Metantillaga Flokks fólksins sem lögð var fram í borgarstjórn í júní skilar árangri

Strætó bs. skoðar nú fýsileika þess að metanvæða hluta
af bílaflota fyrirtækisins. Markmiðið er að nýta mikla umframframleiðslu Sorpu bs. á gastegundinni. Nýlega festi Strætó kaup á tveimur metanvögnum. Annar þeirra var tekinn í notkun í byrjun september og hefur reynslan af akstrinum verið góð.

Þetta er fagnaðarefni sér í lagi að þetta er einmitt tillaga Flokks fólksins sem lögð var fram í borgarstjórn 18. júní 2019 og hljóðar þannig að borgarstjórn samþykki að álykta um að Sorpa hætti brennslu á metani og að það verði þess í stað nýtt sem eldsneyti t.d. með því að fjölga metanvögnum Strætó bs.

Ég vil bara trúa að þessi tillaga hafi haft þessi áhrif. Henni var vísað til stjórnar Strætó bs. Auðvitað mun Flokkur fólksins aldrei fá neina staðfestingu á því að þessi tillaga hafi leitt til frekari skoðunar á málinu með þessari góðu niðurstöðu. 

Ég hef fylgt eftir þessari tillögu  í fjölmörgum bókunum um orkuskipti, nota öll tækifæri til að minnast á metan sem framleitt er mikið af en brennt á báli þar sem ekki er hægt að hleypa því út í andrúmsloftið. Því er það  svo upplagt að nota það á strætisvagna og þess vegna lagði ég þetta til

 

Hér er tillaga í heild sinni ásamt greinargerð og bókun mín við afgreiðslunni:

Borgarstjórn
18. júní 2019
Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að álykta um að Sorpa hætti brennslu á metani og að það verði þess í stað nýtt sem eldsneyti t.d. með því að fjölga metanvögnum Strætó bs.

Strætó á nú tvo metanvagna. Metan er á söfnunarstað verðlaust og er metan sem ekki selst brennt á báli. Tillagan gengur út á að byggðasamlagið Strætó bs nýti metan sem byggðasamlagið Sorpa framleiðir en nýtir ekki.  Samkvæmt upplýsingum frá Strætó bs var í nýju útboði óskað eftir tilboðum í vetnisvagna. Það er sérkennilegt að ekki er óskað eftir tilboðum í vagna sem nýta metan jafnvel þótt hér sé framleitt metan sem ekki er nýtt. Vetni myndar vissulega ekki mengunarefni í borginni.  Framleiðsla á vetni með rafgreiningu er hins vegar dýr, en það er eina leiðin til að búa það til hér á landi. Þess vegna myndi þurfa að flytja vetnið inn.

Greinargerð

Í ljósi þess að  metan er til og ekki nýtt er eðlilegt að borgarstjórn fari fram á að þessi tvö fyrirtæki hafi samráð um að annað nýti efni sem hitt framleiðir. Hér er verið að tala um hagræðingu og sparnað. Við þessa tilhögun minnkar sú sóun sem felst í því að brenna metani og á móti er dregið úr innflutningi á eldsneyti.

Nokkur orð um metan.
Metangas  myndast við að náttúrulegar bakteríur brjóta niður lífrænt efni. Í Álfsnesi er lífrænt sorp urðað og þar myndast metangas og því gasi er safnað. Metanið er orkuríkt, en einnig slæm gróðurhúsalofttegund eða um 30 sinni áhrifameiri en koltvísýringur. Sé það ekki nýtt er betra að  brenna gasinu en að leyfa því að stíga út í andrúmsloftið því við bruna á metani myndast koltvísýringur og vatnsgufa.

Eins og framan greinir kom fram í svari frá Strætó bs við fyrirspurn borgarfulltrúa um málið að fyrirtækið hefur óskað eftir tilboðum í vetnisbíla en ekki metanbíla þótt  nóg sé til af metani. Það er vægast sagt sérkennilegt.

Skynsamlegt væri að Strætó bs. eignaðist  fleiri metanvagna og nýtti gasið frá Sorpu. Þar sem Reykjavíkurborg á meirihlutann í báðum þessum byggðasamlögum, Strætó bs og Sorpu ætti borgin að geta haft einhverja skoðun á því hvernig þeim er stjórnað þegar kemur að hagræðingu og sparnaði.

Almennt séð þá er vont til þess að vita að Sorpa skuli ekki geta selt allt það metangas sem hún framleiðir og í þess stað þurfi að brenna því engum til gagns. Það er óskiljanlegt af hverju annað fyrirtækið geti ekki nýtt sér það sem hitt framleiðir, fyrirtæki sem  bæði eru að stórum hluta í eigu borgarinnar.

Rökrétt er að reyna að nýta metangasið á stóra bíla, þar sem illa hefur gengið að koma því á almenna bílaflotann. Að nota gasið á strætisvagnana er því sjálfsagt mál. Það er sóun að brenna gasinu til einskis nema í þeim tilgangi að minnka gróðurhúsaáhrifin að sjálfsögðu.  Metangassöfnun í Álfsnesi árið 2014 samsvaraði 2,2 milljónum bensínlítra og hefur varla minnkað síðan. Þarna er nægt gas til að nýta á fjölmarga strætisvagna sé vilji til.

Bókun Flokks fólksins:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins fagnar því að tillögunni er vísað til stjórnar Strætó bs og vill binda vonir við að tillaga Flokks fólksins um að nýta metangas sem Sorpa framleiðir á metanvagna Strætó bs fái upplýsta umræðu þar.

Borgarfulltrúa brá talsvert við að frétta að Strætó hafi gert tilboð í vetnibíl og vonar að það tilboð sé runnið út í sandinn enda ekki mjög skynsamleg ráðstöfun. Eftir tilraun með vetnistrætó upp úr árinu 2000 ætlar borgarfulltrúi að vona að stjórnvöld láti ekki plata sig aftur enda er það þannig að framleiðsla á vetni með rafgreiningu er dýr en það er eina leiðin til að búa það til hér á landi. Þess vegna myndi þurfa að flytja vetnið inn. Það er sárt að sjá  hvernig  metan er á söfnunarstað verðlaust og brennt á báli þegar hægt væri að nýta það sem orkugjafa á strætisvagna.   Nefnt hefur verið að metanvagnar séu „hávaðasamir“. Borgarfulltrúi hefur ekki heyrt að það sé vandamál en  svo fremi sem ekki sé um að ræða þess meiri hljóðmengun hlýtur sparnaðar- og hagræðingarsjónarmið að ráða hér.

Mynd 4 17.12

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband