Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2021
Flest er sjötugum fært
27.8.2021 | 10:55
Ég lagði fram þessa tillögu í borgarráði í gær.
Tillaga Flokks fólksins að Reykjavíkurborg bjóði eldra fólki, um og yfir sjötugt, sem hefur áhuga og löngun til að starfa, störf á leikskólum borgarinnar.
Í kjarasamningum segir að yfirmanni sé heimilt að endurráða mann/konu, sem náð hefur 70 ára aldri í annað eða sama starf á tímavinnukaupi, allt að hálfu starfi, án þess að það hafi áhrif á rétt hans til töku lífeyris. Heimildin er til staðar. því er ekkert að vanbúnaði. Hér er tilvalið tækifæri til nýta dýrmæta reynslu eldra fólks sem komið er um og yfir sjötugt og langar að nýta krafta sína og reynslu áfram á vinnumarkaði.
Það sárvantar fólk til starfa víða m.a. í leikskólum
Enn og aftur er ekki hægt að taka börn inn í leikskóla vegna manneklu. Þetta veldur foreldrum ómældu álagi. Svör eru óljós og loðin. Börn sem áttu að byrja í september geta kannski byrjað í október. Hér er um að ræða yngstu börnin og þau sem fædd eru síðast á árinu mæta algerum afgangi. Foreldrar eru í örvæntingu sinni að leita annarra leiða. Þau reyna að koma börnum sínum að, jafnvel í öðrum hverfum. Það skýtur skökku við að borgarstjórn sem vill draga úr akstri hafi skapað ástand þar sem foreldrar þurfa gjarnan að keyra þvert yfir borgina á háannatímum til að koma börnum sínum til og frá leikskóla.
Í þessum tilfellum er búið að kveðja dagmæðurnar. Sumarfríi er lokið og foreldrar byrjaðir að vinna. Ekki allir foreldrar eiga þess kost að vinna heima. Auk þess verður lítið úr vinnu heima þegar verið er að annast tæplega tveggja ára barn á sama tíma. Fulltrúi Flokks fólksins hefur gagnrýnt þetta harðlega og verið spurður af skóla- og frístundasviði hvaða lausnir hann telji vera í boði. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til í þessu sambandi að Reykjavíkurborg bjóði fólki sjötugu og eldra sem hefur áhuga á að vera lengur á vinnumarkaði og t.d. starfa í leikskólum störf eða starfshlutfall í stað þess að skikka það til að setjast í helgan stein.
Greinargerð
Sá mannekluvandi sem hér er reifaður á leikskólum borgarinnar er fyrst og fremst manngerður. Skóla- og frístundasvið borgarinnar hefur ekki tekist að leysa vandann. Það þarf að gera störfin aðlaðandi og eftirsóknarverð. Launin eru lág og álag stundum mikið. Ef ekki stendur til að hækka launin eða draga úr álagi þá þarf að reyna eitthvað annað til að fjölga starfsfólki. Ef hugsað er út fyrir boxið má sjá lausnir. Sú sem hér er lögð til er að ráða fólk um og yfir sjötugt til starfa á leikskólum borgarinnar. Vissulega mætti gera margt annað til að laða fólk til starfa í leikskólum, t.d. bjóða starfsfólki upp á aukafrí eða aðra umbun. Það verður að grípa til slíkra aðgerða þegar keyra á láglaunastefnu eins á þá sem borgin keyrir.
Skortur á leikskólaplássi er aukaálag á foreldra ofan á allt annað, svo sem COVID. Það gengur ekki að senda foreldrum bréf og segja því miður,það er bara ekki hægt að taka barnið ykkar inn í leikskóla eins og til stóð. Það segir í einu slíku bréfi frá leikskóla að það vanti ,,hæft starfsfólk, að auglýsingarnar skili litlu og ekki sé mikið um umsóknir sem henta. Margt eldra fólk er fullt af orku og áhuga en kerfið hefur sent þau heim af vinnumarkaði vegna þess eins að þau eru orðin sjötug.
Vil bara láta á þetta reyna með skólamöppurnar og Múlalund
26.8.2021 | 16:02
Fram til þessa hefur Reykjavíkurborg hunsað Múlalund vinnustofu SÍBS varðandi kaup á margskonar skólavörum ólíkt öðrum sveitarfélögum. Í þrjú ár hefur Múlalundur, sem er vinnustofa fyrir fólk með skerta starfsorku, reynt að fá Reykjavíkurborg að samningaborðinu. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að þessu verði breytt hið snarasta og að Reykjavíkurborg hefji viðskipti við Múlalund enda ekki stætt á öðru.Um 80 prósent starfsmanna Múlalundar er með lögheimili í Reykjavík og það eru löng bið eftir plássi þar. Þótt vörur séu ívið dýrari þá er það dropi í hafið. Á móti skapar Reykjavíkurborg atvinnu fyrir hóp sem er í brothættri stöðu. Starfsemin í Múlalundi er félagslega- og tilfinningalega mikilvæg fyrir starfsfólkið. Borgin vill ekki versla við Múlalund en vill að Múlalundir ráði fleiri starfsmenn til að framleiða vörur sem Reykjavíkurborg vill ekki kaupa. Þetta er óskiljanlegt. Fulltrúi Flokks fólksins lagði fram fyrirspurn í júlí af hverju ekki er verslað við Múlalund. Í svari verst fjármálasviðið með því að bera við rammasamningi. Reykjavíkurborg hefur fulla heimild til þess að víkja frá rammasamningum þegar um er að ræða viðskipti við verndaða vinnustaði eins og Múlalund.
Klúðrið hjá Sorpu má ekki tala um
22.8.2021 | 11:10
Er að hlusta á viðtal í Sprengisandi við stjórnarformann Sorpu og verð að segja að maður fyllist depurð því ekki var hlustað á varnarorð m.a. frá Flokki fólksins í borgarstjórn sem finna má í bókunum frá 2019. Það eru eilífar afsakanir á þessu Sorpuklúðri, ekki síst GAJU klúðri. Spurningar vöknuðu fyrst vegna GAJU sorp- og jarðgerðarstöðina 2016. GAJA átti að taka við öllum úrgangi af höfuðborgarsvæðinu og framleiða hágæða moltu og metangas. Ekki var farið í útboð og var það kært. Aikantæknin var valin frá Danmörku. Innri endurskoðun fór að skoða þetta mál og skilaði svartri skýrslu. Fyrrverandi framkvæmdarstjóri var sagður hafa gefið villandi upplýsingar og fjölþætt eftirlitskerfi brást. Stundin lýsir GAJU ævintýrinu sem töfrabragði. GAJA átti að geta tekið blandað sorp og gert úr því hágæða moltu. Blása átti plast frá og veiða málma úr sorpinu með segli. Mörg varnarorði voru uppi en stjórn Sorpu hlustaði ekki.
Niðurstaðan er plastmenguð molta með blýi, þungamálmum og gleri, mengun langt yfir viðmiði. Sorpa hefur reynt að þagga og hindra aðgengi að gögnum. Sorpa hefur neitað að afhenda sýni. Gögn voru loks afhent sem sýnir að 1.7% af moltu var plast. Eingöngu var mælt plast sem var 2 mm eða stærra, sem sást með augunum. Viðmiðið er 0.5%. Framkvæmdin fór 6.1 milljarð fram úr áætlun. Moltan er nánast ónothæf og ekki hefur tekist eða er vilji til að selja metangas sem er þess í stað brennt á báli. Strætó er ekki einu sinni að kaupa strætó. Tveir vagnar eru á döfinni. Strætó ætlar að veðja á rafmagnið. GAJU ævintýrið var bara einhver draumsýn sem kostað hefur borgarbúa ómælt fjármagn. Fjármagnið sem farið hefur í þetta er ævintýralegt. Neyðarlán þurfti að taka og einnig þurfti að lengja í láni og taka yfirdráttarlán svo fátt sé nefnt.
Borgarbúinn hefur ekki verið í fyrsta sæti eins og sjá má af biðlistum
20.8.2021 | 16:56
Þjónustumiðstöðvar hafa virkað sem hindrun t.d. milli grunnskólabarna og sálfræðinga skólaþjónustu. Þjónustan þarf að vera aðgengilegri fyrir börnin og foreldra þeirra og starfsfólk skóla á einnig að hafa greiðan aðgang að fagfólki skólans. Borgarbúinn hefur ekki verið í fyrsta sæti eins og sjá má af biðlistum en á þeim fjölgar með hverjum degi. Íslensk ungmenni sýna meiri aukin þunglyndiseinkenni og segja andlega líðan sína verri í kórónuveirufaraldrinum en áður. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri íslenskri rannsókn sálfræðideildar HR og Rannsóknar og greiningar.
Kannski er ekkert af þessu skrýtið ef horft er til þess að fólk hefur ekki verið sett í fyrsta sæti. Skaðinn er skeður hjá mörgum, því miður því ástandið hefur varað allt of lengi. Bernskan verður ekki tafin frekar en nokkuð annað tímaskeið og fyrir sum börn verður skaðinn aldrei bættur. Það þarf að gera grundvallarbreytingar á skipulagi velferðarsviðs. En það kostar meira fjármagn, samþættingu þjónustu, samhæfingar, samstarfs við aðrar stofnanir, einföldun ferla, minni yfirbyggingu, skýr markmið og árangursmælingar.