Fyrirmyndarþingmaðurinn, er hann til?

Fyrirmyndarþingmaðurinn er sá sem er heiðarlegur, yfirvegaður, vinnusamur, málefnalegur en einnig beittur. Umfram allt þarf hann að hafa almenna hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi og forðast allt sérhagsmunapot.
Situr þessi þingmaður á þingi núna?

Á þessu haustþingi hefur ýmislegt gengið á eins og oft áður. Þingmenn hafa talað um andlegt ofbeldi, verstu verkstjórn þingsins hingað til, gerræðisleg vinnubrögð o.s.frv.

Verðum við sem þjóð ekki að fara að huga að alvöru breytingum til að laga þetta?

Ef samskipti eiga að verða jákvæðari og heilbrigðari á þinginu hlýtur að verða að breyta vinnufyrirkomulaginu.

Frá því að elstu menn muna hafa samskipti á þingi átt það til að vera á lágu plani, karp, þras og ásakanir sem ganga á víxl. Margir segja kannski bara "hva, er þetta ekki bara eins og þetta á að vera? Svona eru jú stjórnmálin?"

Til að auka líkur á jákvæðum samskiptum og faglegum vinnubrögðum þarf að finna stjórnarandstöðunni annan farveg til að koma málum að, taka þátt og hafa áhrif. Hægt að horfa til þinga sem eru að virka vel? Til dæmis þar sem minnihluti og meirihluti vinna saman, ræða saman, mætast í umdeildum málum og eiga vitrænar samræður þjóð sinni til heilla. Þetta má sjá t.d. á danska þinginu.

Er kannski bara mannskemmandi að vera í stjórnarandstöðu?
Á Alþingi Íslendinga er eina tæki stjórnarandstöðunnar að beita málþófi og senda stjórnarliðum tóninn, beitt orð sem stundum verða, í hita leiksins helst til of hvöss. Við þessar aðstæður er stutt í pirring og ergelsi. Stjórnarliðar eru iðulega margir hverjir engu skárri og svara til baka á sama lága planinu.

En það hlýtur að reyna oft á þolrifin að vera í stjórnarandstöðu. Að vera kosin til áhrifa þar sem þér er ætlað að standa þig en fá síðan litla hlustun hvað þá að geta komið að breytingum. Svo slæm hafa samskiptin orðið og andrúmsloftið að þingmenn hafa að undanförnu talað um andlegt ofbeldi og að persónulegar árásir eigi sér stað milli einstaka þingmanna.

Hvað er átt við þegar talað er um að eitthvað sé persónulegt?
Þegar viðhorf og skoðun einhvers er tengt þér sem persónu, t.d. "að þú hafir þessa skoðun því þú sért svo vitlaus eða illa upplýst(ur)" eða ef slíkt er sett í samband við útlit, hugmyndafræði, aðstæður, gildi, kyn eða trú þá er talað um að eitthvað sé persónulegt. Manneskjan sem þessu er beint að upplifir að verið sé að gera lítið úr henni, hæðast að henni eða verið sé að níða hana. 

Vondur mórall á þinginu?
Sé þess aðgætt að fara ekki yfir mörkin í samskiptum og reyna að halda þeim á sæmilega kurteislegum nótum er ekki loku fyrir það skotið að menn geti átt þokkalegt samstarfssamband þrátt fyrir að vera á öndverðum meiði í stórum og erfiðum málum. Einstakir sem senda hvor öðrum tóninn endrum og sinnum eru engu að síður félagar og jafnvel vinir utan þingsalar.

Það er vel hægt að vera málefnalegur en samt beittur og ákveðinn. Það má gagnrýna vinnubrögð, meðhöndlun máls, aðgerðarleysi eða lýsa yfir óánægju með verklag eða hvað eina án þess að ráðast á manneskjuna sjálfa sem persónu.

En þegar einhverjum finnst hann með öllu áhrifalaus enda þótt hann sé á launum við að "hafa áhrif" getur kannski verið erfitt að halda yfirvegun. Í þessum aðstæðum finnur fólk gjarnan til vanmáttar, finnst það komið út í horn. Alveg sama hversu aðstæður eru slæmar og staðan oft vonlaus er neikvæð framkoma og dónaskapur alltaf á ábyrgð þess sem hana sýnir. Hver og einn verður að gera upp við sig hvort hann sé sáttur við framkomu sína og samskipti við samstarfsfélaga sína.

Þingmaður sem er mjög dónalegur og grófur í tali gagnvart öðrum þingmanni styrkir varla stöðu sína. Reyndar er eins og sumum sem á slíkt hlusta finnist þetta auka virðingu og vegsemd viðkomandi þingmanns og vera merki um kraftmikinn og áræðinn þingmann. Sumir hafa e.t.v. gaman af þessu, finnst þetta flott, hugsa „já láttu hann bara hafa það „ o.s.frv. Í öðrum kann að hlakka, hugsa kannski „gott á helvítið“, eða „já og þetta eru nú ráðamennirnir sem þjóðin kaus“ o.s.frv., „fjör á þinginu ha!“

Þingmenn eru fyrirmyndir
Hafa skal í huga að þingmenn eru fyrirmyndir. Börn og unglingar heyra fréttir af hamaganginum á þinginu. Alist börn upp við að horfa á fullorðið fólk tala með þessum hætti hvert við annað er hætta á að þau telji þetta vera eðlilegur talsmáti og viðurkennd framkoma. Sumt fullorðið fólk af báðum kynjum tekur sjálft þátt í persónulegu skítkasti t.d. á samfélagsmiðlunum þar sem þeir láta móðan mása um einhverja manneskju og spara þá ekki ljótu orðin. Margir hugsa kannski, fyrst þingmenn leyfa sér að tala svona illa um þessa manneskju get ég gert það líka?

Gera þingmenn sér yfir höfuð grein fyrir hversu sterk fyrirmynd þeir eru bæði gagnvart fullorðnum og börnum?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband