Fádæma hroki stjórnarmanns borgarinnar í Sorpu

Í borgarstjórn á þriðjudag lagði ég fram tillögu um að metan sem er offramboð af yrði selt á kostnaðarverði m.a. til að flýta fyrir orkuskiptum. Metani er brennt á báli í stórum stíl þar sem það er ekki nýtt og það er auðvitað hrein og klár sóun. Ég vil sýna ykkur hér bókun meirihlutans eða Lífar Magneudóttur, stjórnarmanns í Sorpu. Í þessari bókun skín eindæma hroki stjórnarmannsins finnst mér en meti hver fyrir sig:
 
Bókun meirihlutans við tillögu Flokks fólksins um að selja metan á kostnaðarverði.
Tillagan er vanhugsuð. Með henni er borgarfulltrúi Flokks fólksins að leggja til að SORPA bs. gefi metan þar sem aðeins væri rukkað fyrir flutning. Það er engan veginn kostnaðarlaust að framleiða metan og geyma og koma upp viðeigandi yfirbyggingu í kringum starfsemina. Þar fyrir utan gæti tillagan, ef hún næði fram að ganga, brotið í bága við samkeppnislög sem banna fyrirtækjum í markaðsráðandi stöðu að selja vörur undir kostnaðarverði og raska þannig samkeppni.
 
Hér er tillagan í heild með greinargerð og bókun Flokks fólksins:

Flokks fólksins leggur til að borgarstjórn samþykki að fela fulltrúa sínum í stjórn Sorpu að leggja fram tillögu um að söluverð metans verði lækkað og miðist til frambúðar við kostnað Sorpu við það að flytja það frá framleiðslustað á sölustað.
Metanbílar hafa verið teknir af lista vistvænna bíla af því að ekki er hægt að tryggja að þeir aki á vistvæna orkugjafanum eins og segir í rökum. Það eru því engar ívilnanir frá borginni fyrir eigendur metanbíla lengur, en samkvæmt nýjum reglum Reykjavíkurborgar um bíla mega þeir sem teljast vistvænir leggja gjaldfrjálst í 90 mínútur í gjaldskyld stæði. Þessar reglur hvetja ekki fólk í orkuskiptin. Á sama tíma er Sorpa, sem er byggðasamlag, að brenna metani á báli í stórum stíl.
 
Flokkur fólksins vill með þessari tillögu leggja áherslu á mikilvægi þess að nýta þennan vistvæna orkugjafa sem nóg er til af og verður enn meira þegar ný jarðgerðarstöð í Álfsnesi er komin í virkni. Til að selja metan á hinn almenna bílaflota í Reykjavík þarf það að vera samkeppnishæft við aðra orkugjafa svo bíleigendur kaupi bíla sem ganga fyrir metani. Það er betra að fá lítið fyrir það en ekki neitt og þurfa að brenna því. Að nota metan sparar auk þess innflutning á jarðefnaeldsneyti.
 
Greinargerð

Offramboð er af metani og þess vegna er því brennt á söfnunarstað. Mikilvægt er að koma því út fyrir lágt verð. Að öðrum kosti mun það ekki seljast. Nú er ljóst að Sorpa er á hvínandi kúpunni. Einhver umræða er komin í gang um að hefja sölu á metani og selja það dýrt, „til að bjarga Sorpu“. Ef reyna á að selja metan dýrt mun það hafa letjandi áhrif á fjárfestingu fólks á metanbílum. Það mun þá einfaldlega ekki seljast. Metansala mun að sjálfsögðu ekki bjarga Sorpu sem skuldar 4.1 milljarð. Ef hækka á verð á metani er það einfaldlega ávísun á að það mun ekki seljast og enn meira af því verður brennt á báli í Álfsnesi. Hver græðir á því? Flokkur fólksins vill að borgarbúar fái metan á bíla sína á eins ódýran hátt og hægt er og jafnvel gefins til að flýta fyrir orkuskiptum.
Afhendingarstöðum þarf svo að fjölga samfara aukinni notkun metans. Í þessu hefur ríkt hægagangur og menn virðast gleyma því að brennsla metans á báli er sóun. Notkun metans sparar innflutning á öðru eldsneyti sem er allra hagur. Borgarfulltrúi Flokks fólksins heyrir ekki mikið af hvatningu um að nýta metan. Að metanbílar skyldu verða undanskildir frá vistvænum flokki bíla í nýjum reglum er með óllíkindum enda líklegt að bíll sem er metanbíll aki að mestu á metani þótt hann sé einnig bensínbíll og að bensínið á metanbílunum sé fyrst og fremst notað sem varaafl.
Það sem hér um ræðir er að borgin er að sóa orkugjafa sem væri þess í stað hægt að nýta öllum til góðs. Borgarfulltrúi Flokk fólksins hefur áður bent á að skynsamlegt væri að Strætó bs. eignaðist fleiri metanvagna og nýtti gasið frá Sorpu. Hér getur borgarstjórn beitt sér og á að gera það með því að hvetja þessi fyrirtæki til samtals og samvinnu og tryggja þannig að orkugjafi sem nóg er til af nýtist. til að tryggja hagræðingu og sparnaði.
Almennt séð þá er vont til þess að vita að Sorpa skuli ekki hafa reynt að markaðssetja metanið meira og einfaldlega fundið leiðir til að borgarbúar geti notið góðs af því á bíla sína sem lið í orkuskiptum og með umhverfissjónarmið að leiðarljósi.
 
Bókun Flokks fólksins
Tillagan um að söluverð metans verði lækkað og miðist við flutningsverð hefur verið felld. Ofgnótt er af metani, á því er offramleiðsla. Hvað varðar þennan orkugjafa hefur borgarmeirihlutinn þessi og síðasti haldið einstaklega illa á málum. Í stað þess að finna leiðir til að nýta metan hefur því verið brennt á báli til að menga ekki andrúmsloftið. Hvar er forsjálni og fyrirhyggja þeirra sem stýrt hafa borginni og SORPU. Í engu tilliti hefur verið reynt að markaðssetja metan nema síður sé. Nú vill borgarfulltrúi Flokks fólksins að það sé selt á flutningsverði í þeirri von að það leiði til fjölgunar metanbíla á götum. Með þessari aðgerð er vel hugsanlegt að stórt stökk verði tekið í orkuskiptaferlinu. Nú blasir við að SORPA er í slæmum fjárhagsvanda sem rekja má til lélegrar stjórnunar. Hvorki metan né molta mun bjarga SORPU sem skuldar 4.1 milljarð. Það yrði en ein vond ákvörðunin að ætla að fara að verðleggja metan hátt, það mun einfaldlega þýða að engin mun kaupa það. Betra er að nánast gefa það en sóa því á báli. Hugsa þarf út fyrir boxið og muna að SORPA er í eigu borgarinnar að stórum hluta og það er Strætó bs. líka sem gæti haft einungis metanvagna og nýtt metanið frá SORPU.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband