SLAA Samtök Kynlífs- og Sambandsfíkla

Það er stutt frétt um þessi samtök í Fréttablaðinu í dag en um er að ræða samtök fyrir fólk sem telur sig eiga við stjórnleysi að stríða á þessu sviði. Samtökin heita Samtök Kynlífs- og Ástarfíkla en ættu að mínu mati að heita Samtök Kynlífs- og Sambandsfíkla. Hugtakið ást og sú upplifun sem við tengjum því finnst mér ekki passa í þessu sambandi.

Þetta eru þörf samtök því þau eru einnig fyrir þann hóp fólks sem telur sig eiga við sambandsfíkn að stríða. Af því sem ég hef kynnt mér í þessu sambandi og einnig í gegnum reynslu mína sem sálfræðingur eru konur í meirihluta þeirra sem leita sér aðstoðar vegna þess hversu háðar þær eru að vera í sambandi.  Þetta eru einstaklingar sem geta ekki hugsað sér að lifa öðruvísi en að vera í samböndum og gildir þá einu hvort samböndin séu neyslu- og/eða ofbeldissambönd. Margar fara frá einu slíku sambandi í annað enda höfuðáherslan lögð á að vera ekki einar (og yfirgefnar).

Grunnvandi er brotin sjálfsmynd, óöryggi og sú trú að án annars aðila séu þær einhvern veginn ófullkomnar eða ekki verðugar og muni jafnvel ekki getað spjarað sig.  Kvíði er fyrir að vera einmana, einangraður og ósjálfbjarga. Sjálfsmyndin er með einhverjum hætti og af einhverjum orsökum spyrt við hugmyndina um að vera í sambandi/eiga maka,  hvernig svo sem hann kann að vera í hátt og framkomu. Oft veit viðkomandi vel að hún (hann) væri betur komin án þessa sambands en fær sig ekki til að slíta því. 

Orsakir eru oftar en ekki margslungnar og geta verið hvort heldur af uppeldis/ félagslegum og/eða af tilfinningarlegum toga.  Vinir og vandamenn reyna að aðstoða en uppskera kannski ekki árangur sem erfiði. 
 
Það er mjög mikilvægt að SlAA samtökin geti kynnt starfssemi sína með þeim hætti að þessir aðilar finni að þarna sé einnig vettvangur fyrir þá og í gegnum 12 spora kerfið sé hægt að ná bata.

SLAA er sem sagt ekki einungis samtök fyrir fólk sem á við kynlífsfíkn að stríða í þeim skilningi að það stjórnlaust hugsi um fátt annað en að stunda kynlíf með einum eða öðrum hætti heldur einnig þá sem eins og fyrr segir leggja höfuðáhersluna á að vera í sambandi án tillits til innihalds þess.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gulli litli

Ég er sammála skilgreiningunni á orðtökunum, en hvernig er það er ekki jafnmikil þörf á samtökum þeirra sem eiga erfitt með að koma sér í sambönd og kynlíf?

Gulli litli, 5.11.2007 kl. 12:50

2 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Einmitt Gulli, þeir eiga bara að skella sér á fund hjá þessum samtökum. Málinu reddað

Gunnar Th. Gunnarsson, 5.11.2007 kl. 13:19

3 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Mér hefur alltaf fundist svo undarlegt að tala um fíkn í tengslum við kynlíf. Ég veit að til er fólk sem á erfitt með að bindast öðrum nánum böndum vegna brotinnar sjálfsmyndar og ýmissa annarra vandamála. Þetta fólk leitar að ástin á röngum stöðum og kaupir sér gjarnan athygli með kynlífi. Getur það talist fíkn? Mér finnst það sorglegt að horfa upp á en hef svolitla fyrirlitningu á þeim sem eru tilbúnir að notfæra sér einstaklinga sem eru brotnir að þessu leyti.

Steingerður Steinarsdóttir, 5.11.2007 kl. 16:12

4 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Athugasemd Gulla litla er hárrétt. Það er talið að um 3% fólks af báðum kynjum eigi erfitt með að koma sér í sambönd og kynlíf, fólk af öllu tagi. Hér á landi er aldrei minnst á þetta nema í hæsta lagi  í  flimtingum, samber kommentið frá Gunnari Th. sem oft er samt ágætur.

Sigurður Þór Guðjónsson, 5.11.2007 kl. 16:20

5 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Tek undir með þér Steingerður, mér finnst hugtakið fíkill og fíkn oft ofnotað sbr. sælgætisfíkill, kókfíkill, sjónvarpsfíkill og alls kyns aðrar útgáfur. Það sem meira er að sumt fólk vísar til sjálfs síns sem einhvers konar fíkla án þess að nokkur annar hafi viljað setja slíkan stimpil á þá.

Varðandi samtök fyrir þá sem eiga erfitt með að koma sér í sambönd langar mig til að segja að slíkur félagsskapur væri verulega af hinu góða.

Fullt af fólki leitar sér aðstoðar hjá fagaðilum einmitt af því það hefur ekki burði til að mynda náin kynni sem því langar samt mjög til að gera.  Ástæður geta verið margar sem dæmi djúpstæð feimni, ótti við höfnun eða að það veit ekki hvað á að segja á slíkum stefnumótum, hvernig skal byrja osfrv. osfrv.

Þessi mál eru mjög erfið oft á tíðum og leiðir til lausna liggja ekki endilega á borðinu.  Þetta eru einstaklingar sem langar ekki til að fara á "djammið" í þeim tilgangi að kynnast fólki og langar heldur ekki að fara á inn Netið til að finna sér félaga.

Víða í heiminum eru svona paramiðlanir en hér á landi hafa slík fyrirtæki að ég best veit aldrei verið sett á laggirnar.

Kolbrún Baldursdóttir, 5.11.2007 kl. 17:52

6 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Fyrir nokkrum árum var töluvert í fréttum svokallað "speed-date". Eitt slíkt fyrirtæki var stofnað hér að erlendri fyrirmynd. Mig minnir að það hafi verið fyrir fólk 30 ára og eldri. Hrað-stefnumót virkar þannig að hópur fólks af báðum kynjum kemur saman, t.d. á veitingahúsi. Pör setjast saman og talar um sig við hvort annað í fimm mínútur, segir frá áhugamálum sínum osfrv. og svo er skipt...næsti gjörið svo vel. Ef fólkið hefur áhuga á frekara spjalli eftir þessa stuttu viðkynningu, þá er skipst á símanúmerum...eða eitthvað.

Sennilega hefur þetta fyrirtæki lagt upp laupana, hef ekkert heyrt af því lengi.

Gunnar Th. Gunnarsson, 6.11.2007 kl. 11:03

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband