Afsökunarbeiðni lágmark

Málefni Fossvogsskóla

Við erum í Fossvogsskóla núna í borgarstjórn. Ég kalla eftir að meirihlutinn biðji skólastjórnendur Fossvogsskóla, foreldra og börnin formlegrar afsökunar á að hafa ekki hlustað og brugðist strax og með markvissari hætti við ákalli um myglu þegar börn og starfsfólk veiktust ítrekað.
Málefni Fossvogsskóla er áfall. Meirihlutinn í borginni lagði mikið á sig til að sannfæra starfsfólk, foreldra og börn sem og alla borgarbúa að búið væri að komast fyrir myglu í Fossvogsskóla. Glænýjar, sláandi myndir eru nú birtar af loftræstikerfum í skólahúsnæðinu þar sem sjá má að inntak í loftræstikerfi skólans er þakið myglu en búið var að hylja hana með klæðingu. En og aftur er fullyrt af eftirlitsaðilum að búið væri að fara yfir loftræstikerfið. Annað hvort er eftirlitið gallað eða menn hafa vísvitandi horft fram hjá þessu nema hvoru tveggja sé. Þarna hafa börn verið látin stunda nám við afar mengandi aðstæður. Ákalli var ekki sinnt. Minnist borgarfulltrúi Flokks fólksins þess að hafa fengið skammir frá Heilbrigðiseftirlitinu í febrúar 2020 þegar sendar voru inn fyrirspurnir um málið. Var hann sakaður um dylgjur af hálfu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur. Svo mikið fyrir þær dylgjur þegar horft er til ástandsins nú. Kannski er ekki að vænta góðs þegar í svörum frá embættismönnum er farið fram með slíkum hroka þegar verið er að ganga erinda borgarbúa. Reynt var að þagga málið og sagt að viðgerð væri lokið. En hvar voru eftirlitsmennirnir? Nú er viðurkennt af meirihluta skóla- og frístundaráðs að bregðast hefði átt við fyrr og hlustað hefði átt betur. En á ekkert að biðjast afsökunar? Það þykir fulltrúa Flokks fólksins algert lágmark.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband