Hópar sem hafa orðið út undan í Covid-19 aðstæðunum

Í borgarráði í morgun var umræðan m.a. um áhrif Covid-19 enda fátt annað sem á hug okkar þessa dagana. Ég bókaði um eldri borgara, leigjendur hjá Félagsbústöðum og dagforeldra, allt hópar sem mér finnst hafa orðið út undan í þessu Covid-19 aðstæðum.

Bókun:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur lagt fram nokkrar viðspyrnutillögur sem ekki er alveg ljóst hvernig afgreiðslu sumar þeirra muni fá. Ein af þessum tillögum var að dagforeldrar fái fulla niðurgreiðslu ef það þarf að loka vegna sóttkvíar, af völdum þeirra, foreldra, barnanna eða annarra sem koma með og/eða sækja börnin hjá þeim. Við aðstæður sem þessar þarf að tryggja dagforeldrum óskert laun. Dagforeldrar hafa starfað sem framlínustarfsfólk og hefur ekkert verið rætt um úrræði ef upp kæmi mögulega smit á heimili barns í gæslu sem kallar á sóttkví og þ.a.l. lokun daggæslu. Fram kemur hjá borgarstjóra að ákveðin vinna sé í gang hvað varðar dagforeldra og muni sveitarfélög verða samferð í þessum aðgerðum. Ekki er vitað meira um hvað verður um málefni dagforeldra. Dagforeldrar geta ekki beðið mikið lengur eftir að fá upplýsingar frá borgaryfirvöldum hvort borgin greiði ekki örugglega tekjutapið.

Aðrar áhyggjur Flokks fólksins eru hversu út undan leigjendur hjá Félagsbústöðum hafa orðið í öllu þessu ástandi. Ekki hafa borist svör við tillögu Flokks fólksins um niðurfellingu leigu í 2-3 mánuði eins og Flokkur fólksins lagði til strax í upphafi Covid- faraldursins. Boð Félagsbústaða um greiðsludreifingu nær allt of skammt. Ganga þarf lengra og fyrir því er nú þegar fordæmi hjá öðru leigufélagi.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins vill taka undir ályktun Landssamband eldri borgara LEB. Það er áberandi hvað eldri borgarar hafa orðið út undan þegar horft er til aðgerða vegna þeirra áhrifa sem kórónuveiran hefur á þjóðfélagið. Hvar eru aðgerðir sem snerta hagsmuni eldri borgara landsins? Flokkur fólksins hefur barist fyrir bættri þjónustu við eldri borgara bæði á Alþingi og í Reykjavík en ekki haft árangur sem erfiði. Í því árferði sem nú ríkir þurfa margir eldri borgarar á víðtækri þjónustu að halda eins og að fara í mötuneyti, verslanir og apótek og í leigubíl. Nú þurfa eldri borgarar að fá sendingar heim sem felur í sér aukinn kostnað.
Flokkur fólksins tekur undir áskorun stjórnar LEB að sveitarfélögin taki upp gjaldfrjálsa heimsendingu til þeirra eldri borgara sem þurfa að fá sendingar heim til sín og lækki fasteignagjöld. Það er margt fleira sem velferðayfirvöld borgarinnar geta gert til að létta undir með þessum hópi. Margir eldri borgarar hafa þurft að loka sig af, einangra sig vegna hættu á smiti. Fjárhagsáhyggjur er ekki á slíkt bætandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband