Flokkur fólksins lætur sig hagsmuni dýra og dýraeigenda varða

Baráttan mín í borginni gegn hundaeftirlitsgjaldinu heldur áfram. Í gær lagði ég fram enn eina tillöguna, að þessu sinni að afnema skuli hundaeftirlitsgjaldið, eða "hundaskattinn" eins og sumir kalla gjaldið.
En hér er tillagan sjálf og bókanir í málinu.
 
Tillaga Flokks fólksins að afnema hundaeftirlitsgjaldið sem innheimt er af hundaeigendum borgarinnar.

Flokkur fólksins hefur áður verið með allmargar fyrirspurnir og tillögur um umrætt gjald sem er að engu leiti notað í þágu hunda og eigenda þeirra. Innheimta hundaeftirlitsgjalds er ósanngjörn innheimta, fétaka og ekki er alveg ljóst í hvað það er notað þar sem umfang verkefna borgarinnar er varða hunda hefur minnkað svo um munar.

Bæði tölur frá borginni og frá félögum hundaeigenda sýna mikla fækkun verkefna. Sem dæmi voru fjöldi hunda í hundageymslum árið 2010, 89 og 209 í lausagöngu en árið 2016 voru 11 í geymslu og 62 í lausagöngu. Í fyrra, 2019, voru þessar tölur enn lægri.

Í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árin 2021-2025 kom fram að lækkun verður almennt á eftirlitsgjaldi vegna minna eftirlits í fyrirtæki sem veita þjónustu. Þar er ekki minnst á hundaeftirlitsgjaldið. Nú er yfirvöldum í borginni ekki lengur stætt á þessu gjaldi. Engin sanngirni er í því að halda áfram að innheimta gjaldið lengur þar sem ekki er sama þörf fyrir þjónustuna og verkefnin sárafá.

Greinargerð

Eftir því sem best er vitað er starfandi stýrihópur sem endurskoðar reglur um dýrahald. Ekkert bólar á vinnu frá þeim hópi þrátt fyrir að nú sé borgarstjórn komin í sumarfrí. Ítrekað hefur komið fram hin megna óánægja sem ríkir með árlegt hundaeftirlitsgjald. Flokkur fólksins hefur margoft spurt um í hvað þessi gjöld fara nákvæmlega. Svörin eru ekki fullnægjandi og manni finnst sem gæti varna í umsögnum og viðbrögðum Heilbrigðiseftirlitsins. Greiðendur hundaeftirlitsgjalds telja margir að dæmið gangi ekki upp sama hvaða reikningskúnstir eru notaðar. Sífellt er vísað á heimasíðu en þar er ekkert sem fær dæmið til að ganga upp. Hundaeigendur greiða um 35 milljónir á ári í hundaleyfisgjöld en samt er það staðfest af Heilbrigðiseftirlitinu að verkefnum eftirlitsins hefur fækkað til muna og umfang starfs hundaeftirlistmanna þar með. Flokkur fólksins hefur óskað eftir að fá upp á borð vinnuskýrslur til að sjá verkefni og umfang verkefna þeirra en því hefur verið hafnað. Svo virðist sem þöggun ríki um þessi mál. Ef litið er nánar á tölur frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur sést að kvörtunum vegna hunda hefur fækkað. Árið 2000 voru kvartanir um 1300. Árið 2012 voru kvartanir milli 600 og 700, árið 2018 um 80 og árið 2019 um 84. Eins og segir í tillögunni hefur fjölda lausagönguhunda og hunda í hundageymslum stórfækkað og eru nú örfá tilfelli skráð.

Tillagan er felld.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.
 
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:
 
Tillaga Flokks fólksins að afnema hundaeftirlitsgjaldið sem innheimt er af hundaeigendum borgarinnar hefur verið felld á sama fundi og hún er lögð fram. Það á greinilega að halda áfram að innheimta sérstakt hundaeftirlitsgjald af hundaeigendum, gjald sem engan vegin er ljóst í hvað verið er að nota. Það er alla vega ekki verið að nota það í þágu hunda svo mikið er víst, hvað þá hundaeigenda. Ákveðið hefur verið að lækka almennt eftirlitsgjald vegna minna eftirlits í fyrirtækinu. Þetta var staðfest í fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir árin 2021-2025. Viðhorf og menning borgarinnar til hundahalds er fornaldarlegt og má skynja neikvæðni einstaka embættismanna í svörum við fyrirspurnum Flokks fólksins til heilbrigðiseftirlitsins. Þetta er upplifun fulltrúa Flokks fólksins. Svör og umsagnir hafa verið litaðar af pirringi og skilningsleysi embættiskerfisins og meirihlutans á að borgarfulltrúi er kjörinn til að gæta hagsmuna borgara og í þessu máli er verið að brjóta á rétti hundaeigenda.
Í bókun meirihlutans kemur m.a. fram:
Gjöldum fyrir hundaleyfi er samkvæmt samþykktum Reykjavíkurborgar um hundahald nr. 478 og er ætlað að standa undir kostnaði borgarinnar af hundahaldinu. Engin þöggun á sér stað um störf hundaeftirlitsins enda má finna allar upplýsingar á vef borgarinnar eins og ítrekað hefur verið bent á í svörum við fyrirspurnum borgarfulltrúa Flokks fólksins. Nú er verið að leggja lokahönd á stefnu um dýraþjónustu í borginni og vænta má breytinga og betrumbóta fyrir dýraeigendur í borginni.

Vísað er að öðru leyti í fundargerð borgarráðs 25. júní

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband