Lækka áfengisverð - áfengisaldur óbreyttur

Í kvöld horfði ég á þá Ágúst og Svavar í Kastljósinu en þeir ræddu áfengisverð og áfengisaldur af miklum móð. Báðir höfðu eitt og annað til síns máls. Mínar vangaveltur byggjast á áralangri vinnu með unglinga. Meginkjarni þessara vangaveltna er að lækka beri áfengisverðið en skynsamlegt sé að halda áfengisaldrinum óbreyttum.  Lækkun á áfengisverði ógnar ekki forvörnum, með öðrum orðum þá tel ég lágt áfengisverð ógni ekki forvörnum að sama skapi og ef við lækkum áfengisaldurinn.

Málið er viðkvæmt og finna má haldbær rök sem styðja hvort heldur að lækka beri áfengisaldurinn til jafns við sjálfræðisaldurinn og einnig að honum skuli haldið óbreyttum.  Áfengisaldurinn er 20 ár en 18 ára verður ungmenni sjálfráða, fær kosningarrétt, má þá ganga í hjónaband og fær flest þau réttindi sem fullorðinn einstaklingur hlýtur.   Þrátt fyrir svo háan áfengisaldur hefja þau ungmenni sem það ætla sér drykkju allt að 5-6 árum áður en þeir fá lögformlegt leyfi til að kaupa áfengi. Stór hluti þessa hóps byrjar að drekka á fyrsta ári í framhaldsskóla. Neyslan er þá jafnvel með vitneskju og jafnvel samþykki sumra foreldra.  Kjarni míns máls er sá að ef við lækkum aldurinn óttast ég að þessi hópur muni einfaldlega stækka. Samþykkið yrði rýmkað og  upphafsmörk neyslunnar færist sennilega enn neðar. 

Áfengisverðið.
Áhrif lækkunar á áfengisverði ef til kemur tel ég að hafi mun minni, jafnvel óverulegt áhrif á drykkkjumynstur eða venjur unglinganna. Einnig er ég ekki viss um að það muni leiða til þess að fullorðnir drekki eitthvað meira.  Þeir sem ætla sér að drekka hvort heldur sem ungir eða fullorðnir útvega sér áfengi með einum eða öðrum hætti og gildir þá einu hvort léttvínsflaskan er 500 krónur dýrari eða ódýrari en það verð sem nú gildir. Verðlag flöskunnar mun ekki ráða úrslitum um hvort drukkin verður ein flaska eða 4 ef því er að skipta. 

Hafa skal það jafnframt í huga að í nútímasamfélagi hafa flestir unglingar talsverð fjárráð. Sumir vinna með skólanum og margir fá einnig umtalsvert fé hjá foreldrum sínum. Verðið á áfengi er ekki hindrun ætli viðkomandi að drekka á annað borð.  Lækkun áfengisverðs, verði það að veruleika og áhrif þar að lútandi er ekki hægt að leggja að jöfnu við lækkun áfengisaldurs.  

Það sem einnig mælir með lækkun áfengisverðs er að Ísland verði samkeppnishæft í Evrópu. Ferðamenn og ferðaþjónustan mun njóta góðs af. Ferðamenn sem margir hverjir eru aldir upp við allt aðra vínmenningu en við Íslendingar og þeir sem það vilja munu geta leyft sér að nota áfengi með sama hætti í samræmi við þann lífstíl sem þeir eru aldir upp við.  Sú staðreynd hvað matur og vín eru dýr hér og langdýrast ef samanborið við Evrópuþjóðirnar er leiðinleg fyrir okkur sem þjóð.

Ég er þeirrar skoðunar að vínmenning okkar Íslendinga sé sérstök.  Ölvun um helgar og þegar eitthvað er við að vera; 17. júní, verslunarmannahelgin, menningarnótt osfrv. hlýtur að teljast einsdæmi. 

Nú fer í hönd sú helgi sem lengst af hefur verið sú mesta fylleríishelgi unglinga.
Hvernig erum við í stakk búin til að mæta henni?
Ég tel að við séum ekki sérlega vel undirbúin nú frekar en áður þrátt fyrir þrotlaust starf sjálfboðaliða og grasrótarsamtaka.  Eftirlitslausir unglingar allt niður í 12 ára munu flykkjast á útihátíðir og hópur þeirra mun drekka sig ofurölvi og sumir neyta eiturlyfja með misdýrum afleiðingum. 

Í fyrra var ég með fyrirspurn til ráðherra hvort hann íhugaði eða hefði áform um að setja 18 ára aldurstakmark á skipulagðar útihátíðir, eða sjá til þess að börn undir 18 ára fái einungis aðgang að slíkum hátiðum séu þau í fylgd með fullorðnum sem staðfestir að hann taki ábyrgð á þeim?
Þetta kom m.a. fram í svari ráðherra:

Í fyrirspurninni er sérstaklega spurt um aldurstakmark á „skipulögðum útihátíðum“. Flestar slíkar skipulagðar útihátíðir eru haldnar um verslunarmannahelgina fyrstu helgina í ágúst. Dóms- og kirkjumálaráðuneytið hefur árlega gefið út sérstakt umburðarbréf til lögreglustjóra um reglur og skilyrði vegna „skipulagðra útihátíða“, ásamt kynningu á reglugerð um löggæslukostnað við slíkar útihátíðir. Ráðherra hefur mikinn áhuga á að skoða aldurstakmörk á þessum hátíðum í samráði við dóms- og kirkjumálaráðuneytið og aðra þá aðila er kæmu að slíkri ákvörðun.

En nú er kominn nýr félagsmálaráðherra. Spennandi verður að sjá hvaða afstöðu hún tekur til þessara mála í framtíðinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er algjörlega út í hött að banna sjálfráða 18 ára fólki að kaupa hér áfengi. Ef það stæðist ekki jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, eða stjórnarskrána að öðru leyti, að breyta lögunum með þeim hætti að öllu fólki undir fertugu yrði bannað að kaupa hér áfengi, stenst það heldur ekki að banna hér áfengiskaup fólks á aldrinum 18-20 ára.  

Steini Briem (IP-tala skráð) 30.7.2007 kl. 22:45

2 Smámynd: Haraldur Haraldsson

Enn og aftur er þetta með aldurstakmark áfengiskaupa/auðvitað á það að vera 18 ár ekki spurning fyrst fólki er treystandi til að hafa kosningarétt þá má það kauða áfengi ef það vill/það er á lika komið ur umsjá foreldra lika/ Svo og þetta með áfengisverðið auðvitað á það að lækka ,þetta er svívirðilega hátt/mín skoðun og ábyggilega meirihluta fólks/Halli gamli

Haraldur Haraldsson, 30.7.2007 kl. 22:55

3 Smámynd: Þóra Guðmundsdóttir

Ég hlustaði á viðtal við hana Ernu Hauksdóttur um daginn varðandi þetta mál. Það kom  margoft fram hjá henni að verð á  víni á veitingahúsum væri alls ekki hæst hér á landi en álagning veitingamanna væri of lítil, þeir tækju hins vegar tillit til "sársaukamarka" og ef verð á áfengi myndi lækka þá myndi það "laga" þeirra rekstrargrundvöll en ekki lækka verð til gesta. 

Varðandi  drykkjuvenjur"venjulegs" fólks með tilliti til áfengisverðs, verð ég að segja að þeir Íslendingar sem ég þekki og hafa flutst til ódýrari landa, hafa allir aukið  rauðvínsdrykkju sína, einmitt vegna þess að vínið er svo ódýrt.

Þóra Guðmundsdóttir, 31.7.2007 kl. 01:18

4 Smámynd: Þóra Guðmundsdóttir

Smá viðbót. Ef af þessari lækkun yrði þá yrði ríkisjóður af verulegum tekjum, hvar á að skera niður á móti?

Það væri líka mjög ósanngjarnt ef það að niðurgreiða verð á áfengi frá því sem nú er hefði forgang, þegar ekki hefur t.d. verið hægt að fella niður stimpilgjöld.

Þóra Guðmundsdóttir, 31.7.2007 kl. 01:29

5 Smámynd: Grímur Kjartansson

Væri ekki nær að lækka matarverðið?
Það kæmi allavega ÖLLUM íslendingum til góða jafnt rónum sem bindindisfólki.

Grímur Kjartansson, 31.7.2007 kl. 10:01

6 identicon

Hvað varðar að setja aldurstakmark á skipulagðar útihátíðir, þá er ég ansi hrædd um að það yrði bara til þess að útilegum unglinga, sem enda oft með miklum leiðindum, myndi fjölga í staðinn. Það er ekki langt síðan við heyrðum fréttir af því að ungmenni hafi látið öllum illum látum við tjaldsvæði á suðurlandinu, svoleiðis uppákomur yrðu örugglega enn algengari ef það yrðu settar reglur um 18 ára aldurstakmark á útíhátiðir.

Maja Solla (IP-tala skráð) 31.7.2007 kl. 10:59

7 identicon

Væri

Héðinn Björnsson (IP-tala skráð) 31.7.2007 kl. 11:40

8 identicon

Væri ekki góð málamiðlun að lækka áfengiskaupsaldurinn en herða viðurlögin við því að selja þeim sem eru undir aldri. Þannig gæti maður hæglega gert öllum að sína skilríki þegar að þeira kaupa áfengi alveg eins og gert er í banka þegar að maður er að taka út peninga.

Maður gæti hugsað sér punktakerfi eins og í umferðinni þannig að staðir með vínveitingaleyfi sem staðnir eru í að selja áfengi án þess að sínt sé skilríki eigi á hættu að missa vínveitingaleyfið tímabundið eða með öllu.

Héðinn Björnsson (IP-tala skráð) 31.7.2007 kl. 11:47

9 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Það hefur komið til tals hjá a.m.k einum umsjónarmanni tjaldsvæðis að setja 18 ára aldurstakmark. Ég held það hafi einmitt verið þessi á suðulandi sem varð fyrir ofbeldi af hálfu ungra gesta á tjaldsvæðinu.

Kolbrún Baldursdóttir, 31.7.2007 kl. 12:55

10 Smámynd: Sigurður Orri Kristjánsson

Já... Hvernig á samt að setja 18 ára aldurstakmark á útihátíðir sem haldnar eru í bæjarfélögum? Meina ungu fólki aðgang að bæjarfélögunum?

 Þá held ég að menn séu að brjóta ansi harkalega af sér.

Sigurður Orri Kristjánsson, 31.7.2007 kl. 14:45

11 Smámynd: Þóra Guðmundsdóttir

Hvað með útivistarreglur ? Fólk innan 18 á að vera komið inn til sín á miðnætti. Það að vera í tjaldi, án fullorðinna, getur tæplega talist gilt.

Þóra Guðmundsdóttir, 31.7.2007 kl. 16:34

12 Smámynd: Sveinn Valdimar Ólafsson

Fólk er farið að róast eftir að 35 árum er náð.  Legg til að við hækkum sjálfræðisaldurinn uppí þennan rólega aldur.  Verst það er búið að banna svo margt að undanförnu hér á skerinu að sjálfræðið minnkar með hverju ári í þessu landi pólitískrar rétthugsunar.

kær kveðja

Sveinn

Sveinn Valdimar Ólafsson, 3.8.2007 kl. 01:16

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband