Engan barnaníðing í mitt hverfi, takk fyrir.

Engan barnaníðing í mitt hverfi dugar skammt því þeir leynast og okkur tekst aldrei að góma alla.
Þess vegna verðum við að kenna börnunum að þekkja aðstæður sem kunna að vera hættulegar og hvar mörkin liggja. Engar aðferðir eða nálganir eru skotheldar en allt verður að reyna. Ef einhver aðferð eða nálgun verður til þess að bjarga þótt ekki væri nema einu barni frá því að þola kynferðisofbeldi er það sigur.

Ein öruggasta vörnin felst í því að kenna börnunum fáeinar mikilvægar samskiptaleikreglur og brýna fyrir þeim hvar mörkin liggja hvað varðar þeirra eigin líkama og þeirra sem kunna að verða á vegi þeirra.

Staðreyndin er sú að það er óraunhæft að halda að hægt sé að fría samfélagið af veikum einstaklingum svo sem þeim sem misnota og áreita börn og unglinga kynferðislega.  Stundum tekst að upplýsa þessi mál, sakfella og dæma en einn góðan veðurdag hefur viðkomandi lokið afplánun og stígur út úr fangelsinu. Í fangelsinu gæti hafa tekist að hjálpa aðilanum upp að einhverju marki en fyrir liggur að rannsóknir sem lúta að árangri meðferðar á kynferðisafbrotamönnum gefa ekki tilefni til nægjanlegrar bjartsýni.

Hafi viðkomandi lokið afplánun að fullu er hann frjáls maður og þarf einhvers staðar að vera.
Það besta og raunhæfasta sem við getum gert er að kenna börnunum snemma ákveðnar leikreglur í samskiptum, fræða þau um hvar mörkin liggja og þjálfa þau í að lesa og meta aðstæður. Jafnframt að kenna þeim viðbrögð þ.e. hvað eigi að gera hafi þau lent í aðstæðum eða samskiptum sem þeim líður illa með.

Börn þurfa kennslu og leiðbeiningu um kynferðislega hegðun eins og aðra hegðun.
Til dæmis, hvernig snerting er í lagi?
Hvaða staðir eru mínir einkastaðir?

Ítreka jafnframt við þau:
Þú átt þinn líkama og enginn má snerta þína einkastaði. Ef einhver vill gera það, hvort heldur hann er kunnugur eða ókunnugur átt þú að flýta þér í burtu og segja frá. Leyndarmál sem láta manni líða illa eru vond leyndarmál.

Skólinn, fagaðilar og grasrótarsamtök geta stutt foreldra í því að ræða um kynferðislegt ofbeldi við börn sín og hvernig þau geta kennt þeim að verjast slíkum árásum.

Vilji skólinn taka inn fræðslu um þessi mál er mikilvægt að hún sé í samstarfi og samvinnu við foreldra.   Í kjölfar fræðslu um þessi viðkvæmu mál vakna oftar en ekki spurningar hjá börnunum sem foreldrar, eftir að skóla lýkur,  þurfa að geta svarað.  Fylgja þarf fræðslu sem þessari eftir og þar eru þeir í aðalhlutverki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Því miður fer umtalsverður hluti kynferðisbrota gegn börnum fram inni á heimilnum og gerendurnir eru foreldrar, aðallega feður.

Sigurður Þór Guðjónsson, 22.1.2009 kl. 15:20

2 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Þegar þetta á sér stað inn á heimilunum sjálfum getur reynst þrautinni þyngri að brjótast í gegn og koma til hjálpar.

Enginn veit því  hve slík tilfelli eru mörg í reynd.

Kolbrún Baldursdóttir, 22.1.2009 kl. 15:25

3 Smámynd: Ásdís Sigurðardóttir

Viðhorfið er oft þannig að fólk segir að einhvers staðar verði vondir að vera, bara ekki hjá þeim.  Tek undir skrif þín.

Ásdís Sigurðardóttir, 22.1.2009 kl. 15:42

4 Smámynd: Vilberg Helgason

Einhvernsstaðar verða vondir að vera....

Ég undirstrika að þeir eiga ekki að vera nálægt börnunum mínum.

Og þó börnin mín læri hvar prívatstaðir þeirra séu þá hjálpar það þeim lítið eftir að barnaníðingur hefur tekið þau afsíðis...

Ég tel að dómar barnaníðinga séu of lágir og eigi að lágmarka við 16 ár. Enda tel ég miklu verra að framin séu sálarmorð á börnum heldur en að ég væri sjálfur drepinn sem dæmi.

Vilberg Helgason, 22.1.2009 kl. 15:59

5 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Sammála því Vilberg en þessi sjúku einstaklingar leynast víða og sumum þeirra náum við aldrei að góma.

Kenna þeim líka að FARA EKKI AFSÍÐIS MEÐ NEINUM

Svo byrgjum brunninn eins og við getum

Kolbrún Baldursdóttir, 22.1.2009 kl. 16:05

6 Smámynd: Harpa Oddbjörnsdóttir

Ég er algjörlega sammála því að við þurfum að kenna börnum hvar mörkin liggja varðandi þeirra eigin líkama.

Hinsvegar er ég ósammála því að það sé það sé ein öruggasta vörnin og sú raunhæfasta til að koma í veg fyrir kynferðislegt ofbeldi á börnum. 

Sú öruggasta og raunhæfasta er að kenna FULLORÐNUM hvernig VIÐ getum komið í veg fyrir kynferðislegt ofbeldi. Ábyrgðin er OKKAR að vernda börnin okkar. Það er hægt að kenna barni allar góðar og gildar samskiptareglur sem til eru í heiminum en þegar barn, kannski 5 ára gamalt, stendur frammi fyrir fullorðnum einstaklinga sem hefur einstaklega sterkan brotavilja til að misnota það er ekki mikið sem barnið getur gert.

Því verðum við, hinir fullorðnu að taka ábyrgðina af börnunum um að koma í veg fyrir ofbeldið og flytja það yfir á okkur.

Endilega farið á heimasíður Blátt áfram og skráið ykkur á námskeiðið Verndarar barna. Þar lærum við hvernig við getum fyrirbyggt, greint og brugðist við kynferðislegu ofbeldi á börnum.

Ábyrgðin er OKKAR!

Harpa Oddbjörnsdóttir, 22.1.2009 kl. 21:32

7 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Eitt útilokar ekki annað.

Sá þáttur sem ég nefni, umræðan (á plani sem börnin skilja) um hvar mörkin liggja og þjálfun í samskiptum sem snúa að því að standa vörð um eigin líkama er þó ekki næg að mínu viti eftr áralanga vinnu í barnaverndarmálum og árum saman með annan fótinn í Barnahúsi.

Hún mætti vera víðtækari og markvissari sem samstarfsverkefni foreldra, skóla og fagaðila.

Vil benda á bækurnar:

Þetta eru mínir einkastaðir eftir Diane Hansen
og
Þetta er líkaminn minn sem Barnaheill gaf út

Kolbrún Baldursdóttir, 22.1.2009 kl. 22:24

8 identicon

Ég efast um að menn geti bara sagt "Engan barnaníðing í mitt hverfi, takk".  Það eru barnaníðingar í öllum hverfum og þeir hættulegustu eru þeir sem við vitum ekki af.

Ég reikna með því að kveikja þessarar færslu sé frétt af því þegar Ágúst Magnússon flutti í Bakkahverfið.  Þar áður bjó hann í Rimahverfi.  Það er svolítið merkilegt hvað þessi maður þarf alltaf að búa í þessum "barnahverfum", þar sem meginþorri íbúa eru ungir foreldrar og börn þeirra.  Þó er þar líklega um efnahagslegar ástæður að ræða.

Þegar Ágúst þessi flutti inn í næsta hús við mig á sínum tíma, þá kenndi ég mínum krökkum að þar færi vondur maður sem bæri að forðast.  Nærvera hans leiddi til ónota af minni hálfu en þó ekki ótta, þar sem við vitum jú flest orðið hvernig þessi maður fúnkerar, þ.e. hann er ekki líklegur til að ráðast á börn en hann platar þau og fer síðan til þeirra.  Hvort kauði búi í næsta húsi eða í öðru hverfi skiptir svosem ekki öllu máli því hann getur verið kominn inn á mitt heimili í gegnum msn eða álíka samskiptamáta óháð því hvar hann býr.

Svona mál eru ömurleg, en ég tel það mikla einföldun að halda að með því að þekktur barnaníðingur flytji úr hverfinu, þá munu börnin verða eitthvað öruggari fyrir vikið, því ég óttast þann sem ég veit ekki af mun meira en þann sem ég get þó gert ráðstafanir til að varast.

Björn Ingvarsson (IP-tala skráð) 23.1.2009 kl. 07:23

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband