Hin umdeilda biblíuþýðing, hvaðan koma gagnrýnendur hennar?

Ég hef eftir bestu getu reynt að fylgjast með umfjölluninni um hina nýja bíblíuþýðingu en hún hefur eins og allir vita litast talsvert af gagnrýni á einstaka þætti þýðingarinnar.

Fyrir fáeinum vikum hlustaði ég á Guðrúnu Kvaran, íslenskufræðing og þátttakanda í þýðingarnefnd Nýja Testamentisins gera grein fyrir þýðingarferlinu.  Í máli hennar kom skýrt fram að á löngu vinnsluferli þýðingarinnar voru drög oftar en einu sinni send til fjölmargra aðila, presta, kennara í fræðunum og annarra sem vegna starfa sinna og sérþekkingar voru álitnir hæfir til að koma með gagnlegt álit. 

Nú vaknar upp sú spurning hverjir það eru sem ganga harðast fram í að gagnrýna hina nýju biblíuþýðingu?
Eru það sérfræðingar sem nefndinni sást yfir að leita til á meðan á þýðingarferlinu stóð?
Eru þetta kannski aðilar sem komu með ábendingar en sem nefndin ákvað síðan að taka ekki mið af?
Eða eru þetta aðilar sem var boðið að senda inn álit sitt og freista þess að hafa áhrif á þýðinguna en kusu ekki að tjá sig fyrr en nú þegar verkið hefur verið útgefið?

Hugsanlega og líklegast tilheyra gagnrýnendur þýðingarinnar öllum þessum þremur hópum en í hvaða hlutfalli er mér ekki kunnugt um. Sumum gæti þótt sem það skipti e.t.v. litlu máli nú þar sem verkið er komið út.  Umræðan hefur þó sannarlega verið fyrirferðarmikil.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Þorsteinn Siglaugsson

Já, það hljóta að sjálfsögðu að búa annarleg sjónarmið að baki þegar fólk leyfir sér að gagnrýna verk sem búið er að eyða svona miklum pening í. Og það er sannarlega engin ástæða til að reyna að átta sig á röksemdum í málinu. Það er nefnilega svo auðvelt að beita bara ad hominem röksemdum gegn þeim sem maður er ekki sammála!

Þorsteinn Siglaugsson, 20.11.2007 kl. 21:23

2 Smámynd: Bragi Þór Thoroddsen

Nú ætla ég að vaða straumharða á.

Gagnrýnin hefur í raun endurspeglað að mestu viðhorf manna sem ekki hafa fylgt þeirri þróun sem við myndum í dag kalla mannréttindi og jafnrétti.  Þetta er einkenni gamallar bókstafstrúar (tek djúpt í árinni) enda verið að vísa til þess að orðið sem eldri útgáfur geymdu væri hið eina rétta. 

Það hefur verið fróðlegt að sjá hverjir hafa haft hæst um breytingarnar, en væri langt og ljótt mál að nafngreina einhvern eða einhverja. 

Nú er ég enginn sérfræðingur í biblíunni, hvorki eldri né yngri útgáfum.  Hins vegar fylgdist ég nokkuð vel með þessum umræðum og skoðanaskiptum um málið, þeirra sem tóku breytingunum vel og þeim sem síður tóku. 

Báðir hafa nokkuð til síns máls þegar menn náðu sér niður á jörðina í umræðunum og röksemdir voru færðar fyrir. 

Held að það sé í raun ekkert að því að færa orðið yfir í eitthvað sem fólk skilur enda orðið ætlað okkur sauðunum en ekki bara tengiliðunum einum til skrauts. 

Inntak biblíunnar gildir en ekki framsetning.

vcd

Bragi Þór Thoroddsen, 21.11.2007 kl. 02:01

3 Smámynd: Dagur Ólafsson

Þessir aðilar sem þú talar um eru annað hvort 2000 ára gamlir eða hafa bara hreinlega ekkert að gera.

Það var kominn tími til að þýða þessa biblíu, og í raun þarf að henda henni og skrifa hana upp á nýtt, þar sem hún á engan veginn við nútíma samfélag.

Strangtrúað fólk segist ekki gera neitt sem biblían segir að sé bannað, samt borðar örugglega 90% af þeim svína kjöt.

Í þriðja kafla Móse 11 stendur: 3Öll ferfætt dýr, sem hafa klaufir, og þær alklofnar, og jórtra, megið þér eta. 4Af þeim, sem jórtra og klaufir hafa, megið þér þó ekki þessi eta:

svínið, því að það hefir að sönnu klaufir, og þær alklofnar, en jórtrar ekki; það sé yður óhreint. 8Kjöt þeirra skuluð þér ekki eta, og hræ þeirra skuluð þér ekki snerta. Þau skulu vera yður óhrein.

Drottinn hefur aldrei vitjað einn eða neinn með reiðarþrumu, landskjálfta, miklum gný, fellibyljum, stormviðri og eyðandi eldsloga fyrir að borða svínakjöt, þrátt fyrir að sumir trúi því að þær nátturuhamfarir sem eiga sér stað í dag sé Guð að hefna sín.

Ég ætla að segja það: Biblían er úrelt bók sem á engan veginn við nútíma samfélag "punktur" það skal enginn þræta fyrir það.

Og þó svo að ég sé ósammála Vottum Jehóva, þá er eitt sem þeir gera rétt, það er að þeir lesa einungis 16% af biblíunni, og í þeirra augum er það lesefni sem þeir telja rétt og eigi við nútíma þjóðfélag, en samt sem áður villimanns vers.

Annars er ég nú bara nýskriðinn yfir tvítugt og mínar skoðanir kannski allt öðruvísi fyrir þig en mig.

Ég bara verð að koma minni skoðun á framfæri.

Dagur Ólafsson, 21.11.2007 kl. 07:04

4 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Sæl.

Við megum ekki gleyma því að Biblían bjargaði sennilega íslenskunni frá því að glatast að miklu leyti. Því má til sanns vegar færa að fólki er annt um að orðfæri hennar og stíll  sé ekki á undanhaldi hvað varðar fallegt málfar. Ég geri ráð fyrir að margir myndu reka upp ramakvein ef menn tækju sig til og færðu til "nútímahorfs" hina einstæðu þýðingarperlu Steingríms Thorsteinsson, "1001 nótt", svo ekki sé talað um öll meistaraverk Helga Hálfdanarsonar í þýðingum sínum.

Sama má segja um Biblíuna. Þeir sem fengu hana til yfirlestrar í þýðingaferlinu, sendu flestir inn athugasemdir við það sem þeim fannst aflaga vera að fara. Þar má helsta nefna þá sem hæst hafa látið undanfarið í gagnrýni sinni á verkið. Verst er auðvitað þegar menn búa til texta frekar en að þýða eins og sjá má færð fullgild rök fyrir á þessari slóð :

http://jonvalurjensson.blog.is/blog/jonvalurjensson/entry/342362/

Þá hafa merkir málvísindamenn í íslensku fært fram ótal dæmi um slæmt, jafnvel rangt mál í þýðingunni hvað varðar framsetningu textans á móðurmálinu.

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 21.11.2007 kl. 10:02

5 identicon

Ef tilgangurinn er að skilja gagnrýnina, þá verður etv líka að skoða hverjir þessir "aðilar" voru sem gáfu álit sitt á þíðinguni, hvernig voru þeir valdir og út frá hvaða forsendum þeir gáfu sitt álit.

Mig grunar, án þess að vita það sérstaklega að hluti af tilgangi þessarar nýju þýðingar hafi verið að "jafna hlut kvenna" í Biblíuni, og þá hafi etv verið leitað ráða hjá fólki með róttækar skoðanir sem hafi sett pólitísk markmið framar fallegum og réttum texta.

Gæti verið að eitthvað af þessari gagnrýni sé réttmæt ? 

Fransman (IP-tala skráð) 21.11.2007 kl. 10:04

6 Smámynd: G.Helga Ingadóttir

Þýðing er að koma yfir á Íslensku, það sem að stendur í frumtextanum:

Þýðing er ekki að breyta textanum, að er að skrifa nýja bók.

þeir sem að vilja fá nýja Biblíu fyrir sig, geta skrifað sína bók undir öðru nafni, svo sem Stílfærð Biblía, eða Ný túlkun á Biblíunni.

Ég þarf ekki að fá nýja túlkun fyrir mig, ég vil fá textann ómengaðan af viðhorfum manna og túlka hann sjálf fyrir mig. Ég vil ekki láta mata mig af túlkun fræðimanna og sjálfskipaðra spekinga, heldur fer ég fram á að frumtexti Biblíunnar, sé þýddur, en ekki túlkaður.

Þetta er ekki flókið mál, menn myndu ekki halda vatni ef að t.d. Laxnes eða aðrir frægir höfundar yrðu þýddir á þennan hátt, þ.e. túlkaður texti, en ekki þýddur. 

G.Helga Ingadóttir, 21.11.2007 kl. 10:40

7 Smámynd: Júlíus Valsson

Sá sem þýðir texta frá einu tungumáli yfir á annað, stendur oft frammi fyrir erfiðu vali. Í rauninni er ógjörningur að þýða trúarrit. Þar liggur vandinn.  

Júlíus Valsson, 21.11.2007 kl. 14:16

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband