Ég hef ekki grænan grun um hvar ég hafnaði í þessu prófkjöri Sjálfstæðismanna í Reykjavík

Ég hef ekki frekar en aðrir sem höfnuðu neðar en 12. sæti hugmynd um hvort ég hafnaði í 13. sæti eða 29. sæti. Þessi  leynd er afar sérkennileg og alveg ástæðulaus. Allir frambjóðendur hafa lagt mikið á sig, mismikið eðlilega,  en þessi tími hefur án efa tekið á hvern og einn frambjóðanda og fjölskyldu hans. Hægt hefði verið að tilkynna þeim það persónulega í gærkveldi eða í morgun sem dæmi.

Ljóst er hins vegar að kjörsókn var afleit eða rúmur þriðjungur af flokksbundnum Sjálfstæðismönnum í Reykjavík.  Hvar eru allir hinir og hvað vilja þeir?

Engin endurnýjun er á listanum. Allir sitjandi þingmenn, tveir varaþingmenn og einn borgarfulltrúi. Þórlindur er reyndar nýr. Hann og Erla Ósk eru bæði fulltrúar ungliðahreyfingarinnar. Allir fyrir neðan 7. sæti eru ekki með bindandi kosningu.

Stétt með stétt eins og Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt áherslu á, virðist ekki beint eiga við nú.  Af 12 efstu er einn hagfræðingur, einn hagfræðinemi, fjórir lögfræðingar, einn laganemi,  einn stjórnmálafræðingur, einn stærðfræðingur,  tveir hjúkrunarfræðingar. Stéttirnar sem þessir 12 eru fulltrúar fyrir eru því afar fáar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Tek heilshugar undir allt sem þú segir í þínum pistli.  Sjálfstæðisflokkurinn hefur fjarlægst "stefnumál sín & grunngildi", að tala um "stétt með stétt" og bjóða svo bara upp á "lögfræðistétt" og vinna alltaf að því að gera vel við bara eina stétt "auðmannastétt", þetta er ekki sú stefna sem flokkurinn var stofnaður um.  En því miður hefur flokkurinn verið "týndur & tröllum gefinn" í fjölda ára, gríðarlega sorglegt að horfa upp á það að "sumir flokksmenn skuli alfarið HAFNA endurnýjun".  Enn og aftur hafna kjósendur KONUM, "ótrúlega sorglegt en satt" - ég er mjög stoltur af því að hafa kosið sjö konur af þessum 10 sætum sem voru í boði, þú varst einn af þessum 10 konum sem ég kaus.  Ég hef alltaf hrósað Sjálfstæðisflokknum fyrir flotta kvennframbjóðendur, en hvaða gagn er í slíku ef þeir nota ykkur aldrei????  Í dag á ég enga samleið með frambjóðendum þeim sem X-D býður mér upp á í Reykjavík.  Ég hélt einnig að hugmyndafræði Hannesar Hólmsteins & Pétur Blöndal hefði beðið "skipsbrots" en nei - Pétur nær 3. sætinu, þá segi ég nú bara "Helvítis fukking fokk..."

kv. Heilbrigð skynsemi

Jakob Þór Haraldsson (IP-tala skráð) 15.3.2009 kl. 10:57

2 Smámynd: Guðmundur St Ragnarsson

Ég tek undir pistil þinn Kolbrún en spyr: Var von á góðu? Eins og þú segir sjálf einungis 1/3 hluti flokksmanns kaus. Þessi flokkur siglir sofandi að feigðarósi (ekki Blönduósi) á meðan eigin flokksmenn kjósa yfir sig fólk sem tók þátt í því að sigla þjóðarskútinni í strand.

Og þessi eilífa leynd maður! Það er meira að segja leynd hverjir töpuðu!

Guðmundur St Ragnarsson, 15.3.2009 kl. 11:48

3 Smámynd: ÞJÓÐARSÁLIN

Ég skil allavega vel núna af hverju Kvennalistinn varð til.

ÞJÓÐARSÁLIN, 15.3.2009 kl. 13:21

4 identicon

Sæl. Ég á nú ekki von á öðru en að allar niðurstöður verði birtar, það hefur ekki verið ástæða til að leyna þessum upplýsingum hingað til.

Að auki má segja, ef þú Kolbrún - hefur skilað inn aðila í talningu eins og yfirleitt er beðið um í prófkjöri flokksins, þá hlýtur sá hinn sami að vera með þessar upplýsingar fyrir þig. Mér finnst í raun ekki sæmandi að tala um að stéttirnar séu fáar sem standi á bak við flokkinn. Er Reykjavík eina kjördæmið í þínum huga? Hefur þú skoðað stéttirnar sem standa fremst í flokki í hinum kjördæmunum? Væri öllu borgið ef einn sálfræðingur væri inni í Reykjavík eða væri ekki þörf á athugasemd ef svo væri?

Í mínum huga er kominn tími á samstöðu - samstöðu allra í raun - þar sem unnið verði markvisst að því að finna lausnir fyrir komandi mánuði og ár. Og það verður ekki gert með því að hnýta í samstarfsfólk sitt.

Góðar stundir og gangi þér vel.

Sólveig Kristjánsdóttir (IP-tala skráð) 15.3.2009 kl. 13:22

5 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Sæl, ég skilaði inn aðila í talningu. Hann mætti kl. 11 í Valhöll og var hleypt út úr Valhöll rúmlega 6 á sama tíma og fyrstu tölur voru lesnar í útvarpið. Hann eins og ég veit ekki þegar ég skrifa þetta nú neina frekari röðun. Maðurinn heitir Grétar Már Axelsson og hefur símann 844-4631.

Kolbrún Baldursdóttir, 15.3.2009 kl. 13:33

6 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Hins vegar er þetta allt í lagi mín vegna, ég er bara róleg  á leið í að fylla út skattskýrsluna.  Finnst samt svona formsins vegna allt í lagi að láta aðrar frambjóðendur vita af þessu.

Staðreyndin er sú að meirihluti þess fólks sem kaus vill enga endurnýjun. Það er sátt við sitt fólk, verk þeirra á liðnum árum og treystir þeim til áframhaldandi vinnu fyrir sig. Verst er hvað kosningarþátttaka var dræm. Hef nokkrar áhyggjur af því satt að segja svona þegar maður spáir í lýðræðisleg réttindi einstaklingsins til að láta heyra í sér.

Kolbrún Baldursdóttir, 15.3.2009 kl. 13:36

7 identicon

Heil og sæl; Kolbrún, sem þið önnur, hér á síðu hennar !

Kolbrún ! Ertu ekki enn; farin að átta þig á, hvers lags forar vilpa Sjálfstæðisflokkurinn er, í íslenzku samfélagi ?

Svona; viðlíka geðfelld hreyfing, og Talibana skrattarnir, austur í Baktríu (Afghanistan), ágæta frú - svona, þér að segja.

Með beztu kveðjum; úr Árnesþingi /

Óskar Helgi Helgason

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 15.3.2009 kl. 15:05

8 identicon

Það er málfrelsi í landinu og það að segja hug sin og skoðun sé að hnýta í aðra þá verður það að vera og greinilegt að sumir hafa auman blett fyrir því.

Mér kæmi það ekki á óvart að þú mundir styðja persónukjör í alþingiskosningum þar sem kjósandinn hefur úrslita áhrif um hverjir veljast á þing. Og þá gæti nú margt breyst.

Þórður Runólfsson (IP-tala skráð) 15.3.2009 kl. 15:13

9 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Það mætti halda að þú læsir hugsanir Þórður minn.  Til að sporna við því að Sjálfstæðisflokkurinn komi illa út úr kosningunum þá væri það sannarlega leið. En það þurfa víst aðrir og fleiri að styðja þá hugmynd en ég ef hún á að ná fram að ganga.

Kolbrún Baldursdóttir, 15.3.2009 kl. 16:08

10 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Sæll Óskar minn, ég veit ekki hvað segja skal. Ég vil þó ekki ganga svo langt að segja að mín mál og það sem ég stend fyrir sem sálfræðingur til margra ára eigi ekki upp á pallborðið hjá Sjálfstæðisflokknum. Þeir sem kusu nú í þessu prófkjöri voru bara rúmur þriðjungur. Því miður sátu þúsundir manna heima og notuðu ekki atkvæðisrétt sinn. Hitt get ég sagt þér að í Sjálfstæðisflokknum er mikið af góðu og vönduðu fólki. 

Að skipta um flokk vegna þess að ég telji að mín mál eigi frekar upp á pallborðið í öðrum fólki finnst mér eitthvað svo erfið tilhugsun. Það er eins og einhver flótti.  Er ekki líka margir af mínum líkum t.d. í Samfylkingunni?

Það er enginn sálfræðingur í Sjálfstæðisflokknum og þess vegna taldi ég mig hugsanlega góða viðbót. Grunnstefnan rúmar manneskju eins og mig með þennan málaflokk svo mikið er víst.

En hvað um það ég held bara áfram að þjónusta fólk á einstaklingsbasis, vinna með börnum, foreldrum og fræða hópa. Góður farvegur er síðan í gegnum þættina mína á ÍNN.  Annað kvöld verður t.d. fjallað um einelti meðal grunnskólabarna og hvaða ráð eru til að stuðla að fækkun slíkra mála.

Kolbrún Baldursdóttir, 15.3.2009 kl. 16:49

11 Smámynd: Ingi Björn Sigurðsson

Mjög athyglisvert. Góður punktur hjá þér í sambandi við Stétt með Stétt. Er það ekki meira þannig að í topp tíu þá eru 8 alþíngismenn og tveir starfsmenn Landsbankans..

Ingi Björn Sigurðsson, 15.3.2009 kl. 18:58

12 identicon

Það er allavega að mínu mati afar skrítið að allar niðurstöður séu ekki birtar fljótlega.

Karen (IP-tala skráð) 15.3.2009 kl. 20:04

13 identicon

Komið þið sæl; á ný !

Kolbrún ! Mér sýnist, sem þér mætti vel farnast; innan vébanda sjóhunda- og þungavigtarsveitar Frjálslynda flokksins, ef þíð Guðjón Arnar mættuð ná, að stilla saman strengi ykkar, að nokkru.

Þætti mér ekki; að ófyrirsynju, að vel gæti til tekist - ef fram næði að ganga, þar um.

Með beztu kveðjum; sem fyrr /

Óskar Helgi Helgason 

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 15.3.2009 kl. 20:38

14 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Ég las mitt umhverfi þannig, að endurnýjunar væri þörf hjá öllum flokkum. Ég er ennþá sömu skoðunar, en lestrarkunnátta mín hlýtur að vera slök. Allir flokkar eru að velja sama fólkið og stóð hrun-vaktina. Núverandi forsætisráðherra á hina raunverulegu sök á hruninu og hún mælist vinsælust.

Eins og ég nefndi á bloggi mínu um miðjan dag, þá er niðurstaða prófkjörs Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík ekki bindandi, þannig að einhverjar laggfæringar eru mögulegar á listanum. Hins vegar er ekki víst að allir hafi sama fegurðarsmekk og ég. Við verðum að hafa í huga að viðhorf manna eru mismunandi og margt gott er hægt að segja um það fólk sem er efst á listanum, ekki síður en um það frábæra fólk sem lenti neðst. Því fer fjarri að ég kvarti fyrir eigin hönd.

Hver og einn getur nálgast upplýsingar um eigin árangur á skrifstofu flokksins. Þessu var ekki útvarpað af tillitssemi við þá sem lentu neðst. Málið er því allt í góðum farvegi.

Loftur Altice Þorsteinsson, 15.3.2009 kl. 20:54

15 Smámynd: Júlíus Valsson

Hafðu ekki áhyggjur Kolbrún. Þú stóðst þig vel og ert með góð málefni. Ekki gefast upp. Það er bara ansi dýrt að vinna.

Júlíus Valsson, 15.3.2009 kl. 21:00

16 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Ég hef ekki trú á að neinar breytingar verði gerðar á listanum Loftur þ.e. fyrstu 12 og svo veit Guð einn hverjir kunna að koma þar næst á eftir.

Ég vil óska efstu 12 á listanum og sér í lagi efstu 8 til hamingju með árangurinn og vona að þau verði farsæl í starfi sínu svo sem flestir megi njóta.

Kolbrún Baldursdóttir, 15.3.2009 kl. 21:03

17 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Kaus þig og allnokkra sem ekki komust í 12 efstu.

Mjög er þungt fyrir fæti, þegar ekki nema ljúfur þriðjungur nennir á kjörstað.

Ekki Flokkurinn ekki skilur hvað til hans friðar heyir þá, má hann bara sigla sinn sjó.

Mibbó 

Bjarni Kjartansson, 15.3.2009 kl. 23:06

18 identicon

Loftur Alice hlýtur að vera formaður í Sögufölsunarklúbbi Íslands. Að segja Jóhönnu Sigurðardóttur manneskjuna sem ber höfuðábyrgð á hruninu er staurblinda ef það er ekki sögufölsun. Sjálfstæðisflokkurinn ber höfuðábyrgð, enda búinn að vera við stjórn í 18 ár, þ.m.t. þegar bankarnir voru seldir/gefnir og þegar hrunið átti sér stað. Sömuleiðis voru pólítískt ráðnir gæðingar á öðrum póstum (í Seðlabanka og FME), sem áttu að koma í veg fyrir gengdarlausan útflutning fjármagns. Enginn stjórnmálamaður kemst með tærnar þar sem JS hefur hælana, hvað vinsældir snertir og það það ekki að ástæðulausu. Gangi þér allt í haginn Kolbrún.

Fólk ætti að vara sig á lygamörðum sem vilja vera á Alþingi Íslendinga. 

Kolla (IP-tala skráð) 15.3.2009 kl. 23:35

19 Smámynd: Árni Gunnarsson

Kannski eru einhverjir flokksmenn ennþá að velta fyrir sér ályktuninni: Stefnan brást ekki, bara mennirnir! Og að einhverjir spyrji sig þess hvort það sé nú alveg öruggt að mennirnir bregðist ekki aftur?

Það er alveg hugsanlegt að einhverjir flokksmenn telji rétt að breyta stefnunni svona eitthvað örlítið. Án þess að hafa neina vitneskju dettur mér í hug að þú Kolbrún hafir verið grunuð um að vera ekki nægilega sanntrúuð.

Árni Gunnarsson, 15.3.2009 kl. 23:45

20 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Sæl

Þú ættir að hætta í þessum karlaklúbb og koma í fjölbreytileikann í Samfylkingunni.  Í framboði í SV-kjördæmi voru kennari, iðnaðarmaður, háskólanemi, lögfræðingur (x3), læknir, félagsráðgjafi, sölu- og markaðstjóri, bæjarstjóri (bókmenntafræðingur og bakari), verkefnastjóri, líffræðingur, framkvæmdarstjóri og skólastjóri.  Kynjahlutfall var jafnt 7+8.

Loftur Altice hér að ofan er eitthvað veruleikafirrtur að segja að Jóhanna Sigurðardóttir eigi "hina raunverulegu sök á hruninu".   Halda sjálfstæðismenn þetta virkilega? 

"Stétt með stétt!"  Já, það er arfleifð Richard Thors sem hafði mikil mýkjandi áfrif á Sjálfstæðisflokkinn á upphafsárum hans og færði hann úr því að vera flokk atvinnurekanda og auðmanna yfir í að vera flokk með ákveðna velferðarlínu einnig.  Ólafur Thors tafði þó upptöku vökulaganna um 4 ár og var það skammarlegt.  Síðustu 16 árin hefur þetta í raun verið "fjárfestastétt með lögfræðingastétt"  eða "bankastétt með auðmannastétt".  Aðrar stéttir, nema helst fasteignasalar hafa fengið minna.  Stéttin þín, sálfræðingar hefur verið úti í kuldanum og í staðinn hafa prestar fengið að vera á launum sérfræðings inní leikskólum og skólum við "sálgæslu".  Ég berst fyrir því að fólk fái 15 tíma hjá klínískum sálfræðingi á ári gegn tilvísun læknis.  Komdu í baráttuna með mér!  ;-)

Svanur Sigurbjörnsson, 16.3.2009 kl. 04:02

21 Smámynd: Villi Asgeirsson

"Núverandi forsætisráðherra á hina raunverulegu sök á hruninu..." Rökstyddu þetta nú, Loftur minn. Getirðu það ekki, er betra að segja ekkert.

Villi Asgeirsson, 16.3.2009 kl. 09:59

22 Smámynd: Loftur Altice Þorsteinsson

Loksins tóku Sossarnir við sér, til varnar sætavísunni Jóhönnu Sigurðardóttur. Allir vita að Jóhanna er ein af fáum þingmönnum, sem ekki hafa axlað ábyrgð sína á samþykkt inngöngunnar í Evrópska efnahagssvæðið 1994. Laxamörðurinn Össur Skarphéðinsson er annar ógæfumaðurinn í þessum axlalausa hópi.

Jóhanna var raunar líka með í upptöku "torgreindu peningastefnunnar" (discretionary monetary policy), þegar samþykkt voru lögin um Seðlabankann 2001. Báðar þessar samþykktir Alþingis lögðu grunninn að efnahagshruninu. Ég hef víða gert ítarlega grein fyrir þessu samhengi.

Loftur Altice Þorsteinsson, 16.3.2009 kl. 10:41

23 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Sæl Kolbrún, það er frekar sláandi þessi niðurstaða Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. Ekki beint til að fylla almenning von um að eitthvað breytist hjá Sjálfstæðisflokknum. Þar er margt ágætis fólk, það kemst bara ekkert að vegna þess að þeir sem eru í hagsmunagæslu fyrir eignamenn og ættaraðal sitja sem fastast.

Það er athyglisvert að bera stöðuna í Sjálfstæðisflokknum saman við Framsóknarflokkinn, þar hafa orðið miklar sviptingar og alveg nýtt fólk á lista hjá okkur í Reykjavík. 

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 16.3.2009 kl. 19:12

24 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Sæl Salvör mín, niðurstaða kosninga sem þessara ber að taka með alvöru enda fátt eins mikilvægt í lýðræðisríki en atkvæðisréttur.

Það hefði samt verið alveg frábært ef kjörsókn hefði verið betri. En ég er ekki rétta manneskjan til að útskýra af hverju hún var svo dræm sem raun ber vitni. Læt stjórnmálafræðinga um það. 

Kolbrún Baldursdóttir, 16.3.2009 kl. 19:18

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband