Heima sem lengst

Flokkur fólksins hefur barist fyrir bættum kjörum og aðstæðum eldri borgara og öryrkja bæði á Alþingi og í Reykjavíkurborg. Til þess að það geti verið raunverulegur kostur fyrir eldri borgara að vera sem lengst heima þá er mikilvægt að gera nokkrar breytingar á verkferlum þjónustunnar og taka inn fleiri þjónustuþætti. Þjónustuþörf er mismunandi eins og gengur en stundum vantar ekki mikið upp á til að viðkomandi geti búið lengur á heimili sínu.

Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram í velferðarráði 19. ágúst 14 tillögur sem sneru að bættri þjónustu við eldri borgara í heimahúsum og fjölgun þjónustuþátta. Öllum nema fjórum var hafnað. Frávísun var m.a. á grundvelli þess að verklagsreglur og framkvæmdaferill væru settar af starfsmönnum velferðarsviðs en ekki velferðarráði. Hvatinn að gerð tillagnanna var frétt um að matarsending til eldri borgara hefði verið skilin eftir á hurðarhúni eftir að sendill hafði hringt dyrabjöllu sem ekki var svarað.

 

Til þess að draga úr hættu á misskilningi milli þjónustuveitanda og þjónustuþega er greinilegt að breyta verður verkferlum. Hvað viðkemur þessum þjónustuþætti sérstaklega, lagði fulltrúi Flokks fólksins einnig til að maturinn væri sendur út sama dag og hann er framleiddur og að umbúðum verði breytt til að auðvelda þjónustuþegum að opna þær. Eins og umbúðir eru núna er erfitt að rífa plastið af bakkanum. 

Meðal tillagna var einnig ein tillaga sem laut að hlutverki sendilsins. Ef enginn skilaboð eða fyrirmæli liggja fyrir um annars konar afhendingu matarins þá er hægt að ganga út frá því sem vísu að þjónustuþegi taki á móti matnum úr hendi sendils. Ef þjónustuþegi svarar hvorki dyrabjöllu eða síma ætti sendill að hringja í ættingja og upplýsa um stöðuna. Ef enginn ættingi er til staðar þarf að upplýsa þjónustumiðstöð. Með símtali sendils til ættingja (eða þjónustumiðstöðvar) er ættingi kominn með upplýsingar um að þjónustuþegi svari hvorki dyrabjöllu né síma þrátt fyrir að hann viti að matarsending sé væntanleg. Ættingi (þjónustumiðstöð) getur þá tekið ákvörðun byggða á þessum upplýsingum um hvað skuli gera í stöðunni. Þetta gæti verið vísbending um að þjónustuþegi sé í vanda og kalla þurfi á lögreglu/sjúkrabíl.

 

Þegar eldri borgarar eru annars vegar eru allir þeir sem hafa við þá samskipti hluti af öryggisneti. Safnist sem dæmi matur upp hjá þjónustuþega sem óskað hefur eftir að hann sé skilinn eftir fyrir utan dyr hlýtur sendill að láta ættingja eða þjónustumiðstöð vita sem myndu í framhaldi leita orsaka.

Í öllu falli þarf matarsendingin að komast til skila enda vara sem búið er að greiða fyrir. Ekki er boðlegt að fara aftur til baka með matarsendinguna og ætlast til að þjónustuþegi sæki hana sjálfur, sendi leigubíl eftir henni eða fái hana daginn eftir. Þegar ekki er komið til dyra til að taka við matnum er heldur ekki réttlætanlegt að skilja matinn eftir á hurðarhúninum og láta þar við sitja nema fyrirmæli hafi komið um að það sé í lagi.

Fjölga þjónustutilboðum

Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að útvíkka þurfi einnig ákveðna þjónustuþætti og bæta fleirum við þá þjónustu sem nú býðst til þess að auka möguleikana á að viðkomandi geti búið lengur heima. Létta þarf fjárhagslega undir með mörgum eldri borgurum. Lagt var til að þeir sem búa í öðru húsnæði en þjónustuíbúð ættu að fá niðurgreiðslur á þeim þáttum sem eru að jafnaði innifaldir í þjónustuíbúð s.s. rafmagn, húsgjald og þrif í görðum.

 

Einnig var lagt til að velferðaryfirvöld taki þátt í kostnaði við öryggishnapp. Rök meirihlutans í velferðarráði fyrir að fella þá tillögu voru "að það sé varasamt að setja það fordæmi að borgin fari að fyrra bragði og óumbeðin inn á verksvið ráðuneytis og sendi þar með þau skilaboð að kostnaðarþátttaka ráðuneytis sé óþörf“.

En hver er eiginlega forgangsröðunin hér? Hvort er það þjónustuþeginn eða hræðsla velferðaryfirvalda við að gefa fordæmi?


Ekki ábyrgð velferðarráðs?

Það er sérkennilegt að vísa frá og fella tillögur með vísan í að verklagsreglur og framkvæmdaferill séu settar af starfsmönnum velferðarsviðs en ekki velferðarráði. Auðvitað kemur það velferðarráði við ef verklagsreglur og framkvæmdaferill þjónustu velferðarsviðs við eldri borgara í heimahúsi þarfnast betrumbóta eða er ábótavant.

Mannlegi þátturinn má aldrei gleymast þegar verið er skipuleggja þjónustu fyrir borgaranna. Velferðaryfirvöld ættu ávallt að hafa fullt samráð við þjónustuþega og hugsa hvert skref út frá þörfum hans. Hlusta þarf á þjónustuþegana og aðstandendur þeirra. Það er á ábyrgð velferðarráðs sem er yfir velferðarsviði að tryggja að allir þessir þættir séu í lagi.

 

Birt í Morgunblaðinu 31.8.2020


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband