Mistök Sorpu kosta borgina 1.6 milljarð

Það er þungt í mér vegna bakreiknings Sorpu upp á 1.6 milljarð sem borgarbúar eiga að greiða. Þessi byggðasamlög eru tómt rugl, þau koma alla vega illa út fyrir borgina sem er meirihlutaeigandi en ræður engu í þessum stjórnum. Formaðurinn í Sorpu er Kópavogsmaður. Hér er bókun Flokks fólksins í málinu sem rætt var í borgarráði í morgun:
 
Kostnaður við framkvæmdir Sorpu er vanáætlaður um 1.6 milljarð. Reikningurinn er sendur til eigendanna. Ætlar borgarmeirihlutinn að sætta sig við þetta? Stjórn Sorpu ber ábyrgð en stjórnkerfi Sorpu er ekki í lagi, frekar en hjá öðrum byggðasamlögum. Byggðasamlög, eru ekki góð tilhögun þar sem ábyrgð og ákvarðanataka fara ekki saman. Í þessu tilfelli er Reykjavík með einn fulltrúa í stjórn af 6 (17 % vægi), en á rúm 66 % í byggðasamlaginu. Ábyrgð fulltrúa Reykjavíkur er um 20 sinnum meiri er stjórnarmanns frá fámennasta sveitarfélaginu. Formaður Sorpu ætti því að koma frá Reykjavík. Sorpa ætlar að fresta framkvæmdum. Frestun er tap á umhverfisgæðum og fjármunum. Fresta á kaupum á tækjabúnað til að losa matvöru úr pakkningum. Ótal margt þarf að skoða annað t.d. er Sorpa ekki að flokka nægjanlega mikið á söfnunarstað. Flokkun er forsenda fyrir því að nýta úrganginn. Verðmæti eru í úrgangi sem verða að engu þegar mismunandi vöruflokkum er blandað saman. Hér er tekið undir orð formanns borgarráðs í fjölmiðlum að svona eigi ekki að geta gerst. Borgarfulltrúi er á móti því að veðsetja útsvarstekjur borgarinnar vegna vanáætlunar Sorpu sem sögð er vera vegna mistaka. Flokkur fólksins sættir sig ekki við skýringar sem hér eru lagðar fram og krefst þess að stjórnin axli á þessu ábyrgð.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband