Unglingar sem skemma geta greitt skuldina þegar þeir hafa náð 18 ára aldri.

Nú eru skemmdarvargarnir í Hafnarfirði fundnir. Þar sem þeir eru á aldrinum 16-17 ára sleppa þeir að borga skaðann. Foreldrarnir eru heldur ekki ábyrgir þar sem synir þeirra teljast hálffullorðnir. Þetta er skv. frétt í Blaðinu í dag.  Hérna er greinilega einhver glufa í kerfinu sem þarf að skoða nánar. Það er ekki langt þangað til að þessir strákar ná 18 ára aldri og þá á þessi skuld einfaldlega að bíða þeirra amk að hluta til.  Svo einfalt er það. Ég hvet dómsmálaráðherra til að skoða þessi lög/reglugerðir nánar með tillliti til þessa. Við verðum að stöðva skemmdarverk.  Að þurfa að taka afleiðingum gerða sinna er eina markvissa leiðin til að slökkva á neikvæðu atferli sem þessu.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þóra Guðmundsdóttir

Þessir strákar eru alveg nógu gamlir til að inna af hendi einhverskonar vinnu til að bæta fyrir þó ekki væri nema að hluta. Það mætti þess vegna láta þá vinna einhverskonar samfélagsþjonustu. Það myndi bara gera þeim gott.

Ég held nefninlega að það að fá jákvæð viðbrögð frá fullorðnum sé eitthvað sem þeir þyrftu á að halda. 

Mér finnst allof algengt að samfélagið bregðist svona krökkum. Það er oft augljóst mjög snemma hvert stefnir án þess að nokkur grípi inní af alvöru. 

Þóra Guðmundsdóttir, 16.2.2007 kl. 21:04

2 Smámynd: Vilborg G. Hansen

Sammála hér að ofan.  Það má nú líka í auknari mæli fara að skoða foreldra barna sem hegða sér svona.  "Börn læra það sem fyrir þeim er haft" og það er jú verkefni foreldra að ala upp börn sín, siða þau til og kenna þeim almenna lífsleikni.  Ætli sé ekki oftast hreinlega um foreldravandamál að ræða!

Vilborg G. Hansen, 16.2.2007 kl. 21:14

3 Smámynd: Jón Valur Jensson

Sammála þessu líka, nema hvað mér finnst almennt rétt að gera foreldra ábyrga fyrir greiðslu vegna um 25-33% skaðans, þó kannski að vissri hámarksupphæð. Skaðvaldarnir hafa gott af því að vita af þeirri ábyrgð sem svona framferði hefur fyrir bæði þá og fjölskyldu þeirra -- "leikurinn" er þá orðinn leikur að þeirra eigin fé.

Jón Valur Jensson, 16.2.2007 kl. 23:05

4 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ég átti reyndar við: sammála tillögu Þóru.

Jón Valur Jensson, 16.2.2007 kl. 23:06

5 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Orsakir þess að einstaklingar fremji skemmdarverk sem þetta geta verið margslungnar og er í raun efni í stóra ritgerð. Ef unglingar undir 18 ára aldri vissu að þeir myndu þurfa að borga þann skaða sem þeir valda þá tel ég að það myndi stórlega draga úr löngun þeirra til að skemma. Bara að vita það gæti jafnvel í mörgum tilvikum dugað eða a.m.k. fengið þá til að hugsa sig tvisvar um. Ástæðan að mínu mati fyrir að svo mikið er um skemmdarverk er m.a. sú að þeir sem þetta hafa gert hafa komist upp með. Það er heldur ekkert endilega rauður þráður milli atferlis sem þessa og einhvers foreldravandamáls þó það sé að sjálfsögðu stundum þannig. Þarna kemur margt til, áhrifagirni og hópþrýstingur svo eitthvað sé nefnt.

Kolbrún Baldursdóttir, 17.2.2007 kl. 08:42

6 identicon

Fyrst þeir eru nógu gamlir tíl að skemma á þennan hátt þá eru þeir nógu gamlir til að vinna fyrir sektunum og skemmdunum.Ef það verður gert eru minni líkur á að sami hópur geri þetta. Semsagt læra um afleiðingar gerða sinnar. Ef hinnsvegar foreldrar borga tjónið og sektirnar má búast við því að brotamönnunum verði allveg sama.Mamma og pabbi borga hvort sem er.

Birna Dis Vilbertsdóttir (IP-tala skráð) 17.2.2007 kl. 11:09

7 identicon

Hversu lengi yrðu drengirnir eða foreldrar þeirra, að greiða upp skaðann miðað við að greiða 100 þúsund krónur á mánuði? Ef 25 ára gamall maður veldur 50 milljóna króna skaða, til dæmis á rútum og vinnuvélum í fyllleríi, yrði hann 500 mánuði, 42 ár, að greiða skaðann ef hann greiddi 100 þúsund krónur á mánuði. Hann væri því kominn á eftirlaun þegar skuldin væri loksins greidd, miðað við að engir vextir væru greiddir af henni, sem gengi náttúrlega ekki í verðbólgunni hér.

Eiríkur Kjögx, Bláregnsslóð 2 (IP-tala skráð) 17.2.2007 kl. 11:50

8 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Já en hvað eru eigendurnir sem verða fyrir tjóninu lengi að borga skaðann sem þeir urðu fyrir?

Kolbrún Baldursdóttir, 17.2.2007 kl. 12:00

9 identicon

Eigendurnir neyðast til að sitja uppi með skaðann, þar sem tryggingafélögin vilja ekki greiða hann. 

Eiríkur Kjögx (IP-tala skráð) 17.2.2007 kl. 12:16

10 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Þarna komum við að viðkvæmum málum,þvi mikið hefur verið rætt um afrotaunglina að undanförnu og meðferð við þvi nu og áður fyrr,auðvitað verðum við Foreldrar og unglinarnir að bara abyrggð,en ekki hver????Lögin verða bar að vera skir um þetta ,og við sem fyror þessu verðum eigum að fá það bætt,það bokstafelga stenst ekki annað!!!!! Halli Gamli

Haraldur Haraldsson, 17.2.2007 kl. 13:33

11 Smámynd: Júlíus Valsson

Hegðun unglinga sem þessi er skýrt merki ummikla innri vanlíðan, gremju og reiði.  Okkar litla þjóðfélag er þvi miður ekki í stakk búið til að taka svona mál föstum tökum, eins og dæmin sanna. Refsingar geta haft þveröfug áhrif. Það er auðvitað aldrei hægt að koma algjörlega í veg fyrir svona atburði en hvernig væri að kryfja þessi mál til mergjar. Vanlíðan unglinga og fólks almennt í þjóðfélaginu virðist fara vaxandi. "Það vantar mikið, þegar sálarróna vantar", var amma mín vön að segja.

Júlíus Valsson, 17.2.2007 kl. 14:09

12 identicon

Það er hægt að kaupa hjá VÍS ábyrgðartryggingu katta sem tryggir gegn mögulegri skaðabótaskyldu sem fellur á eiganda kattarins vegna athafna hins síðarnefnda, sé skaðabótaskyldan bein afleiðing af tjóni á mönnum og munum, þar með talið fasteignum og dýrum.

Eigin áhætta er 10%, eða að lágmarki 13.400 krónur, og að hámarki 134 þúsund krónur. Vátryggingabætur til þriðja aðila geta numið allt að 74 milljónum króna á hverju vátryggingarári.

Hins vegar er ekki hægt að kaupa ábyrgðartryggingu unglinga, hvað sem síðar verður, en í millitíðinni er hægt að senda þá í Gúlagið í Breiðavík.

Eiríkur Kjögx, Bláregnsslóð 2 (IP-tala skráð) 17.2.2007 kl. 14:29

13 identicon

Og ég þarf varla að taka það fram að í ofangreindu dæmi getur að sjálfsögðu verið um einbeittan brotavilja kattarins að ræða.

Eiríkur Kjögx, Bláregnsslóð 2 (IP-tala skráð) 17.2.2007 kl. 14:50

14 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Ég get næstum skilið vátryggingarfélögin að vilja ekki bjóða upp á tryggingu fyrir skemmdarverk sem hér um ræðir. Ætli þau myndu ekki fljótlega fara á hausinn öll með tölu nema iðgjöldin væru þeim mun hærri?  Mér finnst það heldur ekki vera lausnin á þessu vandamáli þegar upp er staðið. Skemmdarverkin héldu áfram og eigendur fengju skaðabætur hafi þeir þá haft ráð á að tryggja sig.
 Á skemmdarverkum græðir enginn. Ég er alveg sammála um að skoða þarf hvað þarna liggur að baki hjá þeim unglingum sem þetta gera. Sannarlega má ganga út frá því að ungmenni sem nýtur þess að skemma fyrir öðrum og stundar það jafnvel sé í innri kreppu.  Ekki skal þó vanmeta barnaskap, hópþrýsting, hvatvísi og áhrifagirni sem gjarnan fylgir þessum aldri.  Ef unglingurinn hins vegar þarf aldrei að taka ábyrgð á gjörðum sínum mun sú kreppa bara vaxa fremur en hitt og verða honum áfram til trafala í lífinu. Í mörgum þessara tilvika vita ekki einu sinni foreldrarnir hvað barnið þeirra hefur verið að gera. Á það skal minnt hér að ekki hefur enn tekist að fá heilbrigðis- og tryggingarráðuneytið til að stuðla að þjónustusamningi milli Sálfræðinga og Tryggingarstofnunar um niðurgreiðslu á sálfræðiþjónustu þrátt fyrir 20 ára báráttu Félagsins. Það er því stundum þannig að foreldrar sem vildu gjarnan leita til sálfræðings með unglinginn sinn eða alla fjölskylduna ef því er að skipta hefur einfaldlega ekki efni á því. 

Kolbrún Baldursdóttir, 17.2.2007 kl. 16:35

15 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ekki veit ég, á hvaða nótum Eiríkur þessi Kjögx er að skrifa, það hefur aldrei heyrzt um neinn skemmdarvarg íslenzkan, sem valdið hafi 50 millj. kr. tjóni. Þar að auki voru piltarnir í nefndu dæmi þrír, þannig að þetta myndi skiptast niður á þrjár fjölskyldur, ef þessi regla væri farin að gilda nú þegar.

En megintillaga Kolbrúnar (þótt eitthvað sé til í henni) er að því leytinu röng, að unglingum vorum þykja 2-5 ár fram undan vera langt undan. Það er betra að þeir þurfi strax að takast á við vissa ábyrgð verka sinna og horfi upp á foreldra sína gera það sama.

Það er lengi hægt að tala um "hópþrýsting, hvatvísi og áhrifagirni sem gjarnan fylgir þessum aldri," og ekki neita ég þeim staðreyndum, en þegar ábyrgðin á slíkum verkum er orðin innmúruð inn í samfélagsfræðslu þessara krakka strax þegar þau komast á táningsaldurinn, þá vofir alltaf yfir þeim, sem þannig haga sér, að horfa upp á afleiðingar gerða sinna og verða að axla þær að einhverju leyti. Þessi meginregla myndi þannig hafa fyrirbyggjandi áhrif, og það tæki þá líka til foreldranna: þau myndu verða meðvituð um þessa ábyrgð alls heimilisins á hugsanlegum skemmdarverkum barnanna, og það stuðlar að ábyrgara uppeldi, hollu tiltali og að betur sé fylgzt með þeim félagsskap, sem unglingarnir velja sér, og hugsanlegum drykkjuskap.

Jón Valur Jensson, 17.2.2007 kl. 18:13

16 identicon

Já, það er til skammar, Kolbrún, að ekki skuli hafa tekist að fá Heilbrigðis- og tryggingaráðuneytið til að stuðla að þjónustusamningi milli sálfræðinga og Tryggingastofnunar ríkisins um niðurgreiðslu á sálfræðiþjónustu.

Ég veit ekki hvar Jón Valur hefur alið manninn undanfarin ár en undanfarið hafa einhverjir valdið tjóni upp á hundruð milljóna króna með því að kveikja í byggingum í Vestmannaeyjum. Hann segir hins vegar að það hafi "aldrei heyrzt um neinn skemmdarvarg íslenzkan, sem valdið hafi 50 millj. kr. tjóni." Hver ætti að greiða þetta tjón í Eyjum ef unglingur hefur verið að verki? Kostnaður við eitt bílslys, þar sem viðkomandi einstaklingur verður varanlega fatlaður, er álíka mikill og eitt gott einbýlishús kostar í Reykjavík. Og nú kostar fjögurra herbergja íbúð í Safamýrinni um fjörutíu milljónir, tvisvar sinnum meira en ný rúta sem létt verk er að kveikja í og eyðileggja á nokkrum mínútum. Og það hefur verið kveikt í fjölda húsa á landinu á undanförnum áratugum, nú síðast á Húsavík og fyrir austan fjall. Í sumum tilvikum er ekki vitað hver kveikti í þesum húsum og það gætu allt eins verið unglingar eða menn með hómófóbíu.  

Eiríkur Kjögx (IP-tala skráð) 17.2.2007 kl. 19:49

17 Smámynd: Jón Valur Jensson

OK, Eiríkur, ég tók þessa umræðu meira í þeirri merkingu, að átt væri við vandalisma unglinga, ekki hraðakstur né þessi stórvirki, sem vissulega hafa verið gerð hér í áratugi, að ætla má, t.d. á frystihúsum úti á landi.

Jón Valur Jensson, 17.2.2007 kl. 23:15

18 identicon

Samkvæmt íslenskum skaðabótarétti geta börn orðið bótaskyld. Ekki er miðað við ákveðinn aldur þegar metið er hvort börn geti orðið skaðabótaskyld, heldur er miðað við hvort ætla megi að barn á sama aldri og tjónvaldur hefði skilið að hegðun sú sem um er að ræða væri hættuleg eða líkleg til að valda tjóni. Yngsta barn sem dæmt hefur verið bótaskylt í Hæstarétti var 10 ára gamalt þegar það olli tjóni. Meginreglan er sú að foreldrar beri ekki ábyrgð á skaðaverkum barna sinna.

Þó hvílir sú skylda á foreldrum að hafa eftirlit með börnum sínum og hún hvílir einnig á öðrum forráðamönnum barna. Hins vegar er ekki hægt að vísa til þess hvort almennt uppeldi viðkomandi barna hafi verið gott eða slæmt og ekki er hægt að ætlast til þess að unglingum sé fylgt hvert fótmál.

Eiríkur Kjögx (IP-tala skráð) 18.2.2007 kl. 00:18

19 identicon

Sýnishorn úr skilmálum fyrir ábyrgðartryggingu sem er innifalin í svokallaðri Fjölskyldutryggingu:

„Bætur umfram lagaskyldu: Félagið bætir, án tillits til skaðabótaskyldu að lögum, tjón á mönnum eða munum, sem barn vátryggingartaka yngra en 10 ára veldur. Ef sá, sem verður fyrir tjóni, er meðvaldur eða meðábyrgur skerðist bótarétturinn í samræmi við það. Vátryggingarverndin gildir ekki þegar barnið á aðild að umferðartjóni og tjón verður á skráningarskyldu ökutæki í notkun.“

Eiríkur Kjögx (IP-tala skráð) 18.2.2007 kl. 00:41

20 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Börn geta borið bótaskyldu, er haft eftir lögfræðiprófessor í Fréttablaðinu í dag. Hann vill leiðrétta það sem haft var eftir Geir Jóni Þórissyni í Fréttabl. í gær. Viðar Már Matthíasson, lagaprófessor segir að ekkert sé því til fyrirstöðu að hægt sé að krefja þá sem skemma um greiðslur þótt þeir séu ekki fjárráða svo fremi sem verknaðurinn sé skaðabótaskyldur. Alla vega sé aldurinn því ekki til fyrirstöðu. Prófessorinn segir ennfremur að það sé ekki hægt að segja að það sé einhver tiltekinn lágmarksaldur fyrir skaðabótaskyldu barna. „Fjárræði hefur ekkert að gera með ábyrgð á skuldum.“(Sjá frekar á bls. 4)
Þá vitum við það.

Kolbrún Baldursdóttir, 18.2.2007 kl. 12:27

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband