Að vera uppkomið barn alkóhólista

SÁÁ Blaðið kom inn um lúguna í morgun. Í því eru margar góðar greinar þar á meðal ein sem ber heitir Börn alkóhólista í verulegri hættu.

Umræða um hvernig alkóhólsimi leggst á alla  fjölskylduna er þörf og verður henni seint gerð full skil.  Auk þess sem börn alkóhólista eru í áhættuhópi þeirra sem ánetjast áfengi eða öðrum vímuefnum eru mörg önnur erfið tilfinningarleg og félagsleg einkenni sem hrjá þau, einkenni sem einstaklingarnir eiga oft í baráttu við alla ævi.

Sem sálfræðingur og einnig fullorðið barn alkóhólista langar mig að nefna nokkur algeng einkenni sem oft fylgja barni alkóhólista þegar það leggur af stað út í lífið. Um er að ræða erfiðar tilfinningar og hugsanir sem geta verið æviverkefni að finna farveg og viðunandi lausnir á. 

Fyrst skal nefna tilfinningu sem við köllum í daglegu tali minnimáttarkennd. Þessi tilfinning eða líðan lýsir sér í því að viðkomandi upplifir sig sem lítils virði og að hann eða hún geti ekki gert hlutina nógu vel. Þetta er líðan sem einkennist af tilfinningu um að vera síðri en aðrir og finnur viðkomandi oft fyrir ríkri skammartilfinningu.

Þessi líðan: hugsun og tilfinning leiðir oft til þess að viðkomanda finnst hann verða að gera hlutina ofurvel. Hann er því oft mjög samviskusamur og vill vanda sig við verkin.  Þrátt fyrir að hafa lagt sig fram finnst þessum sama aðila framlag sitt seint vera nógu gott sem skapar að sjálfsögðu áframhaldandi vanlíðan og enn slakara sjálfsmat. 

Óöryggi og ótti við að mistakast eru algengar upplifanir hjá fullorðnum börnum alkóhólista.  Finnist þessum einstaklingum þeim hafa mistekist eða ekki tekist nægjanlega vel til eru þeir oft mjög harðir í eigin garð. Sjálfsgagnrýnin verður mikil með tilheyrandi vanmáttartilfinningu og skömm.

Þetta er bara brot af þeirri margbrotnu flóru erfiðra tilfinninga og hugsana sem fullorðið barn alkóhólista er að  takast á við í sínu daglega lífi.  Þessi birtingarmynd er heldur ekki algild enda margar aðrar breytur í lífi hvers og eins sem hafa áhrif.

Úr þessum vítahring er vissulega leið. Enda þótt sú leið sé tyrfin þá er hún fær.  Með auknu innsæi, betri skilning, fræðslu og tilheyrandi stuðning er hægt að vinda ofan af neikvæðum tilfinningum sem þessum og leysa upp ranghugmyndir. Lausnin felst hvorki í að leita að sökudólgi né dvelja í sjálfsvorkunn heldur fjölmörgum atriðum sem miðast að því að styrkja sjálfið: hlúa að eigin sál og líkama. Liður í því er  m.a. að losa um hina miklu sjálfsgagnrýni, létta á ábyrgð og draga úr kröfum sem viðkomandi gerir til sjálfs síns.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jenný Anna Baldursdóttir

Takk fyrir þennan pistil Kolbrún.

Jenný Anna Baldursdóttir, 28.5.2008 kl. 12:04

2 Smámynd: Íris Edda Jónsdóttir

Frábær pistill hjá þér og gott þú skyldir koma inn á að það sé leið út úr vítahringnum.  1981 fór ég á fjölskyldunámskeið hjá SÁÁ sem þá var nýbyrjað, ég var þá 17 ára gömul.  Það voru byrjunarsporin hjá mér í átt að bata og er ég enn að.

Vil ég líka benda á www.al-anon.is  frábær síða.

Íris Edda Jónsdóttir, 28.5.2008 kl. 14:06

3 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

Þakka góðan pistil Kolbrún.

Það klikkar ekki sem úr þínum ranni kemur.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 29.5.2008 kl. 10:45

4 identicon

Sæl Kolbrún og takk fyrir síðustu skrif.

Alkóhólistimi er ættgengur sögðu vísindin mér. Þegar ég les yfir tölurnar frá Hagstofu Íslands aftur um drykkju landans verð ég að viðurkenna að ég er farinn að efast um vísindin. Meira en 100% aukning á drykkju hvers einstaklings á einum áratug hlýtur að vera met. Hvað skildi vera svona mikið að í Íslenskri þjóðarsál? Hér er ekki verið að tala um heimabrugg, smygl á áfengi,eða neyslu annarra vímuefna. Hver skildi þá neyslan vera á vímuefnum til samans á hvern einstakling þegar þessum tölum er bætt við? Sjaldan er böl svo slæmt að ekki megi bæta.  Þegar einhver ákveður loks að hætta drykkju hefur hann stigið með annan fótinn a.m.k. ofan í botnlaust dý. Umhverfi þessa einstaklings, drykkjufélagarnir snúa við honum baki skyldmennin og ættmennin finnst ekki við hæfi að hafa einn allsgáðan í hópnum, í helgargleðinni og ættarmótunum því hann gæti verið óþægilegt vitni að því sem myndi gerast. Ekki þýðir að bjóða honum hestaskál eða réttarfyllerí eða honum til mannfagnaðar þegar opnuð verður hurðin á nýja hjólhýsinu. Svo ættu öðrum að vera auðvelt að skilja að menn verði þyngri vitrari og dýpri þegar þeir verða edrú, varanlega því það er fátt orðið eftir til að gleðja hugan nema heimspekin í efri hillum háskólasafnsins einhvers staðar við Hringbraut. Læt þessar vangaveltur duga í bili og ætla að horfa á þáttinn í kvöld.

                              Með bestu kveðjum,

                       Baldvin Nielsen, Reykjanesbæ   

B.N. (IP-tala skráð) 29.5.2008 kl. 13:30

5 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Takk fyrir innleggið Baldvin.

Ég var að skoða dagskránna, held að þátturinn hafi verið í gærkvöldi, svei mér þá.
Annars má skoða dagskránna betur á inntv.is
svo ætti að vera hægt að sjá alla þætti á INN í tölvunni. 

Kolbrún Baldursdóttir, 29.5.2008 kl. 14:57

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband