Mig langar að læra á píanó

Í september 2019 lagði ég fram tillögu um að að stofnaðar verði skólahljómsveitir í öllum 10 hverfum borgarinnar. Í dag eru aðeins fjórar skólahljómsveitir í Reykjavík. Á sjöunda hundrað nemendur stunda nám í þessum hljómsveitum. Nemendur í grunnskólum borgarinnar eru hins vegar tæp 15 þúsund. Vel má því gera því skóna að mun fleiri nemendur hefðu áhuga á að sækja um aðild að skólahljómsveit. Eins og staðan er í dag er ekki boðið upp á tónlistarkennslu í öllum grunnskólum. En engin viðbrögð hafa borist enn við þessari tillögu þótt liðið sé á annað ár.

Í ljósi nýútkominnar skýrslu stýrihóps borgarinnar um framtíð tónlistarnáms í Reykjavík ákvað ég að leggja fram þessa tillögu aftur. Reyndar hafði mig minnt að hún hafi verið felld á sínum tíma en það reyndist víst ekki vera. 

Ástæða fyrir að ég vil fá þessa tillögu afgreidda með rökum er að í vinnu stýrihópsins um uppbygging tónlistarkennslu í grunnskólum fólst ekki að skoða samhliða leiðir til að draga úr ójöfnuði þegar kemur að tækifærum til tónlistarnáms.

Ef tekið er dæmi þá standa börn ekki jafnfætis þegar kemur t.d. að því að læra á hljóðfæri eins og píanó. 
Þegar kemur að tónlistarnámi á ójöfnuður rætur sínar að rekja til bágs efnahags foreldra.

Ef horft er til skólahljómsveita þá eru þær mikilvæg mótvægisaðgerð til að jafna tækifæri barna til tónlistarnáms. Á meðan grunnskólar bjóða ekki upp á kennslu á hljóðfæri eins og píanó þá eru það aðeins börn efnameiri foreldra sem fá það tækifæri sýni þau áhuga á píanónámi. Þátttaka í skólahljómsveit gæti verið valmöguleiki þannig að þeir sem hafa áhuga á að ganga í skólahljómsveit fái þar tækifæri til að læra á hin ýmsu hljóðfæri, stór og smá. Með því er dregið úr ójöfnuði og mismunun á  grundvelli efnahags foreldra þegar kemur að tækifæri til að velja sér hljóðfæri til að læra á.


Nám í einkareknum tónlistarskóla er dýrt. Tónlistarskólinn á  Klébergi, Kjalarnesi er eini tónlistarskólinn sem er alfarið rekinn af Reykjavíkurborg. Borgin er með þjónustusamninga við 17 einkarekna tónlistarskóla. Þeir njóta styrkja frá Reykjavíkurborg en setja sína eigin gjaldskrá.

 

Hlutverk og markmið skólahljómsveita er að stuðla að aukinni hæfni nemenda til að flytja, greina og skapa tónlist og til að hlusta á tónlist og njóta hennar; til að jafna tækifæri nemenda til tónlistarnáms; efla félagsleg samskipti; til að efla sjálfsaga, samvinnu og sjálfstæð vinnubrögð; stuðla að aukinni tónlistarþekkingu og veita nemendum tækifæri til að koma fram; stuðla að tónlistaruppeldi annarra ungmenna með því að koma fram á vegum grunnskólanna.


Bloggfærslur 10. febrúar 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband