Kolsýrlingseitrun úr gasofni. Tímbært að byrgja þennan eiturbrunn í eitt skipti fyrir öll

Á fáum árum hafa 6 manns látist í tveimur slysum af völdum kolsýrlingseitrunar frá gasofni.  Slysin áttu bæði sér stað í veiðikofum þar sem fólkið kveikti upp í litlum gasofni til kyndingar. Eldur eyðir súrefni og við skort á súrefni myndast eiturlofttegundin kolsýrlingur.  Sé búið að kveikja upp í gasofni skiptir öllu að súrefni eigi greiða leið inn í rýmið svo eiturlofttegund nái ekki að myndast. Annars þarf vart að spyrja að leikslokum.

Um nákvæman aðdraganda þessara slysa veit ég í sjálfu sér ekki meira en það sem fram kemur í fréttum.  Gera má því skóna að fólkið komi inn eftir langan dag þar sem það hefur verið við veiðar. Kalt, þreytt og slæpt kveikir það upp í ofninum. Í þessum tilvikum hefur komið í ljós að loftræsting var ábótavant. Fólkið hefur væntanlega fljótt orðið fyrir einhverjum eituráhrifum. Áhrif eitursins á heilann veldur dómgreindarleysi og hugsun hættir að vera skýr.  Jafnvel þótt fólkið sé meðvitað um hættuna og ætli sér að opna glugga þá verða eituráhrifin þess valdandi að slen og svefn ná að taka völdin og fólkið einfaldlega lognast út af. 

Svona hörmungarslys hlýtur að vera hægt að koma í veg fyrir með einhverjum ábyggilegum og varanlegum hætti. Helst dettur mér í hug að fært verði í lög að þeir sem eiga kofa með gasofnum beri ábyrgð á því að loftræsting sé alltaf nægjanleg t.d. að allir kofar hafi reykrör (stromp). Skilti eða aðrar viðvaranir nægja ekki til að koma í veg fyrir slys sem þessi enda þekkingarskortur kannski sjaldnast orsökin. 

Ég vil hvetja eigendur veiðikofa um allt land og aðra sem að þessum málum standa beint eða óbeint að byrgja þennan eiturbrunn áður en fleiri falla ofan í  hann.   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Tek undir þetta með þér.  Þarna þarf að gera bragarbót á.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 6.4.2008 kl. 13:53

2 identicon

Já þyrfti að setja lög um ábyrga loftræstingu sem yrði í notkun á íverutíma í svona aðstöðu upp til fjalla.

Ása (IP-tala skráð) 6.4.2008 kl. 15:32

3 identicon

Þarf ekki að vera annað en loftræstiop í líkingu við eins og í fjölbýlishúsum.

Margrét Össurardóttir (IP-tala skráð) 6.4.2008 kl. 17:31

4 identicon

Það þarf almenna fræðslu um þetta, fólk er ekki nógu vel upplýst hvað skeður flestir halda að það slökkni á gasinu og það sé það gasið sem valdi eitruninni þegar það flæðir en það er ekki rétt, heldur sveltur eldurinn af súrefni og við það myndast þessi banvæna lofttegund og gerir útslagið á mjög snörpum tíma, öflum okkur betri upplýsinga og komum þeim til skila.

Viðar Jónsson (IP-tala skráð) 6.4.2008 kl. 21:40

5 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Tek undir með þér.

En lestu blogg mitt;uppreisn;

Hólmdís Hjartardóttir, 7.4.2008 kl. 02:55

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband