Hættuleg spenna á húsnæðismarkaði í Reykjavík

Það sem helst einkennir núverandi meirihluta í borgarstjórn er fjarlægð frá borgarbúum og skeytingarleysi um þarfir þeirra, sérstaklega efnaminna fólks. Þetta er mat Flokks fólksins eftir að hafa setið 4 ár í borgarstjórn.

Húsnæðismál eru í brennidepli vegna þess hve hinn alvarlegi skortur á íbúðarhúsnæði og byggingarlóðum í Reykjavík kemur sífellt verr niður á hinum tekjulægri. Nákvæmlega þannig var staðan einnig fyrir síðustu kosningar.

Íbúðum á hverja 100 Reykvíkinga hefur fækkað jafnt og þétt á liðnum áratug og enn færri íbúðir eru í byggingu nú en fyrir tveimur árum. Ört hækkandi húsnæðisverð speglar ónógt framboð og veldur leigjendum þungbærum erfiðleikum ásamt þeim sem eru að kaupa í fyrsta sinn.

Alvarlegar afleiðingar sýna sig víða. Hröð hækkun húsnæðisverðs hækkar nefnilega vísitölu fasteignaverðs, fer beint inn í verðbólguna og skilar sér þannig í minni kaupmætti heimilanna. Námsmenn og ungt fólk er fast heima hjá foreldrum sínum. Efnameira fólk hefur tök á að styðja við bakið á börnum sínum við fyrstu kaup sem er enn eitt dæmið um misskiptingu milli ríkra og fátækra.

Það bíða 578  eftir almennu félagslegu leiguhúsnæði hjá Reykjavíkurborg, 130 bíða eftir húsnæði sem hentar þörfum fatlaðra, 72 bíða eftir húsnæði fyrir heimilislausa með miklar og flóknar þjónustuþarfir og 144 eru á bið eftir þjónustuíbúð fyrir aldraða. Á bak við þessar umsóknir eru fjölskyldur og börn og 132 barnafjölskyldur bíða eftir almennu félagslegu leiguhúsnæði, þar af 100 einhleypir foreldrar. Samtals 834 umsóknir eftir húsnæði hjá borginni.

Efnaminna og fátækt fólk er á vergangi, þarf sífellt að vera að færa sig um set. Öryrkjar eru á annað hundrað að bíða eftir sértæku húsnæði og mikil vöntun er á húsnæði fyrir eldra fólk, þ.m.t. þjónustuíbúðir.

Tökum dæmi:        

Foreldrar sem eru á leigumarkaði þvælast frá einu húsnæði í annað með börn sín. Sumir foreldrar eru hreinlega á vergangi og eru jafnvel að fá inni um tíma hjá vinum og ættingjum. Dæmi eru um að börn í efnaminni fjölskyldum hafa gengið í allt að 5 grunnskóla áður en þau brautskrást úr grunnskóla. Vart þarf að fjölyrða um hin neikvæðu áhrif sem tíðir flutningar hafa á andlega og félaglega líðan barnanna sem um ræðir.

Fatlaðir fullorðnir einstaklingar, sem sumir eru komnir á fertugsaldur, hafa beðið í fjöldamörg ár eftir húsnæði. Sumir búa hjá foreldrum sínum. Foreldrarnir eru jafnvel orðnir aldraðir og veikir vegna álags svo ekki sé minnst á álag þeirra sem eru á biðlistanum.

 

Blind trú á þéttingu byggðar                                                                                                                               
Svo virðist sem núverandi meirihluti sé pikkfastur í þéttingu byggðar. Aðrir kostir eru vart ræddir. Varla er markmiðið að þrengja svo að mannlífinu að gónt sé inn í næstu íbúð og þvottasnúran sé á milli tveggja húsa yfir þrönga götu eins og í gömlu þorpi frá miðöldum, eða hvað?  Sumir þéttingarreitir eru því miður orðnir að skuggabyggð þar sem ekki  hefur verið tekið tillit til birtuskilyrða og hugað að vörnum gegn hljóðmengun.

Flokkur fólksins styður þéttingu byggðar upp að skynsamlegu marki en ekki þegar hún fer að taka á sig mynd trúarlegrar sannfæringar. Einhliða framkvæmd þéttingarstefnu í Reykjavík, án ódýrari valkosta fjær miðborginni, hefur leitt til hættulegrara spennu á fasteignamarkaðinum sem skerðir lífskjör og lífsgæði fólks.

Vegna einstefnu í þéttingu byggðar er t.d. allt orðið yfirfullt í Háteigs- og Hlíðarhverfi, í Laugardal og víðar. Skólar og íþróttaaðstaða í þessum hverfum eru löngu sprungin. Framtíðarsýn í skóla- og íþróttamálum í yfirfullum hverfum er óljós sem veldur foreldrum miklum kvíða og angist. Til stendur að flytja „umframbörnin“ í Vörðuskóla. Það mun rústa hugmyndum meirihlutans um „15 mínútna borgarhverfi“. Þegar börn þurfa að ganga meira en 30 mínútur í skólann hvernig sem viðrar, munu foreldrar aka þeim með tilheyrandi aukinni umferð og neikvæðum umhverfisáhrifum.

 

Borgarstjórn í bergmálshelli                                                                                 Það virðist sem „hipp og kúl“ hugmyndir um tilveruna blindi núverandi meirihluta og geri honum ókleift að tengjast raunverulegum efnahagslegum staðreyndum um framboð og eftirspurn. Karpað er um hvort byggt sé mikið eða lítið. Vandinn liggur í að það er ekki byggt nóg. Það er skortur á hagkvæmum íbúðum fyrir fyrstu kaupendur, fyrir efnaminna fólk og fyrir venjulegt fólk. Litlar skókassaíbúðir á þéttingarreitum eru rándýrar og ekki á færi nema hinna efnameiri að fjárfesta í.

 

Stefna Flokks fólksins

Flokkur fólksins vill þétta byggð þar sem innviðir þola þéttingu, ekki annars staðar. Við viljum stækka úthverfin og innviði þeirra, setja blandaða byggð í fyrirrúm og fjölga atvinnutækifærum í hverfum. Brýnt er að brjóta strax land undir ódýrar lóðir í suðurhlíðum Úlfarsfells og svæðinu austur af Úlfarsárdal. Ártúnshöfðinn er langt kominn í skipulagsferli, í Keldnalandi er hægt að byggja meira og Kjalarnes kemst í alfaraleið með Sundabraut.

Við í Flokki fólksins erum jarðtengd  og skynjum að þetta brýna vandamál þarf að leysa hratt og vel. Það munum við gera ef við fáum til þess stuðning 14. maí.

Fólkið fyrst – svo allt hitt!

 

Helga Þórðardóttir, varaþingmaður og kennari við Barnaspítala Hringsins, skipar 2. sætið á framboðslista Flokks fólksins í komandi borgarstjórnarkosningum

Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins og sálfræðingur, skipar 1. sætið á framboðslista Flokks fólksins í komandi borgarstjórnarkosningum

Birt á vef Stundarinnar 28.4. 2022

 

 


Konur í sárri neyð í Reykjavík

Hér er grein eftir okkur Natalie G. Gunnarsdóttur sem skipar 4. sæti á lista Flokks fólksins.

Konur í sárri neyð í Reykjavík.

Mikil vöntun er í Reykjavík á húsnæði og neyðarskýlum fyrir konur með fjölþættan vanda. Neyð heimilislausra kvenna er meiri en karla því þær hafa ekki sömu úræði í neyslu og karlar. Á göt­unni snýst allt um að lifa af og það getur leitt af sér enn meiri áföll. Þar er kon­um nauðgað, þær eru fórn­ar­lömb mansals og misþyrminga og verða sífellt að vera á varðbergi. Kerfið í borginni má ekki bregðast konum í svo bágri stöðu.

Konukot er komið að þolmörkum hvað rými varðar. Á ári hverju sækja um 100 konur þjónustu Konukots en heimilisleysi kvenna er oft falið og því má gera ráð fyrir að talan sé mun hærri. Í Covid faraldrinum var sett á laggirnar sérstækt úrræði fyrir konur. Það bættist við Konukot og var starfrækt allan sólarhringinni. Úrræðið reyndist vel en því var samt lokað þegar faraldurinn rénaði. Skila­boðin sem Reykjavíkurborg sendir með því að loka þessu litla úrræði meðan millj­örðum er mokað í umdeilanleg verkefni eru að líf þessara kvenna sé ekki mikils virði.

Bregðumst strax við vandanum!

Flokkur fólksins vill að Reykjavíkurborg horfist strax í augu við sáran vanda heimilislausra kvenna og axli þar ábyrgð. Neyðarskýli verða að standa þeim opin allan sólarhringinn og einnig þarf að finna þeim varanleg úrræði. Það kallar á auknar fjárheimildir. Auk þess að tryggja þessum hópi þak yfir höfuðið á þeirra forsendum, viljum við í Flokki fólksins að unnin sé meiri fyrirbyggjandi vinna fremur en að einblína aðeins á að slökkva elda. „Húsnæði fyrst“ aðferðafræðin kveður á um að öruggt þak yfir höfuðið sé bæði grunnþörf og grundvallarmannréttindi. Aðeins þegar þessari grunnþörf sé mætt, geti einstaklingurinn ráðið við aðrar áskoranir. Heimili er því forsenda fyrir árangri vímuefnameðferðar eða meðferðar við geðrænum vanda meðal kvenna á vergangi.

Heimilisleysi velur sér engin. Það er félagsleg afleiðing áfalla þar sem kerfið hefur brugðist. Þessar konur þurfa faglegan stuðning til að geta komið lífi sínu á réttan kjöl. Við í Flokki fólksins ætlum að svara því kalli.

Fólkið fyrst – svo allt hitt!

Natalie Guðríður Gunnarsdóttir, stuðningsfulltrúi og háskólanemi, skipar 4. sæti á framboðslista Flokks fólksins í komandi borgarstjórnarkosningum.

Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins og sálfræðingur, skipar 1. sæti á framboðslista Flokks fólksins í komandi borgarstjórnarkosningum.

Birt í Fréttablaðinu 26. apríl 2022

konur í sárri neyð mynd


Nýjar lausnir á næturvanda í Reykjavík

Í grein minni sem birtist í Morgunblaðinu 20. apríl sl. sagði ég frá því að árið 2018 lagði Flokkur fólksins fram tillögu um að borgin tryggði eftirlit með framkvæmd reglugerðar um hávaðamengun í borginni og að henni yrði fylgt til hins ýtrasta. Aðdragandinn að framlagningu tillögunnar var sá að íbúar höfðu kvartað til borgaryfirvalda og sagt að ekki væri svefnfriður vegna hávaða frá næturklúbbunum á svæðinu. Hér er vísað í næturklúbba sem eru opnir til klukkan hálf fimm á nóttunni með tilheyrandi hávaða og götupartíum.

Mér var að sjálfsögðu ljúft og skylt að vekja athygli á málinu á vettvangi borgarstjórnar enda vill Flokkur fólksins hlusta á fólkið í borginni. Núverandi borgarstjórnarmeirihluti lét sér hins vegar fátt um finnast og tillaga Flokks fólksins um að reglugerð um hávaðamengun verði fylgt er enn föst í kerfinu.

 

Reglugerðin sem hér um ræðir snýr að borgaralegum réttindum en henni hefur einfaldlega ekki verið framfylgt sem skyldi. Þess utan stangast leyfi fyrir þjónustutíma skemmtistaða á við þau lög að allir íbúar eigi rétt á svefnfriði frá kl. 23 til 7 að morgni, óháð búsetu (sbr. jafnræðisregluna).

Hvað er til ráða?

Hér er ekki verið að tala um að banna næturklúbba. Flokkur fólksins hefur skoðað þessi mál með fjölmörgum aðilum, bæði íbúum og þeim sem annast næturklúbbanna. Flestir eru sammála um að fyrsta skrefið sé að fylgja gildandi reglugerð, lækka hávaðann og draga úr bassanum. Setja þyrfti upp hljóðmæla sem notaðir yrðu á sama hátt og eftirlitsmyndavélar. Sú tækni er til staðar að ef skemmtistaðir færu yfir ákveðin hávaðamörk slær rafmagnið einfaldlega út hjá viðkomandi samkomustað. Ef lög og reglur eru brotnar þurfa þeir sem ábyrgðina bera að sæta einhverjum viðurlögum eins og gengur. Að öðrum kosti eru lög og reglur bara dauður bókstafur.

Til þess að eigendur skemmtistaðanna missi ekki of stóran spón úr aski sínum er mikilvægt að fá fólk til að mæta fyrr út á lífið. Ef staðið er saman að slíkum breytingum myndi markaðurinn án efa aðlaga sig að breyttum opnunartíma. Mottóið ætti að vera: Eftir eitt ei heyrist neitt! Nauðsynlegt er að setja næturstrætó í gang til að koma fólki aftur heim til sín.

Ráða næturlífsstjóra

Þjóðráð væri einnig að ráða næturlífsstjóra sem héldi utan um þennan málaflokk, þ.m.t. kvartanir, og sá hefði auk þess eftirlit með að reglugerðum og lögum sé framfylgt. Skemmtanalífið í Reykjavík og "hagkerfi næturlífsins" er það umfangsmikið að ekki veitir af. Það virðist vera lítið ef nokkuð samtal milli stofnana sem þessi mál heyra undir – borg, lögregla, heilbrigðiseftirlit, vinnueftirlit, byggingareftirlit og sýslumaður. Ef allt þetta væri komið á eitt borð væri mun auðveldara að hafa yfirsýn og sjá hvar grípa þyrfti inn í með aðgerðum og úrræðum eftir því sem þykja þurfir.

 

Skoða aðra staðsetningu

Samhliða þessum breytingum yrði unnið að uppbyggingu á svæði fyrir utan almenna íbúabyggð, t.d. utarlega á Grandanum eða í einhverju öðru iðnaðarhverfi, þar sem fólk getur skemmt sér eins og það vill án þess að ónáða aðra. Þá gæti lögreglan einnig haft betra eftirlit með því að allt fari vel fram.

Skilgreind svæði

Næturlífsstjórinn gæti t.d. gert drög að skipulagsbreytingum sem miðar að því að hólfa skemmtanalífið niður. Það má hugsa sér mismunandi hljóðsvæði frá 1-5, en á "partísvæði“ mætti hávaðinn (innandyra) vera mikill og opið langt fram á nótt.

Hljóðsvæði 4-5 þar sem hávaði er mestur þyrfti  að vera í fjarlægð frá íbúabyggðinni. Svæði 1-2 mættu vera í hjarta miðbæjarins en staðirnir dreifðari en nú er og yrði þeim sett ströng skilyrði um hljóðvist: engir útihátalarar, lítil sem engin hljóðmengun frá stöðunum út á götur og aðeins opið til kl. 1. Þetta eru allt hugmyndir sem Flokkur fólksins setur fram og  sem vel mætti ræða.

Hljóðsvæði 3 gæti t.d. verið kyrrðarsvæði þar sem fólk getur verið eitt með sjálfu sér eða fjölskyldu og vinum. Hugað væri vandlega að hljóðvist á þessum stöðum og allt kapp lagt á að hafa þá sem vistkænasta.

Flokkur fólksins hefur ávallt lagt áherslu á samráð og að unnið sé með borgarbúum og öllum þeim sem hagsmuna eiga að gæta í því máli sem um ræðir hverju sinni. Nauðsynlegt verður að fá umsagnir frá íbúum og öðrum rekstraraðilum á svæðinu áður en stórar ákvarðanir eru teknar og taka á tillit til þeirra eins og kostur er.

Hagsmunamál margra

Þessi mál þurfa að komast í lag sem fyrst. Margir hafa hagsmuna að gæta, ekki eingöngu íbúarnir, heldur einnig hátt á sjötta tug hótela og gistiheimila á svipuðu svæði og þessir skemmtistaðir eru. Miðbærinn tilheyrir þjóðinni allri, enda eru þar mörg af helstu kennileitum íslenskrar þjóðmenningar.

Ég vil standa með öllum borgarbúum sem eiga um sárt að binda vegna þess að borgaryfirvöld hafa neitað að hlusta, neitað að skilja og virðast eingöngu vilja þagga óþægileg mál niður. Það verður að finna raunhæfar lausnir á þessu máli.


Næturlífið í Reykjavík: ælur, smokkar og ofbeldi

Á fjögurra ára ferli mínum sem borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur hópur fólks sem býr nálægt næturklúbbum í miðbænum haft samband við mig og lýst ömurlegri tilveru um nætur þegar stemning gesta næturklúbba er í hámarki.

Í nóvember 2018 lagði Flokkur fólksins fram tillögu um að borgin tryggði eftirlit með framkvæmd reglugerðar um hávaðamengun í borginni og að henni yrði fylgt til hins ýtrasta. Tillögunni var vísað til meðferðar umhverfis- og heilbrigðisráðs þar sem hún er enn. 

 

Vissulega veitti Covid þessum íbúum grið um tíma en nú er allt komið í sama farið. Reglugerðin sem hér um ræðir er í sjálfu sér ágæt. Eina vandamálið er að henni er einfaldlega ekki framfylgt. Auk þess stangast leyfi fyrir opnunartíma skemmtistaða á við þau lög að íbúar eigi rétt á svefnfrið frá kl. 23 til 7 að morgni, óháð búsetu, samkvæmt 4. grein lögreglusamþykktar. Einnig er sláandi að hávaðamörkum er ekki framfylgt með nokkrum viðunandi hætti en þau mega ekki fara yfir 50 desíbel úti á götum (Evrópusambandið miðar við 40 desíbel). Ítrekað hefur verið hringt í lögreglu sem íbúar segja að hafi engu skilað.

 

Friðhelgi fólks virt að vettugi

Hjá mörgum þessara íbúa er mælirinn löngu fullur. Í nærumhverfi þessara næturklúbba er blönduð byggð þar sem margar barnafjölskyldur eiga heima, öryrkjar og eldra fólk. Þegar íbúarnir hafa kvartað við yfirvöld hefur mætt þeim tómlæti. Þeir eru jafnvel spurðir hvers vegna „þeir flytji ekki bara eitthvert annað?“ 

Hér er verið að tala um næturklúbba sem eru opnir til kl. 4.30 með tilheyrandi hávaða, götupartíum, skrílslátum, sóðaskap og ofbeldi. Að leyfa diskótek í gömlum, fullkomlega óhljóðeinangruðum timburhúsum verður að teljast harla undarlegt. Hávaðinn, aðallega bassinn, berst langar leiðir um götur og torg. Margir íbúar, sérstaklega konur, veigra sér einnig við að vera úti eftir miðnætti um helgar af ótta við að verða fyrir aðkasti og áreitni.

Þessir næturklúbbar selja áfengi fram á lokamínútu. Frést hefur af fólki sem vill halda áfram að djamma ganga út með birgðir af áfengi þegar skellt er í lás. Ekki er óalgengt að íbúar finni fólk í görðum sínum, eða á útidyratröppunum, sem lagst hefur þar til svefns eða dáið drykkjudauða. Ferðamenn líða einnig fyrir næturdjammið í miðbænum. Eigendur hótela og gistihúsa fá stöðugar kvartanir frá hótelgestum um að þeir geti ekki sofið fyrir hávaða. Sú sjón sem blasir við ferðamönnum þegar þeir fara í skoðunarferðir snemma morguns eða út á flugvöll er heldur ófögur og ekki borginni til sóma. Það er engu líkara en að borgaryfirvöld séu algerlega meðvitundarlaus um þennan ófögnuð.

 

Ælur, smokkar, saur og ofbeldi

Þegar fólk hefur drukkið ótæpilega leiðir það m.a. til þess að dómgreind og skynsemi víkur. Ofurölvun getur aukið líkur á ólöglegu atferli, áreitni og ofbeldi. Ölvaðir gestir næturklúbba kasta stundum af sér vatni þar sem þeir standa og ganga örna sinna á hinum ólíklegustu stöðum t.d. á tröppum fólks, í görðum eða geymslum þeirra. Sprautunálum, bjórdósum, glösum, smokkum, sígrettustubbum og matarleifum er hent hvar sem er og endar það oftar en ekki á tröppum íbúanna eða í görðum þeirra.

Dauðir hlutir njóta heldur engra griða. Veggjakrot og eignarspjöll fær að þrífast án nokkurrar refsingar. Bílar íbúanna hafa sömuleiðis verið skemmdir, inn í þá brotist eða skorið á dekkin. Þeir sem hafa leitað til lögreglu eða tryggingafélaga með þessi mál hafa ekki haft erindi sem erfiði. Ef kostnaður af skemmdarverkum á eigum fólks í miðborginni sem tengist næturklúbbum væri tekinn saman myndi hann ábyggilega hlaupa á hundruð milljóna króna. Þá er ótalinn sá andlegi skaði sem íbúar hafa orðið fyrir.

 

Hvað er til ráða?

Þetta ófremdarástand má auðveldlega strax bæta. Það er enginn að tala um að banna næturklúbba. Fyrsta skrefið er að virða gildandi reglugerðir. Skala þarf niður hávaðann. Skoða mætti einnig hvort ekki er hægt að finna næturklúbbum af þessari tegund hentugri staðsetningu, utan almennrar íbúabyggðar. Byggja mætti upp ákveðið „party zone“, t.d. út á Granda, og huga samhliða að samgöngum svo að fólk komist heilu og höldnu aftur heim til sín. Á mínum yngri árum sótti ég staði sem voru ekki í miðri íbúabyggð eins og Sigtún, Þórskaffi og Hollywood. Þarna var dansað fram eftir nóttu og úti biðu leigubílar til að koma gestum heim. Til bóta væri einnig að ráða næturlífsstjóra sem héldi utan um þennan málaflokk hjá borginni.

Það er skylda mín og ábyrgð að hlusta á raddir þessa hóps og þess vegna lagði ég fram í upphafi kjörtímabilsins tillöguna um að reglugerð um hávaðamengun yrði fylgt eftir. Ég spurðist fyrir um þessa tillögu fyrir skemmstu og var sagt að hún verði sett á dagskrá eftir kosningar.

 

Ég vil standa með öllum borgarbúum sem eiga um sárt að binda vegna þess að borgaryfirvöld hafa neitað að hlusta, neitað að skilja og virðast eingöngu vilja þagga óþægileg mál niður. Fyrir kosningar má náttúrulega ekkert skyggja á glansmynd borgarstjóra. Slíkt óréttlæti og undanbrögð verða ekki liðin af okkur í Flokki fólksins.

Grein birt í Morgunblaðinu 20. apríl


Almenningssamgöngur í lamasessi í Reykjavík

Stóð ekki til að efla almenningssamgöngur á kjörtímabilinu í Reykjavík? Strætó bs. er byggðasamlag nokkurra sveitarfélaga og á Reykjavík stærsta hluta þess. Reksturinn er óvenjulegur því  fátítt er að bæði stjórn og skipu­lagn­ing þjón­ust­unnar ásamt akstri vagna sé á sömu opin­beru hend­inni. Þetta kemur m.a. fram í nýlegri skýrslu sem VSB verk­fræði­stofa vann fyrir Strætó. Strætó sinnir báðum þessum  hlut­verkum í dag án nokk­urra skila á milli mis­mun­andi þátta rekst­rarins, en fyr­ir­tækið útvistar þó um helm­ingi af öllum akstri sínum til ann­arra.

Nú er svo komið að Strætó bs. þarf að minnka  þjón­ustu­tíma og þjón­ustu­stig Strætó vegna aðhaldsaðgerða í rekstri fé­lags­ins. Meðal ann­ars þarf að draga úr tíðni dag­ferða á ein­hverj­um leiðum og gera breyt­ing­ar á kvöld­ferðum á fjölda leiða. Gert er ráð fyr­ir að með breytingunum sparist rúm­lega 200 millj­ónir króna í rekstri en Strætó situr uppi með 454 milljóna króna halla. Tap síðustu tveggja ára nálgast milljarð. Í til­kynn­ing­u frá Strætó bs. seg­ir að Covid-far­ald­ur­inn hafi leikið rekst­ur Strætó grátt og tekj­ur hafi minnkað um allt að 1,5 millj­arða króna á síðustu tveimur árum. Ekki er ein báran stök. Í miðju Covid eru teknar fjárfrekar ákvarðanir, fjárfest í nýju greiðslukerfi og fjölgað í flotanum með þeim afleiðingum að draga þarf úr þjónustunni.

Klappkerfið ekki ókeypis

Klappkerfið kostar sitt. Er ekki rétt að spyrja hvort Klappið hafi verið ótímabær fjárfesting miðað við aðstæður? Hvers vegna fjárfestir byggðasamlag með einn milljarð í halla í nýju greiðslukerfi og það á miðjum  Covid-tímum og endar síðan með 1,5 milljarð í halla?
Margir eiga auk þess í vandræðum með að nota Klappið. Þeir sem hvorki skilja né tala íslensku eiga t.d. erfitt með að fóta sig í kerfinu. Hefði ekki þurft að sýna skynsemi og fresta nýju greiðslukerfi? Forgangsröðun hjá  Strætó hefur leitt til hagræðingaraðgerðar sem kemur verulega illa niður á þjónustuþegum Strætó.

Hvernig á fólk að komast leiðar sinnar?

Á kjörtímabilinu hefur meirihlutinn í borgarstjórn lagt allt kapp á að hindra bílaumferð inn á viss svæði í borginni, aðallega miðbæinn og nágrenni. Gjaldskyldusvæði hafa verið stækkuð í allar áttir og bílastæðagjald hækkað svo að um munar.  Leynt og ljóst eru skilaboðin þessi „ekki koma á bílnum þínum í bæinn. Taktu strætó eða hjólaðu“. Að hjóla er ferðamáti sem  hentar alls ekki öllum. Ef hvetja á fólk til að nota almenningssamgöngur eins og Strætó þarf sú þjónusta að vera þannig uppbyggð og skipulögð að hún virki fyrir sem flesta. Tíðni strætóferða skiptir miklu máli og einnig að hægt sé að taka strætó fram eftir kvöldi um helgar til þess að fólk komist heim til sín. Þá er erfitt að ná í leigubíl auk þess sem allir hafa ekki ráð á að borga fyrir leigubíl. Nú eru færri leigubílstjórar en áður því í stéttinni ríkir mannekla. Reykjavíkurborg ber að hluta til ábyrgðina því að úthlutuðum rekstrarleyfum til leigubílaaksturs í höfuðborginni hefur fækkað frá árinu 2002.

Hvað varð um markmiðið að efla almenningssamgöngur?

Almenningssamgöngur eru í lamasessi, verið er að draga úr þjónustunni enn meira. Meirihlutinn leggur áherslu  borgarlínu en í það framtíðarverkefni hefur Reykjavíkurborg sett nú þegar í 1.7 milljarð.  Nánast allt er varðar borgarlínu er óljóst og þá ekki hvað síst hvort og þá hvernig borgarlínukerfi passar inn í reykvískan veruleika. Það verður að virðir valfrelsi og þarfir fólks varðandi samgöngumáta – ekki á að neyða borgarlínu eða öðrum lausnum upp á fólk.

Til að ná markmiðum um að efla almenningssamgöngur þarf að bæta allt sem snýr að rekstri Strætó bs. og verða Reykjavík og önnur sveitarfélög byggðarsamlagsins að styðja við reksturinn. Þar er tregða enda eru þau ekki aflögufær. Fjármagnið hefur farið í annað.
En þá þýðir ekki á sama tíma að segja að efla skuli almenningssamgöngur þegar í raun er verið að veikja þær. Það stóð ekki í loforðapakka meirihlutans í borgarstjórn.

Höf.:

Kolbrún Baldursdóttir oddviti Flokks fólksins
Birt í Morgunblaðinu 7. apríl 2022

 

 

 


Konum ekki lengur úthýst úr gömlu klefunum í Sundhöll Reykjavíkur

Hér er skýrt dæmi um hvernig "dropinn holar steininn" en í þrjú ár hef ég haldið þessu máli á lofti í borgarstjórn, í mannréttindaráði og í skipulagsráði í samvinnu við Eddu Ólafsdóttur sem stundað hefur sund í Sundhöllinni í hálfa öld og doktor Vilborgu Auði Ísleifsdóttur.

Baráttan hefur staðið um það réttlætismál að konur fái aftur aðgang að eldri búningsklefum kvenna eftir að endurgerð þeirra var lokið í gömlu byggingunni alveg eins og karlarnir höfðu fengið. Þannig átti það ekki að vera heldur stóð þeim aðeins til boða hinir nýju klefar en staðsetning þeirra er bagaleg því frá þeim að laug er löng leið sem ganga þarf utandyra í blautum sundfötum til að komast inn í Sundhöllina. Þetta máttu stúlkur í sundkennslu einnig þola og það um hávetur.

Konum fannst þeim hafa hreinlega verið úthýst úr Sundhöllinni. Jafnréttissjónarmiði var fótum troðið að mati fulltrúa Flokks fólksins og engin spurning var um að  farið var á svig við jafnréttislög. Í mörgum málum, fyrirspurnum og tillögum reyndi ég að fá þessu breytt en því öllu hafnað. Ég tók málið upp í borgarstjórn og þótti borgarstjóra lítið til um það.

En nú hefur dropinn holað steininn eins og sjá má í þessari grein. Ég segi bara til hamingju kvensundgestir Sundhallar Reykjavíkur! 

 

Sundhöll 1

https://www.frettabladid.is/frettir/ofremdarastand-riki-i-sundhollinni-tekist-a-um-gomlu-klefana/

 


Strætó bs. og metanvagnar

Sjaldan er ein báran stök, segir framkvæmdastjóri Strætó í viðtali. Ég tek undir það. Það hefur mætt mikið á bs. fyrirtækinu Strætó á þessu kjörtímabili. Starfsfólk hefur tjáð sig um vanlíðan í starfi, kvartað er yfir yfirstjórn og stjórnunarháttum og talað um einelti og að þöggun ríki í fyrirtækinu. Strætó fær einnig mikið af ábendingum sem sagt er að sé öllum fylgt eftir. Strætó hefur reynt að taka til í sínum ranni, gert þjónustukönnun og segja að öllum kvörtunum og ábendingum sé fylgt eftir. Því fer fjarri að allir sem kvarta kannist við það.

Stjórn Strætó bs. fullyrðir að vagnarnir séu vel setnir. Til að meta nýtingu eru talin innstig. Heildarfjöldi innstiga árið 2021 var tæp 9,5 milljóna innstiga og hafði þeim fjölgað um tæp 8% frá árinu 2020. Stóran hluta dags eru vagnarnir engu að síður hálftómir

Sóun á metani!

Vart þarf að rekja áhrif og afleiðingar Covid faraldursins á samfélagið hér í löngu máli. Nú er staðan sú að Strætó situr uppi með 454 milljóna króna halla. Tap síðustu tveggja ára nálgast milljarð. Og svo kom stríð í Úkraínu og því fylgja olíuverðshækkanir sem munu að óbreyttu hafa rekstraráhrif. Vissulega hefur Strætó minnkað flota þeirra bíla sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti og fjölgað nokkuð vistvænni bílum en hér vil ég, borgarfulltrúi Flokks fólksins, staldra við.

Þau eru nefnilega mörg málin, tillögur og fyrirspurnir frá Flokki fólksins sem snúast um af hverju Strætó notar ekki metanvagna í stórum stíl. SORPA bs. sem er einnig að stórum hluta í eigu borgarinnar, framleiðir ógrynni af þessu vistvæna gasi. Það hleðst hins vegar upp á söfnunarstað og er brennt á báli engum til gangs. Þvílík sóun!

Fram hefur komið skýrt að Strætó bs. og stjórn hugnist ekki metanvagnar. Meðal raka eru að þeir séu of hávaðasamir. Það er léttvægur fyrirsláttur í heildarsamhenginu. Nú stefnir í að kostnaðarauki vegna eldsneytishækkunar einn og sér gæti orðið 100-200 milljónir á þessu ári. Fátt væri því eðlilegra en að allir vagnar Strætó væru metanvagnar.
Það er hins vegar fyrirhugað hjá Strætó bs. að kaupa rafvagna fyrir um 400 m.kr. Nú þegar hefur verið auglýst útboð þar sem óskað er eftir allt að 9 til 10 rafvögnum.

Mismunandi aðgengi að Strætó

Öll óskum við þess að Covid sé brátt að baki og að lífið komist aftur í samt horf á öllum sviðum. Víkur þá sögunni að nýja greiðslukortakerfinu, Klappi. Eina leiðin til að borga sig inn í strætó núna, svona að mestu er að eiga farsíma og vera búin að koma sér upp „Klapp“ appinu til að geta keypt sér inneign. Nauðsynlegt er að hafa rafrænt auðkenni til að geta farið inn á „Mínar síður“ og endurnýjað inneignina.

En þessi tækni er ekki veruleiki allra. Það eiga ekki alveg allir farsíma og sumir, t.d. hælisleitendur sem nota strætó mikið, hafa ekki einu sinni kennitölu. Enn aðrir geta ekki t.d. vegna fötlunar sinnar sótt um rafrænt skilríki og geta því ekki notað „Mínar síður“. Reynt hefur verið að finna lausnir á þessu og á eftir að koma í ljós hvort þær gagnast. Vegna þessa m.a. hefur fækkað í notendahópi Strætó.

Það er forvitnilegt að fá upplýsingar um hvað þetta nýja greiðslukerfi kostaði og hversu margir sérfræðingar voru ráðnir til verksins. Versta er ef „kerfi“ sem þetta á eftir að hindra fólk í að nota strætó. Það er ekki gott ef viðkvæmir hópar og þeir sem hafa stólað mest á strætó treysti sér ekki til að nota strætó vegna nýja greiðslukerfisins Klapp

Ljós í þessu myrkri er þó hið svokallaða Klapp tía svo öllu sé nú haldið til haga. Hún felst í farmiðum með 10 fargjöldum fyrir fullorðna, ungmenni eða aldraða sem hægt er að kaupa á nokkrum stöðum. Þeir sem ekki hafa rafrænar lausnir geta bjargað sér með Klapp tíu sem eru tíu ferðir í senn.

Óskandi er að stjórnendur Strætó setji sig betur í spor þeirra sem ferðast með vögnum fyrirtækisins og sníði þjónustuna að þeirra veruleika. Vel mætti skoða að bjóða upp á meiri sveigjanleika í þjónustunni til að allir, sem það vilja og þurfa, geti notað strætó án vandkvæða.

Birt í Morgunblaðinu 23. mars 2022


Geislabaugurinn á Lækjartorgi á ís

Á annað hundrað flóttamenn frá Úkraínu hafa óskað eftir hæli hérlendis. Væntanlega verður tekið á móti um 2.000 manns. Sumir snúa jafnvel aldrei aftur heim. Miklu skiptir að þetta fólk mæti hér hlýju, skilningi og fjölþættri aðstoð.

Margt þessa stríðshrjáða fólks mun setjast að með börn sín í Reykjavík. Við getum átt von á 200 úkraínskum börnum til Reykjavíkur, jafnvel fleiri. Borgarbúar, fyrirtæki og stéttarfélög hafa boðið fram húsnæði af öllu tagi. Þak yfir höfuðið er frumskilyrði.

Flóttamennirnir koma hingað allslausir. Hlutverk Reykjavíkurborgar er að veita flóttafólkinu fjárhagslega og félagslega aðstoð. Börnin þurfa að komast sem fyrst í leik- og grunnskóla, í frístund og tómstundir. Mikilvægt að þau geti sem allra fyrst lifað eðlilegu og öruggu lífi.

Bíða með fjárfrekar framkvæmdir Ljóst er að nú þarf borgarmeirihlutinn að endurskoða útdeilingu fjármagns. Fresta fjárfrekum framkvæmdum. Geislabaugurinn skrautlegi á Lækjartorgi verður að fara á ís. Sama gildir um önnur verkefni sem ekki eru nauðsynleg.

Flokkur fólksins vill breyta forgangsröðun við útdeilingu fjármagns. Setja á fólk og þarfir þess í fyrsta sæti. Með komu úkraínsku barnanna bætist í hóp barna sem þarfnast aðstoðar af ýmsu tagi. Meirihlutinn getur ekki lengur lamið hausum við steininn. Flokkur fólksins skorar á borgarstjóra og meirihlutann að sýna lit. Langir biðlistar eru eftir aðstoð af öllu tagi í Reykjavík. Börnin, sem bíða eftir fagþjónustu skóla, eru 1804. Langur biðlisti er eftir félagslegu húsnæði og sértæku fyrir fatlaða. Ef spilin verða ekki endurstokkuð er hætta á að Reykjavíkurborg axli hvorki ábyrgð sína um lögbundna þjónustu né megni að sinna stríðshrjáðum fjölskyldum frá Úkraínu.

Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins í Reykjavík

Birt í boxinu í Fréttablaðinu 17. mars 2022


Stokka upp á nýtt

Borgarstjórnarfundur stendur yfir.
Hér er bókun Flokks fólksins við umræðu um aðkomu Reykjavíkur að fjölþættri aðstoða fyrir flóttamenn frá Úkraínu:
 
Flóttamennirnir koma hingað til landsins allslausir. Hlutverk Reykjavíkurborgar er að veita flóttafólkinu fjárhagslega og félagslega aðstoð. Börnunum er nauðsyn að komast sem fyrst í leik- og grunnskóla og í frístund.

Nú þegar fjöldi stríðshrjáðs fólks streymir til landsins hlýtur borgarmeirihlutinn að verða endurskoða útdeilingu fjármagns úr borgarsjóði. Fresta ætti fjárfrekum framkvæmdum sem geta beðið betri tíma. Geislabaugurinn sem fyrirhugað er að rísi á Lækjartorgi verður að fara á ís. Sama gildir um mörg önnur sambærileg verkefni sem ekki eru nauðsynleg og jafnvel engin er að biðja um.

Flokkur fólksins hefur talað ítrekað um að breyta þurfi forgangsröðun þegar fjármagni er útdeilt. Með komu úkraínsku barnanna bætist í hóp barna sem þarfnast aðstoðar af ýmsu tagi. Þótt fjármagn komi frá ríkinu í einstök verkefni ber sveitarfélagið sína fjárhagslegu ábyrgð sem og siðferðislega.
Kallað er eftir nýrri hugsun, nýrri nálgun í borgarstjórn enda ekki vanþörf á. Langir biðlistar eru eftir aðstoð af öllu tagi í Reykjavík. Í biðlistaborginni Reykjavík bíða nú 1804 börn eftir fagþjónustu skóla.

Ef spilin verða ekki endurstokkuð með þarfir fólks í forgangi, er hætta á að Reykjavíkurborg axli hvorki ábyrg sína um að veita lögbundna þjónustu né megni að sinna stríðshrjáðum fjölskyldum frá Úkraínu.
borg mynd 1 15.3 1
 
 
 

Aðkoma Reykjavíkur að fjölþættri aðstoð fyrir flóttamenn frá Úkraínu

Borgarstjórn Reykjavíkur
15. mars 2022

Greinargerð með umræðu borgarfulltrúa Flokks fólksins um aðkomu Reykjavíkur að fjölþættri aðstoð fyrir flóttamenn frá Úkraínu

Inngangur

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir umræðu í borgarstjórn um aðkomu Reykjavíkurborgar að fjölþættri aðstoð og stuðningi (fjárhagsaðstoð, áfallahjálp, sálfræðiaðstoð, tækifærum til menntunar, frístunda og tómstundastarfs) fyrir úkraínsk börn og foreldra þeirra sem setjast að í Reykjavík vegna innrásar Rússahers í land þeirra.

Staðan í dag

Nú þegar hafa á annað hundrað flóttamenn frá Úkraínu óskað eftir hæli hérlendis frá því að innrásin hófst og fjölgar þeim með degi hverjum. Búist er við að tekið verði á móti allt að 2.000 manns frá Úkraínu næstu vikur og mánuði. Sumir munu dvelja hér tímabundið (a.m.k. eins lengi og innrásin stendur yfir) en aðrir munu setjast hér að til lengri tíma og jafnvel aldrei snúa aftur heim.

Stór hluti flóttafólks mun setjast að með börn sín í Reykjavík. Fjöldi úkraínskra barna sem koma til Reykjavíkur á næstu dögum og vikum gæti orðið allt að 200. Nú þegar hefur stórum hópi flóttamanna verið boðið húsnæði í Reykjavík af borgarbúum og einkaaðilum/fyrirtækjum sem hafa aukarými eða hafa yfir að ráða lausu húsnæði. Þak yfir höfuðið er frumskilyrði. Spurt er í því sambandi hvort Reykjavíkurborg geti lagt til húsnæði en mikill húsnæðisskortur er nú í borginni.

Flóttamennirnir koma hingað til landsins allslausir og í miklu áfalli. Þau þarfnast áfallahjálpar og persónulegrar, einstaklingsmiðaðrar aðstoðar fagfólks. Fólkið þarfnast fjárhagsaðstoðar til að geta keypt sér mat og aðrar nauðsynjar. Börnin þurfa að geta komist sem fyrst í leik- og grunnskóla, í frístund og tómstundir. Það er mikilvægt að þau geti farið að lifa eðlilegu lífi í öruggum aðstæðum sem allra fyrst.

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fram fari ítarleg umræða í borgarstjórn um hvernig Reykjavík ætlar að haga víðtækri og yfirgripsmikilli aðstoð sinni við flóttafólkið og börnin þeirra. Þessi umræða er mjög brýn nú ekki síst í ljósi þess að nú þegar eru langir biðlistar eftir aðstoð af öllu tagi í Reykjavík og biðlistinn eftir félagslegu og sértæku húsnæði er langur. Nú bætist við stór hópur flóttamanna í mikilli þörf og þessu fólki má Reykjavík ekki bregðast. Á sama tíma er ekki hægt að ætlast til að þeim sem beðið hafa vikum og mánuðum saman eftir nauðsynlegri þjónustu, börn, öryrkjar, fátækir, heimilislausir og eldra fólk, verði ýtt til hliðar og þau látin bíða enn lengur.
Það er þess vegna ekki seinna vænna en að Reykjavíkurborg setji sig í stellingar og hugsi þessi mál upp á nýtt. Sú staða sem nú er komin upp kallar á endurskoðun á fjölmörgu. Endurskoða þarf útdeilingu fjármagns. Kallað er eftir nýrri hugsun og nýrri nálgun sem setur fólk í fyrsta sæti. Fólkið fyrst og svo allt hitt.


Ég vil ekki fara í skólann

Sniðganga skóla eða skólaforðun er skilgreind sem meðvituð eða ómeðvituð hegðun sem barn eða unglingur sýnir þegar mæta á í skólann. Hegðunin birtist í erfiðleikum með að sækja skóla hvort sem um er að ræða heilan skóladag eða hluta úr degi í lengri eða skemmri tíma (Kearney, Albano 2007).

Vísbendingar eru um að skólaforðun sé vaxandi vandamál og erfitt getur verið að ná tökum á alvarlegustu tilvikunum. Rannsóknirnar sýna að skólaforðun hefst mun fyrr en á unglingastigi og á sér oft rætur í leikskóla. Miklar fjarvistir frá skóla geta verið kvíðavaldandi fyrir börn og unglinga og valdið því að sniðgangan ágerist enn frekar þegar þau missa ítrekað úr námi.

Skólaforðun kemur til vegna þess að barninu líður illa í skólanum. Með því að forðast skólann er barnið oftast að senda skilaboð þess efnis að eitthvað „í skólanum“ valdi svo mikilli vanlíðan og streitu að það geti ekki hugsað sér að sækja skólann. 

Ástæður skólaforðunar geta verið margvíslegar.  Nefna má erfiðleika í námi, vanda varðandi vitsmunalegan þroska eða aðrar raskanir, greindar eða ógreindar. Um getur verið að ræða félagslega þætti, að barni sé strítt, það lagt í einelti, að því standi ógn af einhverju á leið í eða úr skóla eða að það eigi í samskiptaerfiðleikum við einhvern í skólanum.  Stundum er um að ræða samspil margra þátta. Sum börn glíma við kvíða og félagskvíða sem veldur því að þau vilja ekki fara út eða blanda geði við aðra krakka.
 

Þörf á vitundarvakningu

Auka þarf vitund foreldra um þetta vandamál með fræðslu. Umfram allt þarf að komast að raun um með barni, foreldrum og kennara hvað það er sem barnið  er að forðast í skólanum. Finna þarf hina undirliggjandi ástæðu og leysa úr henni með öllum tiltækum ráðum.  Því langvinnari sem vandinn er því erfiðari er hann viðureignar. Kvíðinn vex og úrvinnsla verður flóknari og erfiðari þegar fram líða stundir. Börn, sem eru hætt að mæta í skólann, ná sér ekki öll aftur á strik.

Dæmi um ástæður skólaforðunar  geta einnig verið af þeim toga að barnið taki meðvitaða ákvörðun um að mæta ekki vegna þess að eitthvað annað áhugaverðara stendur því til boða að gera. Barnið velur e.t.v. að vera heima við tölvu, eigi það þess kost, fremur en að fara í skólann. Öll mál af þessu tagi þarf að vinna á einstaklingsgrunni. Fyrirfinnist undirliggjandi ástæða þarf að taka á henni.

Samræmd viðmið til að greina skólaforðun

Árið 2015 tóku grunnskólar Breiðholts í notkun samræmt skólasóknarkerfi (samræmdar viðmiðunarreglur) í 1.-10. bekk til að fylgjast með fjölda mála af þessum toga og vinna markvisst gegn skólaforðun. Nokkru síðar var hvatt til þess að önnur hverfi borgarinnar gerðu slíkt hið sama. Um var að ræða viðmiðunarkerfi sem  sýndi  „hættumerki“, s.s. „rauð flögg“, þegar skólasókn færi niður fyrir ákveðin skilgreind viðmiðunarmörk. Í kerfinu er ekki gerður greinarmunur á ástæðu fjarveru, vegna leyfa, veikinda eða óleyfilegra fjarvista. 


Viðmiðunarflokkunum er skipt í þrjú stig eftir alvarleika. Langvinn, alvarleg skólaforðun á við þegar hún hefur staðið yfir lengur en eitt ár og flokkast þá sem stig 3. Þegar á 3. stig er komið er þörf á sértækri íhlutun og nauðsynlegt getur verið að vísa málinu til Barnaverndar. Þetta á við um nemendur sem hafa ekki svarað þeim inngripum sem hafa verið reynd og vandinn því orðinn langvinnur og alvarlegur.

Hvernig hafa viðmiðin nýst?

Samræmdar skólasóknarreglur eða miðlægt viðmiðunarkerfi hefur nú verið við lýði í fjögur ár og er hugsað til að greina á milli ástæðu fjarvista. Ekki hafa allir skólar þó stuðst við kerfið. Vel kann að vera að stjórnendum einhverra skóla finnist erfitt að ekki skuli vera gerður greinarmunur á ástæðu fjarveru, s.s. vegna veikinda annars vegar og óleyfilegra fjarvista hins vegar. 

Ég tel tímabært að skoða með markvissum hætti hvort og þá hvernig hinar samræmdu viðmiðunarreglur um skólasókn hafi nýst til að greina á milli ástæðu fjarvista hafi nýst. Hinn 15 mars næstkomandi mun ég leggja fram tillögu í borgarstjórn um að gerð verði úttekt á hvernig reglurnar hafa nýst þeim grunnskólum sem stuðst hafa við þær. 

Lífið eftir Covid

Nú er skólasókn vonandi að komast í eðlilegt horf eftir tveggja ára skeið sem litast hefur af Covid með tilheyrandi fylgifiskum. Leiða má líkur að því að skólaforðun hafi aukist með faraldrinum og fleiri börn hafi bæst í þann hóp sem forðast skólann. Þeim börnum sem leið ekki vel í skólanum fyrir Covid, líður kannski ekki miklu skár nú. Um þessar mundir bíða rúmlega 1800 börn eftir fagaðstoð, m.a. sálfræðinga, og biðlistinn lengist með hverri viku. Settar hafa verð 140 m.kr. til að fjölga fagfólki hjá skólaþjónustunni sem eru því miður aðeins dropi í hafið. Betur má ef duga skal.

Grein: Skólaforðun. Vaxandi vandamál? 
Birt í Morgunblaðinu 10. mars. 2022


Kemstu ekki á Hestháls?

Á vef Strætó bs. kemur fram að frá og með 1. mars hættir Strætó bs. að taka við pappírs farmiðum í Strætó á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni og er þá aðeins í boði að nota Klapp greiðslukerfi.

Þessi breyting á eftir að valda mörgum miklum vanda.
Það er hópur fólks sem af ýmsum ástæðum notar ekki tölvur til að fara inn á Mínar síður. Um er að ræða ákveðinn hóp fatlaðra, eldra fólks og fólks af erlendum uppruna t.d. hælisleitendur sem ekki tala tungumálið.

Hvernig á þessi hópur að bera sig að?

Á vef Strætó bs.segir einnig:

Þeir sem komast ekki á Hestháls 14 geta sent okkur farmiðana sína í pósti.

Ef þú kýst að senda okkur miðana í pósti, þá er nauðsynlegt að fylgja þessum skrefum:

Stofnaðu aðgang að „Mínum síðum“ með símanúmeri eða netfangi.

Mínar Síður

Sendu farmiðana í pósti á heimilisfangið: Strætó bs. Hestháls 14, 110 Reykjavík
Nauðsynlegt er að hafa nafn, símanúmer eða netfang með í bréfinu. Við leggjum inneign á „veski“ viðkomandi símanúmers eða netfangs sem fylgir með bréfinu.
Hér er gert ráð fyrir að allir hafi rafræn skilríki og geti farð inn á Mínar síður.

Ég mun í næstu viku leggja fram eftirfarandi tillögur:

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að hægt verði að nota áfram pappírsmiða í strætó enda ekki allir sem eiga snjall/farsíma eða tölvur hvað þá að þeir treysti sér inn á Mínar síður

Lagt er til að útibú Strætó bs. verði víðar í borginni s.s. í Mjódd, á Hlemmi og jafnvel víðar til að aðstoða þá sem ekki treysta sér til að kaupa inneign í Klapp í gegnum síma eða fara inn á Mínar síður.

Greinargerð með tillögunni

Klapp nýja greiðslukerfi Strætó hefur valdið sumu fólki miklum vandræðum. Áður hefur fulltrúi Flokks fólksins bent á athugasemdir fatlaðs fólk um Klapp en einungis er hægt að skrá sig með rafrænum skilríkjum. Ákveðinn hópur fatlaðra og einnig eldra fólks, innflytjenda og hælisleitenda eru ekki með rafræn skilríki. Hælisleitendur sem dæmi geta ekki sótt um rafræn skilríki og það er hópur sem notar strætó mikið.

En er hópur fólks aðeins með peninga, seðla þótt þeim fari fækkandi. Fulltrúa Flokks fólksins finnst það ekki tímabært að loka á möguleikann að nota pappírsmiða. Útibú sem selja pappírsfarmiða þurfa að vera víðar um borgina svo fólk þurfi ekki að endasendast upp á Hestháls.

Fólk af erlendum bergi sem t.d. talar ekki tungumálið er margt hvert í tómu veseni núna eftir að þessu var breytt. Mikið af fólki, t.d. hælisleitendum býr í Breiðholti og er Mjóddin skiptistöð fyrir margt af þessu fólki. Þetta fólk á erfitt með að finna leið sína upp í Hestháls og á jafnvel ekki lengur miða til að fara í strætó. Nú er þeim bara sagt að skrá sig inn á Mínar síður, fólk sem hefur ekki möguleika á að fá rafræn skilríki, fólk sem ekki notar tölvur og þekkir ekki Mínar síður.

Mjóddin var og er besti staðurinn til að þjónusta strætófarþega með strætómiða eða kort.Einnig Hlemmur og spöngin

Það skýtur einnig skökku við þegar horft er upp á að þjónusta sem hér um ræðir hefur versnað en á sama tíma er meira lagt í rými og góða aðstöðu fyrir yfirstjórn Strætó bs.

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að Strætó bs. hugsi hlutina upp á nýtt og að þessu sinni út frá þjónustuþegum. Færa á þjónustuna til fólksins en ekki öfugt.

 


Bið getur kostað líf

 
Fyrsta þingverkið, óundurbúin fyrirspurn beint til mennta- og barnamálaráðherra.

Virðulegi forseti.

Spurningu minni er beint til hæstvirts mennta- og barnamálaráðherra, sem fulltrúa barnamála í ríkisstjórninni.

Biðlistar barna eftir fagþjónustu hjá stofnunum ríkisins eins og Þroska og hegðunarstöð, Greiningar- og ráðgjafarstöð og BUGL eru í sögulegu hámarki.
Meðalbiðtíminn er frá einu og upp í tvö ár eftir þeirri þjónustu sem um ræðir. Þúsundir barna eyða stórum hluta æsku sinnar á biðlistum. Sem dæmi biðu í lok árs 2021 77 börn eftir göngudeildarþjónustu á BUGL, 39 börn eftir Transteymi og 17 börn eftir Átröskunarteyminu. 95 af þessum börnum hafa beðið lengur en 3 mánuði.

Rannsóknir og lærðar skýrslu sýna niðurstöður um vaxandi vanlíðan barna. Það er mikið áhyggjuefni. Vaxandi vanlíðan barna var áhyggjuefni fyrir Covid en hefur nú versnað enn frekar.
Spurningin er þessi:
Hefur hæstvirtur mennta- og barnamálaráðherra látið kanna hvernig börnin á biðlistanum eru stödd tilfinninga- og félagslega, sérstaklega þau sem hafa beðið eftir fagþjónustu í marga mánuði eða jafnvel ár?

Hefur verið rætt við börnin sjálf sem eru á biðlistanum og foreldra þeirra um hvernig þau eru að höndla biðina?

Ef ekki, hefur ráðherra áhuga á að ráðast í slíka úttekt?

Rannsóknir hafa ítrekað sýnt að vandi barna sem ekki fá viðhlítandi sálfræði- og geðlæknaþjónustu er líklegur til að vaxa. Barn sem þarf að bíða lengi eftir nauðsynlegri þjónustu vegna andlegrar vanlíðunar er í mun meiri áhættu með að grípa til örþrifaráða eins og sjálfsskaða og sjálfsvígshugsana. Á meðan á langri bið stendur getur mál sem flokkað er „að þoli bið“ orðið að bráðamáli. Fullvíst er að þegar mál er orðið að bráðamáli þá hefur vandinn átt sér aðdraganda og fengið að krauma á meðan á bið eftir þjónustu stendur. Bið getur kostað líf og hefur jafnvel gert það.
mynd alþingi 1 1

Knarrarvogurinn 460 milljónir

Knarrarvogur 2 rifið en fyrst keypt fyrir 460 milljónir

Bókun Flokks fólksins við liðnum Knarrarvogur 2 - kaup á fasteign. Knarrarvogur 2

Að eyða 460 milljónum til að kaupa hús til niðurrifs fyrir borgarlínu þegar fyrirtækið ,,Betri samgöngur ohf." á að fjármagna Borgarlínuverkefnið hlýtur að vera á gráu svæði vægast sagt og þar að auki virðist verðið fyrir niðurrifið vera mjög hátt. Fulltrúa Flokks fólksins finnst þetta ekki ganga upp. 

Það skýtur skökku við að Reykjavíkurborg sé að verja hálfum milljarði af skattfé borgarbúa í að kaupa húsnæði til niðurrifs til að búa til rými fyrir borgarlínu. Fyrirliggjandi er verðmat tveggja aðila sem er langt fyrir neðan það kaupverð sem liggur fyrir í gögnum.  Hér er því verið að greiða yfirverð fyrir eign sem á að rífa undir borgarlínu.

 


Lóðarsamningar Reykjavíkurborgar og olíufélaganna

Lóðaleigusamningar olíufélaganna var til umræðu á fundi borgarráðs í morgun.
Samninganefndin mætti.

Um var að ræða 4 mál:
Minnisblað borgarstjóra, Rammasamkomulag við Atlantsolíu og Orkunnar og Samkomulag við Löður vegna uppbyggingar á lóðinni Lambhagavegi 12.
Lóðirnar eru 16 en samningarnir mun fleiri sem eru undir. 

Hér koma bókanir fulltrúa Flokks fólksins í þessum málum.

 
Minnisblað borgarstjóra

Markmiðið er sannarlega að fækka bensínstöðvum. Enginn lóðarleigjandi bensínstöðvar vill halda áfram að reyna að selja bensín ef ekki er lengur gróði af því.
Vegna þessa er samningsstaða borgarinnar sterk ef breyta á lóðum sem eru nú undir bensínstöðvum í lóðir fyrir íbúðarhús. Það sem þegar hefur komið fram bendir til þess að borgin nýti þessa stöðu illa. Of mikil áhersla er lögð á kostnað borgarinnar svo sem fullyrðingar um himin háan kostnað til að gera lóðirnar byggingarhæfar. Slíkar fullyrðingar bæta ekki samningsstöðu. Hvergi kemur skýrt fram hver á að hreinsa lóðina þegar henni er skilað. Á t.d. að skila henni án eiturefna? Hvergi hefur heldur verið reiknað út hver er kostnaður af hreinsun? Hann þarf að áætla með rökum. Einhverjir samningar hafa nýlega runnið út eða eru að renna út. Í þeim tilfellum er samningsstaðan góð og þá ætti að bíða nema eitthvað annað réttlæti að ganga þurfi strax til samninga.
Út frá þeim upplýsingum sem hafa fengist má draga þá ályktun að borgin sé að semja af sér. Sjálfsagt hefði verið að lóðarhafa greiddu til Reykjavíkurborgar vegna innviða og byggingarréttar. Samkvæmt því sem þegar hefur komið fram um þessa samninga má ætla að núverandi lóðarhöfum séu færðir verulegar fjárupphæðir.


Rammasamkomulag vegna fyrirhugaðrar breytinga á aðstöðu eldsneytisstöðva Atlandsolíu og Orkunnar

Enginn lóðarleigjandi bensínstöðvar vill halda áfram að selja bensín ef ekki er lengur gróði af því. Vegna þessa er samningsstaða borgarinnar sterk ef breyta á bensínstöðvalóðum í lóðir fyrir íbúðarhús.
Allir þessir rammasamningar eru eins og skiptir engu hvenær eða hvort þeir hafi runnið út. Vel kann að vera að rétt sé að gera samkomulag sem þetta í þeim tilfellum þar sem samningar eru í gildi til margra ára í viðbót Of mikil áhersla er lögð á kostnað borgarinnar svo sem fullyrðingar um himin háan kostnað að gera lóðirnar byggingarhæfar. Slíkar fullyrðingar bæta ekki samningsstöðuna. Fram kemur að olíufélögin hefðu sagt að það kostaði 100 milljónir að hreinsa t.d. Fellsmúlann. Það eru einu upplýsingarnar um hvað hreinsun mögulega kostar.
Út frá þeim upplýsingum sem hafa fengist má draga þá ályktun að borgin sé að semja af sér. Lóðarhafar greiða t.d. ​ekki sérstaklega til Reykjavíkurborgar vegna innviða og byggingarréttar. Ætla má að núverandi lóðarhöfum séu færðir verulegar fjárupphæðir frá þeim sem koma til með að kaupa fasteignir á þessum lóðum. Þessi líklegi hagnaður á að falla borginni í skaut. Fulltrúi Flokks fólksins er á því að fá þarf úr því skorið hvort borgin hafi samið af sér.


Samkomulag við Atlantsolíu vegna Háaleitisbrautar 12

Samkomulag við Atlantsolíu vegna fyrirhugaðra uppbyggingar á lóðinni Háaleitisbraut 12 í Reykjavík. Þetta samkomulag er að sama meiði og hin. Nýtingu lóðarinnar verði breytt, núverandi mannvirki rifin og á henni verði reistar íbúðir í bland við
atvinnuhúsnæði. Lagt er upp með að í nýju deiliskipulagi verði valkvætt af hálfu lóðarhafa hvort á efri hæðum verði íbúðar- og/eða atvinnuhúsnæði. Fram kemur að vegna breyttrar hagnýtingar og aukins byggingarmagns á lóðinni mun lóðarhafi ekki greiða sérstaklega
til Reykjavíkurborgar vegna innviða og byggingarréttar í samræmi við stefnu Reykjavíkurborgar um fækkun bensínstöðva. Hér er verið að færa Atlantsolíu háar upphæðir. Af hverju er félaginu ekki gert að greiða innviðagjöld.

 
Samkomulag við Löður vegna uppbyggingar

Í þessu samkomulagi mun lóðarhafi láta vinna nýja deiliskipulagstillögu fyrir lóðina Lambahagvegur 12. Byggja á upp á lóðinni bílaþvottastöð og eldsneytisdælur en ekki íbúðarhús. Þetta samkomulag er því ekki að sama meiði og hin þar sem olíufélögin fá að byggja hús á lóðunum ýmist með því skilyrði að fækka dælum eða hætta með þær alfarið án tillits til hvort samningar hafi runnið út, séu um það bil að renna út eða séu í gildi til næstu ára.

Koma svo! Það er einfaldlega svo mikið í húfi!!

Það var sannkallað ánægjuefni þegar fulltrúi í ungmennaráði Árbæjar og Holta hafði samband við mig. Erindið var að ungmennaráðið ætlaði að leggja fram tillögu um betra aðgengi að sálfræðiþjónustu í grunnskólum Reykjavíkur á fundi borgarstjórnar með ungmennum 8. febrúar.

Mér var bæði ljúft og skylt að senda þeim efni og segja þeim frá baráttu minni með málið í borgarstjórn. Árum saman hefur sálfræðingum ekki fjölgað í skólum þrátt fyrir að börnum hafi fjölgað.Enda þótt sálfræðingar séu hluti af þverfaglegu teymi skólaþjónustunnar ættu þeir engu að síður að hafa aðsetur í skólunum eins og áður var.

Fyrir börnin og foreldrana skiptir sýnileiki sálfræðinga og aðgengi að þeim miklu máli. Börnin og foreldrar þeirra þurfa að þekkja skólasálfræðinginn sinn, vita hvar hann er að finna og vita að þau geti leitað til hans með skömmum fyrirvara og jafnvel fyrirvaralaust.Með því að sálfræðingar hafi aðsetur í skólunum geta þeir unnið þéttar með námsráðgjafa og skólahjúkrunarfræðingi.

Saman geta þessir fagaðilar myndað öflugt teymi sem sinnir forvarnarstarfi og verið til taks fyrir börnin, starfsfólkið og foreldrana allt eftir atvikum og þörfum. Barn sem þarf að bíða lengi eftir þjónustu fagaðila eða fær ekki aðstoð við hæfi er því miður í meiri hættu á að grípa til örþrifaráða

Sorglega langur biðlisti

Umsóknum um þjónustu í skólum hefur fjölgað gríðarlega frá 2020. Langur biðlisti er eftir fagþjónustu skólaþjónustunnar og hefur reyndar verið árum saman en fyrir COVID stefndi í sögulegt hámark hans. Nú bíða 1.804 börn eftir aðstoð fagfólks skóla. Bæst hafa um 200 börn á listann á örstuttum tíma.

Ekki hefur verið brugðist við þessari fjölgun nema að litlu leyti. Sálfræðiþjónusta og þjónusta talmeinafræðinga er ekki í forgangi hjá meirihlutanum í borgarstjórn. Það viðbótarfjármagn sem veitt hefur verið í málaflokkinn á árinu er dropi í hafið og sér varla högg á vatni í stóra samhenginu.

Naumt er skammtað og eins mikið og meirihlutinn segir að þetta sé hið versta mál er ekki verið að gera nóg til að eyða biðlistum. Á meðan bíða börnin með ófyrirséðum afleiðingum. Fulltrúi Flokks fólksins fagnaði því vissulega þegar ákveðið var að auka fjárheimildir til velferðarsviðs 2022 um 100 milljónir vegna tímabundinnar fjölgunar sérfræðinga til að vinna úr áhrifum COVID-19 á börn og unglinga.En þetta er ekki há upphæð og mun varla duga til að taka obbann af biðlistakúfnum.

Meirihlutinn horfir grannt í krónuna þegar kemur að því að fjárfesta í andlegri heilsu barna en er alveg til í að setja háar fjárhæðir í alls kyns „annað“ jafnvel eitthvað sem enginn er að biðja um.

Brýnna er en orð fá lýst að ganga í þetta verkefni enda hefur hver skýrslan á fætur annarri staðfest að andleg líðan unglinga fari versnandi.

Skylda borgarinnar er að tryggja öllum börnum sem þess þurfa biðlistalaust aðgengi að skólasálfræðingum. Við eigum að geta gert forgangskröfu um að börn hafi gott aðgengi að sálfræðingum – það er einfaldlega svo mikið í húfi! Koma svo!

Grein birt í Fréttablaðinu 9. febrúar 2022


Efri árin eru líka árin mín

Ég hef sem borgarfulltrúi Flokks fólksins í borgarstjórn barist fyrir, á þessu kjörtímabili, að Reykjavíkurborg setji hagsmuni aldraðra í forgang og hafi frumkvæði að gagngerum umbótum á lífsskilyrðum þeirra og aðstæðum í Reykjavík.

Eitt af kosningaloforðum Flokks fólksins fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar var að stofnað yrði embætti hagsmunafulltrúa aldraðra í Reykjavík. Meginhlutverk hans yrði að skoða málefni eldri borgara og halda utan um hagsmuni þeirra, fylgjast með aðhlynningu og aðbúnaði. Hann myndi kortleggja stöðuna í húsnæðismálum aldraðra, heimahjúkrun og dægradvöl og fylgjast með framkvæmd heimaþjónustu. Tillagan var lögð fram í tvígang en hafnað.

Ég el enn þá von í brjósti að í Reykjavík verði komið á embætti hagsmunafulltrúa aldraðra sem geti lagt sjálfstætt mat á það hvort borgaryfirvöld uppfylli skyldur sínar gagnvart eldra fólki. Auk þess myndi hagsmunafulltrúi geta haft frumkvæðiseftirlit með högum eldri borgara t.d. til að koma í veg fyrir félagslega einangrun þeirra, næringarskort og almennt bágan aðbúnað.

 

Eldumst heima

Kannanir sýna að flestir vilja búa sem lengst heima hjá sér og ganga hugmyndir nútímans út á að veita þeim sem vilja og geta það þann möguleika. Ýmist vill fólk halda áfram að búa á sínu gamla heimili eða flytjast í sjálfstæða búsetu sem er hannað með þjónustuþarfir þessa aldurshóps að leiðarljósi sem geta verið ólíkar.


Nauðsynlegt er að fjölga þjónustuþáttum til þeirra sem búa á sínu eigin heimili og dýpka aðra þjónustuþætti sem fyrir eru til að hægt sé að auka líkur á heimaveru sem lengst. Einnig er mikilvægt að bjóða þeim sem búa heima á sínum efri árum upp á sálfélagslegan stuðning til að draga úr líkum á einmanaleika og samhliða virkja fjölþættar heilsueflandi aðgerðir. Aðstæður fólks eru mismunandi eins og gengur. Sumir hafa misst maka sína og ekki eru allir sem eiga fjölskyldu sem getur hlaupið undir bagga eða stytt stundir.


Flokkur fólksins hefur lagt það til í borgarstjórn að svæði í borginni verði skipulögð þar sem sérstök áhersla er lögð á þarfir eldra fólks, svipað og í byggðinni við Borgarspítalann sem er afar vinsæl og vel heppnuð. Svæðin verði skilgreind og hugsuð út frá þörfum þessa aldursskeiðs og með miðlægum þjónustukjarna.

Umfram allt má ekki setja öll eggin í eina körfu í búsetumálum. Fleiri tegundir úrræða þurfa að vera til staðar í samræmi við aldursþróun þjóðarinnar.


Hjúkrunarrými fyrir þá sem það þurfa

Mikill skortur er á plássum á hjúkrunarheimilum fyrir eldra fólk sem þarf fulla þjónustu og mikla umönnun. Nauðsynlegt er að ráðast í stórátak í fjölgun hjúkrunarrýma. Efri árin eiga að vera gæðaár, ár sem ekki eiga að einkennast eða litast af kvíða og óvissu. Þeir eru ófáir sem hafa þurft að dvelja á Landspítala vikum eða mánuðum saman löngu eftir að meðferð er lokið vegna þess að ekkert annað úrræði er til og þeir sem gætu farið heim geta það ekki vegna manneklu í heimaþjónustu. Einnig er löng bið eftir hvíldarinnlögn.

Eldra fólk er samfélagslegt verðmæti

Flokkur fólksins telur löngu tímabært að skera upp herör gegn aldursfordómum hjá Reykjavíkurborg, ekki síst þegar fullfrísku eldra fólki er beinlínis hent út af vinnumarkaði við 67-70 ára aldur hjá borginni þó að það hafi bæði góða starfsgetu og löngun til að vinna lengur. Hér er verið að sóa samfélagslegum verðmætum. Reykjavíkurborg á að hafa frumkvæði að gagngerri viðhorfsbreytingu þar sem eldra fólk er metið að verðleikum. Með hækkandi aldri eykst viska og yfirvegun.

Samráð og samvinna

Hafa á fullt samráð og samvinnu við fólkið í borginni þegar verið er að taka ákvarðanir um það sjálft og umhverfi þess. Velferðaryfirvöld ættu ávallt að hafa fullt samráð við þjónustuþega og hugsa hvert skref út frá þörfum þeirra. Hlusta þarf á þjónustuþegana og aðstandendur þeirra. Mannlegi þátturinn má aldrei gleymast þegar verið er að skipuleggja þjónustu fyrir borgarana. Án borgarbúa er engin borg.


Bruðlið burt úr borginni

lokkur fólksins kallar eftir að borin sé meiri virðing fyrir verðmætum í borginni. Margar fjárfestingar borgarinnar eru í senn ómarkvissar og óhagkvæmar og staðið er í samkeppnisrekstri sem ætti að vera utan verkahrings borgarinnar.

Flokkur fólksins vonar að á næsta kjörtímabili verði við stjórnvölinn meirihluti sem er tilbúinn til að eyða biðlistum, tryggja börnum fagþjónustu, taka á fátæktarvandanum og vinna í málefnum öryrkja og eldri borgara. Auka þarf jöfnuð, losa um höft og frelsisskerðingar og tryggja réttlæti fyrir alla samfélagshópa.

Vinna á hverfaskipulag með fólkinu og að samgöngumálum með þarfir allra í huga. Frumskilyrði er að borin sé virðing fyrir fjármunum borgarbúa en þó fyrst og fremst virðing fyrir fólkinu sjálfu og þörfum þess.

SORPA ekki einsdæmi

SORPA var nýlega dæmd til að greiða Íslenskum aðalverktökum tæpar 90 m.kr. vegna mistaka við útboð byggingar á gas- og jarðgerðarstöð á Álfsnesi, GAJA.

GAJA er ónothæf og óljóst hvenær hún verður virk. SORPA hefur hækkað gjaldskrána úr öllu hófi til að mæta dýrkeyptum mistökum. Sá er hængur á stjórn SORPU að þar er ekki gerð nein krafa um að stjórnarmenn hafi reynslu, þekkingu eða skilning á þessum málum.

Vert er að skoða hvort röð mistaka hjá SORPU megi mögulega setja á reikning meints þekkingarleysis stjórnarmanna?

Stafræn sóun

Ég hef gagnrýnt stafræna sóun í eitt ár. Eyðsla fjármuna er í engu samræmi við tilbúnar afurðir. Enn er beðið eftir nauðsynlegum stafrænum lausnum sem ýmist eru enn á tilrauna- eða þróunarstigi, eða á byrjunarstigi innleiðingar löngu eftir áætlun. Fulltrúi Flokks fólksins hefur beðið innri endurskoðun að fara ofan í kjölinn á þessu máli.

Hægt er að reka borgina betur. Það er eins og það gleymist að verið er að sýsla með skattfé borgarbúa. Flokkur fólksins lagði til að fenginn yrði ráðgjafi til að fara yfir rekstur helstu deilda, með það að markmiði að hagræða. Tillagan var felld


Röð mistaka kemur illa við pyngju borgarbúa

Flokkur fólksins hefur ítrekað gagnrýnt meirihluta borgarstjórnar fyrir bruðl með fjármuni Reykvíkinga og kallað eftir nauðsynlegri virðingu fyrir verðmætum, aga og ráðdeild. Borgarbáknið hefur þanist út, margar fjárfestingar eru í senn ómarkvissar og óhagkvæmar og staðið er í samkeppnisrekstri utan verkahrings borgarinnar.

Útboðsklúður SORPU BS.

Hjá  SORPU reka hver mistökin önnur á kjörtímabilinu, þar sem enn og aftur þarf að greiða skaðabætur fyrir mistök stjórnenda. SORPA er dæmd til að greiða Íslenskum aðalverktökum tæpar 90 milljónir króna vegna mistaka við útboð byggingar á gas- og jarðgerðarstöð á Álfsnesi. SORPA braut lög um opinber innkaup þegar fyrirtækið samþykkti að ganga til samninga við Ístak. Stjórn SORPU ber á þessu ábyrgð og þarf að axla hana. Sá er hængur á stjórn SORPU að þar er ekki gerð nein krafa um að stjórnarmenn hafi reynslu eða þekkingu á þessum málum. Því spyr fulltrúi Flokks fólksins hvort þetta meinta kunnáttuleysi tengist röð mistaka sem átt hefur sér stað hjá fyrirtækinu allt kjörtímabilið?

GAJU ævintýrið ofl.

GAJA, gas- og jarðgerðarstöð er ónothæf og óljóst hvenær hún verður virk. SORPA hefur hækkað gjaldskrána úr öllu hófi og þurft að greiða fyrrum framkvæmdastjóra háar skaðabætur. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til stjórnarformaður, sem nú er fulltrúi Reykjavíkurborgar, sé valinn að nýju og fenginn verði aðili sem hefur nauðsynlega sérmenntun/þekkingu á málefnum og verkefnum SORPU, haldgóða  reynslu en umfram allt skilning á þessum málum. Finna þarf aðila sem kann að hlusta á ráðleggingar annarra, varnarorð ef því er að skipta og beri gæfu til að sækja nauðsynlega þekkingu sem er fyrir hendi meðal annarra þjóða sem ýmist hafa verið farsælar í þessum málum eða hafa þurft að súpa seyði af mistökum. Það er nefnilega hagkvæmara að læra af mistökum annarra en af ítrekuðum eigin mistökum. Hjá SORPU hefur verið gerð röð mistaka sem koma nú illilega niður á borgarbúum. Vert er að skoða að Reykjavíkurborg stígi út úr samkeppnisrekstri sem þessum og bjóði hann þess í stað út. Ekki er að sjá að þessi rekstur gangi vel og íbúum Reykjavíkur hagkvæmur, undir stjórn b.s. kerfisins.

Stafræn sóun

Fulltrúi Flokks fólksins hefur í heilt ár staðið vaktina við að fylgjast með innleiðingu stafrænna lausna hjá Reykjavíkurborg. Enn er beðið eftir nauðsynlegum stafrænum lausnum en samt hafa milljarðar verið settir í ráðgjöf hjá erlendum fyrirtækjum, tilraunir og þróun á lausnum sem flest stór fyrirtæki og minni sveitarfélög eru jafnvel löngu komin með. Það er með öðrum orðum hamast við að finna upp hjólið og greitt rausnarlega fyrir með peningum Reykvíkinga.

Fjölda starfsmanna hefur verið sagt upp störfum og í staðinn hefur verkefnum verið útvistað eða aðrir starfsmenn ráðnir sem áður voru á einkamarkaði. Ekki hefur verið sýnt fram á hagkvæmni eða ávinning af þessum  uppsögnum. Þróunar- og tilraunastarfsemi hefur verið í gangi eins og Borgin sé hugbúnaðarfyrirtæki á einkamarkaði sem æðir áfram á ævintýralegri vegferð, spreðandi fjármunum eigenda sinna á báðar hendur.

Hvar eru svo allar afurðirnar? Fulltrúi Flokks fólksins reynir eftir bestu getu að fylgjast með og vakta meðhöndlun fjármagns borgarbúa sem er hans skylda. Fleiri hafa tekið undir gagnrýni Flokks fólksins og spurt áleitinna spurninga. Flokkur fólksins hefur beðið innri endurskoðun að fara ofan í kjölinn á þessu alvarlega máli.

Allt eru þetta mál sem að mati okkar í Flokki fólksins er  hægt að taka á og með því fara betur með skattfé okkar. Lögð hefur verið fram tillaga um að fá ráðgjafa til að fara yfir rekstur helstu deilda til að kanna hvort að ekki megi hagræða en núverandi meirihluti hefur hafnað því. Tillagan var felld.

Úrbætur á næsta kjörtímabili

Flokkur fólksins elur þá von að á næsta kjörtímabili verði við stjórnvölinn meirihluti sem er tilbúinn að bretta upp ermar og taka til hendinni. Eyða biðlistum, tryggja börnum og unglingum næga fagþjónustu, taka á fátæktarvandanum og vinna í málefnum öryrkja og eldri borgara.

Við í Flokki fólksins viljum auka jöfnuð, losa um höft og frelsisskerðingar og köllum eftir réttlæti fyrir alla samfélagshópa. Við viljum vinna hverfaskipulag með fólkinu og vinna í samgöngumálum með þarfir allra í huga hvernig svo sem þeir kjósa að fara um borgina.

Til að ná fram endurbótum sem þjóna hagsmunum borgarbúa er frumskilyrði að borin sé virðing fyrir fjármunum þeirra, en þó fyrst og fremst virðing fyrir fólkinu sjálfu og þörfum þess.

Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins í borgarstjórn
Birt á visi.is 24. janúar 2022

 peningarmynd 1


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband