Setja þarf hámarkshraða hjóla á göngu- og hjólastígum

Á fundi skipulags- og samgönguráðs í morgun lagði ég fram tillögu um að setja hámarkshraða hjóla á göngu- og hjólastígum og aðliggjandi gangstéttum til að tryggja öryggi hjólandi og gangandi, sumir með hunda í taumi. Flokkur fólksins bendir jafnframt á að tilefni kann að vera til að auka eftirlit með umferð á gangstígum vegna t.d. mikillar umferðar á rafknúnum vespum, raf-hlaupahjólum og öðrum minni vélknúnum faratækjum.
 
Hjólreiðar hafa aukist og er það vel. Hins vegar hafa kvartanir einnig aukist sem lúta að hættu sem stafar af hjólreiðamönnum sem hjóla fram hjá gangandi vegfaranda eða hjólreiðamanni á mikilli ferð. Heimilt er að hjóla á gangstétt, göngustíg eða göngugötu, enda valdi það ekki gangandi vegfarendum hættu eða óþægindum eða liggi sérstakt bann við því. Hjólreiðamaður skal gæta ýtrustu varkárni og ekki hjóla hraðar en svo að hann geti vikið úr vegi fyrir gangandi vegfarendum. Skort hefur á að borgaryfirvöld birti og minni á reglur um hjólreiðar. Skortur er á viðeigandi fræðslu og viðvörunum svo varast megi óhöpp og slys. Slys hafa orðið og enn oftar legið við slysum þar sem hjólandi ekur fram hjá á miklum hraða og rekur sig í hjólreiðamann, eða gangandi vegfaranda eða hunda. Ekki er nóg að leggja hjólreiðastíga heldur verður yfirvald einnig að sýna tilhlýðilega ábyrgð og sinna fræðslu til að fyrirbyggja slys og óhöpp.
 
Greinargerð
Flokkur fólksins leggur til að borgaryfirvöld taki þessi mál föstum tökum og komi upp bæði skiltum og fræðsluefni um hjólreiðar og að hverju þurfi að gæta, sérstaklega að í borgarlandinu. Færst hefur í aukana að fólk noti hjól sem samgöngutæki og er það hið besta mál. Hjólastígum hefur fjölgað mikið og fyrir liggur að fjölga þeim enn meira. Um reiðhjól gilda um margt sömu lögmál og um bíla. Hjólreiðamönnum farnast best þegar þeir haga sér líkt og aðrir ökumenn í umferðinni og þegar komið er fram við þá sem ökumenn.
Í VII. kafla umferðarlaga er fjallað um reglur fyrir hjólreiðamenn. Í 42. gr. er fjallað um akstursstefnu, umferðarreglu og hvernig skuli aka fram úr á reiðhjóli. Í 43. gr. er síðan fjallað um hvaða reglur gildi við notkun reiðhjóla á göngustígum, gangstéttum og göngugötum. Heimilt er að sekta fyrir brot á 42. gr. Það er þó ekki heimilt að sekta fyrir broti gegn 43. gr. Því er ekki heimild í umferðarlögum til að sekta fyrir það ef hjólreiðamaður brýtur gegn þeim reglum sem fjalla um hegðun hjólreiðamanna á göngustígum eða á hjólastígum sem liggja við göngustíga. Um þá gilda hinsvegar almennar reglur um tillit til gangandi vegfarenda, sbr. 27. gr. umferðarlaga, sem leggja þá skyldu á ökumenn til að gefa vegfarendum færi á að víkja til hliðar og veita þeim nægilegt rými. Ef ökumaður reiðhjóls ekur á gangandi vegfaranda þá getur verið heimilt að sekta hann samkvæmt þessu ákvæði. Hámarkshraði á göngustígum og hjólastígum í þéttbýli er hinn almenni hámarkshraði í þéttbýli, 50 km á klukkustund, nema að veghaldari ákveði önnur hraðatakmörk. Reykjavík getur ákveðið hámarkshraða á vegum borgarinnar, sbr. 84. gr. umferðarlaga. Reykjavík getur því sett reglur um hámarkshraða á göngustígum, gangstéttum og reiðhjólastígum. Á umferðarþungum stofnbrautum með að- og fráreinum og miklum umferðarhraða gilda að hluta aðrar reglur.
 
Mörgum finnst þægilegt að hjóla á stígum og gangstéttum. Þeir upplifa það friðsælla og öruggara en það skapar meiri hættu fyrir gangandi vegfarendur og hunda. Hjólreiðamaður verður að takmarka hraða sinn á stígum og gangstéttum til að tryggja öryggi sitt og gangandi vegfarenda. Hjólreiðamaður þarf að haga ferð og hraða miðað við aðstæður. Hjólreiðamaður þarf að lesa í umferðina og skilja hvernig hún virkar og sjá fram í tímann hvaða hættur geta steðjað að á leið hans. Hvernig hugsar gangandi vegfarandi, bílstjóri, eru dýr í næsta nágrenni sem huga þarf að o.s.frv.
Reiðhjól, rafknúnar vespur, rafknúin hjólabretti og rafknúin hlaupahjól geta náð miklum hraða. Dæmi eru um að þessi farartæki geti náð allt að 60 kílómetra hraða á klukkustund. Það er allt of mikill hraði í kringum gangandi vegfarendur. Hámarkshraði bifreiða í íbúðagötum er 30 kílómetrar á klukkustund, og í vistgötum og göngugötum mega vélknúin ökutæki ekki fara hraðar en 10km/h. Við þurfum að grípa til aðgerða sem tryggja öryggi að sama marki á göngustígum og hjólastígum borgarinnar.
 
Langflestir íslenskir hjólreiðamenn eru jafnframt bílstjórar. Ef menn hugsa um eigin hegðun í bíl og síðan á hjóli geta menn orðið bæði betri bílstjórar og betri hjólreiðamenn. Þetta má sjá í umferðarfræðum um hjólreiðar. Hjólreiðamenn eiga að gefa stefnumerki tímanlega, eins og aðrir í umferðinni. Nær allir stígar eða gangstéttir eru blandaðir stígar og gangstéttir. Á þeim og á gangstéttum eru hjólreiðamenn gestir og þurfa að taka fullt tillit til gangandi vegfarenda og hunda sem eru í taumi með eigendum sínum. Hægja þarf vel á áður en menn mætast eða farið er framúr. Gott er að hringja bjöllu í góðri fjarlægð því ef hringt er of nálægt geta vegfarendur vikið til hliðar og í veg fyrir reiðhjólið. En gangandi vegfarendur, sem og hjólandi eru oft að hlusta á tónlist og heyra því e.t.v. ekki bjölluviðvörun. Vert er að borgaryfirvöld minni á það með reglulegum hætti í ræðu og riti að áfengi og hjólreiðar eiga ekki samleið. Þá er brýnt að lögregluyfirvöld í borginni hafi virkt eftirlit með því að umferðarreglur séu virtar á göngustígum og hjólastígum borgarinnar.
 
 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband