Bloggfærslur mánaðarins, október 2017
Hvar mun ég eiga heima um næstu jól?
27.10.2017 | 14:23
Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna var lögfestur á Alþingi 2013. Ríkisstjórnir síðastliðin 10 ár hafa enn sem komið er einungis tekið tillit til hluta af ákvæðum hans. Þegar kemur að því hvernig búið er að börnum í íslensku samfélagi er margt ábótavant.
Hópur barna þvælist um á vergangi með foreldrum sínum vegna húsnæðisskorts og hárrar húsaleigu. Börn eru næm á tilfinningalegt ástand foreldra sinna og skynja vel óöryggi þeirra og kvíða. Viðvarandi óstöðugleiki og óvissa sem fátækar fjölskyldur glíma við kemur illa niður á börnunum. Ekki allar fjölskyldur vita svo dæmi sé tekið hvar þær munu eiga höfði sínu að að halla um næstu jól.
Flokkur fólksins mun leggja allt í sölurnar til að koma með lausnir til skemmri og lengri tíma í húsnæðismálum verði hann kjörinn á Alþingi. Skaðsemi þess að alast upp við aðstæður sem þessar eru iðulega miklar og djúpstæðar og kemur hvað verst niður á börnunum. Áhrif þess að búa við langvarandi óöryggi grefur undan trú og trausti barns á umhverfi sínu.
Það bíður þeirra flokka sem fá brautargengi í alþingiskosningum á laugardaginn og komandi ríkisstjórn ærið verkefni í þessum málum. Margir sem setið hafa á valdastóli hafa ítrekað lofað að ástandið muni batna en raunin er að það hefur versnað.
Flokkur fólksins óskar þess að fá tækifæri til að sýna að hann vill, getur og skal ganga í þessu mál af krafti fái hann tækifæri til.
Höfundur er sálfræðingur og skipar 2. sæti á framboðslista Flokks fólksins í Reykjavíkurkjördæmi norður.
Gerum grein fyrir okkar hagsmunatengslum, ef einhver eru, fyrir kosningar
27.10.2017 | 08:49
Ég var að hlusta á viðtal við Vilhjálm Árnason í morgun sem sagði að það væri bagalegt að frambjóðendur gerðu ekki grein fyrir hagsmunatengslum sínum fyrir kosningar. Þess er ekki krafist fyrr en komið er á þing. Því langar mig að setja hér fordæmi til að styðja þessi orð Vilhjálms og staðfesti hér með að hvorki ég né eiginmaðurinn eigum hluti né sitjum í stjórnum fjármálafyfirtækja. Við skuldum ekki skatta né önnur opinber gjöld og loks er gott að það komi fram að við erum ekki kröfuhafar á neina banka:)
Heimilið mitt er tjald
26.10.2017 | 19:31
Hvað skal segja? Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að lækka skatta á sama tíma og þau segja að engar frekari skerðingar verði. Engin umræða á þeim bæ um fólkið sem talað var við í fréttum sjónvarps kl. 19, fólkið sem býr í tjaldi og húsbíl vegna þess að það ræður ekki við að borga leigu á húsnæðismarkaði. Hvað hefur Miðflokkurinn sagst ætla að gera fyrir þetta fólk? Þau höfðu tækifæri í þrjú ár til að leysa þennan stóra vanda.
Mannréttindabrot gegn börnum fátækra
26.10.2017 | 14:26
Samkvæmt opinberum tölum er talið að foreldrar um níu þúsund barna séu undir lágtekjumörkum sem er með öllu óásættanlegt.
Þegar kemur að sjálfsögðum mannréttindum eins og skólagöngu verður að tryggja að börn sitji við sama borð án tillits til efnahagsstöðu foreldra þeirra. Krafa Flokks fólksins er að grunnskólar landsins verði gjaldfrjálsir með öllu og að börnum verði tryggður gjaldfrjáls og hollur matur í grunnskólum og leikskólum.
Heilbrigðiskerfið svelt
26.10.2017 | 08:31
Niðurskurður undanfarinna ára í heilbrigðisþjónustu hefur lengt biðina eftir heilbrigðisþjónustu. Þetta hefur valdið auknu álagi á heilbrigðisstofnanir og starfsfólk stofnana.
Stefna Flokks fólksins í heilbrigðismálum er að veita þá grunnþjónustu sem mörkuð er í lögum um heilbrigðisstofnanir og að margra mánaða biðlistar í aðgerðir eða greiningar heyri sögunni til. Undanfarin ár hafa verið allt að tveggja ára biðlistar í aðgerðir, á Barna- og unglingageðdeild og Þroska-og hegðunarmiðstöð.
Íslenska heilbrigðisstéttin býr yfir dýrmætum mannauði. Hluti sérfræðinga er reyndar löngu farinn af landi brott vegna versnandi starfskjara og vinnuumhverfis og fundið sér eftirsóknarverðari tækifæri á erlendri grundu þar sem störf þeirra eru betur metin að verðleikum. Það er á ábyrgð stjórnvalda að gera starfsumhverfið í íslenska heilbrigðiskerfinu aðlaðandi og eftirsóknarvert. Í dag vantar nokkur hundruð hjúkrunarfræðinga til starfa. Þar er ekki einungis launamálum og lélegu starfsumhverfi um að kenna. Undirmönnun og álag á heilbrigðisstarfsfólk er líka ástæðan. Flokkur fólksins krefst tafarlausra úrbóta í heilbrigðismálum.
Í síðustu fjárlögum var niðurskurðarhnífnum enn beitt af krafti á heilbrigðiskerfið. Í auknum mæli er verið að leggja grunn að einkareknum fyrirtækjum sem sinna grunnheilbrigðisþjónustu og sérhæfðum lækningum.
Einkavæðing er dýr lausn. Almenningur greiðir komugjald en ríkið borgar afganginn. Einkaaðilar eru milliliðir sem fá arð úr fyrirtækjum sínum. Hægt er að bera saman annars vegar bandaríska kerfið og hins vegar danska kerfið og er hið bandaríska kerfið tvöfalt dýrara.
Flokkur fólksins vill styrkja þessa meginstoð sem almenna heilbrigðiskerfið er. Veita þarf meira fjármagni beint og milliliðalaust í opinberar heilbrigðisstofnanir, heilsugæsluna og á Landspítalann. Þegar fjárframlög aukast er hægt að endurskipuleggja þjónustuna með það að leiðarljósi að fjölga heilbrigðisstarfsmönnum, létta álagið á starfsfólk og bæta starfsumhverfið. Í kjölfarið má ætla að grynnki á biðlistum. Biðlistar til tveggja ára eru með öllu óviðunandi og skýrt merki um langvarandi fjársvelti í þennan málaflokk.
Kolbrún Baldursdóttir er sálfræðingur og skipar 2. sæti á framboðslista Flokks fólksins í Reykjavíkurkjördæmi Norður.
Heilbrigðisstarfsfólki ætlað að hlaupa hraðar, gera meira
25.10.2017 | 18:32
Flokkur fólksins vill styrkja þessa meginstoð sem almenna heilbrigðiskerfið er. Veita þarf meira fjármagni beint og milliliðalaust í opinberar heilbrigðisstofnanir, heilsugæsluna og á Landspítalann. Þegar fjárframlög aukast er hægt að endurskipuleggja þjónustuna með það að leiðarljósi að fjölga heilbrigðisstarfsmönnum, létta álagið á starfsfólk og bæta starfsumhverfið. Í kjölfarið má ætla að grynnki á biðlistum. Biðlistar til tveggja ára eru með öllu óviðunandi og skýrt merki um langvarandi fjársvelti í þennan málaflokk.
Sjá greinina Heilbrigðiskerfið svelt í heild sinni hér
Höfundur er sálfræðingur og skipar 2. sæti á framboðslista Flokks fólksins í Reykjavíkurkjördæmi Norður.
Flokkur fólksins segir NEI við áfengissölu í matvöruverslunum og lögleiðingu kannabisefna
23.10.2017 | 20:15
Flokkur fólksins hefur skýra stefnu þegar kemur að vernd barna og ungmenna. Hann virðir þá vernd sem stjórnarskráin og Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna veitir. Í 3. grein Barnasáttmálans segir að Allar ákvarðanir eða ráðstafanir yfirvalda sem varða börn skulu byggðar á því sem börnum er fyrir bestu. Áfengissala í matvöruverslunum eða lögleiðing kannabisefna er börnum ekki fyrir bestu. Við þessu segir Flokkur fólksins NEI.
Tveir frambjóðendur, báðir sálfræðingar, annar frá Flokki fólksins og hinn frá Framsókn ræða stefnur flokkanna í heilbrigðis- og skólamálum og margt fleira sem varðar velferð barna í íslensku samfélagi. Hér er slóðin:
Fátæk börn á Íslandi
21.10.2017 | 18:54
1. Ég er leiður því ég get sjaldnast fengið það sama og vinir mínir. Ekki til peningur segir mamma þegar ég spyr hvenær ég fæ nýjasta tölvuleikinn. Kannski í afmælis eða jólagjöf segir pabbi stundum þegar ég spyr hann. Það þýðir lítil að tala um þetta. Verst þykir mér að geta ekki boðið vinum mínum heim. Ég vil ekki að þau sjái að ég á ekki herbergi og hvað er þröngt hjá okkur. Svo ef einhver vinur minn kæmi og yrði svangur þá er oft ekki mikið til í ísskápnum handa honum. En verst er að mamma og pabbi hafa ekki efni á að leyfa mér að fara á íshokkínámskeiðið eins og besti vinur minn fær.
2. Við mamma búum í einu litlu herbergi. Mamma og pabbi misstu allt í Hruninu. Við áttum fyrirtæki. Ég veit ekki hvenær við fáum íbúð. Ég hlakka mest til að fá íbúð þar sem ég get farið í sturtu. Við höfum ekkert svoleiðis núna. Ég fer í sturtu í sundi þegar ég þarf að fara í bað. Ég veit það þýðir ekki að kvarta. Það er bara engin peningur til. Ef ég eignaðist pening myndi ég kaupa mér föndurdót. Mér finnst allt í lagi að vera í gömlum fötum úr Rauða Kross búðunum á meðan mér er ekki strítt.
Flokkur fólksins vill útrýma fátækt á Íslandi og krefst þess að ekkert íslenskt barn búi við fátækt. Velmegandi þjóð eins og Ísland þar sem lífskjör og hagsæld eru almennt góð á ekki að líða fátækt.
Greinina má sjá í heild sinni á visir.is.
Fátæk börn á Íslandi
Börn eiga ekki að þurfa að bíða eftir þjónustu í allt að tvö ár
17.10.2017 | 11:42
Flokkur fólksins setur skólastarf í öndvegi og leggur áherslu á sjálfsstyrkingu, mannleg samskipti, virðingu og kærleika. Mæta þarf barninu á einstaklingsgrundvelli svo hægt sé að mæta þörfum þess og gefa því kost á að njóta getu og færni sinnar.
Komi í ljós að barn glími við vanda af einhverju tagi skiptir snemmtæk íhlutun mestu máli til að barn fái viðeigandi þjónustu. Eins og staðan er í dag þarf barn sem glímir við námserfiðleika, félags- eða tilfinningarvanda að bíða í allt að tvö ár eftir að fá frumgreiningu á sínum vanda á vegum sveitarfélaga. Slík greining er forsenda þess að barn fái framhaldsgreiningu hjá Barna- og unglingadeild og Þroska- og hegðunarmiðstöð sem einnig er með margra mánaða biðlista. Biðlistar til talmeinafræðinga eru jafnlangir.
Flokkur fólksins vill ná niður biðlistum og eyða þeim hið fyrsta. Börn eiga ekki að þurfa að bíða eftir þjónustu sem þessari mánuðum saman. Forsenda þess að hægt sé að velja viðeigandi úrræði og finna leið til lausna á vanda eða vanlíðan barns er að fagleg greining liggi fyrir. Á meðan barnið bíður er hætta á að sjálfsmat þess beri hnekki og það fyllist óöryggi með sjálft sig. Aðgengi að þjónustu fagaðila til handa börnum, greiningum og meðferðum í þeim tilfellum sem það er metið nauðsynlegt þarf að verða betra og jafnara á landsvísu.