Aðkoma Reykjavíkur að fjölþættri aðstoð fyrir flóttamenn frá Úkraínu

Borgarstjórn Reykjavíkur
15. mars 2022

Greinargerð með umræðu borgarfulltrúa Flokks fólksins um aðkomu Reykjavíkur að fjölþættri aðstoð fyrir flóttamenn frá Úkraínu

Inngangur

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir umræðu í borgarstjórn um aðkomu Reykjavíkurborgar að fjölþættri aðstoð og stuðningi (fjárhagsaðstoð, áfallahjálp, sálfræðiaðstoð, tækifærum til menntunar, frístunda og tómstundastarfs) fyrir úkraínsk börn og foreldra þeirra sem setjast að í Reykjavík vegna innrásar Rússahers í land þeirra.

Staðan í dag

Nú þegar hafa á annað hundrað flóttamenn frá Úkraínu óskað eftir hæli hérlendis frá því að innrásin hófst og fjölgar þeim með degi hverjum. Búist er við að tekið verði á móti allt að 2.000 manns frá Úkraínu næstu vikur og mánuði. Sumir munu dvelja hér tímabundið (a.m.k. eins lengi og innrásin stendur yfir) en aðrir munu setjast hér að til lengri tíma og jafnvel aldrei snúa aftur heim.

Stór hluti flóttafólks mun setjast að með börn sín í Reykjavík. Fjöldi úkraínskra barna sem koma til Reykjavíkur á næstu dögum og vikum gæti orðið allt að 200. Nú þegar hefur stórum hópi flóttamanna verið boðið húsnæði í Reykjavík af borgarbúum og einkaaðilum/fyrirtækjum sem hafa aukarými eða hafa yfir að ráða lausu húsnæði. Þak yfir höfuðið er frumskilyrði. Spurt er í því sambandi hvort Reykjavíkurborg geti lagt til húsnæði en mikill húsnæðisskortur er nú í borginni.

Flóttamennirnir koma hingað til landsins allslausir og í miklu áfalli. Þau þarfnast áfallahjálpar og persónulegrar, einstaklingsmiðaðrar aðstoðar fagfólks. Fólkið þarfnast fjárhagsaðstoðar til að geta keypt sér mat og aðrar nauðsynjar. Börnin þurfa að geta komist sem fyrst í leik- og grunnskóla, í frístund og tómstundir. Það er mikilvægt að þau geti farið að lifa eðlilegu lífi í öruggum aðstæðum sem allra fyrst.

Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að fram fari ítarleg umræða í borgarstjórn um hvernig Reykjavík ætlar að haga víðtækri og yfirgripsmikilli aðstoð sinni við flóttafólkið og börnin þeirra. Þessi umræða er mjög brýn nú ekki síst í ljósi þess að nú þegar eru langir biðlistar eftir aðstoð af öllu tagi í Reykjavík og biðlistinn eftir félagslegu og sértæku húsnæði er langur. Nú bætist við stór hópur flóttamanna í mikilli þörf og þessu fólki má Reykjavík ekki bregðast. Á sama tíma er ekki hægt að ætlast til að þeim sem beðið hafa vikum og mánuðum saman eftir nauðsynlegri þjónustu, börn, öryrkjar, fátækir, heimilislausir og eldra fólk, verði ýtt til hliðar og þau látin bíða enn lengur.
Það er þess vegna ekki seinna vænna en að Reykjavíkurborg setji sig í stellingar og hugsi þessi mál upp á nýtt. Sú staða sem nú er komin upp kallar á endurskoðun á fjölmörgu. Endurskoða þarf útdeilingu fjármagns. Kallað er eftir nýrri hugsun og nýrri nálgun sem setur fólk í fyrsta sæti. Fólkið fyrst og svo allt hitt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband