Bloggfærslur mánaðarins, desember 2020

Áramótagrein oddvita Flokks fólksins

Litið um öxl árið 2020. 
Áramótagrein Flokks fólksins í borgarstjórn birt á Kjarnanum

Vonandi verður bið á því að við þurfum að upplifa annað eins ár og 2020. Hver átti von á að við gengum í gegnum þær aðstæður sem nú ríkja þar sem skæð veira skekur heiminn allan? Ástandið kallar á æðruleysi og samstöðu. Í æðruleysi felst m.a. að sætta sig við það sem ekki fæst breytt. Enginn er beinlínis sökudólgur og enginn er óhultur. Veiran er sameiginlegur óvinur og allir, án tillits til samskipta eða sambanda, vináttu eða ágreinings, þurfa að berjast gegn vánni.

Við höfum öll verið sammála um að ætla ekki að leyfa þessum skæða sjúkdómi að höggva skörð í samfélagið okkar með tilheyrandi sársauka og hörmungum. Öll höfum við einnig verið sammála um að standa vörð um viðkvæma hópa, þá sem hafa verið og eru veikir. Margir hafa misst lífsviðurværi sitt sem getur tekið toll af heilsu fólks. Þeir sem hafa alið önn fyrir sér og sínum eru skyndilega komnir á atvinnuleysisbætur. Hugur okkar í Flokki fólksins er hjá þessu fólki og fjölskyldum þeirra.

 

Þakkir til starfsmanna borgarinnar

Það er mat fulltrúa Flokks fólksins að ásamt því að sinna vel fólkinu, ekki eingöngu á erfiðleikatímum heldur alltaf, ber okkur sem stjórnvald á neyðartímum að stappa í það stálinu, blása í það von og trú. Við sem kjörnir fulltrúar eigum að haga okkur eins og skipstjórar, fara síðust frá borði, ef nota má þá samlíkingu.

Ég er stoltur fulltrúi Flokks fólksins í borgarstjórn. Flokkurinn er vakinn og sofinn yfir þörfum fólks og að það fái þörfum sínum mætt eins og lög gera ráð fyrir. Kjörorð okkar er „Fólkið fyrst.“ Flokkur fólksins berst gegn fátækt og misrétti og við berjumst fyrir bættum kjörum og aðstæðum þeirra verst settu. Mörgum eldri borgurum og öryrkjum líður illa í ríku samfélagi okkar. Engin ætti að þurfa að hafa áhyggjur af grunnþörfum. Hópur hinna lakast settu er oft falinn og um hann ríkir jafnvel þöggun.

Starfsfólk Reykjavíkurborgar hefur staðið sig vel við þessar aðstæður. Flokkur fólksins kann þeim öllum bestu þakkir fyrir. 

 

Fátækt er staðreynd

Fátækt meðal barna á Íslandi er staðreynd og á sér margar birtingarmyndir. Enda þótt við sjáum ekki fólk liggjandi á götunni eða grátandi börn að betla, eru allt of margir á  vergangi með börnin sín. Börn einstæðra foreldra búa oft við sárafátækt. Foreldrar á lægstu launum eru líklegust til að vera hluti af þessum hópi.

Foreldrar sem eru aðþrengdir fjárhagslega þurfa að forgangsraða ef endar ná ekki saman og þá koma grunnþarfir fyrst. Börn fátækra foreldra sitja ekki við sama borð og börn efnameiri foreldra. Í mörgum tilfellum fer stærsti hluti launa láglaunafólks í húsaleigu, allt að 80%. Það er ómögulegt að ná endum saman þegar 20% launa þurfa að duga fyrir öllu öðru. Þessi staða hefur ríkt í Reykjavík í meira en áratug.

Til að tryggja að ekkert fátækt barn sé svangt í skólanum lögðum við til á árinu að öll börn í leik- og grunnskólum borgarinnar fái fríar skólamáltíðir. Sú tillaga var felld. Við höfum líka lagt til að fresta gjaldskrárhækkunum um eitt ár í ljósi ástandsins í þjóðfélaginu eða afnema hagræðingarkröfu á skóla- og frístundasviði og velferðarsviði árið 2021. Til viðbótar höfum við lagt til hækkun á úthlutun fjárhæðar fyrir íslenskukennslu barna af erlendum uppruna sem eru verst sett í íslensku, afnám tekjutengingar húsnæðisstuðnings, fjölgun stöðugilda sálfræðinga í skólum og að vannýttar fjárhæðir Frístundakortsins vegna COVID færist yfir á næsta ár, 2021. Allt eru þetta tillögur sem miða að því að létta íbúum borgarinnar róðurinn í kreppuástandi. Þetta eru eingöngu nokkur dæmi um tillögur okkar og allar hafa þær verið felldar af meirihlutanum.

Langir biðlistar rótgróið mein í Reykjavík

Hinn langi biðlisti barna til fagaðila skólaþjónustu er ólíðandi. Samkvæmt nýjum vef sem sýna lykiltölur eru um 800 börn á bið eftir fagfólki skólaþjónustu, um helmingur eftir fyrstu þjónustu. Langflest börn bíða eftir að komast til sálfræðings. Til að komast til talmeinafræðinga bíða yfir 200 börn. Mikill munur er á biðlistum eftir hverfum. Það kæmi ekki á óvart að foreldrar leiti sér að húsnæði þar sem staðan er góð í skóla hverfisins hvað varðar aðgengi að skólasálfræðingi og öðru fagfólki.  Velferðaryfirvöld segja að málum sé forgangsraðað eftir alvarleika. Það er ekki óeðlilegt en hafa verður í huga að mál getur orðið að bráðamáli í einni svipan sérstaklega ef barn hefur beðið lengi eftir aðstoð. Það sárvantar fleiri fagaðila til starfa til að sinna því dýrmætasta sem við eigum, börnunum. Tillaga Flokks fólksins í borgarstjórn um fjölgun stöðugilda fagaðila hefur ítrekað verið felld. Bíða á eftir frumvarpi félagsmálaráðherra sem á að samþætta þjónustuna. Kosningar eru á næsta ári og því fátt fast í hendi þegar kemur að metnaðarfullu frumvarpi ráðherra. Eiga börnin bara að bíða þangað til?

 

Sykurhúðaður sýndarveruleiki

Á árinu 2020 hefur fulltrúi Flokks fólksins lagt fram vel yfir 100 mál í borgarstjórn. Þetta eru á bilinu 60-70 tillögur og 50-60 fyrirspurnir. Eingöngu þrjár tillögur voru samþykktar sem allar sneru að viðspyrnu aðgerðum vegna faraldursins. Um 25 tillögum var vísað frá eða felldar en önnur mál sitja einhvers staðar föst í kerfinu, vísað til fagráða eða stjórna. Meirihlutinn hefur hins vegar tekið til sín nokkrar tillögur og gert að sínum í skjóli þess að breyta þurfi kannski einni setningu, eða með þeim rökum að það átti hvort eð er að gera þetta.

Í þessu kristallast sú staðreynd að síðustu meirihlutar í borginni og sá sem nú er, forgangsraða þjónustu við fólkið ekki ofarlega. Frekar hefur verið lögð áhersla á skreytingar eða verkefni sem vel mega bíða betri tíma. Smáar sem stórar framkvæmdir og alls kyns sérstök verkefni: viti, mathöll, torg, braggi, þrengingar gatna, stíga, flest sem kemur ekki beint lífsviðurværi fólks við.

Ennþá er t.d. bragginn óuppgerður, ekki aðeins í orðsins fyllstu merkingu, heldur sem fjármálaklúður. Minnisvarði um hvernig kaupin gengu á eyrinni: skortur á eftirliti, vanáætlanir, verk gerð án útboðs, án samninga, jafnvel án heimildar. Viðreisn, VG og Píratar hafa staðið vörð um þetta verklag og varið það. Öll bera þau ábyrgðina.

 

Þykjustusamráð við borgarana

Fá hugtök hafa sennilega verið orðuð eins oft á þessu kjörtímabili og hugtakið samráð. Hugtakið samráð hefur komið upp í málum eins og Laugavegslokunum, um Skerjafjörð, skólamál í norðanverðum Grafarvogi, svokallaðan Sjómannareit, aðgengismál fatlaðra og margt fleira. Meirihlutinn í borgarstjórn hefur sínar eigin skilgreiningar á hvað samráð er og ekkert í þeirri skilgreiningu segir til um hvort bjóða eigi borgarbúum að ákvörðunarborðinu.

Þegar kallað er eftir samráði milli meirihluta og minnihluta eru algeng viðbrögð meirihlutans að segja: „Þetta stendur í meirihlutasáttmálanum, þetta er okkar stefna og allir vissu hver hún var þegar við vorum kosin.“ Við svona aðstæður skapar meirihlutinn sýndarlýðræði. Þau þykjast hlusta á alla borgarbúa en gera það ekki. Ef samráð á að vera í alvöru þurfa fulltrúar notenda að vera í öllum samráðshópum, á öllum STIGUM, líka á byrjunarstigi velferðarsviðsins sem og annarra sviða og aðkoma þeirra að vera virk á öllum stigum frá byrjun til enda. Ég vil minna hér á kjörorð fatlaðra í þessu sambandi: „Ekkert um okkur án okkar!“ Þessi hópur veit hvað hann er að tala um í þessum efnum.

 

Farleiðir og umhverfismál

Almenningssamgöngur hafa heldur ekki staðið fötluðu fólki til boða. Loksins á nú að bjóða út fyrsta áfanga framkvæmda við endurbætur á umhverfi strætisvagnabiðstöðva. Staðan er slæm á meira en 500 stöðum, bæði aðgengi og yfirborð. Samkvæmt kynningu sem flutt var í skipulags- og samgönguráði, er aðgengi eiginlega hvergi gott og yfirborð aðeins gott á 11 stöðum af 556 stöðum.

Aðgengi að strætisvagnabiðstöðvum hefur auðvitað komið verst niður á fötluðu fólki. Strætó, sem almenningssamgöngur, hefur ekki verið raunhæfur kostur fyrir fatlað fólk og þess vegna eru almenningssamgöngur lítið notaðar af hreyfihömluðu, sjónskertu og blindu fólki. Ástandið er það slæmt að reikna má með löngum tíma að gera ástandið viðunandi, hvað þá fullnægjandi.

Meirihlutanum verður tíðrætt um „græna planið“ svokallaða sem á að sýna hvað þau eru umhverfisvæn. Hvað með lagningu Arnarnesvegar? Hversu græn getur sú framkvæmd verið? Hraðbraut ofan í Vetrargarð. Hraðbraut sem klýfur Vatnsendahvarf að endilöngu mun draga úr framtíðarmöguleikum Vetrargarðsins og svæðisins í heild. Náttúrulegar fjörur eru að verða fágætar í Reykjavík. Landfylling í tengslum við uppbyggingu íbúðahverfis t.d. í Skerjafirði munu skerða náttúrulegar fjörur í Reykjavík, Náttúrufræðistofnun hefur mælst til að fjörulífi verði ekki raskað. Forsendur fyrir þéttingu byggðar, og þeirri hagkvæmni sem því getur fylgt, eiga ekki að byggjast á því að raska lífríkustu svæðum Reykjavíkur. Sumar fjörur einkennast af leirum, aðrar af þaragróðri. Þetta eru mikilvæg svæði fyrir smádýr og fugla.  

 

Lífið í minnihlutanum

Hvernig er svo að vera í minnihluta? Sem kjörinn fulltrúi í minnihluta hefur maður ekki mikil áhrif. Að leggja fram bókun er eiginlega eini farvegurinn til að opinbera skoðun á máli eða afgreiðslu mála og með bókun er hægt að koma upplýsingum til fólksins. Við getum lagt fram fyrirspurnir og við fáum svör. Bókanir Flokks fólksins skipta  hundruðum og má sjá þær allar á heimasíðunni www.kolbrunbaldurs.is

Tillaga frá minnihluta hefur aldrei (kannski einu sinni) verið samþykkt á sjálfum fundum borgarstjórnar. Margoft hefur aðeins munað einu atkvæði sem þessi tæpi meirihluti hefur umfram minnihlutann. Allmörg tilvik eru þar sem meirihlutanum líkar tillaga minnihlutans og gerir hana þá að sinni, stundum samstundis eða síðar. En þá er þess vel gætt að aftengja hana uppruna sínum.

 

Lokaorð

Flokkur fólksins vill að öllu fólki, líði vel í borginni. Við höfum efni á því. Fólk þarf að finna til öryggis, að stjórnvöld láti það sig varða og að það þurfi ekki að kvíða morgundeginum. Að það hafi fæði, klæði og húsnæði, og komist milli staða án vandræða til að sinna störfum sínum og öðrum skyldum. Ef þessir þættir eru ekki í lagi skiptir litlu  máli hvernig umhverfið er, hvort þú hafir bragga, pálma eða Laugaveginn í breyttri göngugötumynd. Kjörorð okkar í Flokki fólksins er Fólkið fyrst!

Ég óska borgarbúum og landsmönnum öllum friðar yfir hátíðarnar og gleðilegs árs.

Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins í borgarstjórn.
Birt á vefsíðu Kjarnans 30. desember 2020

logo mynd jpg


 


Hundaeftirlitsgjald ólögmætt?

Skatt má ekki leggja á nema með lögum en svo segir í 40. gr. stjórnarskrárinnar. Öðru gegnir um þjónustugjöld. Stjórnvöldum er almennt heimilt að krefjast greiðslu fyrir veitta þjónustu. Ef stjórnvöld á annað borð innheimta gjöld langt umfram kostnaðarþörf er ekki um annað að ræða en skattheimtu í dulbúningi. Hundaeftirlitsgjald í Reykjavík er skýrt dæmi um slíkt. Reykvíkingar þurfa að greiða árlega 19.850 kr. vilji þeir eiga hund. Sú gjaldtaka er sögð nauðsynleg til að standa undir kostnaði við hundaeftirlit í borginni. Eigendur skráðra hunda greiða auk þess skráningargjald þegar hundurinn er fyrst skráður og þegar hundurinn deyr er ekki hægt að afskrá hann nema framvísa vottorði frá dýralækni sem einnig þarf að greiða fyrir.

Því vekur það athygli hvernig störfum hundaeftirlitsins er lýst í nýrri skýrslu stýrihóps um þjónustu við gæludýr. Í skýrslunni segir „Meginverkefni hundaeftirlitsins í dag felst í að taka við ábendingum um óskráða hunda sem og að fá óskráða hunda á skrá og sinna afskráningum á móti.“ Hvers vegna skyldi svo mikil áhersla vera lögð á skráningu hunda? Það gefur augaleið að það er til að auka tekjurnar. Um 2.000 hundar eru á skrá í Reykjavík en samkvæmt skýrslu stýrihópsins má gera ráð fyrir því að hundar séu á a.m.k. 9.000 heimilum í borginni. Hundaeftirlitið getur því aukið tekjur ef fleiri hundar eru skráðir.

Það fylgir því vinna að hafa eftirlit með hundum og fanga lausa hunda. Sú starfsemi er þó langt frá því að vera svo umsvifamikil að innheimta þurfi jafn hátt gjald og nú er gert. Samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðiseftirliti Reykjavíkurborgar hefur hundaeftirlitið tekið í vörslu 19 hunda síðastliðin tvö ár, minna en einn hund á mánuði.

Samkvæmt vinnuskýrslum hundaeftirlitsmanna það sem af er ári kemur fram að hundaeftirlitsmenn hafi farið í 89 eftirlitsferðir vegna kvartana. Tveir hundaeftirlitsmenn eru í fullu starfi og samsvarar það u.þ.b. einni eftirlitsferð í viku fyrir hvorn hundaeftirlitsmann. Það er því auðséð að starf hundaeftirlitsmanna er ekki fullt starf fyrir eina manneskju, hvað þá fyrir tvær.

Rangt er  að innheimta eins hátt gjald og raun ber vitni. Gjaldtakan dregur augljóslega úr skráningu hunda og gerir þar með eftirlitsstörf erfiðari. Þá er gjaldið nýtt í aðra hluti en þá þjónustu sem það á að standa undir. Í skýrslu stýrihópsins er tekið fram að gjöldin „séu hugsuð til þess að þjónusta samfélagið í heild og þá ekki síður til þess að gæta hagsmuna þeirra sem ekki eru dýraeigendur.“  Því er ekki um þjónustugjald að ræða heldur ólögmæta skattheimtu.

Meirihluti borgarstjórnar felldi tillögu mína um að leggja niður skráningar- og hundaeftirlitsgjaldið. Því mun borgin áfram innheimta skatt úr hendi þeirra hundaeigenda sem eru heiðarlegir og skrá sína hunda. Mikilvægt er að það verði skoðað fyrir alvöru hvort hundaeftirlitsgjaldið sé lögmætt.

 

Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins
Greinin er birt í Fréttablaðinu 17.12. 2020


Styrkja björgunarsveitir án þess að kaupa flugelda

Ég lagði þessa tillögu fram í borgarráði í morgun:

Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að borgarráð samþykki að hvetji borgarbúa til að styrkja starf björgunarsveita án þess að kaupa flugelda.
Mikið svifryk hefur mælst í loftinu um áramót af völdum flugelda. Mengun frá flugeldum er vandamál. Flugeldar eru aldrei umhverfisvænir eða skaðlausir. Svifryk frá flugeldum  er talið varasamt og heilsuspillandi vegna efna sem eru í því. Bent hefur verið á af ýmsum sérfræðingum að loftmengun af völdum flugelda hefur neikvæð áhrif á þá sem fyrir henni verða, sérstaklega viðkvæma hópa. Svifryk veldur ekki einungis óþægindum heldur skerðir einnig lífsgæði margra. Björgunarsveitir hafa treyst á sölu flugelda við tekjuöflun, en styrkja má þær þótt flugeldar séu ekki keyptir. Tvöfaldur gróði felst í því, styrkja starfsemi björgunarsveita sem sinna mikilvægu björgunarstarfi og á sama tíma taka ákvörðun um að menga ekki andrúmsloftið.

Vísað til umhverfis- og heilbrigðisráðs 


Börn eiga núna að bíða eftir Farsældarfrumvarpinu

Í leik- og grunnskóla án aðgreiningar eru fyrirheitin sú að öll börn skuli fá þörfum sínum fullnægt. Þetta er flókið í framkvæmd. Slíkt kallar á að ráðnir séu fagmenntaðir kennarar, þroskaþjálfar, iðjuþjálfar, sérkennarar, sálfræðingar, hegðunarfræðingar og talmeinafræðingar.

 

Í grunnskólum Reykjavíkur eru um 30% barna í sérkennslu. Sum börn eru í sérkennslu fáeina klukkutíma í viku en önnur eru marga tíma í viku, jafnvel alla grunnskólagönguna. Börnum fer fjölgandi í sérkennslu, sum vegna fjölþætts námsvanda, önnur vegna þess að þau þurfa stuðning í lestri eða stærðfræði.

 

PISA-könnunin 2018 leiddi í ljós að um 34% 14–15 ára drengja gætu ekki lesið sér til gagns og 19% stúlkna. Samkvæmt Lesskimun 2019 lesa aðeins 61% reykvískra barna sér til gagns eftir 2. bekk. Ástandið virðist fara versnandi og nemendum fjölgar í sérkennslu.

Sérkennarar undir miklu álagi

Ég hef lagt fram ýmsar fyrirspurnir um sérkennsluna þann tíma sem ég hef verið borgarfulltrúi. Af svörum að dæma er það staðfest að skortur er á heildarsýn og mælanlegum markmiðum.

Svo virðist sem það skorti heildstæða stefnu. Það hefur ekki verið gerð úttekt eða könnun á sérkennslumálum í Reykjavík í a.m.k. tuttugu ár. Sérkennarar eru of fáir og starfa undir miklu álagi. Börnum með hegðunarvanda fjölgar, kannski einmitt vegna þess að þörfum þeirra er ekki svarað. Fái barn ekki náms- og félagslegum þörfum sínum sinnt upplifir það kvíða og aðra vanlíðan. Birtingarmynd sálrænnar vanlíðunar er stundum neikvæð hegðun og hegðunarvandi.

Fyrsta skrefið til umbóta er að öðlast betri yfirsýn um stöðu mála og þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir. Ég hef lagt til í borgarstjórn að innri endurskoðun geri úttekt á þessum málaflokki. Í borgarstjórn var tillögu um úttekt af innri endurskoðanda felld en tillögunni hins vegar vísað í hóp á vegum borgarinnar sem skoðar þessi mál.


Öll þekkjum við hinn langa biðlista barna sem þarfnast aðstoðar fagfólks skóla, sálfræðinga og talmeinafræðinga. Þau skipta hundruðum. Á annað hundrað barna bíða eftir að komast til talmeinafræðings. Fjöldi tilvísana til skólaþjónustu er um 2.164, hluti þeirra hefur fengið einhverja þjónustu en hinn helmingurinn enga.

 

Það er brýnt að stytta þennan biðlista. Það verður eingöngu gert með bættara skipulagi og ráðningu fleiri skólasálfræðinga. Skólasálfræðingar sinna fastmótuðu hlutverki, bæði á sviði forvarna og greiningarvinnu. Sú greining sem þeir annast, frumgreining á vitsmunaþroska og ADHD skimun, er skilyrði þess að barn fái frekari þjónustu t.d. á stofnunum ríkisins. Langur biðlisti í nauðsynlega greiningu og skimun í grunnskóla tefur fyrir að barn, sem þess þarf, fái ítarlegri greiningu á Barna- og unglingageðdeild eða Greiningarstöð ríkisins.

 

Tillögur felldar

Flokkur fólksins í borgarstjórn hefur lagt fram tillögur til úrbóta í þessum málum. Í borgarstjórn mun ég aftur við seinni umræðu á fjárhagsáætlun og fimm ára áætlun, sem fram fer 15. desember, leggja til að bætt verði við þremur stöðugildum skólasálfræðinga. Hækka þarf fjárframlög til velferðarsviðs um 40,5 milljónir króna. Tillaga þessi var lögð fram fyrir ári og var þá felld.

Flokkur fólksins hefur á þessu ári lagt fram fleiri tillögur sem grynnka á biðlistum, s.s. um að samstarf skólaþjónustu og Þroska- og hegðunarstöðvar verði formgert m.a. til að stytta biðlista. Vísir er nú þegar að samstarfi sem þessu en ekkert er formlegt eða samræmt milli skóla. Einnig lagði ég til að skóla- og frístundasvið hæfi formlegt samstarf við heilsugæslu um að fá upplýsingar um niðurstöður úr fjögurra ára skimun barna. Öll börn fara í skoðun á heilsugæslu um fjögurra ára aldur þar sem fyrir þau eru lagðir þroskamatslistar. Þá kemur í ljós hvaða börn eru líkleg til að eiga í vanda og hvort þörf er á sértækri aðstoð strax.


Á meðan borgin bíður með hendur í skauti þá neyðast foreldrar til að leita með börn sín sem eiga við vanda að etja til sjálfstætt starfandi fagfólks. Þetta þarf fólk að borga fyrir úr eigin vasa. Því hafa ekki allir efni á. Núverandi ástand er vítahringur sem bitnar verst á sjálfum börnunum. Búið er að samþykkja á Alþingi að niðurgreiða sálfræðiþjónustu en ekki er vitað hvenær framkvæmd verður að veruleika. Heilsugæsla sinnir ekki greiningum og á heilsugæslu eru víða einnig biðlistar.

Aðgerðir strax


Brýnt er að gripið verði til aðgerða strax. Það sem ég tel að hægt sé að gera er að:

- Innri endurskoðun geri úttekt á sérkennslumálum og komi með tillögur

- Fjölga sálfræðingum og ráðast til atlögu að biðlistum

- Formgera samstarf borgar við heilsugæslu og Þroska- og hegðunarstöð til að undirbúa markvissari snemmtæka íhlutun og einfalda aðgengi barns að barnalækni


Nú hefur félagsmálaráðherra tilkynnt að lagt verður fram svokallað farsældarfrumvarp. Áform eru hjá ráðherra um samþættingu þjónustu í þágu barna. Það er vel en þetta kemur ekki í framkvæmd fyrr en í fyrsta lagi 2022. Kosningar eru á næsta ári og því fátt fast í hendi þegar kemur að metnaðarfullu frumvarpi ráðherra. Eiga börnin bara að bíða þangað til?

Birt í Morgunblaðinu 8.12 2020


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband