Jafningjafræðslan verðlaunahafar Barnaheilla- Save the children á Íslandi 2012

Haldið í Þjóðmenningarhúsinu 20. Nóvember 2012

Hér má sjá ræðu formanns Barnaheilla í heild sinni.

Verndari Barnaheilla, Frú Vigdís Finnbogadóttir, forsætisráðherra, ráðherra, biskup Íslands og aðrir góðir gestir.

Til hamingju með daginn!

Í  dag,  á afmælisdegi Barnasáttmálans mun Barnaheill veita sína árlegu viðurkenningu til að vekja athygli á sáttmálanum og mikilvægi þess að íslenskt  samfélag standi vörð um mannréttindi barna í öllum birtingarmyndum. Viðurkenningin er veitt einstaklingum, samtökum eða stofnunum sem hafa unnið sérstaklega að málefnum barna og með starfi sínu bætt réttindi og stöðu þeirra sem og lagt grunn að andlegu og líkamlegu heilbrigði þeirra.

Saga mannréttinda barna og Barnasáttmálans er samofin sögu Save the Children samtakanna. Eglantyne Jebb stofnaði Save the Children árið 1919.  Jebb lagði áherslu á að öll börn skyldu njóta sömu réttinda óháð stöðu þeirra eða foreldra þeirra.  Árið 1923 gerðu Save the Children samtökin drög að sáttmála sem var yfirlýsing um réttindi barna, oftast nefnd Genfaryfirlýsingin. Yfirlýsingin var samþykkt af Þjóðarbandalaginu árið 1924.

Ný yfirlýsing um réttindi barna var gefin út árið 1959, en þá var Þjóðarbandalagið liðið undir lok og Sameinuðu þjóðirnar búnar að taka við keflinu. Nú skyldi festa réttindi barna í lög og  börnum ekki mismunað vegna kynþáttar, tungumála eða annars. Börn áttu nú rétt á nafni,  þjóðerni og að alast upp hjá foreldrum sínum ef mögulegt er og skuli þau njóta ókeypis grunnmenntunar.

Á 7. áratugnum var farið að leggja áherslu á mikilvægi þess að þjóðir setji upp áætlanir um réttindi og velferð barna. Það  leiddi til þess að ákveðið var að árið 1979 yrði alþjóðlegt ár barnsins hjá Sameinuðu þjóðunum. Í kjölfarið fór vinna í gang við gerð Barnasáttmálans og var hann samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 20. nóvember 1989.

Barnasáttmálinn er leiðarljós Barnaheilla- Save the Children á Íslandi. Sáttmálinn var undirritaður fyrir Íslands hönd árið 1990 og fullgiltur árið 1992. Öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna, fyrir utan Bandaríkin og Sómalíu, hafa fullgilt sáttmálann og er hann því útbreiddasti mannréttindasamningur heims. Nú liggur fyrir Alþingi Íslendinga frumvarp til laga um lögfestingu samningsins og fagna Barnaheill því og þeirri réttarbót sem því fylgir fyrir börn á Íslandi.

Barnasáttmálinn er eini alþjóðlegi samningurinn sem sérstaklega á við um börn og felur hann í sér alþjóðlega viðurkenningu á því að börn séu hópur sem hafi sjálfstæð réttindi, óháð forsjáraðilum, og að þau ber að vernda gegn hvers kyns hættum og ofbeldi. Samningurinn tryggir börnum borgaraleg réttindi, félagsleg, menningarleg og efnahagsleg réttindi.

Öllum þeim sem koma að málefnum barna með einum eða öðrum hætti ber að rækta persónuleika og andlega og líkamlega getu þeirra. Í skyldum okkar felst að kenna þeim að lifa ábyrgu lífi í anda skilnings,  umburðarlyndis, jafnréttis og vináttu milli þjóða, þjóðernis- og trúarhópa. Veitum einnig athygli réttindum barna til hvíldar og tómstunda, til að leika sér og stunda skemmtanir sem hæfa aldri þeirra og til þátttöku í menningarlífi og listum. Samkvæmt 12. og 13. grein Barnasáttmálans eiga börn rétt á að láta skoðanir sínar í ljós og hafa áhrif. Þau eiga jafnframt rétt á að tjá sig, leita sér upplýsinga, fá upplýsingar og miðla þeim.

Eitt af grunngildum Barnasáttmálans er réttur barna til að njóta umhyggju og ástar forráðaaðila sinna og það er einmitt í þessum gildum sem sjálfsmynd barnsins  á sér rætur.

Til að barnið eigi þess kost að þróa með sér sterka sjálfsmynd og geti upplifað sig verðugan einstakling þarf það að finna að það skiptir máli, sé elskað án tillits til hugsana, tilfinninga eða atferlis. Tilfinningin um verðleika og að líða vel í eigin skinni öðlast barnið einna helst í samskiptum við uppeldisaðila sína.

Sjálfsmynd einstaklingsins samanstendur af fjölmörgum þáttum sem spannar bæði fortíð, nútíð og væntingar til framtíðar. Sjálfsmyndin byggir á hugmyndum og skoðunum sem einstaklingurinn hefur um sjálfan sig, hvernig hann metur sjálfan sig, skilgreinir sig, ber sig saman við aðra, mátar sig og speglar í viðbrögðum annarra.
 
Einstaklingur sem kemur út í lífið með gott sjálfstraust, metnað og innri aga hefur lært að bera virðingu fyrir tilfinningum sínum og tilfinningum annarra. Hann hefur lært að bera virðingu fyrir líkama sínum og er því líklegri til að vilja sneyða hjá því sem getur ógnað eða skaðað andlega eða líkamlega heilsu hans. Hann hefur öðlast færni í að skynja, meta og lesa aðstæður og á t.a.m. auðveldara með að greina hvenær um hópþrýsting er að ræða. Einstaklingur með sterka sjálfsmynd er sjálfsöruggari í allri sinni framkomu. Líkurnar á því að hann muni eiga góð og uppbyggileg samskipti við samferðarfólk sitt eru miklar.

Þannig má segja með sanni að forvarnirnar felist fyrst og síðast í sjálfsöryggi og persónulegum metnaði sem einstaklingurinn nýtir til að ná settum markmiðum og árangri.

En það kemur þó ekki einungis í hlut umönnunaraðila að hjálpa barninu að byggja upp heilsteypta sjálfsmynd. Fjölmargir aðrir koma við sögu. Og það eru einmitt „þessir aðrir“ sem Barnaheill vill með viðurkenningu sinni heiðra að þessu sinni.

Viðurkenningin í ár er veitt samtökum sem leggja áherslu á að styrkja og efla sjálfsmynd ungs fólks og vera sterkar fyrirmyndir hvert fyrir annað.

Viðurkenning Barnaheilla- Save the Children á Íslandi er að þessu sinni veitt Jafningjafræðslunni
­­­­
Jafningjafræðslan er fræðslu- og forvarnarverkefni sem byggir á hugmyndafræðinni  "ungur fræðir unga" þar sem forvarnir eru unnar af ungu fólki fyrir ungt fólk. Fræðsla Jafningjafræðslunnar er unnin á jafnréttisgrundvelli og  eru allir íslenskir fræðarar á aldrinum 17-21 árs.

Það er ekkert nýtt að ungt fólk er móttækilegra fyrir boðskap frá þeim sem eru á svipuðu aldursbili og það sjálft.  Ástæðan er sú að ungmenni samsama sig öðrum ungmennum,  gefa orðum þeirra oft frekar gaum en orðum fullorðinna og eru óhrædd við að tjá sig í félagsskap jafnaldra. Þetta er það sem oft er kallað tvöföld virkni Jafningjafræðslunnar, samræðurnar annars vegar og virkni fyrirmynda hins vegar.

Jafningjafræðslan var stofnuð á Íslandi árið 1996 af menntaskólanemum og studd danskri  fyrirmynd og hét þá Jafningjafræðsla framhaldsskólanema. Upphaflega var Jafningjafræðslan stofnuð til að sporna við og draga úr neyslu vímuefna.  Núna er Jafningjafræðslan rekin af Hinu Húsinu í Reykjavík og hefur starfsemi hennar orðið æ fjölbreyttari með árunum. Boðið er upp á hnitmiðaða fræðslu um ólík mál,  umræðuvettvangur skapaður í félagsmiðstöðvum og skólum og vímulausar skemmtanir og uppákomur skipulagðar. Í öllu starfi Jafningjafræðslunnar er lögð áhersla á að efla og styrkja sjálfsmynd ungs fólks, enda besta veganestið sem unglingar fá út í lífið þar sem hún eykur velgengni og vellíðan.

Störf jafningjafræðara eru eftirsótt hjá ungu fólki og tugir sækja um ár hvert. Allir fræðarar gangast undir strangt ráðningarferli og inntökupróf. Þeir jafningjafræðarar sem eru valdir  í störfin eiga það sameiginlegt að hafa ríka samskiptahæfileika, eiga auðvelt með að ná til ungs fólks og eru sjálfir góðar fyrirmyndir í sínu persónulega lífi.

Góðu gestir
UNGUR FRÆÐIR UNGAN er sú hugmyndafræði sem Barnaheill vill með viðurkenningunni í ár leggja áherslu á. Barnaheill vill með vali sínu beina sjónum samfélagsins að hæfileikum, dugnaði og hugmyndaauðgi ungs fólks og hvernig það nýtir hæfileika sína til að fræða og hvetja annað ungt fólk til dáða.

Við fullorðnu fyrirmyndirnar, foreldrar, forráðamenn, ömmur, afar, frænkur og frændur getum lagt lóð á vogarskálina með því að auka meðvitund unga fólksins í fjölskyldum okkar og ekki síður okkar sjálfra. Spyrjum spurninga eins og:

Get ég huggað einhvern með návist minni?

Get ég veitt einhverjum skjól?

Get ég veitt einhverjum aðstoð eða stuðning?

Get ég hrósað, örvað og hvatt til dáða?

Get ég gert eitthvað sem gleður? Brosað til þeirra sem ég mæti eða talað fallega við þá sem ég umgengst?

Ég vil þakka Jafningafræðslunni fyrir óeigingjarnt og metnaðarfullt starf. Ég vil þakka frumkvöðlum hennar og stofnendum hér á Íslandi. Ég vil þakka þeim sem hafa beitt sér fyrir því að styrkja starfsemina og skapa þær góðu aðstæður sem hún býr nú við.

Megi Jafningjafræðslan vaxa, þróast og eflast enn frekar um ókomin ár,  ungu fólki til hamingju og heilla.

En nú, kæru vinir, er komið að því að veita viðurkenningu Barnaheilla- Save the children á Íslandi 2012. Ég vil  biðja framkvæmdastjóra Barnaheilla Ernu Reynisdóttur að koma hingað og fyrir hönd Jafningjafræðslunnar þau Brynhildi Karlsdóttur og Hersi Aron Ólafsson og veita þessu fallega glerverki viðtöku. Mig langar að geta þess að verðlaunagripinn gerði Sigrún Ólöf Einarsdóttir glerlistakona.


Kolbrún Baldursdóttir, formaður Barnaheilla- Save the children á Íslandi
kolla_og_company_1_1181508.jpg
 


mbl.is Jafningjafræðslan hlaut verðlaun Barnaheilla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband