; Hátt fargjald; Löng leið að stoppistöð: Löng bið eftir strætó; Vandamál með  Klappið; Langur ferðatími; Neikvætt viðmót

Mun fleira er nefnt


Kallað eftir heiðarlegum svörum í bókun um sorphirðumál í Reykjavík

Bókun lögð fram í borgarráði 17.8.

Sorphirðumálin í Reykjavík í sumar hafa vægast sagt gengið illa og kann þar margt að koma til. Fjöldi manns hafa kvartað sáran enda aðstæður sums staðar skelfilegar þegar kemur að sorphirðu. Í viðtali við ábyrgðarmenn var sagt að allt verkefnið gengið glimrandi vel og væri það á undan áætlun. Þetta hljómaði ekki vel í eyrum borgarbúa sem varla eru sama sinnis. Tunnur t.d. pappír og plast hafa ekki verið tæmdar vikum saman í sumum hverfum. Svo virðist sem allar áætlanir um tæmingu hafi farið út og og suður og margir spyrja hver sé eiginlega áætlaður tími fyrir losun á sorptunnum borgarinnar? Fulltrúi Flokks fólksins á afar erfitt með að skilja af hverju það var ekki fyrirséð að það þyrfti fleiri hirðubíla. Ýmsar vangaveltur eru í gangi með ástæður alls þessa og telur fulltrúi Flokks fólksins að rekja megi vandann jafnvel til yfirvinnubanns hjá Reykjavíkurborg. Fulltrúi Flokks fólksins kallar eftir heiðarleika í þessu máli og þegar spurt er út í skýringar á töfum að sagður sé sannleikurinn.


Símalausar skólastofur

Umræðan um snjallsímanotkun í grunnskólum og hvort eigi að banna þá í skólunum er nú aftur komin á kreik. Ég hef sem borgarfulltrúi og sálfræðingur tjáð mig um þessi mál og skrifaði t.d. greinina Símalaus skóli 2019 um afstöðu okkar í Flokki fólksins í borginni gagnvart því hvort banna ætti nemendum að koma með farsíma sína í skólann. 

Um 10 ára skeið var ég skólasálfræðingur og hefur mitt viðhorf til þessa máls kannski mótast mikið til í gegnum það starf en ekki síður í starfi mínu sem sálfræðingur. Á meðan börnin eru í skólanum tel ég að þau ættu að fá tækifæri til að sinna náminu með óskerta athygli. Með símann í vasanum, í kjöltunni, í töskunni eða jafnvel undir stílabókinni á borðinu getur verið erfitt að einbeita sér að samfélagsfræði, íslensku eða stærðfræði. Þegar síminn lýsist upp eða gefur frá sér veikt píp þá bara verður maður að athuga hvaða skilaboð eru komin á skjáinn.

Að hafa símann við höndina er staða sem eru krökkunum því ekki síður erfið. Síminn skerðir athygli. Við þekkjum þetta allflest. Því er eðlileg spurning hvort ekki eigi að hvíla símann á meðan börnin eru í skólanum. Skoða má ýmsa útfærslu í þeim efnum.

Farsælast væri ef þetta væri ákvörðun sveitarstjórna þannig að það sama gildi í öllum skólum sveitarfélagsins. Annað sem þarf að ræða og fræða um er sálfræðileg áhrif óhóflegrar notkunar samfélagsmiðla á börn og unglinga og tengsl skjánotkunar við kvíða. Svo má deila um hvað sé óhófleg notkun? Einnig verðum við að horfa í eigin barm og skoða hvernig fyrirmyndir við sjálf erum.

 tala í síma 2

 


Hver verður biðlistastaða borgarinnar í haust þegar kemur að þjónustu við börn

Á fundi borgarráðs 27. júlí lagði Flokkur fólksins inn 5 fyrirspurnir:

Fyrirspurn um fjölgun úrræða sambærileg Klettaskóla?

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um hvort skóla- og frístundasvið sé að vinna í að útvega fleiri úrræði sem eru sambærileg þeim sem Klettaskóli býður?
Brúarskóli og Klettaskóli eru sprungnir og er biðlisti í báða. Hópur barna sem vegna sérstöðu sinnar myndu njóta verulega góðs af að sækja nám í þessum skólum eru látin stunda nám í almennum bekkjardeildum þar sem þau upplifa oft vanmátt og vanlíðan enda eru þau ekki að stunda nám með jafningjum. Fulltrúi Flokks fólksins óskar því eftir upplýsingum um hver staðan sé á næsta skólaári. Heimaskólar hafa ekki mörg úrræði á sinni könnu til að mæta þörfum barna með sérþarfir og hafa því takmarkaða burði til að þjónusta þau. Hér er átt við tækifæri til að stunda nám í smærri, fámennari hópum þar sem börnin fá þjónustu við hæfi. Foreldrar barna með frávik eða fötlun af einhverju tagi sem ekki njóta sín í almennum bekk hafa ítrekað sagt að „skóli án aðgreiningar standi ekki undir nafni. Mæta á þörfum allra barna í skólakerfinu en ekki aðeins sumra.

Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.



Fyrirspurn um fjölda biðlistaplássa í leikskólum borgarinnar

Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hver staðan sé á biðlista eftir leikskólaplássi i Reykjavík?
Eins og löngum er þekkt er sár skortur á leikskólaplássum en í vor biðu 911 börn á biðlista samkvæmt talningu, á sama tíma á síðasta ári biðu 800 börn. Núna er meðalaldur barna á biðlista 23 mánuðir, eftir plássi í borgarreknu skólana en var lengi 20 mánuðir.

Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.

 


Fyrirspurn um heimgreiðslur

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um hvort fyrirhugað sé að bjóða upp á heimgreiðslur eða styrki til foreldra sem nýtt geta sér slíkt úrræði?Flokkur fólksins hefur ítrekað lagt til að í boði verði heimgreiðslur til foreldra fyrir þá sem það geta og vilja nýta sér. Úrræðið yrði sem liður í að létta á og stytta biðlista. Nokkur sveitarfélög hafa tekið upp þennan valkost og hefur hann fallið vel í kramið hjá foreldrum. 

 


Fyrirspurn um fjölda dagforeldra

Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um fjölda dagforeldra sem hefja munu störf eftir sumarfrí og hver er aukning/fækkun frá í fyrra?
Fulltrúi Flokks fólksins nefndi fyrir um þremur árum að meirihluti borgarstjórnar væri að ganga að dagforeldrakerfinu dauðu. Þá hélt meirihlutinn að dagar dagforeldra væru liðnir og að Brúum bilið væri handan við hornið. Sú varð ekki raunin. Dagforeldrum hefur fækkað úr 204 niður í 86 á tæpum áratug. Árið 2014 voru 700 börn hjá dagforeldrum en þau voru 371 í fyrra. Hvernig verður staðan haustið 2023? 

Vísað til meðferðar skóla- og frístundaráðs.



Fyrirspurn um hvort fjölga eigi sálfræðingum skóla?

Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsinga um hvort eigi að fjölga stöðugildum sálfræðinga og talmeinafræðinga á komandi hausti og hvað áætlanir liggja fyrir um hvernig taka skuli á þessum sí stækkandi biðlista?
Nú bíða 2515 börn eftir fagfólki skólaþjónustu, langflest eftir sálfræðingi.  Ef fram heldur sem horfir munu sífellt fleiri foreldrar grípa til þess ráðs að tilkynna sig og barn sitt til Barnaverndar. Með því að tilkynna mál til Barnaverndar geta tilkynnendur verið öruggir um að mál þeirra fái skoðun. Samkvæmt lögum ber Barnavernd að skoða málið innan ákveðins tímafrests og athuga hvort ástæða sé til þess að það fari í svokallaða könnun. Þetta er vissulega fýsilegri kostur en að bíða endalaust eftir að barnið komist til fagfólks skólaþjónustu. 

Vísað til meðferðar velferðarráðs.


Ung börn eiga ekki erindi upp að eldstöðvunum

Ég bókaði þetta undir liðnum umræða um "Eldgos á Reykjanesskaga" í borgarráði í morgun.

"Í borgarráði var umræða um eldgosið á Reykjanesskaga sem er það þriðja á jafnmörgum árum á svæðinu. Fulltrúi Flokks fólksins hefur áhyggjur af ýmsu í sambandi við þetta gos en mest þó af því að einstaka foreldrar eru að fara með ung börn sín að gosinu, jafnvel ungabörn. Ferðin er tyrfin og oft er mengun mikil, og jafnvel við hættumörk sem gæti skaðað öndunarfæri barna sem enn eru að þroskast. Vissulega er það þannig að borgarráð hefur ekkert um þessi mál að segja heldur er þetta í höndum lögreglustjóra Suðurnesja. Fulltrúi Flokks fólksins vill engu að síður tjá sig um þessar áhyggjur í bókun. Einnig er það afar leiðinlegt að lesa um neikvæða framkomu sumra gagnvart sjálfboðaliðum og öðrum sem standa vaktina á svæðinu þótt langflestir séu til fyrirmyndar og sýni skilning, alúð og kurteisi. Flokkur fólksins vill nota tækifærið og þakka öllum þeim sjálfboðaliðum sem bjóða fram krafta sína við þessar aðstæður"

eldgos


Vil bíða með endurgerð Grófarhúss og Lækjartorgs

Á fundi borgarráðs lagði ég fram þessa bókun:

Fulltrúi Flokks fólksins hefur lagt það til að bíða með allar kostnaðarsamar aðgerðir og framkvæmdir sem tengjast Grófarhúsi enda er það verkefni ekki er brýnt og ætti ekki að vera í neinni forgangsröðun. Hér er lag að spara og hagræða og veita fjármagni frekar til að þjónusta börnin sem bíða eftir aðstoð og hjálp til viðkvæmra hópa. Á biðlista eftir fagfólki skóla eru nú 2.511 börn og hefur þeim fjölgað um tugi síðastliðnar vikur. Síðar meir þegar betur árar hjá Reykjavíkurborg má skoða þetta verkefni. Miður er að Borgarskjalasafni verði hent út úr þessu húsi í stað þess að leyfa því að vera og leyfa því að lifa. 


Úrbætur á starfsaðstöðu nemenda og kennara í Laugarnesskóla

Flokkur fólksins er með 3 mál á dagskrá fundar borgarstjórnar þriðjudaginn 16. maí. Eitt þeirra er: 

Úrbætur á starfsaðstöðu nemenda og kennara í Laugarnesskóla.

Hér er greinargerð með umræðunni:

Nýlega barst ályktun frá fulltrúum starfsfólks Laugarnesskóla en þar segir að í of mörg ár hafa nemendur og starfsfólk Laugarnesskóla unnið í heilsuspillandi starfsumhverfi vegna myglu, rakaskemmda og leka. Einnig hafa þau ítrekað þurft að skipta um stofur meðan plástrað er yfir myglu og rakaskemmdir. Starfsfólk hefur hrökklast úr starfi vegna veikinda tengdum myglu.  Frá því í haust hefur ekki verið hægt að kenna í hluta heimilisfræði stofunnar vegna viðhaldsframkvæmda. Þessum framkvæmdum er enn ekki lokið og hafa iðnaðarmenn ekki sést í marga mánuði.   

Í of mörg ár hafa nemendur og starfsfólk Laugarnesskóla unnið í heilsuspillandi starfsumhverfi vegna myglu, rakaskemmda og leka. Frá því í haust hefur ekki verið hægt að kenna í hluta heimilisfræðistofunnar vegna viðhaldsframkvæmda. Þessum framkvæmdum er enn ekki lokið og hafa iðnaðarmenn ekki sést í marga mánuði. Skólayfirvöld hafa ítrekað óskað eftir úrbótum við Reykjavíkurborg sem er vel kunnugt um stöðuna.

Laugarnesskóli er löngu sprunginn og nemendum hefur fjölgað hratt undanfarin ár. Spár Reykjavíkurborgar um nemendafjölda og áform um uppbyggingu í hverfinu benda einnig til þess. Skortur á kennslustofum og plássleysi í öðrum rýmum, s.s. sérgreinastofum, íþróttaaðstöðu, mötuneyti, eldhúsi og vinnuaðstöðu er því ekki tímabundið vandamál.

Það er með ólíkindum að það taki svona langan tíma að hefja viðgerðir og undirbúa viðbyggingu. Þegar spurt er um hvað veldur töfum er sífellt klifað á að verið sé að undirbúa, ,,að stilla upp” eins og það er gjarnan orðað hjá borgaryfirvöldum þegar skólasamfélagið ýtir við málinu. Sagt er að “framkvæmdaaðilar séu að stilla upp”. Enginn veit svo sem hvað er átt við með því eða hvort það merki að hefja eigi brátt alvöru framkvæmdir.

