Á leiðinni á slysstað

Sjúkraflutningsmenn, lögregla og aðrir sem koma fyrstir á slysavettvang velta því sennilega fyrir sér á leiðinni hvað kunni að bíða þeirra á slysstaðnum, hvort fólk hafi sloppið með skrámur, hvort einhverjir séu stórslasaðir eða hvort orðið hafi jafnvel banaslys?

Allir geta ímyndað sér hvernig aðkoman getur verið þegar alvarlegt umferðarslys hefur orðið. Við blasir slasað fólk, skelfingu lostið og hrætt; fólk sem hefur misst meðvituð; fólk sem er fast í bílflakinu eða fólk sem flogið hefur út úr bílnum við slysið vegna þess að það var ekki í bílbelti. Þessi lýsing er bara brot af þeim aðstæðum sem hægt er að ímynda sér að séu á vettvangi alvarlegs umferðarslyss.
Skyldi nokkurn tímann vera hægt að venjast þessu?

Þeir sem starfa við sjúkraflutninga, lögreglan og aðrir sem koma að hinum slasaða hljóta að kenna oft streitu og mikils álags í starfi.  Þetta fólk á sínar fjölskyldur sem það kemur heim til að lokinni vakt, eftir að hafa e.t.v. verið að klippa einhvern út úr bílflaki, reyna að lina þjáningar stórslasaðra einstaklinga eða reynt að blása lífi í einhvern sem þá þegar kann að vera látinn.

Í álagsstarfi sem þessu er auðvelt að brenna út . Vissulega hjálpar að hafa fengið góðan undirbúning og þjálfun. Svona starf er heldur ekki fyrir hvern sem er. Sumir segja að með reynslunni verði maður ónæmari og taki síður svona lagað inn á sig. Aðrir vilja meina að því lengur sem maður gegnir starfi sem þessu og því meira sem maður upplifir af hörmungum aukist kulnunin. Vissulega hlýtur þetta að vera mjög einstaklingsbundið. 

Þeir sem gegna þessum störfum þarfnast þess að hlúð sé að andlegri líðan þeirra í kjölfar erfiðrar reynslu í vinnunni, hvort heldur í formi handleiðslu, frítíma eða annarrar umbunar.
Þannig getum við sýnt þeim að við virðum störf þeirra og að okkur standi ekki á sama um sálarlíf þeirra. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Kristín Katla Árnadóttir

Ég er svo sammála þér Kolbrún mín og mjög góður pistill  hjá þér að venju.

Kristín Katla Árnadóttir, 31.7.2008 kl. 15:43

2 Smámynd: Einar Þór Strand

Kolbrún þú ert að tala um mál sem menn taka kannski sem sjálfsagt en það eru kannski fleirri fletir á þessu en þú ert að sjá, það eru ekki allir í þessu sem fullri vinnu, á landsbyggðinni eru menn í þessu í hlutastafi, ekki að það sé nokkuð við það að athuga er eina ráðið til að halda uppi þjónustu sem við viljum.  En við þær aðstæður er fjölskyldan nær því sem er að gerast, pabbi eða mamma eru allt í einu farin þegar síminn pípir og það oft með stuttri kveðju úr miðjum sögulestri, og stundum held ég að littlir hugar hafi áhyggjur af foreldrinu sem fór og hvernig því líður þegar það kemur til baka, eða varð foreldrið sem eftir varð pirrað vegna þess að það var skilið eftir eitt með heimilið.  Þannig að það er ekki auðvelt að halda utanum þá sem að þessu koma. 

Og það sem er það skrýtna við þetta er að þetta er ekki mikilsmetið af launagreiðandanum eða heldur minna en leiðbeinendur í vinnuskólanum.

Einar Þór Strand, 31.7.2008 kl. 20:04

3 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Þetta hlýtur að vera með erfiðari störfum, vildi ekki þurfa að koma að slysum, þó svo ég hafi samt upplifað að vera á eftir bílum sem lentu í árekstri og í öðrum bílnum dó ung stúlka meðan við biðum eftir sjúkrabíl það var nú með því skelfilegra sem ég hef séð, hún dó rétt áður en þeir komu og það var ekkert hægt að gera svo þeir breiddu yfir hana, ég man að ég hrópaði "gerið eitthvað, ekki hætta" en svona endaði þetta. Ég keyri svo oft þessa leið í bæinn, þetta var við Litlu Kaffistofuna og ég hugsa alltaf um þessa fallegu ungu konu í hvert sinn sem ég fer þarna og bið fyrir henni um leið.  Gleymist aldrei

Ásdís Sigurðardóttir, 31.7.2008 kl. 23:12

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband