Hverjum hefði dottið þetta í hug?
8.4.2020 | 11:06
COVID og kvíðabörnin
Margir eiga erfitt með að átta sig á þeim aðstæðum sem nú ríkja um heim allan. Hverjum hefði dottið í hug, t.d. um áramótin, að eitthvað þessu líkt biði okkar í upphafi árs. Útbreiðsla hættulegrar veiru hefur snúið lífi okkar allra á hvolf. Hver og einn bregst við á sinn hátt, eftir eðli og aðstæðum, aldri og þroska, og í gegnum þennan erfiða tíma förum við saman. Þetta mun taka enda en eftir COVID-19 faraldurinn verðum við stödd í breyttum veruleika.
Mér er eins og mörgum umhugað um þá viðkvæmustu og vil tala hér um börn sem eru af ýmsum ástæðum sérlega viðkvæm fyrir aðstæðum sem ógna og skapa hættu. Þetta eru börnin sem glíma við meiri kvíða en þann sem er einfaldlega hluti af almennu þroskaferli. Stundum er talað um að barn sé kvíðabarn. Þetta eru börnin þar sem kvíði stýrir þeirra lífi of mikið og sum eru greind með kvíðaröskun.
Almenn kvíðaröskun einkennist af miklum óraunhæfum kvíða eða áhyggjum. Flest börn og unglingar finna af og til fyrir kvíða til dæmis í tengslum við fjölskyldu sína, vini eða frammistöðu í skóla. Þau sem haldin eru almennri kvíðaröskun eru svo kvíðin að það hefur hamlandi áhrif á líf þeirra. Þau hafa óeðlilega miklar áhyggjur af því sem koma skal svo sem prófum eða félagslegum samskiptum. Einnig geta áhyggjurnar tengst því hvernig þeim gekk í fortíðinni, það að standast áætlanir, viðhalda venjum og af heilsufari. Hjá þessum börnum hefur nú bæst ofan á kvíðabunkann og það er hinn skaðlegi COVID-19 sjúkdómur. Hvernig þessi börn og öll önnur koma út úr þessu tímabili er í höndum okkar fullorðinna og samfélagsins.
Augu og eyru alls staðar
Ef barn upplifir kvíða yfir langan tíma geta afleiðingar orðið langvinnar. Einkenni kvíða, áhrif og afleiðingar fara eftir ótal þáttum og birtast líkamlega, tilfinningalega og félagslega. Kvíðinn er gjarnan bundinn við ytri aðstæður og snýst um hluti sem geta valdið skaða, meitt eða deytt. Eitt af því sem kvíðabörn eru hrædd við er að þeirra nánustu veikist og deyi. Óstöðugleiki og óvissa eru streituvaldar og að geta ekki fengið skýr svör við spurningum lætur börnin oft líða enn verr.
Nú eru aðstæður með eindæmum erfiðar þegar kemur að streituvöldum. Mörg barna sem eru með kvíða eru einnig lokuð, ofhugsa alla hluti og eru með augu og eyru alls staðar. Þau soga í sig allar fréttir og draga eigin ályktanir sem taka mið af aldri þeirra og þroska hverju sinni. Orðræðan um faraldurinn er í fjölmörgum birtingarmyndum og eðli málsins samkvæmt oft ógnvænleg.
Útilokað er að halda börnum frá umræðunni enda snýst samfélagið allt í kringum vágestinn. Að reyna að leyna barni fréttum sem skilur og skynjar hvað er í gangi myndi bara gera illt verra. Samskipti, tjáning, umræða og fræðsla er börnum ávallt mikilvæg fyrir þroskaferil þeirra. Þau eru kannski oft búin að spyrja foreldra sína en finnst þau ekki fá nægjanlega skýr svör enda þau oft ekki til. Svör á borð við þetta verður allt í lagi; ekki hafa áhyggjur; hættu nú að kvíða o.s.frv. eru oft aðeins skammgóður vermir.
Í núverandi aðstæðum eru engar töfralausnir fyrir kvíðabörnin. Hins vegar er mikilvægt að fylgjast með þeim og fá þau til að tjá áhyggjur sínar frekar en að loka þær inni. Börn horfa til fyrirmynda sem oftast eru foreldrar. Þau eru næm á líðan foreldra og skynja ef þeir eru stressaðir eða með áhyggjur. Þau horfa á líkamsmál eins og raddblæ og svipbrigði til að meta áhyggjustig þeirra. Það skiptir miklu máli að foreldrar sýni ró og yfirvegun í öllum sínum háttum nú þegar mest á reynir. Ef fullorðna fólkið sýnir taugaveiklun og stjórnlausa hræðsluhegðun í návist barna munu börnin verða skelfingu lostin. Ef börn sjá að þeir sem eiga að gæta öryggi þeirra eru lamaðir af ótta er öryggiskennd kippt undan fótum barnanna sjálfra.
Áfallastreituröskun (Post-Traumatic Stress Disorder)
Áföll hafa alltaf einhver áhrif en mismikil. Alvarleiki atburða/aðstæðna og hversu langvinnt ástandið er eru mikilvægustu þættirnir varðandi áhættu á að þróa með sér áfallastreituröskun. Einkenni áfallastreituröskunar eru m.a. viðvarandi mikill ótti, hjálparleysi, lystarleysi, svefnvandi, martraðir og breyting á hegðun. Einkennin koma venjulega í ljós innan þriggja mánaða eftir áfallið en stundum þó talsvert síðar eftir atburðinn. Í kjölfar áfalls, næstu vikur á eftir, verða oftast einhverjar breytingar á atferli, hugarfari og tilfinningalífi.
Segja má að heimurinn sé í stríði og veiran er óvinurinn. Þegar stríðið er unnið þá bíður að koma hugsunum tengdum stríðinu úr hugum barnanna. Óttinn að stríðið skelli aftur á er einn liður í áfallastreitu barna. Áfallastreituröskun er því aðeins greind jafni börnin sig ekki með tíð og tíma eftir áfallið, ef líf þeirra hefur ekki komist í jafnvægi þrátt fyrir að dagleg rútína og viðunandi stöðugleiki er komin á. Börn þurfa að vita að jörðin er góður staður og þau þurfa að sjá það í kringum sig. Umfram allt viljum við forðast að börn komi til með að glíma við áfallastreituröskun eftir að stríðið við COVID-19 hefur verið unnið.
Grein birt í Morgunblaðinu 8.4. 2020