Samþykkt

Stóru tíðindi vikunnar úr borginni eru að þessi tillaga Flokks fólksins var samþykkt á fundi Velferðarráðs í gær. Hipp hipp húrra! 

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að Reykjavík ráðist í sérstakt fræðsluátak með það að markmiði að fræða fólk um félagslegan stuðning borgarinnar og hverjir eigi rétt á stuðningi og hvaða skilyrði séu fyrir stuðningnum.

Þetta er lagt til í ljósi þess að einhverjir vita greinilega ekki að það sé hægt að sækja um sérstakan húsnæðisstuðning eða veigra sér við því af einhverjum ástæðum. Sveitarfélög bjóða upp á sérstakan húsnæðisstuðning til viðbótar við almennar húsnæðisbætur. Sérstakur húsnæðisstuðningur er ætlaður til þeirra sem eru sérstaklega tekjulágir og í erfiðum félagslegum aðstæðum. Slíkur stuðningur er lögbundinn en sveitarfélögin hafa sveigjanleika með útfærsluna. Engu að síður hafa margir sem eiga rétt á honum ekki sótt um.

Fram hefur komið hjá lögfræðingi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar að önnur af tveimur skýringum á því af hverju fólk sem uppfyllir öll skilyrði er ekki að sækja um sérstakan húsnæðisstuðning er að fólk viti ekki af þessum möguleika. Einnig hefur komið fram að fátækt fólk veigri sér við að sækja um kannski vegna skammar, að þurfa að leita eftir aðstoð hjá sveitarfélaginu. Á þessu þarf að finna lausn og er fræðsla og kynning fyrsta skrefið

 

Bókanir með afgreiðslunni:
Bókun fulltrúa Flokks fólksins

Tillaga Flokks fólksins um fræðsluátak um félagslegan stuðning Reykjavíkurborgar hefur verið samþykkt. Það er ánægjulegt enda dæmi um að ekki allir vita að það er hægt að sækja um sérstakan húsnæðisstuðning til viðbótar við almennar húsnæðisbætur. Fram kom hjá  lögfræðingi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar að ein af ástæðum þess að ekki fleiri sæki um er að fólk vissi hugsanlega ekki  af þessum möguleika.

 

Fulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúar meirihlutans taka undir þessa tillögu. Það er mikilvægt að fólk sé vel upplýst um þá þjónustu og þau úrræði sem eru í boði, annars nýtast þau ekki þeim sem þeim er ætlað að hjálpa. Þessi tillaga er samþykkt og vísað til velferðarsviðs til útfærslu.

 

 

 


Ekki minnst á einelti í drögum að aðgerðaráætlun gegn ofbeldi

Kynning á drögum að aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar gegn ofbeldi 2021-2023 var lögð fram á fundi velferðarráðs í gær. Ekki einu orði var minnst á einelti.

Flokkur fólksins lagði fram eftirfarandi bókun:

Í aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar gegn ofbeldi 2021-2023 er hvergi minnst á  einelti. Einelti er ein birtingarmynd ofbeldis. Spurt er hversu algengt ofbeldi er í rannsókn en þá er ekki meðtalin vanræksla, andlegt ofbeldi, rafrænt ofbeldi eða einelti þannig að sú tala sem niðurstöður sýna getur varla birt þann raunveruleika sem við búum við.  Huga þarf að aðgerðum gegn einelti eins og öðru ofbeldi enda er það skráð að framtíðarsýn Reykjavíkurborgar er að vinna gegn einelti, áreitni og ofbeldi á öllum sviðum og vinnustöðum borgarinnar. Þolendur og gerendur eineltis finnast í öllum hópum óháð aldri,  stöðu eða stétt. Einelti eða samskiptamynstur sem getur leitt til eineltis eða útilokunar má rekja allt niður í leikskóla og fyrirfinnst einnig á hjúkrunarheimilum og dagdvöl eldri borgara. Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram tillögu í skóla- og frístundaráði um að kannað verði verklag og viðbrögð í skólum og frístund komi tilkynning/kvörtun um einelti og það sé kannað sérstaklega hvort viðbragðsáætlanir séu  samræmdar. Markmiðið hlýtur að vera að tryggja samræmt verklag svo allir skólar standi nokkurn veginn jafnfætis gagnvart forvörnum, viðbragðsáætlun og úrvinnslu.

Bloggfærslur 18. mars 2021

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband