Stýrihópur um þjónustu borgarinnar við gæludýr

Eins og margir kannski vita þá hef ég lagt fram nokkrar tillögur er varða gæludýr og hundamál og má sjá þær hér neðar í færslunni. En nú hefur verið stofnaður stýrihópur hjá borginni sem fara á yfir þjónustu borgarinnar við gæludýr. Ég hef spurt formanninn hvort þessi mál sem öllum var vísað til umhverfis- og heilbrigðisráðs muni koma til skoðunar hjá hópnum. Hann svaraði því reyndar ekki en sagði að vinna taki nokkra mánuði og haft verði samráð við hagsmunaaðila. Ég hef miklar áhyggjur af þessu. Samráð þessa meirihluta við hagsmunaaðila hafa hingað til verið meira á orði en á borði.

Tillögur um hunda og gæludýr:
 
13. september 2018 lagði ég fram tillögu um að hunda- og kattahald yrði leyft í félagslegum íbúðum í Reykjavík. Tillögunni var vísað til stjórnar Félagsbústaða þar sem hún var í vinnslu heila meðgöngu en var síðan samþykkt.
Undir lok síðasta árs lagði ég fram nokkrar tillögur:
 
Tillögu um að heimilt verði að halda katta- og hundasýningar í íþróttahúsum
 
Tillaga um að rýmri reglur verði fyrir gæludýr í strætisvögnum
 
Tillaga um að Reykjavíkurborg hefði frumkvæði að því að heilbrigðisnefnd Reykjavíkur fái undanþágu frá reglugerð um hollustuhætti og að samþykkt um hundahald verði endurskoðuð m.t.t. undanþágu frá reglugerðinni um:
 
1. Að gæludýr hafi aðgang að kaffihúsum með eigendum sínum þar sem rekstraraðilar leyfa.
2. Gæludýr hafi aðgang að verslunarmiðstöðvum nema annað sé tekið fram.
3. Einnig er lagt til að hundaleyfisgjaldið verði nýtt til að bæta aðstöðu fyrir hundaeigendur í borginni. Gjaldið er nú notað til að greiða starfsemi hundaeftirlits borgarinnar.
 
Tillaga um að hundagjald hundaeigenda sem eru öryrkjar og/eða eldri borgarar verði fellt niður
 
Tillaga um að hundaeftirlitsgjald verði notað í þágu dýr og eigenda þeirra í ríkari mæli en gert er
 
Tillaga um að lagfæringar verði gerðar á hundasvæðinu í Geirsnefi og sá peningur sem innheimtur er með hundaeftirlitsgjaldi verði nýttur til þess.
 

Færum dýrahald í borginni til nútímans
Gæludýr, þar með taldir hundar og kettir, eru hluti af lífi fjölmargra og skipa stóran tilfinninga- og félagslegan sess í hjörtu eigenda þeirra. Öll þekkjum við ýmist persónulega eða hjá vinum og vandamönnum hvernig gæludýr geta dimmu í dagsljós breytt, ekki síst hjá þeim sem eru einmana. Margar rannsóknir hafa sýnt fram á góð áhrif af umgengni manna við dýr. Rannsóknir sýna að umgengni við dýr eykur tilfinningalega og líkamlega vellíðan og eykur m.a. sjálfstraust, einbeitingu, athygli sem og minnkar streituviðbrögð. Dýr veita einstaklingnum vinskap, líkamlega snertingu og sýna áhuga og væntumþykju án nokkurra skilyrða. Ást til gæludýrs getur verið djúpstæð. Hundar og kettir eru til dæmis oft hluti af fjölskyldunni. Sú sorg sem nístir þegar gæludýr fellur frá eða er aðskilið frá eiganda sínum þekkjum við mörg, ef ekki af eigin reynslu þá annarra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband