Voru kannski fleiri verkefni hjá borginni stjórnlaus? Hvað með Gröndalshúsið, Vitann og Aðalstrætið?

Flokkur fólksins lagði til í morgun á fundi borgarráðs til að Innri endurskoðun geri sambærilega úttekt á Gröndalshúsinu og gert var á endurbyggingu braggans á Nauthólsvegi 100. Gröndalshúsið fór 198 milljónir fram úr áætlun. Leiða þarf til lykta hvort þetta verkefni eins og braggaverkefnið var stjórnlaust og uppfullt af misferlum. Eftir því sem fram hefur komið hjá Innri endurskoðun er á borði skrifstofunnar úttekt á framkvæmdum við Mathöll Hlemmi, Sundhöll, Vesturbæjarskóla og hjólastíg við Grensásveg.

Greinargerð
Svört skýrsla IE liggur fyrir um braggann þar sem staðfest er að innkaupareglur hafi verið brotnar, sveitarstjórnarlög brotin sem og fjölmargar siðareglur. Sem dæmi var leitað eftir verktökum og starfsmönnum í verkið í gegnum kunningjaskap. Verkið kostaði  425 milljónir króna af skattpeningum borgara Reykjavíkur, langt umfram það sem áætlað var.

Í ljósi þessa er full ástæða til að skoða önnur verkefni sem farið hafa fram úr áætlun með það fyrir augum að rannsaka hvort svipað var viðhaft og við braggaverkefnið. Nefna má að verkefni í tengslum við braggann voru ekki boðin út, kostnaðareftirlit var ábótavant, ekki voru gerðir samningar, margar vinnustundir skrifaðar og á einum tímapunkti voru 18 verktakar í vinnu. Reikningar voru samþykktir en ekki fylgst með að útgjöld væru innan fjárheimildar. Í frumkostnaðaráætlun vantaði marga þætti og sú áætlun sem gerð var, var ekki virt. Innkauparáð fékk ekki réttar upplýsingar og síðast en ekki síst borgarráð fékk rangar og villandi upplýsingar. Það er því full ástæða til að skoða önnur verkefni sem voru í gangi undir stjórn þessara sömu einstaklinga, á svipuðum tíma og sem voru keyrð langt fram úr áætlun. Í þessu sambandi þarf sérstaklega að skoða hlutverk, embættisfærslur, stjórnsýsluhætti og ábyrgð borgarritara og borgarstjóra og umfram allt skoða tölvupósta milli þeirra og skrifstofu eigna og atvinnuþróunar, bæði þá sem vistaðir hafa verið í skjalavörslukerfi borgarinnar sem og þá sem ekki hafa verið færðir þangað.  

Einnig var lagt til að Innri endurskoðun geri sambærilega úttekt á Aðalstræti 10 og bragganum á Nauthólsvegi 100. Aðalstræti 10 fór 270 milljónir fram úr kostnaðaráætlun. Leiða þarf til lykta hvort þetta verkefni eins og braggaverkefnið var stjórnlaust.

Flokkur fólksins leggur til að Innri endurskoðun geri jafnframt sambærilega úttekt á Vitanum við Sæbraut og gert var á endurbyggingu braggans á Nauthólsvegi 100. Vitinn fór 75 milljónir fram úr áætlun og er framkvæmdum ekki lokið. Leiða þarf til lykta hvort þetta verkefni eins og braggaverkefnið var stjórnlaust.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband