Ríkisstjórnarflokkarnir með púlsinn á forvörnum

Í gær var ráðstefna á vegum félagsmálaráðuneytisins haldin á Grand Hótel þar sem  rætt var um foreldrahæfni og að foreldrahæfni væri ein besta forvörnin.

Í ályktun um fjölskyldumál  sem var samþykkt á síðasta landsfundi Sjálfstæðisflokksins kemur það einmitt fram að „Sjálfstæðisflokkurinn leggi áherslu á að forvarnir byrji snemma á lífsskeiði barnsins og að fræðsla til verðandi foreldra verði efld.“  Jafnframt er lögð áhersla á að „foreldrar geti á öllum stigum leitað sér uppeldisráðgjafar og stuðnings án tillits til efnahags og búsetu.“

Það er gott til þess að vita að vinna Fjölskyldunefndarinnar var og er í góðu samræmi við það sem er í umræðunni í  dag um þessi mál.  Með eflingu  foreldrahæfnis er átt við að þeir foreldrar, sem af einhverjum skilgreindum/óskilgreindum orsökum þurfa aðstoð við uppeldi barna sinna eða einfaldlega upplifa sig óörugga í hlutverkinu og finni hjá sér þörf fyrir að fá fræðslu og leiðbeiningar, hafi greiðan aðgang að slíkri þjónustu.

Margir nýir verðandi foreldrar eru fullir óöryggis og velta því fyrir sér hvernig þeim muni takast upp í foreldrahlutverkinu. Ekki eru allir svo lánsamir að eiga eða búa í nálægð við fjölskyldu sína sem þeir gætu leitað til ef þeim vantar svör við spurningum um barnið, umönnun þess eða upplýsingar er viðkoma uppeldinu. Því fyrr sem foreldrafærnin eflist og þroskast því minni líkur eru bæði á að vandamál komi upp og ef það gerist þá er verulega dregið úr líkum þess að vandinn ágerist.

Það er gott til þess að vita að púls ríkisstjórnarflokkanna er á réttum stað í þessum málum enda í samræmi við tilmæli Evrópuráðsins um stefnu til eflingar foreldrahæfni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Guð láti gott á vita Kolbrún mín,  mér virðist nú samt svo að þeir sýni ekki mikinn skilning á alvarleika þess sem steðjar að ungviði okkar.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 19.3.2008 kl. 11:54

2 Smámynd: Þorsteinn Valur Baldvinsson

Mér finnst þetta gríðarlega hættuleg braut sem verið er að fikta við.

Samfélag er samsafn ólíkra einstaklinga með ólík og fjölbreitt viðhorf, með þessum sambræðingi myndast mikil þekking, vegna ólíkra viðhorfa og margra sjónarmiða, enginn sér hlutina eins og annar.

Með dagheimilavæðingu og uppeldisstjórnun einstaklinga, ásamt atferlis og hugarmótun skólaáranna, er verið að fjöldaframleiða norm einstaklinga, allt sem ekki er norm, er lyfjað og eða mótað upp á nýtt.

Foreldrar eru mestu áhrifavalda einstaklinga, og sökum fjölbreytileika þeirra einstaklinga ,fáum við gríðarlega mikla auðlegð til skólana í formi nemanda, sem þarf að hjálpa til að afla sér þekkingar og gera það án þess að móta viðhorfið og nálgunina of mikið, það er útkoman sem skiptir máli ekki endilega aðferðin við að fá útkomuna rétta.

Öll inngrip og tilraunir til að staðla uppeldi barna, er glapræði og fálm, í fávísi þess sem telur sig vita meira en í raun er.

Sjálfsagt er að banna líkamlegt og andlegt ofbeldi við uppeldi, og gefa grunn leiðbeiningar og ráð til foreldra, en inngrip opinberra aðila sem einkarekinna stofnanna er glapræði, og mun aðeins enda í meiri vandamálum en verið er að reina að leysa með ódýrum skyndilausnum.

Ég held að við ættum að gera tilraun með að taka upp nýja kennsluhætti, með hjálp tölvutækninnar, og leifa nemendum sjálfum að stjórna sýnum námshraða, án söfnunar nemanda í skólastofur með fjölda nemanda, og með tilliti til þeirra mismunandi þroskastökka sem allir taka á lífsleiðinni.

Skólarnir eru ekkert ólíkir fjárréttum sveitarinnar, hentugir fyrir kennarana, en kannski ekki fyrir nemendurna.

Tölfræðilega rökréttur heimur skapar aldrei neitt, hann bara greinir og deyr.

Þorsteinn Valur Baldvinsson, 19.3.2008 kl. 12:00

3 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Já einmitt Þorsteinn, sammála því að gefa grunnleiðbeiningar og ráð til þeirra foreldra sem óska þess eða þarfnast að öðrum ástæðum án þess að þeir þurfi að greiða fyrir slíka þjónustu stórfé.

Kolbrún Baldursdóttir, 19.3.2008 kl. 12:25

4 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Það væri tekið stórt skref í að bæta stöðu barna með því að hætta að dæma alltaf öðru foreldri forsjá barns og rýmka lagaramman þannig að dómari gæti dæmt báða foreldra til að hafa forráð með börnum sínum, eins og er gert í nánast öllum löndum í kringum okkur. Fáránlegt að annað foreldrið "vinni" og hitt "tapi".

Börnum okkar er best komið með því að við virðum fæðingarétt þeirra til að umgangast báða foreldra sína.... besta forvörnin;)

Heiða B. Heiðars, 19.3.2008 kl. 15:55

5 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Sammála þér Heiða, það er brýnt að koma því á að hægt sé að dæma „sameiginlegt forræði“, sum sé að það sé meðal valkosta.
Margt í þessum málum þarf að breytast, sumt er einfaldlega orðið barn síns tíma.

Kolbrún Baldursdóttir, 19.3.2008 kl. 19:13

6 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Góður pistill Kolbrún. Gleðilega páska

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 19.3.2008 kl. 22:26

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband