Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2008
Skuldir vegna jólanna
8.1.2008 | 13:47
Þá er komið að því að gera upp reikninga sem tengjast útgjöldum vegna jólahalds í tilvikum þeirra sem ekki gátu greitt vörurnar að mestu út í hönd þ.e. áttu fyrir þeim. Næstu vikur og mánuðir fara hjá mörgum í að greiða fyrir jólagjafirnar, jólafötin og jólamatinn og annað það sem sérstaklega tengdist jólahátíðinni.
Það er ekki bara að jólaundirbúningurinn er farinn að hefjast fyrr með tilkomu jólaskreytinga í verslunum og á götum úti jafnvel um miðjan nóvember heldur lýkur þeim einnig seinna sérstaklega hjá þeim sem eiga eftir að greiða upp skuldir sem tengjast þeim.
Hjá þeim er ,,jólunum kannski ekki alveg lokið fyrr en síðustu kreditkortafærslurnar hafa horfið af yfirlitinu.
Sá hópur sem bíður þess að borga þessar skuldir er vísast til fjölbreyttur. Gera má því skóna að ákveðinn hluti séu þeir sem hafa ekki nóg að bíta og brenna vegna lágra launa, veikinda, örorku eða annarra ástæðna en vilja þrátt fyrir bágborinn efnahag gleðja ástvini sína og tryggja þeim gleðilegar minningar um gjafir og góðan mat þessi jól.
Annar hluti þessa hóps hefur einfaldlega eytt um efni fram jafnvel langt umfram greiðslugetu. Þeir kunna að hugsa sem svo að þetta séu nú einu sinni jól og því engan veginn hægt að sætta sig við annað en að kaupa margt og mikið hver svo sem efnahagurinn er. Sumir hafa gert það að venju sinni að greiða fyrir vörur með jöfnum afborgunum þ.e. greiðsludreifingu.
Enn annar hluti þessa hóps er fólk sem sér kannski ekkert fram á að geta greitt þessar skuldir, hvorki nú né síðar. Þeir kunna að hafa misst sjónar af sambandinu milli þess sem þeir eiga eða eru líklegir til að eignast og þess sem þeir skulda. Í þeirra huga er staðan einfaldlega svo slæm að ekki skipti máli þótt hún versni.
Svona er þetta mismunandi hjá fólki í okkar þjóðfélagi.
Peningamál | Breytt s.d. kl. 15:18 | Slóð | Facebook
Forsetakosningar í sumar?
5.1.2008 | 13:09
Hvað vill þjóðin?
Sú ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar að gefa aftur kost á sér til næstu fjögurra ára í embætti forseta Íslands kemur í sjálfu sér fæstum á óvart. Þegar litið er yfir þau ár sem Ólafur hefur gengt embættinu er ekki hægt að segja annað en að hann hafi staðið sig alveg ágætlega. Ólafur er mörgum kostum gæddur og hefur auk þessa komið inn með nýjar áherslur eins og von er vísa þegar nýtt blóð tekur að renna um æðar svo fjölþætts embættis sem forsetaembættið er.
Vigdís Finnbogadóttir sem einnig sat í embætti í 16 ár var einnig mjög ástsæl. Vigdís var ekki pólitískur leiðtogi, hún hafði aldrei verið viðloðandi neinn stjórnmálaflokk né komið beint eða óbeint að pólitísku starfi ef ég man rétt. Þess vegna fannst mörgum það viðbrigði þegar Ólafur náði kjöri í embættið enda þar á ferðinni gamalgróinn stjórnmálamaður, jafnvel nokkuð umdeildur og sannarlega pólitískur í hugsun og verki. Enda þótt Ólafi hafi tekist að aðskilja pólitískar skoðanir sínar frá embættisverkum með ágætum þá hafa einstaka embættisfærslur hans í gegnum árin litast dálítið af þeim. Það er í sjálfu sér alls ekkert óeðlilegt enda útilokað að ætlast til þess að fyrri reynsla hans og störf afmáist út með öllu þótt hann setjist á forsetastól.
Vill þjóðin pólitískan eða ópólitískan forseta?
Um þetta væri gaman að fá einhverja umræðu og að vilji fólksins hvað þetta varðar yrði e.t.v. kannaður.
Það er í raun hið besta mál að Ólafur Ragnar ætlar að gefa kost á sér enn á ný.
Þó verð ég að segja að það væri mjög gaman ef fleiri frambærilegir kandídatar, konur og menn myndu einnig gefa kost á sér. Aðdragandi og allt það sem fylgir forsetakosningum er afar skemmtilegur tími sérstaklega ef valið stendur á milli fleiri en tveggja. Þá spáir þjóðin og spekúlerar hver sé nú frambærilegastur og besti kosturinn fyrir þjóðina. Það að standa frammi fyrir vali er einfaldlega alltaf skemmtilegt.
Nú þegar heyrst hefur að Ástþór Magnússon muni e.t.v. ætla að fara fram gegn Ólafi þá er alveg tilvalið fyrir þá sem ganga með forsetann í maganum að skella sér slaginn. Þjóðin þarf hvort eð er að greiða háar upphæðir vegna mögulegs mótframboðs Ástþórs.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:19 | Slóð | Facebook