Hér er ekki um einsdæmi að ræða. Hávær hróp hafa borist lengi frá skólasamfélaginu vegna myglu og raka vanda í fjölmörgum skólum borgarinnar. Frá árinu 2018 hefur greinst mygla í yfir 30 skólahúsum sem tilheyra borgarreknum leik- og grunnskólum samkvæmt samantekt fréttastofu RÚV frá því í haust. Þá voru yfir 1.200 grunn- og leikskólabörn í húsnæði utan skólalóðar heimaskóla vegna mygluvandamála, 860 grunnskólabörn og 350 leikskólabörn. Síðan þá hafa líklega bæst við hátt í hundrað börn. Mörg þúsund börn verða fyrir raski á skólastarfi vegna myglu og raka. Skaðsemi og önnur áhrif af þessu eru með öllu óljós.

Hin málin eru:

Umræða um húsaleigumarkaðinn Í Reykjavík (að beiðni fulltrúa Flokks fólksins)

Umræða um Kveikjum neistann í Reykjavík (að beiðni fulltrúa Flokks fólksins)

Sjá má greinargerð með hinum málunum hér:

https://kolbrunbaldurs.is/dagskra-borgarstjornar-akvedin-a-fundi-forsaetisnefnd-12-mai-2023/

 

 


Kveikjum neistann í Reykjavík

Kveikjum neistann er rannsóknar og þróunarverkefni sem Grunnskóli Vestmannaeyja tekur þátt í og hefur verið í gangi með nemendum í bráðum tvö ár. Þau Hermundur Sigmundsson prófessor við NTNU og HÍ og Svara Þ. Hjaltalín, sérkennari og læsisfræðingur eiga veg og vanda af verkefninu sem er í umsjá Rannsóknarseturs um menntun og hugarfar við HÍ.

Markmið Kveikjum neistans er metnaðarfullt. Eitt af þeim er að 80-90% barna teljist læs við lok 2. bekkjar og er árangur mældur út frá einföldu stöðumati sem nefnist LÆS. Kennt er eftir hljóðaaðferðinni, eftirfylgni er góð og einstakir þjálfunartímar þar sem öll börnin fá réttar áskoranir. Stundatöflu hefur verið breytt, dagurinn einfaldaður, hreyfing aukin og settir inn ástríðutímar sem vekja gríðarlega lukku.

Sem borgarfulltrúi, sálfræðingur og kennari hef ég lagt það til í borgarstjórn að skóla- og frístundasvið skoði að innleiða þetta verkefni í Reykvíska grunnskóla. Verkefnið er þróunar- og rannsóknarverkefni með heildstæða nálgun í skólastarfið. Áherslur verkefnisins snúa að læsi, stærðfræði, náttúrufræði, hreyfingu og hugarfari nemenda. Höfuðáherslan er á að allir nemendur nái að brjóta lestrarkóðann, þ.e. geti tengt saman hljóð og lesið orð og þar með leggja grunninn að fjölbreyttu og öflugu námi í lestri, lesskilningi og skapandi skrifum. Mældur hefur verið árangur frá upphafi og sýna niðurstöður að væntanlega ná 94 af 96 nemendum að brjóta lestrakóðann eða 98% nemenda í þessum tveimur fyrstu árgöngum verkefnisins (1. og 2. bekkur). Árangur lofar góðu.

Staða margra nemenda í lestri og lesskilningi í Reykjavík er ekki nógu góð. Þetta hafa PISA kannanir sýnt okkur undanfarin ár en 16% barna ná ekki stigi tvö í PISA í lesskilningi, sem sagt lesa sér ekki til gagns. Úr þessu má ekki gera lítið eða hunsa.

Ef horft er til barna sem eru af erlendu bergi brotin þá er staðan sú að 92.5% barna og unglinga eru á rauðu og gulu ljósi hvað varðar íslenskukunnáttu þeirra. Þessum börnum þarf að hjálpa strax að læra málið, í þeim er gríðarlegur mannauður. Einnig þarf að huga sérstaklega að þeim börnum sem ekki geta nýtt sér hefðbundnar kennsluaðferðir. Þau börn þurfa oft að fá aðstoð hjá sérkennara og þau þurfa lengri tíma og meira næði en gengur og gerist í almennum bekk. Gera má ráð fyrir að það séu um það bil 2-4% barna sem glíma við lesvanda af lífeðlisfræðilegum orsökum sem t.d. tengjast sjónskyni. Sum rugla bókstöfum og þurfa sem dæmi að fá stærra letur og til eru vísindi sem gefa okkur leiðir.

 

Góð áhrif á líðan barnanna

Þegar líðan er skoðuð hjá börnunum greinist marktækur munur milli þeirra barna sem tóku þátt í Kveikjum neistann í 1. bekk 2021 til 2021 og þeim sem voru í 1. bekk árinu áður en verkefnið fór af stað. Þetta segir okkur hvað lestrarfærni er mikið áhrifabreyta á líðan og sjálfstraust barnsins. Að upplifa árangur og færni sína aukist er beintengt betri líðan og að líða vel í eigin skinni. Það góða við Kveikjum neistann er að aðferðarfræðin eflir áhugahvöt, hún er mild og uppbyggileg.

Ég sé Kveikjum neistann vera gott verkefni sem er líklegt að skili árangri. Þess vegna vil ég kveikja þennan neista í Reykjavík. Miðja máls og læsis er að gera góða hluti en árangur þar er ekki eins og góður og í Vestmannaeyjum. Hægt er að gera betur?

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, sálfræðingur og oddviti Flokks fólksins í Reykjavík
Greinin er birt á visi.is 26. apríl 2023


Samtal við barnið lykilatriði

Þjónusta við börn hefur vissulega verið í þróun í Reykjavík síðustu misseri og einhverjar nýjungar í þeim efnum litið dagsins ljós. Biðlisti barna eftir sálfræðiþjónustu skólasálfræðinga hefur þó aldrei verið eins langur og nú. Á þriðja þúsund börn bíða ýmist eftir fyrstu eða frekari þjónustu, þá helst sálfræðinga og talmeinafræðinga. Þessi sami listi taldi 400 börn árið 2018.

En það eru aðrar áhyggjur sem mig langar að reifa hér. Með tilkomu verkefnisins Betri borg fyrir börn stóð til að færa fagfólk skólanna meira í nærumhverfi barnanna þ.e. í skólana. Það hefur ekki orðið raunin. Sálfræðingar skólanna eru með starfsstöð á miðstöðvum en með ákveðna viðveru í skólunum. Það sem þó hefur færst meira út í skólana er stuðningur við kennara og starfsfólk með tilkomu svokallaðra lausnateyma. Því ber sannarlega að fagna.

Ekki nóg

Það er mín skoðun sem sérfræðingur í klínískri sálfræði að brýnt er að barnið sjálft fái tækifæri til að ræða við fagaðila eins og aldur og þroski þess leyfir, með eða án foreldra eftir atvikum. Í samtali barns og sálfræðings hlustar sálfræðingurinn ekki einvörðungu á orð barnsins heldur er með einbeitingu á fjölmörgum öðrum atriðum í fari og háttum barnsins. Fagaðili horfir á líkamsmál og hlustar eftir raddblæ og augna- og svipbrigðum til að lesa og meta líðan, kvíða og áhyggjustig barnsins. Eitthvað sem barn segir getur vakið sálfræðinginn til meðvitundar um að það þurfi að skoða málið nánar. Það getur leitt til þess að barn opni sig enn frekar um hluti sem ella hefðu ekki komið upp á yfirborðið. Það getur skipt sköpum að sjónarhorn og vinkill barnsins af eigin máli komi fram milliliðalaust ef ske kynni að upplifun þess er önnur en foreldranna eða kennara. Mál barns er líklegra til að fá úrlausn sé því gefið tækifæri til að tjá sig sjálft frá innstu hjartarótum við fagaðila frekar en að einungis sé rætt við aðstandendur eða kennara. Mikilvægt er að gera hvort tveggja. Ég óttast að bilið milli nemenda og sálfræðinga sé að breikka enn frekar í skólaþjónustu Reykjavíkurborgar. Eins nauðsynlegt og það er að veita skólum og foreldrum ríkan og tryggan stuðning í málefnum barna má aldrei gleyma börnunum sjálfum.

 

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, sálfræðingur og oddviti Flokks fólksins í Reykjavík

 Pistill birtur í Fréttablaðinu 30. mars 2023


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband