Flest er sjötugum fært
27.8.2021 | 10:55
Ég lagði fram þessa tillögu í borgarráði í gær.
Tillaga Flokks fólksins að Reykjavíkurborg bjóði eldra fólki, um og yfir sjötugt, sem hefur áhuga og löngun til að starfa, störf á leikskólum borgarinnar.
Í kjarasamningum segir að yfirmanni sé heimilt að endurráða mann/konu, sem náð hefur 70 ára aldri í annað eða sama starf á tímavinnukaupi, allt að hálfu starfi, án þess að það hafi áhrif á rétt hans til töku lífeyris. Heimildin er til staðar. því er ekkert að vanbúnaði. Hér er tilvalið tækifæri til nýta dýrmæta reynslu eldra fólks sem komið er um og yfir sjötugt og langar að nýta krafta sína og reynslu áfram á vinnumarkaði.
Það sárvantar fólk til starfa víða m.a. í leikskólum
Enn og aftur er ekki hægt að taka börn inn í leikskóla vegna manneklu. Þetta veldur foreldrum ómældu álagi. Svör eru óljós og loðin. Börn sem áttu að byrja í september geta kannski byrjað í október. Hér er um að ræða yngstu börnin og þau sem fædd eru síðast á árinu mæta algerum afgangi. Foreldrar eru í örvæntingu sinni að leita annarra leiða. Þau reyna að koma börnum sínum að, jafnvel í öðrum hverfum. Það skýtur skökku við að borgarstjórn sem vill draga úr akstri hafi skapað ástand þar sem foreldrar þurfa gjarnan að keyra þvert yfir borgina á háannatímum til að koma börnum sínum til og frá leikskóla.
Í þessum tilfellum er búið að kveðja dagmæðurnar. Sumarfríi er lokið og foreldrar byrjaðir að vinna. Ekki allir foreldrar eiga þess kost að vinna heima. Auk þess verður lítið úr vinnu heima þegar verið er að annast tæplega tveggja ára barn á sama tíma. Fulltrúi Flokks fólksins hefur gagnrýnt þetta harðlega og verið spurður af skóla- og frístundasviði hvaða lausnir hann telji vera í boði. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til í þessu sambandi að Reykjavíkurborg bjóði fólki sjötugu og eldra sem hefur áhuga á að vera lengur á vinnumarkaði og t.d. starfa í leikskólum störf eða starfshlutfall í stað þess að skikka það til að setjast í helgan stein.
Greinargerð
Sá mannekluvandi sem hér er reifaður á leikskólum borgarinnar er fyrst og fremst manngerður. Skóla- og frístundasvið borgarinnar hefur ekki tekist að leysa vandann. Það þarf að gera störfin aðlaðandi og eftirsóknarverð. Launin eru lág og álag stundum mikið. Ef ekki stendur til að hækka launin eða draga úr álagi þá þarf að reyna eitthvað annað til að fjölga starfsfólki. Ef hugsað er út fyrir boxið má sjá lausnir. Sú sem hér er lögð til er að ráða fólk um og yfir sjötugt til starfa á leikskólum borgarinnar. Vissulega mætti gera margt annað til að laða fólk til starfa í leikskólum, t.d. bjóða starfsfólki upp á aukafrí eða aðra umbun. Það verður að grípa til slíkra aðgerða þegar keyra á láglaunastefnu eins á þá sem borgin keyrir.
Skortur á leikskólaplássi er aukaálag á foreldra ofan á allt annað, svo sem COVID. Það gengur ekki að senda foreldrum bréf og segja því miður,það er bara ekki hægt að taka barnið ykkar inn í leikskóla eins og til stóð. Það segir í einu slíku bréfi frá leikskóla að það vanti ,,hæft starfsfólk, að auglýsingarnar skili litlu og ekki sé mikið um umsóknir sem henta. Margt eldra fólk er fullt af orku og áhuga en kerfið hefur sent þau heim af vinnumarkaði vegna þess eins að þau eru orðin sjötug.