Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2021
Röng forgangsröðun
7.1.2021 | 14:15
Ég varð hissa þegar meirihlutinn í borgarráði vísaði frá tillögu um að endurskoða áherslur sína í ljósi þess að stór hluti útsvars fer í eitthvað allt annað en beina þjónustu við borgarbúa. Ég tel að það hefði ekki skaðað að hún fengi skoðun þar sem hundruð barna bíða eftir þjónustu fagfólks á vegum borgarinnar.
Tillagan:
Flokkur fólksins í borgarstjórn leggur til að núverandi meirihluti endurskoði áherslur sína í ljósi þess að stór hluti útsvars fer í eitthvað allt annað en beina þjónustu við borgarbúa. Útsvar Reykjavíkurborgar er eins hátt og lög leyfa. Engu að síður er þjónusta við borgarbúa víða ábótavant. Við búum í samfélagi þar sem samneysla er grunnurinn. Við borgum útsvar til að halda uppi grunnþjónustu, lögbundinni þjónustu og annarri sem við teljum nauðsynlega til að allir geti lifað mannsæmandi lífi. Skóla- og velferðarþjónusta er stærsti þátturinn í þjónustu borgarinnar enda útilokað að lifa áhyggjulausu lífi ef grunnþættir velferðar og menntunar eru ekki til staðar.
Jafnvel þó útsvar sé í hæstu hæðum þá eru skuldir borgarinnar það líka. Á sama tíma bíða um 800 börn eftir þjónustu fagfólks skóla, helmingur þeirra eftir fyrstu þjónustu. Viðhaldi skólabygginga er ábótavant. Umræða um heilsuspillandi skemmdir í Fossvogsskóla er reglubundin og verður æ áleitnari.
Fram að Covid mátti víða sjá bruðl og sóun á almannafé í algeran óþarfa t.d. ferðir erlendis, borgarstjóri, hans fylgdarsveinn og sægur embættismanna og kostaði þetta tugi milljóna króna. Háar upphæðir fóru í alls konar önnur verkefni sem margir hafa kallað gæluverkefni. Á meðan bíða hundruð barna eftir nauðsynlegri þjónustu sem borgin á að veita!
Greinargerð
Nú er seinni hluti þessa kjörtímabils hafinn og margir hafa áhyggjur af því hvernig meirihlutinn mun skilja við að kjörtímabilinu loknu. Sumar ákvarðanir meirihlutans hafa verið teknar á ófullnægjandi grundvelli en eru óafturkræfar og því verður ekki hægt að laga mistökin þegar næsta borgarstjórn tekur við. Skipulagsmál hafa sætt mikilli gagnrýni af borgarbúum. Sjá má t.d. Hafnartorg, sem þykir kalt og óaðlaðandi. Þarna samþykkti meirihlutinn skipulag sem felur í sér að á torginu myndast vindgöng sem fæla í burtu vegfarendur. Þá var hellulögn á torginu gölluð en það tók marga mánuði að bæta úr ástandinu. Lántaka er lántaka. Ávallt kemur að skuldadögum. Jafnvel þótt lán séu hagstæð nú er ekki víst að svo verði áfram. Þessi og síðasti meirihluti hefur ekki gætt hófs og ekki sýnt fjármálum borgarinnar tilhlýðandi virðingu. Það mátti sjá skýrt í skýrslu innri endurskoðunar um Braggann í Nauthólsvík og endurgerð hans.
Þessi meirihluti hefði einnig geta gert mikið meira til að flýta fyrir orkuskiptum, hvatt íbúa og stutt við bakið á þeim að skipta yfir í vistvæn farartæki.
Tillögur Flokks fólksins í þeim efnum hafa mætt daufum eyrum. Vel mætti skoða að þeir sem aka raf-, metan og tvískiptum bílum greiði ekki stöðugjald í bílastæðahúsum í miðbænum. Bæði yrði það hvatning að skipta yfir í vistvænt farartæki og einnig að reyna að laða landann til að koma miðsvæðis og þar með styðja við þær verslanir sem þar eru eftir og veitingastaði sem eru að reyna að þrauka Covid. Meiri hluti borgarstjórnar þarf að víkka áherslur sínar þegar kemur að grænum lausnum og taka tillit til ólíkra sjónarmiða.
Tillögur Flokks fólksins í þeim efnum hafa mætt daufum eyrum. Vel mætti skoða að þeir sem aka raf-, metan og tvískiptum bílum greiði ekki stöðugjald í bílastæðahúsum í miðbænum. Bæði yrði það hvatning að skipta yfir í vistvænt farartæki og einnig að reyna að laða landann til að koma miðsvæðis og þar með styðja við þær verslanir sem þar eru eftir og veitingastaði sem eru að reyna að þrauka Covid. Meiri hluti borgarstjórnar þarf að víkka áherslur sínar þegar kemur að grænum lausnum og taka tillit til ólíkra sjónarmiða.
Skipulagsstefna meirihlutans hefur einkennst af því að þrengja og þétta íbúabyggð. Afleiðingarnar eru víða slæmar. Ákveðinn hluti borgarinnar t.d. niður við Nýlendugötu og Skúlagötu er dimmur og óaðlaðandi. Útsýni úr blokkum þar nær aðeins inn í stofu eða herbergi hjá næsta nágranna. Smáar íbúðir eru auk þess á þessu svæði svo dýrar að aðeins þeir betur settu fjárhagslega hafa efni á þeim. Hvar eru allar hagkvæmu íbúðirnar sem átti að byggja? Þétting byggðar er ekkert annað en tilraun til að afla peninga á sem skemmstum tíma. Enda þótt þétta megi víða byggð þarf að gæta hófs í því sem öðru og í því verður einnig að vera einhver skynsemi. Það verður áhugavert að sjá hverjar afleiðingarnar verða af því að byggja blokkir ofan í hver aðra á sem minnstu flatarmáli. Við vitum vel hvaða áhrif það hafði á félagsmál í Breiðholti þegar blokkir voru byggðar ofan í hver aðra til þess að þjappa sem flestu fólki á sama stað. Svo þröng byggð dregur úr samfélagsmyndun og eykur félagslega einangrun eins og gerst hefur í einu hverfi í Breiðholti. Þá eykst einnig álag á samfélagslega innviði, allt frá skólum niður á veitukerfi.