Eru þetta ekki hæpnar bankastjóraráðningar, tvöföld ráðherralaun og bílastyrkir?

Því hefur verið lýst yfir að um sé að ræða skammtímaráðningar þessara nýju bankastjóra sem allir eiga rætur að rekja í það fjármálaumhverfi sem við erum að yfirgefa enda búið að kollsteypa þjóðfélaginu.

Hverjir eru þessir nýju bankastjórar?
Glitnisbankastjórinn hefur nýlega prýtt forsíður blaðanna vegna meintra hlutabréfakaupa í gamla Glitni sem láðist að afskrifa í Kauphöllinni. Hvort hin meintu kaup haldi er ekki vitað eða í það minnsta hefur það ekki verið upplýst hvernig málinu lyktaði. Áður en hrunið skall á var bankastjórinn, um tíma, yfirmaður Markaðssviðs Glitnis. 

Bankastjóri Kaupþings var formaður svokallaðrar Skilanefndar en var áður hjá Icebank.
Margir hafa lýst furðu sinni á því að hann skyldi fara frá því að vera formaður Skilanefndar yfir í að verða bankastjóri Kaupþings.

Bankastjóri Landsbankans var fyrir hrunið framkvæmdarstjóri fyrirtækjasviðs Landsbankans og bar þar með ábyrgð á öllum lánum til  fyrirtækja.

Á það skal lögð áhersla hér að allt er þetta prýðisfólk, vel menntað og eldklárt á sínu sviði.

Leynd launa loks aflétt.
Loksins í dag var upplýst á hvaða launum Elín Sigfúsdóttir er á.  Áður var vitað hvaða laun hinir tveir bankastjórarnir þiggja.  Þessar tölur voru þó ekki opinberaðar fyrr en ítrekað var búið var  að kalla eftir þeim.

Pirringur.
Vegna þess að svo gríðarlega margir eiga nú um sárt að binda, sker í hjartað að lesa að a.m.k. tveir af þessum aðilum aka um á bifreiðum sem skráðar eru á bankann.

Fjöldi manna er að taka á sig launaskerðingar, lægra hlutfall vinnu svo ekki sé minnst á þá sem eru atvinnulausir.  Þess vegna er ekki erfitt að skilja að það fer illa í fjölmarga þegar bankastjórar nýju bankanna neituðu í fyrstu að upplýsa um laun sín, eru á tvöföldum launum ráðherra og þiggja síðan hlunnindi eins og bílastyrki og jafnvel eitthvað fleira.

Við viljum komast út úr þessu rugli sem ríkt hefur í bankageiranum undanfarin ár.
Þessi atriði sem hér hafa nefnd styðja ekki þá trú og vissu að það sé að gerast.

Við lifum í þeirri von að hægt sé að byrja upp á nýtt. Ef vel á að takast til þarf að vanda val sérhvers manns í þessar mikilvægu stöður. Vissulega er þetta hæft fólk margt hvert en það er að koma úr stórkostlega menguðu umhverfi.



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heidi Strand

Burt með spillingarliðið!

Heidi Strand, 7.11.2008 kl. 20:47

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband