Samtal við barnið lykilatriði

Þjónusta við börn hefur vissulega verið í þróun í Reykjavík síðustu misseri og einhverjar nýjungar í þeim efnum litið dagsins ljós. Biðlisti barna eftir sálfræðiþjónustu skólasálfræðinga hefur þó aldrei verið eins langur og nú. Á þriðja þúsund börn bíða ýmist eftir fyrstu eða frekari þjónustu, þá helst sálfræðinga og talmeinafræðinga. Þessi sami listi taldi 400 börn árið 2018.

En það eru aðrar áhyggjur sem mig langar að reifa hér. Með tilkomu verkefnisins Betri borg fyrir börn stóð til að færa fagfólk skólanna meira í nærumhverfi barnanna þ.e. í skólana. Það hefur ekki orðið raunin. Sálfræðingar skólanna eru með starfsstöð á miðstöðvum en með ákveðna viðveru í skólunum. Það sem þó hefur færst meira út í skólana er stuðningur við kennara og starfsfólk með tilkomu svokallaðra lausnateyma. Því ber sannarlega að fagna.

Ekki nóg

Það er mín skoðun sem sérfræðingur í klínískri sálfræði að brýnt er að barnið sjálft fái tækifæri til að ræða við fagaðila eins og aldur og þroski þess leyfir, með eða án foreldra eftir atvikum. Í samtali barns og sálfræðings hlustar sálfræðingurinn ekki einvörðungu á orð barnsins heldur er með einbeitingu á fjölmörgum öðrum atriðum í fari og háttum barnsins. Fagaðili horfir á líkamsmál og hlustar eftir raddblæ og augna- og svipbrigðum til að lesa og meta líðan, kvíða og áhyggjustig barnsins. Eitthvað sem barn segir getur vakið sálfræðinginn til meðvitundar um að það þurfi að skoða málið nánar. Það getur leitt til þess að barn opni sig enn frekar um hluti sem ella hefðu ekki komið upp á yfirborðið. Það getur skipt sköpum að sjónarhorn og vinkill barnsins af eigin máli komi fram milliliðalaust ef ske kynni að upplifun þess er önnur en foreldranna eða kennara. Mál barns er líklegra til að fá úrlausn sé því gefið tækifæri til að tjá sig sjálft frá innstu hjartarótum við fagaðila frekar en að einungis sé rætt við aðstandendur eða kennara. Mikilvægt er að gera hvort tveggja. Ég óttast að bilið milli nemenda og sálfræðinga sé að breikka enn frekar í skólaþjónustu Reykjavíkurborgar. Eins nauðsynlegt og það er að veita skólum og foreldrum ríkan og tryggan stuðning í málefnum barna má aldrei gleyma börnunum sjálfum.

 

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir, sálfræðingur og oddviti Flokks fólksins í Reykjavík

 Pistill birtur í Fréttablaðinu 30. mars 2023


Strætó, þjóðarhöllin og leikskólamálin

Fundi borgarráðs er lokið og lagði Flokkur fólksins fram nokkur ný mál. Vegna fjölda ábendinga um ýmislegt sem má betur fara hjá Strætó bs., lagði ég fram allmargar fyrirspurnir. Einnig mál er lúta að nýtingu Þjóðarhallar og loks hver verða viðbrögð meirihlutans við neyðarástandinu í leikskólamálum

Mál 1
Óskað er eftir upplýsingum um fyrirkomulag afhendingar skiptimiða í strætó.
Ábendingar hafa borist að ekki sé samræmi í skiptamiðaafhendingu, að ekki sé hægt að treysta því að fá skiptimiða þegar farþegi telur að hann hafi rétt á slíkum miða.

Mál 2

Óskað er svara um hvernig upplýsingum um strætóferðir og fleira er komið til notenda strætó hvað varðar reglur almennt séð þar sem sumar reglur er ekki að finna á heimasíðu Strætó bs. (netinu). Hér er t.d. átt við upplýsingar um leiðir sem dæmi hvaða bílar aki niður í miðbæ frá Hlemmi og hvar þeir vagnar bíða á Hlemmi (Hlemmur hefur fjórar hliðar og svo eru komnar þarna aukabiðstöðvar til hliðar við hinar).

Mál 3

Fyrirspurn um hvernig farið er með persónuupplýsingar hjá Strætó bs. sem kallar eftir persónuupplýsingum þegar nemar kaupa svokölluð nemakort s.s. „að gefa strætó leyfi til að fá staðfestingu á virku námi“ nafngreinds einstaklings.

Mál 4

Einnig er lögð fram tillaga um að borgarráð samþykki að beina því til Strætó að það verði gert að skilyrði að bílstjórar Strætó sæki íslenskunámskeið og geti bjargað sér á íslensku og skilji málið nógu vel til að geta leiðbeint farþegum áður en þeir hefji störf sem strætóbílstjórar. Upp hafa komið samskiptavandamál í vögnunum vegna þess að bílstjóri hvorki skilur íslensku né jafnvel ensku.


Þjóðarhöllin, lögð fram tvö mál.

Mál 5

Flokkur fólksins óskar upplýsinga um hvort fjármögnun Laugardalshallarinnar verði breytt þegar Þjóðarhöll er risin, þannig að hún verði þá ekki í útleigu heldur aðeins nýtt fyrir skólana í dalnum og íþróttafélögin?
Aðstöðuleysi hefur háð félögunum í Laugardal um langa hríð en borgarstjóri hefur sagt að með nýrri þjóðarhöll, sem stefnan er að rísi í Laugardal árið 2025, muni Ármann og Þróttur geta haft Laugardalshöll út af fyrir sig. Þau muni svo hafa aðgang að þjóðarhöll einnig. Þetta hefur komið fram í fjölmiðlum í viðtali við borgarstjóra


Meira um nýtingu Þjóðarhallar

Mál 6

Meirihlutinn samþykkti á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 15. mars sl. að tillaga að breytingu á deiliskipulagi vegna Þjóðarhallar í Laugardal fari í auglýsingu.
Miklar áhyggjur eru af samnýtingu Þjóðarhallar og finnst íþróttafélögum, skólayfirvöldum, foreldrum og börnum mikil óvissa um hvort þau fái trygga notkun/aðstöðu af höllinni fyrir sína starfsemi, lögbundna (skólaíþróttir) sem aðra.
Flokkur fólksins óskar eftir svörum við eftirfarandi spurningum:

Munu nemendur og félög Laugardalsins fá trygga íþrótta- og æfingaaðstöðu í Þjóðarhöllinni?
Munu Ármann og Þróttur fá trygga aðstöðu í Þjóðarhöllinni?

Loks eru það leikskólamálin

Mál 7
Fyrirspurn Flokks fólksins um viðbrögð við neyðarástandi í leikskólamálum
Neyðarástand ríkir í leikskólamálum Reykjavíkurborgar. Loforð um leikskólapláss hafa ítrekað verið svikin. Leikskólaplássum hefur fækkað. Til stendur að loka alls 25 af 67 leikskólum næsta skólaár. Foreldrar eru í áfalli og miklir erfiðleikar blasa við þeim.
Fulltrúi Flokks fólksins óskar upplýsingar um hvernig meirihlutinn hyggst bregðast við þessu ófremdarástandi?


Kári blásinn af

Nú hefur Sorpa viðurkennt mistök við byggingu flokkunarstöðvar í Álfsnesi. Framkvæmdarstjóri segir að mistök hafi verið gerð þegar ákveðið var að kaupa flokkunarkerfi sem vitað var að myndi ekki skila af sér nothæfri moltu. Takið eftir! „vitað var að flokkunarkerfið myndi ekki skila af sér nothæfri moltu“. Hver kaupir rándýrt flokkunarkerfi sem vitað er að skilar ekki nothæfu hráefni til moltugerðar?  Það gerði Sorpa.

Milljarður er farinn í súginn hjá Sorpu. Reyndar hafði stjórn Sorpu mikla trú á þessu flokkunarkerfi í byrjun. Bundnar voru einnig væntingar til vindflokkara sem Sorpa fjárfesti í. Vindflokkarinn er sérstakur vélbúnaður sem fékk nafnið Kári og átti hann að blása léttu plasti frá þyngra lífrænu efni. Þetta gekk reyndar aldrei almennilega og ef rétt er munað bilaði Kári. Nú hefur Kári verið blásinn endanlega af og einnig móttöku- og flokkunarstöðin í Álfsnesi eins og hún leggur sig. Skella á í lás því aldrei mun koma nothæf molta út úr framkvæmdinni og eru mistök viðurkennd.

 

Stjórn hlustaði ekki á varnarorð

Við þessu var margsinnis varað m.a. af borgarfulltrúa Flokks fólksins sem fékk fátt annað en bágt fyrir frá meirihlutanum og fulltrúa borgarinnar í stjórn Sorpu. Hér má vísa í eina af mörgum bókunum Flokks fólksins frá 2021 þar sem varað er við að aldrei komi nothæf molta út úr þessu kerfi:

„GAJU var lýst sem töfrabragði, átti að geta tekið blandað sorp og gert úr því hágæða moltu. Fyrir utan Kára átti að veiða málma úr sorpinu með segli, en aðeins járni er hægt að ná með segli. Stjórn Sorpu hlustaði ekki á varnarorð. Niðurstaðan varð plastmenguð molta með málmum og gleri, mengun langt yfir viðmiði. Sorpa hindraði aðgengi að gögnum. Sorpa neitaði að afhenda sýni. Gögn voru loks afhent sem sýndu að 1.7% af moltu var plast, 2 mm eða stærra. Viðmiðið á að vera 0.5%. Moltan var með öllu ónothæf. GAJU ævintýrið, þessi hluti alla vega var bara draumsýn sem kostað hefur borgarbúa og aðra eigendur Sorpu ómælt fé“

Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins í borgarstjórn

Birt í Fréttablaðinu 9. mars 2023


Ósmekklegar ávirðingar gagnvart borgarskjalaverði í skýrslu KPMG

Nú verður Borgarskjalasafn lagt niður á morgun á fundi borgarstjórnar og til grundvallar er skýrsla KPMG. Sagt er að gjörningurinn sé til að spara. Það sjá allir í hendi sér hvílíkt kjaftæði það er.


Skýrslan er með eindæmum. Það er alveg á hreinu að þegar gagnrýni og ávirðingar á einhvern starfsmann eða einhverja stofnun í skýrslu sem þessari eru settar fram án þess að gefa viðkomandi aðila tækifæri til að tjá sig um málið áður þá er verið að brjóta stjórnsýslulög. Andmælarétturinn er skýr. Á þennan hátt er hægt að segja hvað sem er um hvern sem er. Flokki fólksins í borginni finnst það ófagmannlegt í skýrslu sem þessari að birta slíkar ávirðingar án þess að andmælaréttur viðkomandi sé virtur. Hver er kominn til með að segja að þessar ávirðingar séu á rökum reistar?


Gjörningurinn er sagður sparnaður


Rekstur Borgarskjalasafns kostar nálægt 7,5% af þeim fjármunum sem hafa runnið til starfsemi þjónustu- og nýsköpunarsviðs ef tekið er nærtækt samanburðardæmi, á hverju ári að undanförnu (200 milljónir á móti þremur milljörðum).


Hvað fjármuni varðar þá er enginn vandi að fá út háar fjárhæðir ef nógu mörgum árum er hrært saman. Í raun kostar rekstur Borgarskjalasafns ekki mikið. Laun undir 100 milljónum króna á ári og annar kostnaður um 100 milljónir á ári.
Einhverjir sjö milljarðar eru fundnir út með því að leggja saman einhver sjö ár ásamt fjárfestingarkostnaði sem ekki er greindur frekar á neinn hátt í skýrslu KPMG.
Ekkert af þessu var borið undir borgarskjalavörð.

Allt þetta ferli þarf að rannsaka. Flokkur fólksins hefur ítrekað óskað eftir að gerð verði úttekt og stjórnsýsluskoðun á starfsemi Þjónustu- og nýsköpunarsviðs og hvernig þeim gríðarlegu peningum, sem hafa runnið til sviðsins á undanförnum árum, hefur verið varið. Nú liggur fyrir að Innri endurskoðun hefur á áætlun sinni úttekt á stafrænni innleiðingu og er fyrirhugað að klára hana á þessu ári.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband