Að standa við gerða samninga

Ég hef verið að reyna að setja mig inn í þetta mál með Laufás í Eyjafirði.  En þar standa leikar þannig að sonur fyrrverandi prests, séra Péturs Þórarinssonar heitins vill ekki standa við gerðan samning sem kveður á um að hann geti stundað búskap á Laufási þar til faðir hans léti af prestskap.

Í fréttinni segir að eftir að séra Pétur lést óskar sonur hans eftir því að búa áfram á jörðinni. Kirkjuráð samþykkti hins vegar, til að koma á móts við hann, að beina þeim tilmælum til stjórnar prestssetra að honum yrði boðinn fjögurra ára leigusamningur án hlunninda en jafnframt var þess krafist að hann myndi flytja húsið af jörðinni eins og áður hafði verið um samið.

Húsið hafði hann fengið leyfi til að byggja fyrir sig og fjölskyldu sína sem er óvenjulegt sbr. reglur sem kveða á um að þegar prestskipti verða á prestssetrum taki nýr prestur við allri jörðinni og hlunnindum sem henni fylgja. Þess vegna hafði húsið verið byggt þannig að auðvelt er að flytja það.

Án þess að vilja gera lítið úr tilfinningarlegu gildi  og umfangi búskapar sonar Péturs og fjölskyldu hans þá samþykkti hann á sínum tíma með undirskrift sinni að flytja sig og hús sitt af jörðinni þegar faðir hans hætti prestskap.

Nú hins vegar vill hann ekki framfylgja samningnum og segir (sjá frétt í Mbl. í dag) að hann líti svo á að fyrst kirkjan sé tilbúin til að leigja honum jörðina áfram til búskapar geti það ekki skipt öllu máli þó húsið fái að vera áfram á jörðinni auk þess sem hann telur að fjögurra ára leigusamningur sé of stuttur?

Samningur er samningur en svo virðist sem að þrátt fyrir skýrt orðalag og sameiginlegan skilning samningsaðila við undirritun sé samt hægt síðar meir þegar á samninginn reynir, að umsnúa innihaldinu þannig að allt annar skilningur rati upp á dekk.  


 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Júlíus  Garðar Júlíusson

Þetta er miklu flóknara mál heldur en svo. Þetta snýst ekki bara um soninn og fjárbú. Móðir hans og fyrrverandi kona séra Péturs heitins hefur unnið ómetanlegt starf í með Byggðasafnið í Laufási sem skiptir allt héraðið miklu máli. Ef að þau þurfa að fara er verið að taka hluta af hjartanu í þessu byggðarlagi, þau skipta þar miklu máli enda skrifuðu 97% íbúana á undirskriftalista þeim til handa.

Júlíus Garðar Júlíusson, 10.2.2008 kl. 16:31

2 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Ég segi eins og Kolbrún samningar eru samningar og við þá verður að standa. Það skiptir ekki máli hversu vel fólk hefur unnið, það efast enginn um dugnað og heilindi þessa fólks en þegar þú skrifar undir samning um að þú munir flytja hús eftir fjögur ár þá flytur þú hús eftir fjögur ár. Það þýðir ekkert að vakna upp við vondan draum einn daginn og verða reiður yfir því að þér sé gert að gera eins og lagt var upp með í frá fyrsta degi. Ef sonur séra Péturs var ekki tilbúinn til að gera eins og kirkjan bauð átti hann ekki skrifa undir samning upp á þá von að kirkjunnar mönnum snerist hugur.

Steingerður Steinarsdóttir, 10.2.2008 kl. 17:33

3 Smámynd: Guðríður Hrefna Haraldsdóttir

Þetta virðist vera frekar flókið mál þar sem svo miklar tilfinningar eru greinilega til staðar. Það verður án efa erfitt fyrir byggðarlagið að sjá að baki ekkju séra Péturs. Það verður samt ekki auðvelt fyrir Kirkjuna að samþykkja þetta og setja þannig ákveðið fordæmi.

Guðríður Hrefna Haraldsdóttir, 10.2.2008 kl. 18:12

4 Smámynd: Þorsteinn Valur Baldvinsson

Að mínu áliti er þetta bara eitt enn málið, sem sýnir að ekki á að vera að blanda saman rekstri fyrirtækisins Þjóðkirkjan, og trú landsmanna.

Þorsteinn Valur Baldvinsson, 10.2.2008 kl. 18:24

5 Smámynd: Vilborg Eggertsdóttir

Það má ~ ALLTAF ~ semja upp á nýtt.

Þekki þetta af eigin reynslu. Þegar faðir minn, Eggert Ólafsson lést á Kvennabrekku í Dölum sem var prestsetur, þá var það fyrir tilstuðlan vinafólks hans og móður minnar að prestsetrið var flutt til Búðardals. Þar var tekið tillit til þess að móðir mín var þá ein með 8 börn og einnig hafði faðir minn stundað þónokkurn búskap þar sem haldið var áfram.

Sýnum hvort öðru umburðarlyndi og skilning!

Vilborg Eggertsdóttir, 10.2.2008 kl. 20:41

6 Smámynd: Hrafnhildur Ólafsdóttir

Ég vil bara vekja athygli ykkar á því að skv. tölum hjá hagstofunni þá eru um 1000 sóknarbörn (15 ára og eldri) í þessum sóknum en á undirskrifarlistann skrifuðu rétt rúmlega 500 manns, skv mínum útreikningum eru það ekki 97%, enda var það haft eftir sveitastjóranum að það voru 97% af þeim sem náðist í sem skrifuðu á þennan lista, þetta hefur verið rangtúlkað af mörgum.

kv

Hrafnhildur

Hrafnhildur Ólafsdóttir, 10.2.2008 kl. 22:05

7 Smámynd: Benedikt Sveinsson

Steingerður, þú berð nafn með renntu

 "Ég segi eins og Kolbrún samningar eru samningar  "

Það væri gaman ef allt væri svona svart og hvítt og aldrei mætti skoða aðra möguleika.  Heimurinn væri jú "Steingerður"

Benedikt Sveinsson, 11.2.2008 kl. 09:41

8 identicon

Sæl Kolbrún

Hvar kemur fram að Þórarinn ætli ekki að standa við samninginn?

Hann hefur bara sótt um að fá jörðina leigða til búskapar. Væntanlega  flytur hann í burtu án frekari eftirmála, eftir að kirkjan hefur hafnað beiðni hans með því að bjóða honum upp á afarkosti.

Hreinlegra hefði nú verið að svara honum neitandi og þá hefði Þórarinn augljóslega uppfyllt skilyrði samningsins.

Ég held hinsvegar að kirkjan geti farið þarna bil beggja, ef áhugi á því væri fyrir hendi. Prestar í kaupstöðum búa jafnvel í blokkaríbúðum innan um fjöldann. Eru sveitaprestar eitthvað öðruvísi en aðrir að þessu leiti? Þurfa þeir heila jörð og helzt eitthvað af hlunnindum til að þjóna drottni.

Bóndinn er undirstaða sveitanna og án bænda væri lítið um að vera þar og ekki mikil þörf fyrir presta.

Ég viðurkenni alveg að kirkjan er í fullum rétti til að vísa Þórarni burtu.

En það er eitt að vera í rétti og annað að nýta sér hann alltaf til fullnustu. Þarna held ég að reyni dálítið á kirkjunnar menn.

Vonandi falla þeir ekki á prófinu. 

Með kveðju,

Kári Lár. 

Kári S. Lárusson (IP-tala skráð) 11.2.2008 kl. 09:56

9 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Sæll Kári, er ég að lesa þetta rangt, gekk ekki samningurinn út á það að þegar að séra Pétur léti af embætti, myndi sonurinn fjarlægja húsið?

Eins og ég skil þetta þá mun nýr prestur taka við þessu prestkalli, jörð með hlunnindum eins og er alls staðar á landinu. Sama gengur yfir öll þessi prestköll.

Sonurinn veit þetta allan tíman vænti ég þannig að ekkert ætti að koma á óvart. Ef einhver stærri undantekning verður gerð í þessu máli geta önnur börn presta um land allt einnig farið fram á að byggja hús á prestjörðum, leigja landið og fá að halda áfram búskap.

Þetta hefur ekkert að gera með neitt svart/hvítt eða ósveigjanleika, mikið fremur virðist sem reynt hefur verið að koma á móts við manninn og gera honum þessar breytingar auðveldari.

Vona sannarlega að finnist farsæl lausn á þessu máli aðallega fjölskyldunnar vegna en samningar eru jú samningar á þá verður að vera hægt að treysta. 

Kolbrún Baldursdóttir, 11.2.2008 kl. 10:22

10 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Það þjónar engum tilgangi að semja við fólk sem virðir ekki samninga. Maðurinn á að fjarlægja þetta hús af jörðinni, um það hefur verið samið. Reyndar hefur komið fram að þetta hús fékkst upprunalega byggt og sett tímabundið niður á þessa jörð vegna þess að tekið var tillit til að presturinn sem nú er látinn þurfti aðstoð vegna fötlunar sinnar.

Það getur verið að það sé skynsamlegt að flytja aðsetur presta í þorp en það getur ekki verið eðlilegt að prestsetur séu flutt til og frá vegna hagsmuna sona fyrrum presta. 

Vonandi nást samningar í þessu máli og hugsanlega er öllum fyrir bestu að gögn og gæði þessarar jarðar sé nýtt af fólki sem er hag vant í héraðinu.  Ég myndi hins vegar ef ég væri  í samningahlutverki fyrir kirkjuna ekki vera tilbúin að ganga til neinna samninga við soninn, öðru máli skipti um prestekkjuna, ef húsið væri í hennar eigu og ætlað henni til búsetu og hún hefði atvinnu af ferðamennsku þarna sem hún hefði byggt upp.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 11.2.2008 kl. 11:35

11 Smámynd: Ingibjörg Friðriksdóttir

Afhverju í ósköpunum á að standa við gerða samninga, ef hægt er að komast hjá því?

Ég er sammála þér Kolbrún, og  finnst siðferði þegnanna fara snarversnandi.  Auðvitað á sonurinn fullan rétt á því, eins og hver sem er annar, að sækja um framlengingu, alveg eins og leigjandinn sem leigir íbúð tímabundið, en vill gjarnan vera áfram.  En að stilla eigendum (kirkjunni í þessu tilfelli) eiginlega upp við vegg, með því að fá sveitungana til að skrifa undir, finnst mér frekja.   Hvers á væntanlegur prestur að gjalda?  

Er ekki til máltæki sem segir „Mikill vill meira“ og „Sjaldan launar kálfurinn ofeldið“

Svolítið minnir þetta á leiðindin sem urðu á Bergþórshvoli í A- Landeyjum.

Ingibjörg Friðriksdóttir, 11.2.2008 kl. 11:50

12 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Er nú vandamálið ekki líka tengt því að enginn átti von á að séra Pétur mundi falla svona fljótt frá og fólk sá fyrir sér lengri tíma þarna.  Ég hef fulla samúð með fjölskyldu Péturs og skil afstöðu þeirra. Auðvitað verður samt að standa við samninga, en því þarf nýr prestur heila jörð?? það ætti að vera liðin tíð, hús dugar þeim vel, í nútímanum fer ekki saman búskapur og prestsembætti.

Ásdís Sigurðardóttir, 12.2.2008 kl. 15:54

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband