Veit ekki svarið
28.7.2015 | 08:52
Í viðtalinu var farið um víðan völl á eineltismálum. Meðal þess sem var spurt var hversu algengt ég teldi að einelti viðgengist á vinnustöðum? Þessari spurningu get ég ekki svarað því ég veit hreinlega ekki svarið. Í raun er kannski ekki hægt að vita neitt nákvæmlega um tíðni eineltis á vinnustöðum því hér er um falið vandamál að ræða. Það eru ekki allir sem segja frá því ef þeir eru að verða fyrir endurtekinni neikvæðri hegðun eða framkomu eða að þeir átta sig á því að um "einelti" geti verið að ræða.
Önnur ástæða þessa að erfitt er að svara þessari spurningu er að skilgreiningar á einelti eru ekki allar eins. Skilgreiningar eru vissulega nauðsynlegar enda auka þær skilning og meðvitund. Ef skilgreining er of niðurnjörvuð eða þröng er hún ekki endilega gagnleg. Burtséð frá skilgreiningum hlýtur mælikvarðinn á hvar mörkin liggja í samskiptum ávallt að vera huglægt mat og upplifun sérhvers manns eða konu.
Flest okkar er alla vega umhugað um að draga úr einelti í allri sinni myndi hvort heldur í skóla, tómstundum eða á vinnustað. Umræðan um góða samskiptahætti verður að vera í gangi allt árið um kring og tvinnast með fjölbreyttum hætti inn í starfsemi skóla, tómstundafélaga og vinnustaði. Öðruvísi er varla árangurs að vænta hvorki til skemmri né lengri tíma. Sé aðeins um tímabundið átak að ræða má ætla að hlutirnir falli fljótt í sama farið enda þótt þeir þokist eitthvað áleiðs.
Jákvæður staðabragur og uppbyggjandi menning er grundvöllur þess að fólkinu á vinnustaðnum geti liði vel. Líði starfsfólkinu vel t.d. í skólum má ætla að það hafi jákvæð áhrif á börnin, hópmenningu og líðan.
Þegar rætt er um samskipti er vert að byrja ávallt á að líta í eigin barm áður en maður fer að tjá sig mikið um hegðun og framkomu annarra.
- Er ég að taka ábyrgð á eigin framkomu/hegðun?
- Líður einhverjum illa í návist minni?
- Get ég veitt einhverjum stuðning eða rétt hjálparhönd á mínum vinnustað?
- Geri ég yfirmanni viðvart, verði ég vitni að einelti?
Munum að það er ekkert grátt svæði þegar kemur að framkomu við aðra. Koma á vel fram við alla hvernig svo sem þeir eru og hvað svo sem manni kann að finnast um þá.
Stjórnun og stjórnunarstíll skiptir miklu máli þegar kemur að staðarmenningu og líðan starfsfólksins. Góður stjórnandi er ekki bara góð fyrirmynd og myndar jákvæð tengsl við starfsfólkið heldur gefur einnig skýr skilaboð um samskiptareglur. Sannarlega afgreiðir hann ekki kvartanir út af borðinu að óathuguðu máli. Liður í forvörnum á vinnustað og viðhaldi á jákvæðum staðarbrag eru allir eftirfarandi þættir:
- Starfsmannaviðtöl árlega
- Skýrar starfslýsingar
- Starfsánægjukannanir
- Starfsmannafundir
- Samverustundir
Munum að einelti er lögbrot. Um er að ræða yfirgang/valdníðslu gagnvart öðrum. Einelti er talið vera ein algengasta mynd ofbeldis
Vinnsla eineltismála
Viðbragðsáætlun þarf ekki aðeins að vera til heldur einnig að vera aðgengileg. Viðbragðsáætlun mótar viðhorf og kallar á stefnumótun. Hún hvetur til skilnings, þekkingaröflunar og markvissrar vinnubragða. Viðbragðsáætlun er rammi/vegvísir sem skapar starfsfólki öryggi. Auk þess er hún upplýsandi t.d. kveður á um hverjir vinna í málum og lýsir ferli kvörtunarmála með einföldum hætti.
Eins mikilvæg og viðbragðsáætlun er, er tilkynningarblað á heimasíðu stofnunar eða fyrirtækis ekki síður mikilvægt. Tilkynningareyðublað er heilmikil forvörn í sjálfu sér en umfram allt gefur slíkt eyðublað til kynna að stofnun/fyrirtæki VILL vita ef einhver telur á sér brotið til að hægt sé að taka á málinu.
Skrifleg kvörtun á þar til gerðu tilkynningareyðublaði inniheldur lýsingu á atviki, atburðarrás, aðstæðum, hver/hverjir, hvar og hvenær. Skrifleg tilkynning er líklegri til að skila markvissari vinnubrögðum en munnleg tilkynning. Tilkynningareyðublað veitir foreldrum og starfsfólki öryggi og það besta við tilkynningareyðublaðið er að ALLIR GETA NOTAÐ ÞAÐ.
Mál af þessu tagi leysast iðulega ef tekið er á því strax og ferlið unnið í samvinnu og samráði við tilkynnanda (ef barn þá foreldra þess). Ávísun á vandamál er ef:
- Hunsað að ræða um samskiptahætti og reglur með markvissum hætti bæði meðal starfsfólks og í barnahópnum
- Sagt að ,,stríðni/einelti sé tekið alvarlega en það síðan ekki gert
- Reynt að bíða af sér vandann, þagga málið
- Yfirmenn eru í vörn/afneitun, vilja ekki horfast í augu við kvörtunina
- Einhver starfsmaður/yfirmaður er meðvirkur?