Réði Bakkus ríkjum á þínu bernskuheimili?
11.10.2009 | 10:49
Ekkert barn er eins og þess vegna er upplifun þeirra á félagslegu umhverfi sínu einnig mismunandi. Sum börn alkóhólista eru svo heppin að eiga aðra fjölskyldumeðlimi að sem láta sér hag þeirra varða t.d. afa og ömmu, frænda eða frænku. Önnur eru ekki eins heppin.
Barn sem elst upp við alkóhólisma á heimili fer oftar en ekki á mis við stuðning, hvatningu og er jafnvel ekki að fá þá umönnun sem börnum er nauðsynlegt til að þau þrífist og þroskist.
Glími þetta sama barn einnig við vandamál eins og ofvirkni, athyglisbrest eða eru að takast á við einhver afbrigði námserfiðleika sem þarfnast sérstakrar aðhlynningar getur staða þess verið sérlega bágborin og það átt erfitt uppdráttar í lífinu. Veganesti þessara barna er rýrt og oft fátt annað en brotin sjálfsmynd og félagslegt óöryggi.
Þrátt fyrir erfiða bernsku koma margir ótrúlega sterkir út í lífið, með gott innsæi og heilbrigða sýn á lífið og tilveruna. Það eru ótal margar breytur sem þarna hafa áhrif. Persónuleikaeinkenni og persónulegir styrkleikar eins og félagsfærni, léttleiki og góð nærveru eru t.d. þættir sem auðvelda einstaklingnum að takast á við erfiðar aðstæður og mynda tengsl til framtíðar.
Algengustu einkenni margra fullorðinna barna alkóhólista sem líkleg eru til að lita líf þeirra alla vega á fyrri hluta fullorðinsáranna eru t.d. sjálfsgagnrýni, vanmáttartilfinning og ótti við höfnun. Margir hafa tilhneigingu til að misskilja og mistúlka orð og aðstæður. Einnig ber oft á erfiðleikum með að tjá tilfinningar. Öfgafull samskipti og atferli eru ekki óalgeng hjá þessum hópi. Fullkomnunarárátta, tiltektarþörf eða að skapa óreiðu í nærumhverfi og jafnvel í samskiptum þekkja jafnframt margir sem hafa þessa reynslu.
Hafa skal í huga að mörg fullorðin börn alkóhólista þekkja ekki annað en óskipulag og óreiðu. Ákveðinn hópur fullorðinna barna alkóhólista glímir einnig við fíkn af einhverju tagi og ef marka má rannsóknir þá er ekki óalgengt að þessir einstaklingar hvort sem þeir eru sjálfir fíknir eða ekki, velji sér maka sem á við fíknivanda að stríða.
Í nærveru sálar mánudaginn 12. október kl. 21.30 verða þessi mál rædd.
Við höfum valkosti. Engin er, frekar en hann vill, tilneyddur til að vera fangi fortíðardrauga. Það eru til úrræði: fólk, stofnanir og samtök sem hafa það meginhlutverk og markmið að hjálpa og styðja fullorðin börn alkóhólista til að hrista upp í gömlum þreyttum hlutverkum sem mótuðust í kringum alkóhólistann á bernskuheimilinu. Lærum að njóta lífsins til að geta lifað því lifandi meðan það varir.
Gestur þáttarins er Hörður Oddfríðarson, ráðgjafi hjá SÁÁ. Hann mun jafnframt upplýsa um úrræði fyrir fullorðin börn alkóhólista á vegum Samtakanna.
Athugasemdir
takk fyrir góðan pistill
Ólafur Th Skúlason, 12.10.2009 kl. 02:00