Af hverju að ráðast á vinaliðið? Við borgum öll sama háa bensínverðið

Þeir sem líða hvað mest vegna mótmæla atvinnubílstjóra sem hafa einna helst falist í að stöðva umferð á háannatíma eru upp til hópa stuðningsmenn þeirra og sitja sömu megin borðs og þeir. 
Allir þeir sem verða fyrir barðinu á þessum töfum eru að borga sama háa bensínverðið og atvinnubílstjórarnir og eru ekkert ánægðari með það en þeir.  Margir sem hafa orðið fyrir því að sitja fastir í bílum sínum vegna þessara aðgerða hafa mikinn og góðan skilning á þessum pirringi  atvinnubílstjóranna og vilja gjarnan styðja þá með einhverjum hætti. Það er ekki bara bensínverðið heldur tengjast mótmælin einnig hvíldartímatilskipuninni og skorti á salernisaðstöðu svo fátt eitt sé nefnt. 

En hverju skilar það að níðast á vinum sínum öðru en að fæla þá frá sér?
Þessi tegund af mótmælaaðgerð er sérlega slæm vegna þess að hún skapar mýmörg og margslungin óþægindi fyrir fólkið sem situr fast í bílum sínum þegar það á að vera að sinna öðrum skyldustörfum.  Í bráðatilvikum getur aðgerð sem þessi líka orðið til þess að ekki næst að bjarga í tíma. Ekki má gleyma því að stundum eru það sekúndur sem skilja að líf og dauða. Það yrði óskemmtilegt fyrir atvinnubílstjóranna að þurfa að hafa það á samviskunni að umferðartöfin af þeirra völdum hafi ollið óbætanlegu tjóni eða jafnvel dauða.  

Það er sjálfsagt að finna áberandi og kraftmiklar leiðir til að mótmæla,  láta rödd sína heyrast þegar manni finnst ríkisvaldið hafa sofnað á verðinum eða sé með eitthvert slen í brýnum málefnum.  Aðrar leiðir en þessi eru færar eins og atvinnubílstjórar hafa sýnt þegar þeir söfnuðust saman fyrir utan Alþingishúsið og ræddu við forseta Alþingis. Í slíkum mómælaaðgerðum þar sem ekki er ráðist á vinaliðið er auðvelt að finna til samhugar enda er þetta mál okkar allra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Íslendingar kunna ekki og vilja ekki skilja eðli mótmæla.  Það kostar alla fórnir svona mótmæli.  Það skilar engu að vera bara þægir og gera eitthvað sem ekki kemur við neinn.  Það er barnaskapur að halda það.  Ef menn kynntu sér hvernig menn mótmæla eins og til dæmis í Frakklandi, þá sjá menn að það eina sem gildir ef árangur á að nást, er að það komi við sem flesta þannig myndast þrýstingurinn ekki öðruvísi.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 3.4.2008 kl. 19:05

2 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Ég held að eins og staðan er í dag þá sé þetta eina leiðin sem getur hugsanlega skilað einhverju, þó svo það bitni á mörgum sem engu ráða, en það myndast meiri þrýstingur á ráðamenn.

Ásdís Sigurðardóttir, 3.4.2008 kl. 21:45

3 identicon

Um leið og hlýst alvarlegur skaði af þessum töfum mun fólk hætta að leggja sína blessun yfir þær. Það er alltaf þannig. Ég er sammála þér í þessari færslu. Fannst einnig talsmaður vörubílstjóra koma fremur illa fyrir sig orði og málefnalegum rökum í þættinum Ísland í dag á Stöð 2 í kvöld.

Lögreglan á líka ekki að fá á sig gagnrýni fyrir að beita sínum aðgerðum, þeirra verk er að passa að fólk fari að lögunum. Það á enginn að fá einhverja undanþágu frá þeim þó þeir séu að mótmæla háu bensínverði eða einhverju öðru.

Jón H. (IP-tala skráð) 3.4.2008 kl. 22:49

4 Smámynd: B Ewing

Vandamálið við "löglegu" mótmælin á þriðjudaginn voru t.d. þau að lögreglan kom í veg fyrir að þau færu eðlilega fram.  Þeir lokuðu aðgengi að Austurvelli eftir að um 8 til 20 bílar voru komnir í götuna.  Þar gerði lögreglan stór mistök og sýndu að því miður kunna þeir ekki að stjórna mótmælaaðgerðum þannig að allir séu sáttir.

Tillaga Árna virkar ekki nema að afar takmörkuðu leyti.  Hvað átti vörubíll að gera í innkeyrslunni hjá einhverjum í erindisleysu og bila þar?  Hvað er ráðherrann / þingmaðurinn býr í blokk (ólíklegt)?  Hvað ef ráðherrann / þingmaðurinn á tvo bíla (líklegra)?

Mótmælin (verða að) halda áfram og við hin verðum bara að sætta okkur við að dagbókin geti farið úr skorðum ef við pössum okkur ekki.

Að lokum má minna á að fyrir hinn almenna borgara, þá er þetta kjörið tækifæri til að rata betur um borgina því enginn er svo mikið eyland að ekki séu a.m.k tvær leiðir í vinnuna.

B Ewing, 4.4.2008 kl. 11:02

5 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Þessi mótmæli vöktu samhug fólks til að byrja með.

Ekki lengur.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 4.4.2008 kl. 11:20

6 Smámynd: B Ewing

8 til 10 bílar átti þetta að vera hjá mér.

B Ewing, 4.4.2008 kl. 11:44

7 Smámynd: Jóhannes Snævar Haraldsson

Hið besta mál að einhverjir Íslendingar séu farnir að mótmæla en bara ekki þessu.

Við höfum svipað olíuverð og þjóðirnar í kring en 5 - 7 falda stýrivexti og enginn segir neitt. Er enginn fjármagnskostnaður í vörubílaútgerð.

Enn eitt dæmið um grunnhyggni íslendinga.

Jóhannes Snævar Haraldsson, 4.4.2008 kl. 17:20

8 identicon

Sorry en ég styð þá heilshugar, hins vegar líkt og Árni segir eru hugmyndir hans stórgóðar, ekki viljum við stofna öðru fólki í hættu, en ég styð þá from my bottom of my heart

Margrét Össurardóttir (IP-tala skráð) 5.4.2008 kl. 21:49

9 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Ég skil þitt viðhorf Kolbrún en einhver verður að gera eitthvað. Þessi mótmæli eru þau einu sem skipulögð hafa verið sem náð hafa að vekja einhverja athygli. Kannski vegna þess að þau koma við okkur. Við verðum eitthvað að gera til knýja fram breytingar á þessum gegndarlausu álögum.

Steingerður Steinarsdóttir, 6.4.2008 kl. 10:02

10 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Alveg sammála þér Steingerður mín, eitthvað þarf að gera.
Held bara að þessi tegund mótmæla leiði til þess að atvinnubílstjórar fái almenning hægt og bítandi upp á móti sér auk þess sem hún getur valdið tjóni.

Kolbrún Baldursdóttir, 6.4.2008 kl. 11:43

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband