Börn eru börn til 18 ára aldurs

Börn eru börn til 18 ára. Það er hlutverk foreldra /umönnunaraðila þeirra að gæta að velferð þeirra þar til þau ná þessum aldri. Að gæta að velferð barna sinna getur þýtt margt.  Fyrstu árin reynir mest á að gæta þeirra þannig að þau fari sér ekki að voða.  Að veita þeim ást, umhyggju og örvun eru viðvarandi nauðsynlegir uppeldisþættir ef barn á að eiga þess kost að þroskast eðlilega og geta nýtt styrkleika sína til fulls.

Þegar börnin stálpast og nálgast unglingsárin koma æ sterkar inn uppeldisþættir í formi fræðslu og leiðbeiningar til að unglingarnir læri að vega og meta aðstæður eigi þeir að geta varist ytri vá af hvers kyns tagi. 

Áhrifagirni og  hvatvísi er meðal algengustu einkenna unglingsáranna. Leit að lífstíl og samneyti við vini er það sem skiptir börn á þessum aldri hvað mestu máli. Það er einmitt þess vegna sem foreldrar þurfa að vera sérstaklega meðvituð um leiðbeiningarþátt uppeldisins og að geta sett börnum sínum viðeigandi mörk.

Stundum þurfa foreldrar einfaldlega að segja NEI. Þetta á við sé barnið þeirra að fara fram á að fá að gera hluti sem foreldrar telja annað hvort  óviðeigandi ef tekið er mið af ungum aldri þeirra eða ef þau telja að það sem barnið biður um að gera geti hugsanlega valdið þeim andlegum,- líkamlegum eða félagslegum skaða til lengri eða skemmri tíma. Undir þetta falla þættir eins og að gæta þess að unglingarnir þeirra taki ekki þátt í álagsmiklum félagslegum uppákomum, aðstæðum sem auðveldlega geta orðið óhörðnuðum og óreyndum unglingum ofviða og jafnvel skaðlegar.   

Mörgum foreldrum finnst erfitt að banna barni sínu að gera eitthvað sem þau sækja fast og sérstaklega ef þau fullyrða  að jafnaldrar þeirra hafi fengið leyfi sinna foreldra.  Eins og gengur og gerist hjá kraftmiklum og klárum unglingum neyta þau gjarnan ýmissa bragða til að fá foreldra sína til að gefa eftir.  „Þið eruð leiðinlegustu foreldrar í heimi“ glymur endrum og sinnum á heimili unglings. Það er ekkert notalegt að fá slíka athugasemd frá barni sínu. Sektarkenndin á það til að flæða um og áður en þau átta sig jafnvel,  hafa þau gefið eftir.

Ef foreldrar eru í einhverjum vafa um hvar mörkin liggja milli þess að leyfa, semja við eða hreinlega banna börnum sínum eitthvað,  ættu þeir að leita sér ráðgjafar.  Umfram allt mega foreldrar ekki missa sjónar af þeirri staðreynd að það eru þeir sem ráða þegar upp er staðið og að þeir bera að fullu ábyrgðina á barni sínu þar til það hefur náð sjálfræðisaldri.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband