Kosningarnar í vor og velferðarmálin

Það kom mér ekki á óvart að lesa að velferðarmálin voru talin mikilvægust af sex málefnum sem fólk var beðið um að gefa einkunn í skoðanakönnu Fréttablaðsins. Þegar ég var í prófkjörinu skynjaði ég áhuga fólks á að setja velferðarmálin á oddinn. Ég, sem sálfræðingur, tók þessu vissulega fagnandi enda hef ég fundið í gegnum starfið hvar og hvernig mætti bæta eitt og annað sem snýr að þessum málaflokki. Þetta var ein af aðalástæðum þess að ég gaf kost á mér í þetta prófkjör. Ef eitthvað er að marka niðurstöður þessarar skoðanakönnunar þá setti Sjálfstæðisflokkurinn reyndar efnahagsmálin efst. Þau eru sannarlega mikilvæg og kannski er ekkert hægt að segja að einn málaflokkur sé mikilvægari en annar. Hitt er víst að sé fólk í persónulegum vanda; tilfinningar,- eða félagslegum vanda þá er eins og það hafi margföldunaráhrif. Velferð er undirstaða þess að hægt sé að njóta alls þess góða sem okkar þjóðfélag býður að öllu jöfnu upp á.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Inga Lára Helgadóttir

Ég tek undir með þér, ef að velferð ríkir, þá á allt að ganga upp. Ef við erum með hamingjusamt fólk í velferðarþjóðfélagi, þá skilar það sér til baka, alveg hiklaust.

Inga Lára Helgadóttir, 29.3.2007 kl. 00:06

2 identicon

Heil og sæl Kolbrún, og aðrir skrifarar !

Ekki nema lítil, tæp 16 ár síðan Sjálfstæðisflokkurinn fékk tækifæri, til að leysa helztu agnúa velferðarkerfisins. Þarf flokkurinn 160 ár, eða 1600 ár; jafnvel 16000 ár, Kolbrún; til úrlausnar þessum vanda ?  

Sýnist mér, sem þú hafir ekki mikla tiltrú, á kjósendum þessa lands, fremur en flokkssystkini þín, flest. Frjálshyggju merðirnir ykkar eru gjörsamlega búnir að eyðileggja tiltrú allra hugsandi Íslendinga, á þessum flokki ykkar. Munið þó líklega njóta fylgis þeirra, hverjir kjósa Sjálfstæðisflokkinn, af gömlum vana.

A.m.k. höfum við þjóðernissinnar skömm á fólki, hvað segist vinna, að heill lands og lýðs, á sama tíma; og hinir makráðu og síngjörnu sölsa undir sig ýmis helztu fyrirtæki og stofnanir, hver verið hafa upp á ríkisins eykt, um langan aldur, svo mikið er víst;; að þið og tilberar ykkar, Framsóknarflokkurinn, fáið engin húrrahróp, héðan utan af landsbyggðinni. Má vera, þið hafið enn einhverja tiltrú afkomenda innréttinga fólks (frá 18. öld), í Reykjavík, og nágrenni, auðna ræður því. 

Læt lokið, um hríð; af allmörgu má enn taka, Kolbrún.

Með kveðjum, úr Árnesþingi /

Óskar Helgi Helgason, frá Gamla Hrauni og Hvítárvöllum     

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 29.3.2007 kl. 00:43

3 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Þakka skrifin kæri Óskar. Ég er nú bjartsýn á að hægt sé að þoka þeim málum áfram sem setið hafa á hakanum og ekki skal gleyma þeim góðu hlutum sem breyst hafa til hins betra undanfarin ár. En nú í vor er valið í höndum kjósenda, svo allir sem náð hafa 18 ára aldri geta látið til sín taka. Verst er að vita að ekki eru allir sem nýta kosningarrétt sinn.  En það er hárrétt hjá þér að sorglegt er að vita til þess að þeir sem ríkir eru orðnir (all skyndilega sumir hverjir) eru ekkert smáræðis orðnir ríkir. Þarna fara fremstir þeir sem eiga viðskiptabankana og auðvitað margir aðrir í viðskiptalífinu. Eitthvað má jú á milli vera. Eitt er víst að, þegar að leiðarlokum kemur förum við öll sömu leið, þ.e. deyjum og hvort sem ferðinni er heitið upp eða niður er líka alveg víst að á hvorugum staðnum er gull gjaldmiðillinn. Það sem huggar mig þegar ég hugsa um þetta er að það er í mínu valdi að geta lifað lífinu með þeim hætti að þegar ég fer héðan get ég verið þokkalega sátt við sjálfa mig og að ég hafi í það minnsta gert tilraun til að láta gott af mér leiða.
Bestu kveðjur til ykkar í Árnesþingi.

Kolbrún Baldursdóttir, 29.3.2007 kl. 15:07

4 Smámynd: Inga Lára Helgadóttir

Þetta var mjög vel mælt hjá þér Kolbrún, og það er rétt hjá þér, fólk virðist geta orðið skyndilega ríkt og lifað við verulegar alsnægtir. það er skömm af því hve mikið bil er á milli ríkra og fátækra hér á landi og það er hægt að laga það. 

Það er rétt sem þú talaðir um að þyrfti að styðja við unga foreldra, þannig getum við komið þeim áfram og hlúað að þeirra börnum með þeim, styrkt sjálfsvirðingu þeirra fjölskylda, gert þau sterkari á allan hátt og hæfari.

Með bestu kveðju, Inga 

Inga Lára Helgadóttir, 29.3.2007 kl. 16:50

5 identicon

Sælar, Kolbrún og Inga Lára !

Þótt við munum, í grundvallaratriðum; vera ósammála um þjóðfélagsskipan okkar, Kolbrún; að þá virði ég mikils skýr og greinagóð andsvör. Sýnir, að þrátt fyrir, hversu komið er Sjálfstæðisflokknum, í dag; að enn finnazt frómir og skikkanlegir þegnar okkar ágæta lands, þar innan vébanda.

Með beztu kveðjum / Óskar Helgi Helgason

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 29.3.2007 kl. 22:40

6 identicon

Það er margir orðnir ótrúlega ríkir hérna á Íslandi.

Mér finnst það alltílagi, því fleirri, því betra. Fleirri peningar í ríkiskassann !

En það ættu allir að hafa ís sig og á. Og geta búið sæmilega, annaðhvort í leiguhúsnæði eða eigin. Það eru mannréttindi.

Og þau eru ekki ennþá hérna á Íslandi.

Það er það eina sem ég finn að þessu þjóðfélgi. Svona í grundvallaratriðum.

Ég sem Sjálfstæðismaður, trúi því ennþá að flokkurinn fari nú að taka á þessu eina málefni, sem eftir er, svo sátt geti orðið meðal þegnanna. Það verður aldrei, meðan stefnan er að einhverjir VERÐI að vera undir fátæktarmörkun. Í Sjálfstæðisflokknum, eru hópar úr öllum hópum þjóðfélgsins, og það hefur úrslitaáhrif á hvaða flokk ég vel að starfa fyrir.

Ein sem er ættuð úr Árnesþingi og Rangárþingi. Og bjó tæp 40 ári í Eyjafjarðarþingi. En er fyrsta kynslóð Reykvíkina, úr sinni ætt.

Sigrún Jóna (IP-tala skráð) 31.3.2007 kl. 14:03

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband