Sjálfsvíg eldri borgara er dulið vandamál

Eldri borgarar eru í lang stærsta áhættuhópnum hvað viðkemur sjálfsvígi og sjálfsvígstilraunum. Eldri borgara reyna sjálfsvíg vegna þess að þeir hafa ákveðið að svipta sig lífi en eru ekki með tilrauninni að hrópa á hjálp. Margir í þessum aldurshópi búa einir og þá er oft ekki að vænta að aðstoð berist í tíma. Helstu ástæður eru slæm heilsa, viðvarandi sársauki, hræðsla og kvíði.  Margir óttast að verða byrði á börnum sínum. Önnur ástæða eru fjárhagserfiðleikar, makamissir, einmannaleiki og þunglyndi. Líklegt er þó að margar ástæður liggi að baki ákvörðun sem þessari. Talið er að sjálfsvíg eldri borgara hafi ekki aukist heldur standi fremur í stað. Eldri borgarar í dag hafa meiri möguleika á að taka þátt í ýmsum félagslegum uppákomum og tómstundum og eru því ekki eins einangraðir og áður. Læknisþjónusta hefur einnig aukist til muna. Eins og í öðrum aldurshópum eru karlar í meirihluta. Í  Bandarískri könnun hefur komið í ljós að tíðnin hjá konum lækkar eftir 65 ára en eykst hjá körlum eftir þann aldur. Mér er ekki kunnugt um nýjar tölur í þessu sambandi hér á landi.  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Getur ekki verið að þessir eldri borgarar viti hreinlega hvað þeim er fyrir bestu. Þeir eru kannski búnir að missa alla þá sem þeim fannst vænt um, geta illa bjargað sér með að halda heimili, vita vel að samfélagið hafnar mjög gömlu fólki í verki en kannski ekki í orði, vita líka að þeirra bíður kannski alvarleg elliglöp og öll sú auðmýking sem því fylgir. Félagsleg virkni er ekki sama og raunverulegur einmanaleiki, það að vera einn tilfinningalega og líkamlega eins og þetta fólk margt kannski er. Gamla fólkið er auðvitað ekki að biðja um hjálp af því að það veit að hana er hvergi að fá. Og er því ekki bara treystandi til að gera það sem því finnst vera sér fyrir bestu. Þarf að gera það að einhverju máli þó sú staðreynd hljóti reyndar að liggja í augum uppi að eldri borgarar séu stór áhættuhópur hvað varðar sjálfsvíg.  Er það eitthvað vandamál? Og ef það er vandamál í hverju er vandinn þá fólgin? Verðum við ekki að sætta okkur við að við getum ekki stýrt öllu í lífinu.

Sigurður Þór Guðjónsson, 3.3.2007 kl. 21:28

2 identicon

Ég tel að markmið okkar sem lifum hérna á jörðinni sé að hámarka hamingju allra þeirra sem hér lifa. Gamla fólkið er hluti af íbúunum og eiga jafnan rétt til hamingju þó þeir eigi ekki eins langt eftir og þeir sem yngri eru. Í mínum huga er þetta ekki spurning um að koma í veg fyrir sjálfsmorð. Sjálfsmorð getur verið besta lausn þeirra sem lifa í eilífri kvöl og eru hættir finnast lífið vera nokkurs virði. Það er hins vegar eðlilegt að við sem horfum á og finnum fyrir nálægð dauðans í þessari birtingarmynd sjálfsmorða reynum að gera eitthvað til þess að auka gildi lífs sem flestra. Koma í veg fyrir afleiðinguna (sjálfsmorð) til að ráðast á orsökina (óhamingju).

Flestum kemur í hug fjáraustur þegar á að gera "átak" í málum sem þessum. Það þarf ekki alltaf að vera svo. Hvernig væri t.a.m. að reka samhliða að einhverju leyti leikskóla og elliheimili. Ekki er séð að væri um verulegan fjárhagslegan ávinning að ræða, né heldur aukin útgjöld en hins vegar er ég viss um að eldriborgarar hefðu óheyrilega gaman af því að umgangast þá kynslóð sem erfa munu landið - svo gætu þeir örugglega miðlað af reynslu sinni, þar sem af nógu er að taka.

Sigurvin (IP-tala skráð) 4.3.2007 kl. 00:19

3 Smámynd: Ingibjörg Álfrós Björnsdóttir

Samkvæmt rannsókn eru ekklar oft mjög einir og yfirgefnir.  Ekkjurnar hafa hins vegar stærra tengslanet í kringum sig þótt þær standi stundum illa fjárhagslega.  Gott að þú vekur athygli á þessu!

Ingibjörg Álfrós Björnsdóttir, 4.3.2007 kl. 08:14

4 Smámynd: Sigfús Sigurþórsson.

Sæl Kolbrún. Þú segir:  Eldri borgarar eru í lang stærsta áhættuhópnum hvað viðkemur sjálfsvígi og sjálfsvígstilraunum. 

Getur þú vísað á einhverja rannsókn sem segir að eldri borgarar séu í langstærsta áhættuhópnum?

Kv. SigfúsSig.

Sigfús Sigurþórsson., 4.3.2007 kl. 11:14

5 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Sæll Sigfús. Þetta eru upplýsingar fengnar úr bókinni Why Suicide?  eftir Eric Marcus þar sem hann dregur saman niðurstöður fjölda rannsókna og leitast við að svara algengustu spurningum um sjálfsvíg og sjálfsvígstilraunum. Mjög áhugaverð bók gefin út af WPS Western Psychological Services. Fram kemur m.a.  að eldri borgarar séu um 20% af öllum þeim sem fremja sjálfsmorð í Bandaríkjunum. Þetta eru þeir sem eru yfir 65 ára aldri. Eins og ég segi hef ég ekki tölur um þetta fyrir Ísland. Forvitilegt væri ef einhver vissi meira um þess mál hér í okkar landi.

Kolbrún Baldursdóttir, 4.3.2007 kl. 12:45

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband