Barn á rétt á að líða vel í skólanum sínum. Sérsveitarhugmyndin kynnt.

eineltimbl0068488.jpgBarn á rétt á að líða vel í skólanum sínum.  Hér er sett fram hugmynd um hvernig hægt er að virkja utanaðkomandi fagteymi til að leysa mál sem skóli ræður ekki við að leysa.

Alveg eins og foreldrum ber að tryggja öryggi barna sinna á heimili ber skólum að tryggja öryggi þeirra á skólatíma.

Fleiri skólar en færri, trúi ég, að sinni þessari skyldu sinni með sóma. Með reglulegu millibili berast þó tíðindi af því að barn hafi orðið fyrir ítrekuðu ofbeldi, andlegu og eða líkamlegu af hálfu skólafélaga sinna. Afleiðingar eineltis eru alvarlegar og í sumum tilvikum svo alvarlegar að sá sem fyrir því hefur orðið bíður þess aldrei bætur. 

Það er tímabært að horfa af fullri alvöru á þá staðreynd að enda þótt all-flestir skólar fylgi eineltisáætlun, sumar hverjar þaulrannsakaðar og vel útfærðar, þá ráða ekki allir skólar við að leysa úr þyngstu eineltismálunum sem upp koma.  Einnig er tímabært að horfast í augu við þá staðreynd að enn eru til skólar sem hafa enga slíka áætlun. Af hverju skólar eru svo misútbúnir eða mishæfir til að takast á við þennan vágest má eflaust rekja til ýmissa þátta í innviðum þeirra s.s. stjórnunarhátta, stefnu eða stefnuleysi og eða þeirri menningu sem sérhver skóli býr yfir. 

Mikið hefur verið rætt um þessi mál undanfarin misseri og ár. Þegar upp koma svæsin tilvik hefst umræða um að við þetta sé ekki hægt að búa lengur og að nú þurfi eitthvað að fara að gerast í þessum málum. Fagfólk, foreldrar þolenda og fullorðnir þolendur eineltis rísa upp og láta í sér heyra. Haldin eru þing, farið er á fundi stjórnvalda: sviðsstjóra, deildarstjóra og annarra stjóra sem eru yfir þessum málaflokki í sveitarfélagi og í ráðuneytum. Greinar eru skrifaðar, blogg og viðtöl tekin bæði við þolendur, foreldra, aðstandendur og stjórnvöld.

Vissulega hefur heilmikið þokast áfram í þessum málum og æ fleiri skólar hafa aukið áherslur sínar á forvarnir og fyrirbyggjandi aðgerðir. Rætt er við börnin um samskipti og að þeim beri að koma vel fram hvert við annað. Það bætast æ fleiri skólar í hóp þeirra skóla sem hafa eineltisáætlanir. Margir skóla endurskoða sínar áætlanir reglulega og endurbæta það ferli sem eineltismál fara í, komi þau upp, og ítrekað er brýnt fyrir starfsfólki skóla að halda vöku sinni og láta vita um leið og tilefni eru til afskipta.

En betur má ef duga skal því enn er að fréttast af málum sem komið hafa upp og hafa fengið að grassera með skelfilegum afleiðingum. Dæmi eru um að sagt sé frá því að skóli hafi  jafnvel hunsað að horfast í augu við svæsið eineltismál eða telji sig hafa unnið í því að bestu getu jafnvel þótt aðstandendur þolanda fullyrði að málið sé enn með öllu óleyst. Það er í svona tilvikum sem fólk fyllist vanmætti og spurt er hvort ekki sé neitt við ráðið?

Hugmynd til lausnar.
Það er með einföldum hætti hægt að búa til kerfi sem færi í gang ef skólinn hefur ekki geta leitt einstakt eineltismál til lykta. Hér er mikilvægt að taka fram að með þessari hugmynd er ekki verið að taka ábyrgðina af skólastjórnendum heldur er hér átt við að teymið komi einungis til hafi ekki tekist að mati þolanda og foreldra hans eða skóla að leysa málið innan skólans.

Til að þessi hugmynd geti orðið að veruleika þurfa stjórnvöld að leggja henni lið.

Hugmyndin er þess: Ráðuneyti og/eða sveitarfélag standi að myndun fagteymis sem samanstendur t.d. af sálfræðingi, lögfræðingi, kennara og námsráðgjafa (3-5).

Þeir sem geta virkjað teymið.

1. Foreldrar/forráðamenn þolanda

2. Skólastjórnendur geta líka óskað eftir aðstoð teymisins t.d. telji þeir sig ekki ráða við að leysa málið hjálparlaust.

Teymið þarf að hafa fullt sjálfstæði í vinnubrögðum og með hvaða hætti það velur að vinna í málinu enda sérhvert mál einstakt og útheimtir mismundandi útfærslur.

Óski foreldri eftir að teymið vinni í eineltismáli síns barns, verður leiðin fyrir fagfólkið að vera greið inn í viðkomandi skóla. Teymið þarf að fá fullan aðgang að öllum þeim sem að málinu koma. Teymisfólkið þarf að fá aðstöðu til að taka viðtöl í viðkomandi skóla og geta treyst á fulla samvinnu við skólastjórnendur og annað starfsfólk skólans.

Ávinningur fyrir skólastjórnendur að geta leitað til teymisins.
Ætla mætti að skólastjórnendum þætti það kostur að geta leitað til utanaðkomandi fagteymis komi upp alvarlegt vandamál í skólum þeirra. Í sumum tilvikum mun það jafnvel nægja að teymið veiti aðeins leiðbeiningar og ráðgjöf um með hvaða hætti skólinn geti tekið á málum en skólinn, eftir sem áður, leysi málið. Stundum þarf ekki annað til en að fá utanaðkomandi aðila til að leggja mat á hlutina og varpa fram nýrri sýn til að lausnir blasi jafnvel við.

Komi sérsveitarteymið að máli hvort heldur foreldrar eða skóli kalli það til er meginmarkmið þess að vinna í málinu með það fyrir augum að leiða það til lausnar hverjar svo sem lausnir þess kunna að verða.  Teymið vinnur með hagsmuni þolandans að leiðarljósi og mikilvægt er að hann og aðstandendur hans upplifi og finni í reynd að málið hafi verð unnið með faglegum hætti.   

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Líst vel á þessa tillögu hjá þér. Einelti eykst líklegast þegar þrengir að hjá fólki og það þarf að vinna enn lengri daga en áður var frá börnunum, eða er orðið atvinnulaust og örvæntingarfullt. Langar að viðra hugmynd sem hef lengi haft og trúi að myndi gera mikið gagn. það er að fá eldri borgara sem vilja vinna aðeins lengur og fá aukakrónur í viðbót við lífeyrir sinn með í svona teymi. þar er viskan sem börnum þykir svo vænt um. það er mín skoðun að börn og eldriborgarar þurfa að fá meiri tíma saman. Hvernig líst fólki á þetta?

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 9.5.2009 kl. 14:16

2 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Innilega sammála þér með að auka tengsl kynslóða.

Varðandi þessa sérsveitarhugmynd, þá mun ég og fleiri sem að þessu starfa kynna hana fyrir heilbrigðisráðherra í vikunni. Einnig hef ég skrifað menntamálaráðherra bréf og óskað eftir því að hún komi í viðtal til mín á ÍNN til að ræða lausnir.  Hef ekki fengið svar um það en vonandi fæ ég viðbrögð á mánudaginn.

Kolbrún Baldursdóttir, 9.5.2009 kl. 14:52

3 identicon

Líst mjög vel á þessa tillögu hjá þér. Mikilvægt að það séu úrræði þegar skólinn sér enga útgönguleið og vaninn hefur verið að þolandinn er látinn skipta um skóla... Það sem má þó ekki gleymast er að hver einasti dagur er þolraun fyrir þolanda ofbeldis/eineltis. Teyminu þarf því að skapa aðstæður til að bregðast fljótt við þegar til þess er leitað.

Annað sem vert er að skoða í umræðu um aðstæður barna í skólum er úrræðaleysi skólanna gagnvart börnum sem eru mjög ofbeldishneigð og skilja eftir sig líkamlega áverka og vekja ótta í brjóstum allra barna sem þau umgangast. Börn eiga rétt á að þeim sé skapað öruggt umhverfi í skólanum og ofbeldi á ekki að líðast. Hjálpa þarf skólunum að annast börn sem eru veik og gera sér ekki grein fyrir hvar mörkin liggja. Skóla án aðgreiningar þarf að fylgja fjármagn og mannafli til að sinna þessum veiku börnum.

Emma Árnadóttir (IP-tala skráð) 11.5.2009 kl. 10:29

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband