Botnar einhver í þessu kosningarkerfi?

Í ljós hefur komið að íslenska kosningarkerfið er stórgallað.
Í síðustu kosningum komu þessi gallar ekki í ljós en núna birtast á því alls kyns vankantar. Það eru sjálfsagt aðrir færari en ég til að reifa þessa vankanta en eins og ég sé þetta þá er ekki jöfnuður milli flokka og jöfnunarsætin deifast með furðulegum hætti.  Misvægi er milli atkvæða  t.d. gilda atkvæði í norðvesturkjördæmi næstum tvöfalt meira en á höfuðborgarsvæðinu.  
Undarlegt hlýtur að teljast að Samfylkingin fékk 5 þingmenn í Rvk. norður en aðeins 3 í Rvk. suður en samt eru álíka margir sem greiða flokknum atkvæði í báðum þessum kjördæmum.  

Líklega er bara best að landið allt verði að einu kjördæmi. Það myndi einfalda mikið og er líklegt til að koma út með sanngjarnari hætti.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það þarf engan veginn að gera landið allt að einu kjördæmi til þess að jafna kosningaréttinn. Það þarf einfaldlega að reikna út hve mörg þingsæti hverju kjördæmi ber eftir mannfjölda. Sú regla sem notuð er til að jafna sætum á framboðslista eftir kosningaúrslitum var reyndar fundin upp til þess að jafna þingsætum á kjördæmi. Ef landið væri eitt kjördæmi, væri miklu stærri hluti þingmanna í öruggum sætum og tækju eftir því minni þátt í kosningabaráttunni. Íslandshreyfingin nær ekki manni á þing þrátt fyrir 5% regluna. Gamla reglan var sú að framboðslisti þyrfti kjördæmakjörinn þingmann til að eiga rétt á jöfnunarmönnum. Mér þykir það eðlilegri regla. Það er engin ástæða til að hampa sérvizku og smáframboðum alls konar. Þess má geta að jöfnun milli framboða tókst vel að þessu sinni. Það sést m.a. af því að öfugt hlutfall er milli stærðar flokks og fjölda atkvæða bak við hvern þingmann.

Skúli Víkingsson (IP-tala skráð) 15.5.2007 kl. 16:40

2 Smámynd: Guðrún Magnea Helgadóttir

Ég er sannarlega að gera mér fyrir brengluðu kosningakerfi hérna í lýðveldinu... Ég kaus af fullri sannfæringu minni Íslandshreyfinguna en komst að því síðar að þau næstum 6000 atkvæði sem hreyfingin fékk (og mitt),voru úrskurðuð algert 0. Ég vildi sjá breytingu á atkvæðavægi og það ætti ekki að vera mögulegt að útiloka atkvæði íslenskra ríkisborgara sem neyta kosningaréttar síns í lögmætum kosningum.

Guðrún Magnea Helgadóttir, 15.5.2007 kl. 16:49

3 identicon

Ef landið væri eitt kjördæmi hefði dreifingin á mönnum á flokka verið nákvæmlega sú sama. Jöfnunarmannakerfið sér um það. (miðað við að 5% reglan gilti áfram). Í raun má segja að það séu aðeins 54 þingmenn sem dreifast eftir því hvernig fylki flokka eru í hverju kjördæmi. Svo eru 9 þingmenn notaðir (svo kallaðir jöfnunarmenn) til þess að dreifa á flokkanna eftir landsfylgi þeirra, þ.e. þeim er dreift þannig að flokkarnir endi með sama þingmannafjölda yfir landið allt og ef landið væri eitt kjördæmi. Hvar þeir lenda fylgir bara ákveðinni reglu og þarf ekki endilega að fara eftir fylgi flokkanna í því kjördæmi. Sá sem á að fá fyrsta jöfnunarmanninn, fær hann í því kjördæmi þar sem hann er næstur því að ná manni inn, sá flokkur sem fær annan jöfnunarmanninn fær hann í því kjördæmi sem sá flokkur á næsta mann inn, hins vegar gæti verið búið að úthluta jöfnunarmanni fyrir það kjördæmi þannig að flokkurinn fær hann þá í því kjördæmi þar sem næst minnstu munaði að þeir fengju mann inn. Svona gengur þetta á jöfnunarmennina og þar með sést að sá flokkur sem á 9. jöfnunarmanninn fær hann í eina kjördæmi sem á eftir að fá úthlutuðum jöfnunarmanni og fer því ekkert eftir fylgi flokksins í því kjördæmi.

Því má eiginlega segja að kjördæmakjörnu þingmennirnir séu kjörnir af kjördæminu sjálfu en jöfnunarmennirnir kjörnir af landinu öllu.

Kosningakerfið íslenska er mjög einfalt og úthlutar mönnum á flokka eftir landsfylgi þeirra. En auðvitað má alltaf spyrja sig hversu stór kjördæmi eiga að vera og þess háttar.

Svo má alltaf rökræða um hve mörkin eiga að vera til þess að ná að koma manni inná þing. Áður fyrr þurfti flokkur að ná kjördæmakjörnum manni inn til þess að eiga rétt á uppbótarmönnum eins og þeir hétu þá. Nú þarf flokkur 5% fylgi á landsvísu til að eiga rétt á jöfnunarmönnum en flokkar geta einnig fengið menn kjörna inná þing í einu kjördæmi þó þeir nái ekki 5% mörkunum á landsvísu.

Hvet þig til að gefa þér smá tíma og skoða www.kosning.is þar sem góð og einföld útskýring á kerfinu er.

Baldur (IP-tala skráð) 15.5.2007 kl. 23:05

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband