Offituvandi á barnsaldri getur dregið dilk á eftir sér.

Sálfræðilegt innlegg um offituvanda á barnsaldri.

Enda þótt offituvandinn sé án efa erfiður á öllum
aldursskeiðum má álykta sem svo að neikvæð áhrif og afleiðingar hans séu alvarlegri hafi hann átt við offituvandamál að stríða strax á unga aldri.
Á aldursskeiðinu 5-18 ára er einstaklingurinn að móta sína eigin sjálfsmynd. Hann skoðar sjálfan sig,  ber sig saman við jafnaldrana og speglar sig í umhverfi sínu.  Hann lærir fljótt hvað það er sem þykir flott, er viðurkennt og eftirsóknarvert. Skilaboðin sem einstaklingurinn fær um sjálfan sig frá þeim aðilum sem hann umgengst er stór áhrifaþáttur á mótun sjálfsmyndar hans.  Sá sem strax á barnsaldri á við offituvanda að stríða er útsettari fyrir neikvæðum athugasemdum frá umhverfi  sínu, leyndum sem ljósum.  Hann er auk þess í áhættuhópi þeirra sem lagðir eru í einelti; er strítt eða látinn afskiptur.  Afleiðingarnar eru oftar en ekki brotin sjálfsmynd; óöryggi, tilfinningaleg vanlíðan og jafnvel þunglyndi. Í slíkri vanlíðan eru félagsleg vandamál oft ekki fjarri. Eitt leiðir  af öðru og brátt, ef ekki er aðgáð,  getur líf þessa einstaklings verið undirlagt af erfiðleikum sem fylgt getur honum út ævina.
Sökum þess hversu offita er persónulegt mál hefur umræðan verið viðkvæm. Sumir þora ekki að nefna vandamálið því þeir óttast að vera særandi eða skapa óþægilega nærveru með slíku tali.  Foreldrar sem hafa verið að horfa upp á börn sín þyngjast óhóflega hafa stundum veigrað sér við að ræða vandamálið opinskátt af ótta við að auka enn frekar á vanlíðan þeirra. Einnig óttast þeir jafnvel að umræðan kunni að hvetja barnið til að grípa til öfgakenndra viðbragða eins og að byrja að borða óreglulega og jafnvel svelta sig.  Það liggur hins vegar í augum uppi að offituvandinn verður ekki leystur án þess að horfst verði fyrst í augu við hann, vandinn skilgreindur og lausnir ræddar ekki satt? Það er eins með þetta og allt annað sem telst vera vandamál, það þarf að ræða það!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Já, þetta er alvarlegt vandamál sem varðar líf og velferð barna um alla framtíð. En hvernig er það, stendur foreldrum of þungra barna til boða einhver stuðningur líkt og tíðkast í ýmsum barnaverndarmálum? Þegar fimm ára gamalt barn þjáist af offitu þá er vandinn auðvitað skortur á næringarráðgjöf og aðhaldi foreldranna - það er ekki barnið sem skapar vandann (þó svo geti vissulega verið í tilfelli unglinga). Ég velti fyrir mér hvort ekki sé hægt að taka á svona málum á forsendum barnaverndarmála hérlendis. Er það kannski gert nú þegar?

Bestu kveðjur.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 1.3.2007 kl. 12:49

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband