10 efstu frambjóðendur Flokks fólksins í Reykjavík
21.4.2018 | 13:15
Þetta eru 10 efstu frambjóðendur Flokks fólksins í komandi borgarstjórnarkosningum:
1. Kolbrún Baldursdóttir | Sálfræðingur
2. Karl Berndsen | Hárgreiðslumeistari
3. Ásgerður Jóna Flosadóttir | Viðskiptafræðingur og formaður Fjölskylduhjálpar Íslands
4. Þór Elís Pálsson | Kvikmyndaleikstjóri
5. Halldóra Gestsdóttir | Hönnuður
6. Rúnar Sigurjónsson | Vélvirki
7. Hjördís Björg Kristinsdóttir | Sjúkraliði
8. Þráinn Óskarsson | Framhaldsskólakennari
9. Friðrik Ólafsson | Verkfræðingur
10.Birgir Jóhann Birgisson | Tónlistarmaður
Einangraðir og vannærðir eldri borgarar
19.4.2018 | 18:57
Rúmliggjandi aldraður einstæðingur með eina maltdós og lýsisflösku í ísskápnum var einn þeirra þrettán í sjálfstæðri búsetu sem Berglind Soffía Blöndal rannsakaði í meistararitgerð sinni. Hún heimsótti þessa þrettán og voru þeir allir vannærðir samkvæmt evrópskum stöðlum. M.ö.ö hluti aldraðra í Reykjavík sveltur eitt heima.
Flokkur fólksins býður nú fram í fyrsta sinn í sveitarstjórnarkosningum í vor. Flokkur fólksins vill að skipaður verði hagsmunafulltrúi fyrir aldraða til að tryggja að enginn lifi við þær aðstæður sem lýst er hér að framan. Hlutverk hagsmunafulltrúans verði að byggja upp öflugt og heildstætt kerfi sem heldur utan um aðhlynningu og allan aðbúnað aldraðra. Hagsmunafulltrúinn skal sjá til þess að húsnæði, heimahjúkrun, dægradvöl og heimaþjónusta fyrir aldraða verði fullnægjandi. Hann skal tryggja að unnið sé samkvæmt viðurkenndum manneldismarkmiðum og hollustu í fæðuvali á hjúkrunarheimilum, þjónustumiðstöðvum og heimsendum máltíðum. Hlutverk hans skal og vera að að koma í veg fyrir að aldraðir einangrist einir heima matarlausir og hjálparvana.
Slagorð Flokks fólksins er FÓLKIÐ FYRST. Þess vegna mun Flokkur fólksins í öllu tilliti setja fólkið í fyrsta sæti. Annað skal bíða á meðan við tryggjum fæði, klæði og húsnæði fyrir alla.
Eins og staðan er nú, dvelja um 100 eldri borgarar á Landspítala háskólasjúkrahúsi þrátt fyrir að vera í þeirri aðstöðu að geta útskrifast og farið heim. Þetta er dapurt svo ekki sé meira sagt, að nú skuli Dagur B.Eggertsson og borgarstjórn hans hafa setið með stjórnartaumana í Ráðhúsinu í átta ár án þess að leysa vandann. Það gengur það langt í hrókeringum með líf aldraðra sem þarfnast hjálpar að fyrir kemur að þeir séu fluttir hreppaflutningum í aðra landshluta vegna þess að það er ekkert pláss fyrir þá þar sem þeir vilja vera. Fluttir burt jafnvel gegn vilja sínum, í burtu frá fjölskyldu sinni og öllu félagslegu öryggi.
Það þarf stórátak í málefnum aldraðra, átak sem krefst samstarfs ríkis og bæjar. Skortur á hjúkrunar- og dvalarheimilum er þó fyrst og fremst á ábyrgð núverandi borgarstjórnar sem hefur vanrækt málefni aldraðra árum saman.
Flokkur fólksins vill gera eldri borgurum kleift að lifa góðu og áhyggjulausu lífi hvort heldur er í heimahúsi eða á hjúkrunarheimili. Þjónusta fyrir aldraða þarf að vera samstillt og samþætt til að hægt sé að koma til móts við óskir og þarfir hvers og eins. Hagsmunafulltrúa aldraðra er ætlað að vinna að þessu markmiði.
Flokkur fólksins vill búa öldruðum áhyggjulaust ævikvöld
Kolbrún Baldursdóttir skipar 1. sæti Flokks fólksins í Reykjavík
Börn eru látin bíða og bíða
18.4.2018 | 13:25
Fimm sálfræðingar eiga að sinna sautján leik- og grunnskólum í Breiðholti. Svona er ástandið í þessum málum víða í Reykjavík. Það skal því engan furða að biðin eftir sálfræðiþjónustu skóla sé löng enda hefur þessi málaflokkur verið sveltur árum saman.
Börn með vitsmunafrávik þurfa að bíða mánuðum og jafnvel árum saman eftir greiningu.
Snemmtæk íhlutun skiptir máli. Því fyrr sem vandinn er greindur því fyrr er hægt að koma barninu til hjálpar með viðeigandi úrræðum og einstaklingsnámsskrá eftir atvikum.
Flokkur fólksins vill útrýma biðlistum þegar börn eru annars vegar og styrkja Þjónustumiðstöðvar svo hægt verði að auka sálfræðiaðstoð við börn í leik- og grunnskólum. Einn sálfræðingur getur í mesta lagi sinnt tveimur skólum ef vel á að vera. Börn og foreldrar þurfa að hafa greiðan aðgang að skólasálfræðingi og sérhver leik- og grunnskóli ætti að hafa aðgang að talmeinafræðingi.
Efnaminni foreldrar hafa ekki ráð á að fara með barn sitt til sálfræðings út í bæ. Dæmi eru um að efnaminni foreldrar taki lán til að geta greitt fyrir sálfræðiþjónustu, viðtöl, ráðgjöf og/eða greiningu á einkareknum stofum þar sem bið eftir þjónustu hjá sálfræðideildum Þjónustumiðstöðva telur stundum í mánuðum.
Flokkur fólksins vill efla geðrækt í skólum og styrkja skólana til að aðstoða börn sem eru einmana, einangruð og vinalaus með markvissum aðgerðum s.s. sjálfsstyrkingarnámskeiðum.
Börn eiga ekki að þurfa að bíða þarfnist þau sérfræðiaðstoðar af einhverjum toga. Flokkur fólksins hefur hagsmuni barnsins í fyrirrúmi í einu og öllu og í samræmi við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem hefur verið löggiltur hér. Í þriðju grein hans er kveðið á um að allar ákvarðanir eða ráðstafanir yfirvalda sem varða börn skulu byggðar á því sem börnum er fyrir bestu. Setja á lög og reglur sem tryggja börnum þá vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Aðildarríki eiga að sjá til þess að stofnanir og þjónusta sem annast börn uppfylli reglur sem stjórnvöld hafa sett, sérstaklega um öryggi, heilsuvernd, fjölda og hæfni starfsmanna og yfirumsjón.
Ég var þetta barn
15.4.2018 | 08:36
Ég var eitt af þessum börnum sem var á sífelldum flækingi. Þegar ég fæddist bjó ég á Víðimel þar sem við, fimm manna fjölskylda, bjuggum inn á ömmu í 40 fermetra þakíbúð. Næst lá leiðin í nýbyggingu í Sólheima. Um þetta leiti var pabbi farinn að drekka mikið og misstum við þetta húsnæði. Þá var flutt á Hjarðarhagann í rúmt ár og enn versnaði pabba. Fyrir dyrum lá skilnaður og fluttum við systkinin með mömmu þá á Barónsstíg. Þar bjuggum við í rúmt á þegar aftur var flutt í þakíbúð á Víðimel. Þá kom loks vel þeginn stöðugleiki í nokkur ár þar til flutt var enn á ný og að þessu sinni á Nesveg.
Fyrir barn að flytja svona oft er erfitt hvað varðar ótal margt en ekki hvað síst að eignast vini og viðhalda vinskap.
Þetta er verið að bjóða mörgum börnum upp á í dag. Endalaus þvælingur vegna húsnæðisskorts. Sumir geta hvorki leigt hvað þá fjárfest í húsnæði.
Allir þurfa þak yfir höfuðið. Það fylgir því mikil vanlíðan að hafa ekki öruggan samastað enda um eina af okkar aðal grunnþörfum. Allt frá hruni hefur staða þeirra verst settu einungis farið niður á við og er nú algerlega óviðunandi í Reykjavík. Börnin í þessum aðstæðum hafa mörg hver átt dapran tíma og sum gengið í allt að fimm grunnskóla. Tíðir flutningar hafa áhrif á sjálfsmynd barna. Þau hafa varla aðlagast og myndað tengsl þegar þau þurfa að flytja aftur. Það setur að mörgum börnum kvíða og áhyggjur þegar þau hugsa hvort þeim takist að eignast vini á enn einum nýjum stað.
Margt ungt fjölskyldufólk getur kannski stólað á foreldra sína og ættingja en það verður að horfast í augu við þá staðreynd að ekki allir foreldrar eiga kost á því að hjálpa börnunum sínum í húsnæðismálum. Sumir eiga bara nóg með sig. Í öðrum tilfellum eru foreldrar ekki til staðar, búa e.t.v. annars staðar á landinu eða erlendis.
Barn sem lifir við þessar aðstæður situr ekki við sama borð og börn sem eiga foreldra í betri efnahagsstöðu. Það ríkir því sannarlega mikill ójöfnuður eins og staðan er í Reykjavík í dag sem ætti að geta séð vel um alla sína þegna. Ójöfnuður sem þessi kemur eins og alltaf verst niður á þeim sem minnst mega sín. Börnin þurfa að geta fundið til öryggis í tilveru sinni ef þau eiga að geta vaxið og dafnað áhyggjulaus.
Flokkur Fólksins sem nú bíður fram í fyrsta sinn í Reykjavík leggur höfuðáherslu á fólkið sem byggir borgina okkar. Hér hefur ríkt lóðarskortur árum saman. Nánast engin venjuleg fjölskylda eða einstaklingur geta keypt dýrar eignir.
Flokkur fólksins vill stuðla að samvinnu ríkis, borgar og lífeyrissjóðanna svo þeim sem tekjulægri eru sé gert kleift að koma sér upp öruggu heimili. Félagslegt húsnæði er nauðsynlegt. Í lok árs 2017 voru 954 fjölskyldur á biðlista eftir félagslegu húsnæði.
Byggja þarf íbúðir af hagkvæmni þannig að borgarar hefðu bolmagn á að kaupa eða leigja. Hægt er að setja kvaðir á byggingalóðir og byggja húsnæði ætlað efnaminna fólki t.d. ungu fólki. Þegar meira framboð er þá verður meiri stöðugleiki og leiguverð lækkar. Í Reykjavík í dag er ekki gert ráð fyrir að venjuleg fjölskylda búi þar.
Húsnæðisöryggi er grundvöllur að hagsæld og hamingju. Við skulum ekki líða frekari vanrækslu í þessum málum!
Fólkið fyrst!
Vinátta ekki í boði borgarstjórnar
13.4.2018 | 21:30
Fátt skiptir meira fyrir börnin okkar en að þau læri góða samskiptahætti. Flokkur fólksins vill að einskis sé freistað til að kenna börnunum um leið og þroski og aldur leyfir umburðarlyndi fyrir margbreytileikanum og að bera virðingu fyrir hverjum og einum.
Flokkur fólksins vill að Vináttuverkefni Barnaheilla á Íslandi verði umsvifalaust tekið inn í alla leik- og grunnskóla borgarinnar. Fram til þessa hefur Dagur B. sagt nei við Vináttu. Margsinnis hefur verið rætt við hann um verkefnið en hann hefur tregast til.
Vinátta er forvarnaverkefni gegn einelti, danskt verkefni að uppruna og nefnist Fri for mobberi á dönsku. Það er gefið út með góðfúslegu leyfi og í samstarfi við systursamtök Barnaheilla; Red barnet Save the Children og Mary Fonden í Danmörku.
Vinátta hefur fengið einstaklega góðar viðtökur á Íslandi og breiðst hratt út. Verkefnið hefur náð mikilli útbreiðslu en í lok árs höfðu leikskólum sem vinna með Vináttu fjölgað um helming á einu ári. Eru þeir nú rúmlega 100 talsins eða 40% allra leikskóla á landinu. Þýðing og aðlögun grunnskólaefnis fyrir 1.3. bekk hófst á fyrri hluta ársins og á haustdögum fór það í tilraunakennslu í 15 grunnskólum. Byrjað var að undirbúa þýðingu og aðlögun á ungbarnaefni fyrir 03ja ára í lok árs. Það er óhætt að segja að Vinátta hefur hlotið gríðarlega góðar viðtökur en áætla má að fjöldi þeirra sem hafa sótt námskeið hjá Barnaheillum um notkun verkefnisins sé að nálgast um 1000 starfsmenn leikskóla og grunnskóla.
Vinátta fékk hvatningarverðlaun Dags gegn einelti árið 2017.
Reykjavík er eitt af fáu sveitarfélögum sem styrkir ekki Vináttu. Kostnaður við að taka verkefnið inni í skóla sem er að meðaltali 100.000 sem hlýtur að teljast lítilræði ef árangur, hamingja og gleði sem það skilar sér til barnanna, foreldra og starfsfólks skóla er skoðað.
Mælikvarðinn á ágæti verkefnisins Vináttu er sú mikla útbreiðsla sem það hefur hlotið á stuttum tíma. Umsagnir frá starfsfólki Vináttu-leikskólanna hafa allar verið á sama veg, jákvæðar með eindæmum.
Flokkur fólksins vill útrýma einelti, í það minnsta gera allt sem hugsast getur til að það megi vera hverfandi. Með þátttöku sem flestra leikskóla og grunnskóla í Vináttu eru lögð lóð á þær vogaskálar.
Hvert er vandamálið hjá borgarstjórn Reykjavíkur þegar kemur að Vináttuverkefni Barnaheilla? Skipta börnin í Reykjavík ekki meira máli en svo að ekki sé hægt að styrkja verkefni sem einhugur er um að skili frábærum árangri?
Helmingur næringar- og heilsufullyrðinga uppfyllti ekki kröfur
20.3.2018 | 12:17
Verða þessar vörur sem eru með rangar innihaldslýsingar ekki fjarlægðar úr verslunum? Eða á fólk bara að forðast þær? Hvernig yrði tekið á svona í nágrannalöndum okkar? Svo virðist sem Matvælastofnun sé sífellt kærð ef hún fer fram á að vara sé fjarlægð eða gerð upptæk. Hvernig á stofnun að sinna eftirliti ef hún á það á hættu að þurfa borga himinháar bætur fyrir að benda á vankanta og misfellur samanber nautabökumálið í Borgarnesi.
Rangar innihaldslýsingar, sjá frétt á vef Matvælastofnunnar
Ef barn er leitt þarf lausn að finnast
7.3.2018 | 13:14
Reynsla mín að vinna með börnum og unglingum nær aftur til ársins 1992. Börn koma ekki til sálfræðings að ástæðulausu. Það er eitthvað sem hrjáir þau. Verkefni sálfræðings er að finna út með barninu og foreldrunum hvað það er sem orsakar vanlíðan þess og hvað hugsanlega viðheldur henni. Með því að skoða gaumgæfilega helstu svið barnsins, heimilið, skólann og námið, vinahópinn, tómstundir og tölvunotkun kemur iðulega í ljós við hvaða aðstæður það er kvíðið eða líður illa og á hvaða sviði í lífinu því líður vel og er sátt. Í langflestum tilfellum hefur komið í ljós að rekja má vanlíðan barna sem leita til sálfræðings til einhverra megin þátta í umhverfinu ýmist þátta tengdum fjölskyldunni, námi/námsgetu eða samskiptum í vinahópnum. Það er hlutverk sálfræðingsins að benda foreldrum og barni á hvaða leiðir eru færar til lausna. Leiðir til lausna fela í sér breytingar eða aðlaganir. Stundum er nauðsynlegt að grípa til nánari greiningar á umhverfisþáttum eða á styrkleikum og veikleikum barnsins til að hægt sé að aðlaga umhverfið betur að þörfum þess. Í langflestum tilfellum finnast viðeigandi lausnir fyrir barnið sem bætir líðan þess og/eða aðstæður. Þess vegna er starf sálfræðings svo gefandi og skemmtilegt.
Börn sem eru kvíðin og óörugg að eðlisfari
Börn sem eru ofurvarkár og kvíðin að eðlisfari upplifa sig oft óörugg jafnvel í aðstæðum þar sem þau eru sátt í. Þetta eru börnin sem eiga það til að ofhugsa hlutina og eru hrædd innra með sér að eitthvað slæmt geti gerst. Þetta eru börnin sem hlusta á fréttir og fyllast kvíða þegar þau heyra af stríðsátökum og náttúruhamförum út í heimi því þau óttast að þetta geti gerst í nærumhverfi þeirra. Sum börn sem glíma kvíða, hræðslu og óöryggi efast einnig oft um eigin getu og hafa jafnvel neikvæðar hugsanir um sjálfa sig.
Sjálfsstyrking og lausnarmiðuð hugsun
Stór hluti af vinnu sálfræðings með börnum er að efla og styrkja sjálfsmat þeirra og hjálpa þeim að endurmeta og leiðrétta neikvæðar hugsanir og ranghugmyndir. Við val sálfræðiaðferðar er tekið mið af vandanum, aldri og þroska. Stuðst er við aðferðir hugrænnar nálgunar (HAM) eftir atvikum eftir því sem barnið hefur þroska og aldur til. Áhersla sálfræðings er að kenna börnum að hugsa í lausnum því enginn fer í gegnum lífið án þess að mæta mótbyr. Vandamál, hvort sem þau eru stór eða smá, verða á vegi allra einhvern tíma á lífsleiðinni. Innleiða þarf hjá börnum trú og vissu um að enginn vandi sé svo stór að ekki séu á honum lausn og að engin slæm líðan eða ástand vari að eilífu. Börn þurfa að vita að þau hafi alltaf eitthvað val. Ávallt er áréttað mikilvægi þess að þau tali um mál sín við foreldra sína eða einhvern fullorðinn sem þau treysta.
Börn og tölvunotkun/samfélagsmiðlar
Fræðsla, þar með talin forvarnarfræðsla, er stór hluti meðferðarvinnu sálfræðings með börnum og foreldrum þeirra. Dæmi um mikilvæga forvarnarfræðslu er að kenna börnum hvernig þau skuli umgangast netið. Foreldrum eru einnig veittar leiðbeiningar og ráðgjöf til að mynda hvaða reglur er nauðsynlegt að hafa á heimilinu og hvernig setja skuli börnum mörk um hegðun og samskipti. Langflestir unglingar verja umtalsverðum tíma á samfélagsmiðlum og þá oft í gegnum farsíma. Draga má þá ályktun að óhóflegur tími á samfélagsmiðlum, í tölvuleikjum eða við áhorf sjónvarpsþátta komi niður á svefntíma þeirra og auki kvíða. Börn sem verja mörgum tímum á sólarhring fyrir framan skjá eru verr í stakk búin til að mæta verkefnum og kröfum daglegs lífs. Þegar foreldrar nefna of mikla tölvunotkun barna sinna sem hluta af vandamáli þeirra eru foreldrar og börn ekki endilega sammála um hvort um vandamál sé að ræða. Fyrir barn sem er vant mikilli skjánotkun er erfitt að hugsa til þess að til standi að draga úr henni sérstaklega ef barnið hefur um langan tíma haft óheftan og jafnvel eftirlitslausan aðgang að tölvu/neti. Í öðrum málum eru foreldrar ekki meðvitaðir um mikla netnotkun barna sinna og hversu miklum tíma þau verja til að mynda á samfélagsmiðlum.
Best er ef foreldrar og börn geta komið sér saman um sem flesta hluti og þar á meðal skjátíma. Ef ekki næst samkomulag eru það foreldrarnir sem ráða. Svo virðist sem algengt sé að börn/unglingar hafi óheftan og stundum eftirlitslausan aðgang að skjá og neti. Í þessum tilfellum eru foreldrar hvattir til að setja viðeigandi mörk með því að koma á reglu um tölvunotkun. Einnig eru foreldrar ávallt hvattir til að fylgjast vel með hvaða síður á netinu unglingar þeirra eru að skoða og kenna þeim jafnframt að umgangast netið og samfélagsmiðla af varúð. Almennt séð eru foreldrar þakklátir fyrir ábendingar og ráðgjöf af þessu tagi. Margir upplifa nefnilega vanmátt og óöryggi í þessum efnum og eru ekki vissir um hvort þeir geti sett börnum sínum mörk og þá hvernig mörk best sé að setja. Foreldrar sem eru óöruggir með þessi mál eru hvattir til að leita sér ráðgjafar hjá fagaðilum.
Greinin var fyrst birt á visi. is 5. mars
www.kolbrunbaldurs.is
Tvö mál á viku að meðaltali
22.2.2018 | 15:37
Ég fæ að meðaltali tvö mál á viku sem tengjast kvíða og slakri skólasókn vegna of mikillar skjánotkunar (tölvur/sími/sjónvarp). Þetta er vaxandi vandi og foreldrar oft vanmátta ef um stálpaða unglinga er að ræða.
Sýnt hefur verið fram á að auknar líkur eru á kvíða, streitu og pirringi og jafnvel þunglyndi hjá börnum í tengslum við tölvunotkun þeirra og er þá átt við tölvuleiki, samfélagsmiðla og myndbönd.
Hóflegur tími í tölvu, sem dæmi einn tími á dag, hefur lítil sem engin áhrif á líðan barns samkvæmt rannsóknarniðurstöðum. Um leið og tíminn lengist aukast líkur á vanlíðan. Barn sem eyðir fimm tímum á dag í tölvu er í mikilli áhættu með að þróa með sér kvíðatengd vandamál.
Umskurður drengja, enn eitt sjónarhornið
19.2.2018 | 16:44
Úr fréttum 18. febrúar 2018: Mikil umræða hefur orðið um umskurð drengja hér á landi eftir að Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokks, lagði fram ásamt 8 öðrum þingmönnum frumvarp um að banna slíkt hér á landi. Þrettán ár eru síðan bann við umskurði kvenna var lögfest.
Kolbrún Baldursdóttir sálfræðingur segir að sem betur fer hafi hún ekki fengið mörg mál, sem snúa að þessu, inn á borð til sín. Einungis nokkur slík mál hafi komið upp á 25 ára ferli hennar. Þar hafi þó greinilega mikill kvíði skapast hjá drengjum við það eitt að stunda íþróttir eða tómstundir. Það er svona tilefni til að einangra sig frá öllu því sem gæti þurft að reyna á þetta, að þurfa að bera sig, að einhver myndi sjá þetta og frétta af þessu og það þarf ekki nema einn að sjá til þess að sagan fari af stað. Og íslensk börn þekkja þetta ekki, þau hafa aldrei fengið neina sérstaka fræðslu hvað umskurð drengja hvað það þýðir og hvernig aðgerð og svo framvegis. segir Kolbrún.
Hún nefnir dæmi um að drengir hafi meðal annars orðið fyrir aðkasti vegna þessa. Þegar drengirnir eldist eigi þeir einnig erfitt með atriði sem tengjast ástarsamböndum.
Þetta er erfitt fyrir sálfræðinga sem fá svona mál eða mér fannst það, því við erum að reyna að milda og græða og finna lausnir og í þessum tilfellum þá var þarna um að ræða óafturkræfanlegan hlut. það var ekki hægt beinlínis að leysa þetta þannig þetta var spurning um að hjálpa til við aðlögun en maður upplifði vanmátt, ég man eftir því. segir Kolbrún.
Frumvarpið hefur vakið mikla athygli erlendis og hefur verið gagnrýnt harðlega af trúarleiðtogum í Evrópu. Þá hafa einnig erlendir fjölmiðlar fjallað mikið um málið.
Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, er ein þeirra sem hefur lagst gegn frumvarpinu. Hún segist fagna umræðunni en efast um að frumvarpið sé farsæll farvegur upplýstrar umræðu. Hún segir að hætta sé á að gyðingdómur og íslam verði að glæpsamlegum trúarbrögðum. Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi, hvetur hins vegar Alþingi til þess að samþykkja frumvarp um að banna umskurð drengja.
Gegnsæi, einlægni og heiðarleiki er það sem skiptir mestu í úrvinnslu eineltismála
15.2.2018 | 15:26
Það er sérlega viðkvæmt fyrir fyrirtæki og stofnanir ef í ljós kemur að einelti hafi átt sér stað á vinnustaðnum. Margir vinnustaðir hafa lagt sig í líma við að fyrirbyggja slíka hegðun með ýmsum ráðum. Margir vinnustaðir eru sjálfbærir í þessum efnum komi fram kvörtun en aðrir leita til fagaðila.
Til mín leita í auknum mæli einstaklingar sem telja að mál þeirra hafi hvorki fengið faglega né réttláta meðferð og velta fyrir sér næstu skrefum. Mál þeirra eru ýmist í vinnslu eða lokið á vinnustaðnum sjálfum eða hjá sjálfstætt starfandi aðilum sem keyptir hafa verið til verksins.
Eftirfarandi atriði snúa einungis að hugsanlegum vanköntum eða mistökum í vinnslu eineltismála en hafa ekkert að gera með hvort niðurstaða málanna hafi orðið tilkynnanda í vil eða ekki. Á því er vissulega allur gangur.
Vankantar í vinnsluferlinu
Skilgreiningar of þröngar:
Reynt að gera lítið úr kvörtuninni strax í byrjun með því að segja að kvörtun falli ekki undir hefðbundna skilgreiningu um einelti.
Dæmi um þetta er að einstaklingi hefur verið sagt að ef hlé hefur orðið á hinni meintu óæskilegu hegðun í einhvern tíma þá sé ekki um einelti að ræða jafnvel þótt hegðunin hafi viðgengist í mörg ár.
Annað dæmi er að ef birtingarmynd hinnar meintu óæskilegu hegðunar er ekki alltaf sú sama þá sé ekki um að ræða ítrekaða hegðun og þar af leiðandi ekki um einelti að ræða.
Tilkynnandi gerður ótrúverðugur strax í byrjun:
Margir tilkynnendur hafa upplifað strax í byrjun, áður en nokkuð er farið að kanna málið, að niðurstaða málsins liggi þá þegar fyrir og að búið sé að kaupa niðurstöðuna. Reynt er að gera kvörtun þeirra ótrúverðuga og fljótlega dregnar ályktanir um að tilkynnandinn sé hluti vandans, jafnvel að öllu leyti. Tilkynnendur hafa fengið spurningar á borð við hvort þeir sjálfir eigi ekki einhvern þátt í þessu vandamáli, hvort þetta sé ekki bara samskiptavandi?
Meintur gerandi tekur stjórnina:
Algengt er að varnir meints geranda felist í því að koma með mótkvörtun þar sem hann dregur fram ýmsa neikvæða þætti um tilkynnandann. Tilgangurinn er að gera hinn síðarnefnda ótrúverðugan í augum þeirra sem hafa með vinnslu málsins að gera. Afleiðingarnar eru iðulega þær að þeir sem eru að vinna í málinu missa sjónar af upprunalegu tilkynningunni en festa sig þess í stað í mótkvörtun meints geranda. Málið tekur U-beygju og tilkynnendum finnst eins og meintur gerandi hafi tekið stjórnina í málinu. Tilkynnendur lýsa því að svo virðist sem kvörtun þeirra sé ekki lengur aðalmálið. Hún sé orðin lituð af viðbrögðum meints geranda og litið sé á vandann sem allt eins vanda tilkynnandans.
Upplýsingum haldið leyndum:
Í þessum málum segjast tilkynnendur oft fá litlar upplýsingar um hvernig vinnsluferlinu er háttað. Þeir fullyrða að þeim sé haldið utan við vinnsluferlið og að þeir fái oft ekkert að vita hvað aðrir sem rætt er við í tengslum við málið hafa sagt. Sumir tilkynnendur segja að þegar þeir fá niðurstöðuna sé hún jafnvel samhengislaus, slitrótt og inn í hana blandist stundum þættir sem hafa engin tengsl við upphaflegu kvörtunina. Upplýsingum um hvernig lokaniðurstaðan var fengin er í mörgum tilfellum alls ekki ljós. Þegar tilkynnendur óska eftir að sjá öll gögn og það sem hefur verið skrifað og skráð í málinu um þá og kvörtun þeirra, er jafnvel sagt að um sé að ræða trúnaðarmál.
Faglegt og réttlátt vinnsluferli í eineltismálum
Enginn ákveður upplifun annarra:
Mælikvarði á hvar mörkin í samskiptum liggja er huglægt mat einstaklings. Enginn ákveður upplifun annarra. Hvernig svo sem mál kann að líta út í byrjun skal vinna út frá einni grunnhugmyndafræði og hún er að taka allar kvartanir til skoðunar með opnum hug og af hlutleysi, kanna réttmæti þeirra og forðast að draga ótímabærar ályktanir.
Tilkynningin er mál tilkynnandans:
Því fylgir ábyrgð að kvarta yfir öðrum. Áður en hafist er handa þarf að ræða vandlega við tilkynnanda um kvörtun hans og honum gerð grein fyrir að hún verði lesin upp fyrir meintan geranda. Allir þeir sem kvartað er yfir eiga rétt á að vita nákvæmlega hvað þeir eiga að hafa gert. Ákveða skal, í samráði við tilkynnanda, hverja aðra hann vill láta ræða við í tengslum við málið, hvernig vinnsluhraðanum skuli háttað og um fleira sem kann að skipta sköpum í málinu.
Sanngjarnar leikreglur og jafnræði:
Allir þeir sem rætt er við þurfa að fá að vita það fyrirfram að um er að ræða opið og gegnsætt vinnsluferli og munu aðilar máls, tilkynnandi og sá sem kvartað er yfir, sjá skráningar viðtala sem höfð eru við aðra í tengslum við málið. Aðilar sem rætt er við eiga að fá einnig tækifæri til að lesa yfir það sem hafa á eftir þeim í endanlegri álitsgerð um málið og þeim gefin kostur á að breyta eða lagfæra framburð sinn.
Meintur gerandi á líka rétt:
Það er ábyrgð meints geranda að mæta til fundar til að ræða um kvörtun á hendur honum. Honum skal ávallt vera boðið að hafa með sér annan aðila til stuðnings og ráðgjafar. Meintur gerandi er upplýstur um efni kvörtunarinnar og honum gefinn kostur á að bregðast við, andmæla, útskýra mál sitt eða leiðrétta allt eftir eðli og atvikum málsins. Eins og tilkynnanda býðst honum að nefna aðila sem hann óskar eftir að rætt verði við í tengslum við málið.
Álitsgerð með rökstuddri niðurstöðu:
Þegar rætt hefur verið við alla hlutaðeigandi aðila er lagt mat á heildarmynd málsins og aðilar þess upplýstir um niðurstöðuna í sitthvoru lagi með munnlegum hætti þar sem þeim er boðið að bregðast við henni. Aðilar málsins, tilkynnandi og sá (þeir) sem kvartað var yfir fá eintak af álitsgerðinni sem og yfirstjórn vinnustaðarins. Aðrir sem rætt var við fá tækifæri til að kynna sér álitsgerðina hjá þeim sem unnu málið eða hjá yfirstjórn vinnustaðarins. Ekki ætti að vera um frekari dreifingu að ræða af hálfu vinnustaðarins.
Lokaorð
Í þessari grein hefur verið farið yfir algenga vankanta sem stundum eru gerðir í vinnslu kvörtunarmála eins og eineltismála. Einnig hefur verið rakinn í stuttu máli vinnsluferill sem er síður líklegri til að skilja málið eftir óleyst. Málin eru að jafnaði tilfinningalega erfið og átakanleg og því afar mikilvægt að ekki bætist við reiði og sársauki sem tengist vinnsluferlinu. Fyrir þann sem hefur e.t.v. lengi verið að mana sig upp í að tilkynna óæskilega hegðun sem hann telur sig hafa orðið fyrir á vinnustaðnum og fyrir þann sem kvartað er yfir skiptir gegnsæi, einlægni og heiðarleiki í vinnubrögðum mestu. Mikilvægt er að gæta jafnræði. Báðir aðilar eiga rétt á að sjá öll gögn í málinu og röksemdafærslu fyrir niðurstöðu málsins. Liggi vinnsluferlið ekki alveg ljóst fyrir finnst þeim sem telur á sér brotið málinu engan vegin lokið og leitar oft leiða til að fá það endurupptekið eða vísa því til dómstóla.
Annað efni þessu tengt er að finna á www.kolbrunbaldurs.is
Kolbrún Baldursdóttir, sálfræðingur
Greinin var fyrst birt á visi.is 14. febrúar 2018
Brýnt að styrkja stoðir barna að segja frá kynferðisofbeldi
25.1.2018 | 20:29
Það er brýnt að leita allra leiða til að kenna börnum að verjast kynferðisofbeldi. Fræðsla af þeim toga breytir því ekki að það er fullorðna fólkið sem ber ábyrgð á börnunum.
Í samfélaginu leynast víða hættur, sumar hverjar fyrirsjáanlegar sem auðvelt er að fræða börnin um hvernig beri að varast en aðrar leyndari og þar af leiðandi hættulegri. Kynferðisafbrotamenn fyrirfinnast í okkar samfélagi eins og öðrum. Staðreyndin er sú að ekki er hægt að fría samfélagið af þessum brotamönnum fremur en öðrum.
Kynferðisofbeldi getur átt sér stað inn á heimilinu, á heimili ættingja, á heimili vina barnanna og á stöðum þar sem fólk kemur saman til tómstunda og skemmtana. Sundlaugar eru t.d. staðir sem sérstaklega eru taldir laða að gerendur kynferðisofbeldis. Í þessum aðstæðum er auðvelt að fela sig bak við nekt og nafnleysi. Einnig getur verið erfitt að átta sig á tengslum fullorðins einstaklings sem gefur sig að barni í sundlaug. Um gæti verið að ræða skyldmenni sem er með barnið í sinni umsjón eða ókunnugan aðila með einbeittan brotavilja sem þykir þekkja til barnsins.
Erfitt getur verið að komast að og upplýsa málið sé gerandinn nákominn barninu og býr jafnvel á heimili þess. Sé um að ræða aðila sem barnið treystir og þykir vænt um er barnið síður líklegt til að vilja segja frá ofbeldinu.
Ákveðinn fjöldi mála af þessu tagi koma fram í dagsljósið á ári hverju. Þess vegna er það á ábyrgð aðstandenda að kenna börnunum að þekkja hættumerkin og upplýsa þau um hvar mörkin liggja þegar kemur að snertisamskiptum. Með viðeigandi leiðbeiningum má hjálpa börnunum að verða hæfari í að leggja mat á aðstæður og atferli sem kann að vera þeim skaðlegt eða ógna öryggi þeirra. Því miður er ekki hægt að fullyrða að með fræðslu einni saman sé barnið óhult gegn þeirri vá sem hér um ræðir. Engin ein leið er í sjálfu sér skotheld. Á þessu vandamáli er engin einföld lausn. Ekkert er dýrmætara en börnin okkar og þess vegna má engin varnaraðferð eða nálgun vera undanskilin.
Þau börn sem teljast helst vera í áhættuhópi eru þau sem hafa farið á mis við að vera upplýst um þessi mál með viðeigandi hætti. Önnur börn í áhættu eru t.d. þau sem eru félagslega einangruð, hafa brotna sjálfsmynd eða eiga við fötlun/röskun að stríða sem veldur því að þau geta síður greint eða varið sig í hættulegum aðstæðum eða lagt mat á einstaklinga sem hafa þann ásetning að skaða þau.
Til að auðvelda fræðsluna þarf að festa ákveðin hugtök og orðaforða í huga barnsins. Hugtakið einkastaðir hefur gjarnan verið notað í þessu samhengi. Börnum er bent á hverjir og hvar þeirra einkastaðir eru og að þá má enginn snerta. Einkastaðaleikir eru heldur ekki leyfðir. Ræða þarf um hugtakið leyndarmál og að ekki sé í boði að eiga leyndarmál sem láta manni líða illa. Fræðsla gerir barninu auðveldar að ræða um kynferðismál við þá sem það treystir. Gott er að nota dæmisögur og byrja þegar börnin eru ung og ræða þessi mál með reglubundnum hætti. Best er að nota hversdagslega atburði sem kveikju að umræðum um kynferðisofbeldi.
Skólayfirvöld og foreldrar geta með markvissum hætti sameinast um að byggja upp viðeigandi fræðslukerfi. Með fræðslu og umræðu aukast líkur á því að börn beri kennsl á hættumerkin og varast þannig einstaklinga sem hafa í huga að skaða þau. Umfram allt er mikilvægt að verði barn fyrir kynferðislegu áreiti, láti það einhvern sem það treystir strax vita.
Fræðsla um mál af þessu tagi er vandmeðfarin ef hún á ekki að vekja upp óþarfa áhyggjur hjá barninu. Hyggist skólinn bjóða upp á hana t.d. með því að fá utanaðkomandi aðila er brýnt að foreldrar séu upplýstir svo þeir geti fylgt umræðunni eftir og svarað spurningum sem kunna að vakna í kjölfarið. Hafa skal í huga að ein besta forvörn gegn ytri vá felst í fræðslu sem samræmist aldri og þroska. Með því að viðhafa heilbrigð tjáskipti og tala opinskátt við barnið eru auknar líkur á að það muni segja frá, verði það beitt kynferðisofbeldi. Börn verða að vita að fullorðnir bera ábyrgð á að vernda það.
Birtingarmyndir kynferðisofbeldis og kynferðislegrar áreitni
23.1.2018 | 12:57
Kynferðisleg áreitni er samheiti yfir margs konar atferli sem er móðgandi, særandi og er í óþökk þess sem fyrir henni verður. Um er að ræða hegðun sem hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða sjálfsvirðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru niðurlægjandi. Um getur verið að ræða eitt skipti eða fleiri þar sem áreitninni er haldið áfram þrátt fyrir að gefið sé skýrt í skyn ósk um að látið sé af hegðuninni. Kynferðisleg áreitni getur verið líkamleg, orðbundin, táknræn eða birst eftir rafrænum leiðum og er hegðun sem einkennist af misnotkun á valdi eða stöðu.
Enda þótt flestir séu sammála um hvað telst til almennra umgengnisreglna er upplifun fólks bæði á áreiti (stimulus) umhverfisins á skynfæri og áreitni (eitthvað sem ertir, særir eða móðgar) einstaklingsbundin. Upplifunin byggir á ótal þáttum t.d. persónuleika, uppeldi og reynslu. Það er því ávallt huglægt mat og einstaklingsbundin upplifun hvers og eins sem ræður því hvar hann setur sín persónulegu mörk í samskiptum og hvenær honum finnst hafa verið farið yfir þau mörk.
Helstu birtingarmyndir
Klúrir og klámfengnir brandarar og kynferðislegar athugasemdir í máli eða myndum.
Skriflegar athugasemdir um útlit, líkama, klæðnað eða annað sem að öllu jöfnu telst vera persónulegt málefni hvers og eins
Klámfengin skrif, sögur eða kynferðislegar myndir sendar eftir rafrænum leiðum eða óskað eftir að fá sent slíkt efni frá einstaklingi
Klámfengið tal, kynferðisleg hljóð eða hreyfingar
Óviðeigandi spurningar um kynferðisleg málefni
Augnatillit, svipbrigði, líkamsmál sem gefur í skyn kynferðislega tilburði um kynferðislegt samneyti
Snerting, strokur eða önnur líkamleg nálægð umfram það sem telst venjubundið meðal fólks annarra en ástvina og fjölskyldu
Káf, þukl, klípa, klappa, strjúka, lyfta eða grípa í manneskju
Kynferðisofbeldi
Kynferðisofbeldi er ofbeldi og ofbeldi varðar við lög. Í umræðunni í dag er kynferðisofbeldi eða kynbundið ofbeldi notað til að skýra kynferðislega áreitni af ýmsu tagi og kynferðisglæpi, líkamlega valdbeitingu og óviðeigandi kynferðislega hegðun með eða án snertingar. Kynferðisofbeldi á það sameiginlegt að þolendur þess eru beittir ofbeldi sem hefur beina skírskotun til kyns viðkomandi. Kynferðisofbeldi miðar að því að lítillækka, auðmýkja, ráða yfir og skeyta ekki um vilja eða líðan þess sem fyrir því verður Kröfur eða þvinganir til kynferðislegs samneytis og nauðgun er kynferðisofbeldi. Kynferðisofbeldi birtist einnig í mismunandi formi. Það getur t. d. verið sifjaspell, kynferðisofbeldi ókunnugra gegn börnum, nauðganir, vændi og klám. Um er að ræða hegðun sem hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða sjálfsvirðingu viðkomandi, meiða og skaða.
Hér er ekki um tæmandi lista að ræða heldur aðeins sýnishorn af birtingarmyndum kynferðislegrar áreitni og kynferðisofbeldis.
Skjátími, kvíði og hættur á Netinu
21.1.2018 | 09:21
Langflestir unglingar verja umtalsverðum tíma á samfélagsmiðlum í gegnum farsíma sína. Flestir foreldrar fylgjast vel með tölvu- og netnotkun barna sinna, að skjátími sé við hæfi og efnið í samræmi við aldur og þroska. Einhverjir foreldrar láta hvort tveggja afskipt, að hluta til eða öllu leyti. Færst hefur í aukana að börn niður í átta ára gömul hafi óheftan og stundum eftirlitslausan aðgang að Neti.
Undanfarin misseri hafa kvartanir unglinga yfir kvíða aukist. Þegar leitað er orsaka kemur oft í ljós að tölvu/síma- og netnotkun þessara barna er mikil og jafnvel fram á nótt. Börn sem fá ekki nægan svefn eru verr í stakk búin til að mæta verkefnum og kröfum daglegs lífs. Þreyta og of lítill svefn eru áhættuþættir.
Margt af því sem börn gera í tölvu getur auðveldlega valdið spennu, streitu og pirringi. Má þar fyrst nefna tölvuleiki. Í verstu tilfellum stjórnar gengi barnsins í tölvuleiknum líðan þess. Gangi illa í leiknum verður barnið reitt og pirrað en gangi vel er barnið glatt og kátt. Tölvuleikir og skjánotkun hafa oft mikið aðdráttarafl og þegar barnið er ekki við tölvuna myndast stundum óþreyja og pirringur. Aðrir hlutir daglegs lífs verða grámyglulegir í augum barns sem upplifir mestu skemmtunina vera í tölvunni. Óhófleg og stundum stjórnlaus tölvunotkun getur auðveldlega dregið úr áhuga barns á námi og skólaástundun, jafnvel tómstundum og samvera með fjölskyldu og vinum minnkar. Hætta er á að barnið einangrist frá vinum og félögum sínum.
Sýnt hefur verið fram á að auknar líkur eru á kvíða, streitu og pirringi og jafnvel þunglyndi hjá börnum í tengslum við tölvunotkun þeirra og er þá átt við tölvuleiki, samfélagsmiðla og myndbönd. Hóflegur tími í tölvu, sem dæmi einn tími á dag, hefur lítil sem engin áhrif á líðan barns samkvæmt rannsóknarniðurstöðum. Um leið og tíminn lengist aukast líkur á vanlíðan. Barn sem eyðir fimm tímum á dag í tölvu er í mikilli áhættu með að þróa með sér kvíðatengd vandamál. Í þeim tilfellum sem foreldrar sjálfir nefna of mikla tölvunotkun og ónógan svefn sem hluta af kvíðavandanum eru börnin ekki endilega sammála og því ekki alltaf fús til að draga úr notkuninni.
Mótvægisaðgerðir til verndar
Það er reynsla mín að þegar foreldrum er veitt ráðgjöf taka þeir henni vel og þiggja gjarnan leiðbeiningar. Stundum má skynja vanmátt þeirra sérstaklega ef barnið hefur lengi haft óheftan og jafnvel eftirlitslausan aðgang að tölvu/neti. Í þeim tilfellum treysta foreldrar sér stundum ekki til að setja reglur af ótta við að barnið bregðist illa við því. Sumir foreldrar óttast jafnvel að unglingar þeirra munu bregðast við með ofsa, eigi að fara að setja þeim mörk hvað varðar skjá- og netnotkun. Það gæti því verið mjög hjálplegt ef skólinn hefði fræðslu sem þessa á sinni könnu. Foreldrum yrði þá veittar leiðbeiningar og ráðgjöf um reglur og stuðning til að viðhalda reglunum. Börnunum er kennt að umgangast Netið af varúð, vanda tjáskipti sín á samfélagsmiðlum og varast allar myndsendingar sem geta valdið misskilningi eða sárindum.
Foreldrar eru hvattir til að setja viðeigandi mörk og setja reglur um tölvunotkun um leið og barnið kemst á þann aldur að fara að nota tölvu/síma. Reglurnar þurfa að vera í samræmi við aldur og þroska barnsins og taka mið af gengi þess í skólanum og félagsþroska. Einnig eru foreldrar ávallt hvattir til að ræða við börnin sín um hvernig umgangast skal Netið og samfélagsmiðla.
Klám og barnaníðingar á Netinu
Á netinu leynist hættulegt efni. Þar er einnig að finna hættulegt fólk sem hefur þann ásetning að misnota börn.
Hægt er að fara ýmsar leiðir til að vernda börn gegn óæskilegu efni á Netinu. Netvarar eru tæki sem útiloka slíkt efni og koma þannig í veg fyrir að börn villist þangað sem þau eiga ekki erindi. Hvað sem því líður eru foreldrar í bestu stöðunni til að fræða börn sín um Netið og þeir einu sem eiga þess kost að fylgjast með netnotkun barna sinna frá degi til dags.
Upplýst barn á aukna möguleika á að greina atferli og framkomu, hvað sé innan eðlilegra marka og hvað ekki. Barn sem fengið hefur tilheyrandi fræðslu þekkir frekar birtingarmyndir þess sem er óviðeigandi og skaðlegt og veit að það skuli leita til foreldra sinna fái það óviðeigandi tilboð eða athugasemdir á Netinu.
Netið er orðið hluti af lífi okkar flestra og fæstir geta hugsað sér tilveruna án þess. Á Netinu er mikill fjölbreytileiki; fegurð, ljótleiki, gleði, sorg og allt þar á milli. Gott er að líkja Neti við stórborg. Um þessa stórborg, eins og aðra, þarf leiðsögn og eftirlit. Við myndum ekki sleppa hendinni af barni í stórborg og sama gildir um Netið. Með fræðslu og eftirliti geta börnin glöð nýtt Netið til góðs og umfram allt umgengist það án þess að skaðast.
Hjálp til handa börnum sem sýna árásargirni
17.1.2018 | 07:09
Ekki er óalgengt að börn sýni á einhverjum tíma bernsku sinnar árásargirni í tengslum við skapofsaköst. Oftast er um að ræða stutt tímabil en í sumum tilfellum getur slík hegðun staðið yfir í lengri tíma. Birtingarmyndir árásargirni fara m.a. eftir aldri og þroska. Dæmi um birtingarmyndir árásargirni er að henda hlutum, brjóta eða sparka í hluti, t.d. húsgögn og hurðir, ráðast á foreldra/systkini, lemja, sparka eða bíta. Ef tilfelli eru sjaldgæf þá er frekar um tilfallandi atvik að ræða svo sem að barnið er úrvinda, stressað og illa upplagt. Sé þetta hegðun sem birtist ítrekað og jafnvel án lítils tilefnis eru orsakir líklegast flóknari.
Börn sem sýna ítrekaða árásargirni verða ekki endilega ofbeldisfullir einstaklingar á fullorðinsárum sérstaklega ef gripið er inn í með viðeigandi íhlutun eða breytingum og unnið markvisst að því að hjálpa barninu að slökkva á hegðuninni. Ef gefið er eftir kröfum barnsins og árásargirni þess leyfð að viðgangast eru það skilaboð um að svona hegðun líðist í mótlæti og andstreymi.
Orsakir og áhættuþættir
Orsakir árásargirni og ofbeldishegðunar geta verið af ýmsum toga. Þær geta verið líffræðilegar þegar árásargirni á rót sína að rekja til raskana af einhverju tagi svo sem fráviks í vitsmunaþroska, athyglisbrests með eða án ofvirkni (ADHD) eða annarra raskana. Orsakir geta einnig verið sálfræðilegar eða aðstæðubundnar/félagslegar. Algengt er að um sé að ræða samspil margra þátta. Áhættuþættir eru persónuleikaeinkenni eins og erfiðir skapsmunir, lágt mótlætaþol, þrjóska, slök tilfinningastjórnun, ótti, kvíði og óöryggi. Árásargirni getur verið ein af birtingarmyndum mótþróahegðunar barna. Sum börn ráða illa við að heyra nei ef þau vilja fá eitthvað eða ef þeim eru sett mörk. Sum bregðast illa við ef þeim er ætlað að sinna einhverju sem þau vilja eða nenna ekki að sinna. Undanfari árásargirni er reiði í tengslum við hugsanir um að vera beittur órétti, tilfinning um að vera fórnarlamb og aðrar neikvæðar hugsanir og tilfinningar. Þegar reiðin nær vissu stigi getur barnið orðið stjórnlaust og þá jafnvel árásargjarnt.
Uppeldisaðferðir
Í þessum málum hafa foreldrar iðulega reynt ýmsar uppeldisaðferðir til að mæta skapofsa og árásargirni barns síns og eru þá skammir algengastar, stundum hótanir um réttindamissi eða aðrar afleiðingar. Ítrekaðar skammir tapa fljótt áhrifamætti og auka jafnvel stundum á reiði barnsins. Í öðrum tilfellum eru foreldrar óaðvitandi að styrkja reiði og árásargirni barns síns með því að gefa fljótt eftir kröfum þeirra. Þetta er algengara t.d. í þeim tilfellum sem foreldrar eru orðnir þreyttir eða ráðalausir. Sumir foreldrar eru meðvirkir með barni sínu og vorkenna þeim. Enn aðrir foreldrar kenna sjálfum sér um og finnst þeir ef til vill hafa brugðist sem foreldrar. Foreldrar með sektarkennd gagnvart börnum sínum hafa iðulega minna þrek og úthald til að standast kröfur þeirra. Stundum eru foreldrar einfaldlega hræddir við skapofsa barns síns og árásargirnina og treysta sér þar af leiðandi ekki til að taka á því. Foreldrar sem glíma sjálfir við veikindi treysta sér kannski verr til að neita barni sínu af ótta við ofsafengin viðbrögð þeirra. Svör eins og nei/kannski eða sjáum til seinna verður okey þá og með því er barnið í raun að fá umbun fyrir að sýna skapofsa og árásargirni. Umbunin að fá sínu framgengt í kjölfar neikvæðrar hegðunar eykur líkur á því að hegðunin endurtaki sig.
Umhverfisþættir
Áhættuþættir skapofsa og árásargirni finnast stundum í umhverfi barnsins t.d. ef aðstæður á heimilinu eru erfiðar. Dæmi um streituvalda í fjölskyldu eru langvinn veikindi eða átök og deilur á heimilinu. Grundvallarbreytingar í lífi barnsins eins og skilnaður foreldra, nýtt foreldri, systkini/stjúpsystkini eða flutningar geta valdið barninu streitu sem síðan brýst út í reiði og árásargirni. Að sama skapi getur orsökin legið í þáttum sem tengjast skólanum, náminu, vinahópnum, tómstundum eða íþróttum.
Aðrar orsakir
Leita má orsaka í fleiri þáttum svo sem hvort barnið sé að fá nægan svefn, hollt mataræði og hreyfingu við hæfi. Allt eru þetta þættir sem eru mikilvægir börnum til að vera í góðu andlegu jafnvægi.
Áhorf ofbeldisefnis hefur einnig verið talið til áhættuþátta árásargirni. Samkvæmt rannsóknum er slíkt þó aðeins um að ræða hjá litlum hópi barna og unglinga. Enn aðrar rannsóknir hafa sýnt fram á að aðeins lítinn hluta af árásargirni er hægt að útskýra með áhorfi á ofbeldi einu og sér. Hvað sem rannsóknum líður er mest um vert að vera meðvitaður um magn og gæði þess efnis sem barnið er að horfa á og hvort reglur um skjátíma séu í samræmi við aldur og þroska barnsins.
Að slökkva á árásargirni
Hjálpa þarf börnum sem beita árásargirni í bræðiskasti að stöðva hegðunina enda líður þeim sjálfum illa með hana. Ræða þarf við barnið í samræmi við aldur og þroska um hegðunina og neikvæðar afleiðingar hennar og fræða þau um hvar mörkin liggja. Samhliða þarf að finna aðrar vænlegar leiðir fyrir þau til að fá útrás fyrir gremju og reiði og til að leysa ágreiningsmál. Fyrirmæli til ungra barna þurfa að vera skýr og einföld. Sum börn meðtaka fyrirmæli betur ef þau eru sett upp með sjónrænum hætti. Börnum gengur einnig iðulega betur að slökkva á neikvæðri hegðun sé umbunar-, réttinda- og styrktarkerfi notað samhliða. Markmiðið er að hjálpa barninu að ná betri tilfinningastjórnun, auka mótlætaþol og úthald. Um leið og þroski leyfir þá þarf að hjálpa barninu að finna til ábyrgðar á eigin hegðun og að skilja að ofbeldi er ekki leið til lausnar.
Aðstoð við börn sem sýna árásargirni er margvísleg m.a. í formi samtala, fræðslu, umbunakerfis, atferlismótandi aðferða og sjálfstyrkingu.
Í tilfellum þar sem barn sýnir mótþróa og árásargirni er vert að kanna hvort gera þurfi breytingar á uppeldisaðferðum eða menningu heimilisins. Til að kanna það nánar er gott að renna yfir helstu atriði:
- Eru foreldrar samstíga?
- Er ástúð og umhyggja?
- Er samvera?
- Er fræðsla og samtöl?
- Er jákvætt andrúmsloft á heimilinu, hlegið, grín og gaman?
- Er veitt umbun við hæfi, hrós og hvatning?
- Eru sett mörk, er festa, aðhald og viðeigandi reglur sem hæfir aldri og þroska barnsins?
- Er reglum fylgt eftir?
Önnur úrræði
Foreldrar geta á öllum tímum sótt sér handleiðslu hjá fagaðila eða sótt foreldrafærninámskeið. Ráðgjöf er hægt að fá hjá sálfræðingi Heilsugæslu (ókeypis þjónusta fyrir 0 til 18 ára með tilvísun frá lækni). Einnig eru ráðgjafar í skólum landsins. Upplýsingar um PMTO á landsvísu má fá á www.pmto.is. Upplýsingar um þjónustu sveitarfélaga fæst hjá skóla- eða félagsþjónustu sveitarfélaganna.
Vinna fagaðila felst í að ræða við foreldra og barnið og leita orsaka/áhættuþátta í umhverfinu til að hægt sé að vinna með þá, laga og breyta því sem breyta þarf. Séu vísbendingar um að rekja megi orsök árásargirni til röskunar eða frávika af einhverju tagi þarf að fá það staðfest með viðeigandi sálfræðilegum greiningartækjum.
Viðbrögð við áreitni á vinnustað
5.1.2018 | 11:57
Allir vinnustaðir ættu að hafa viðbragðsáætlun til að fylgja ef kvartað er yfir óæskilegri hegðun á vinnustaðnum. Óæskileg hegðun getur birst með ýmsum hætti svo sem í formi kynferðislegrar áreitni. Áreitni er hegðun og framkoma sem er í óþökk tiltekins einstaklings og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi.
Önnur birtingarmynd er einelti. Um er að ræða endurtekna neikvæða hegðun og framkomu sem veldur vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verður. Dæmi um birtingarmyndir eineltis er að hunsa, niðurlægja, gera grín að eða lítillækka, móðga, særa eða ógna og hóta manneskju. Skoðanaágreiningur eða ágreiningur vegna ólíkra hagsmuna fellur ekki hér undir.
Starfsmönnum þarf að vera ljóst með hvaða hætti hægt er að tilkynna atvik eða hegðun eins og þeirri sem hér er lýst, hvert skal beina tilkynningunni og hvernig úrvinnsluferlinu er háttað.
Tilkynningaeyðublað og verkferli
Tilkynningaeyðublað er aðgengilegt öllum ef það er á heimasíðu stofnunar eða fyrirtækis. Á mörgum vinnustöðum er ákveðinn hópur eða teymi sem fengið hefur það hlutverk að taka við og vinna úr kvörtunum af þessu tagi. Teymið hefur jafnvel fengið sérstaka fræðslu um hvernig verklagi skal háttað.
Í minni fyrirtækjum eða þar sem tengsl starfsmanna eru mikil t.d. vegna ættar- eða vinatengsla getur verið nauðsynlegt að fá utanaðkomandi sérfræðiaðstoð til að vinna í málinu.
Teymið hefur einnig ráðgefandi hlutverk. Starfsmaður ætti að geta leitað til teymisins, ráðfært sig við aðila þess eða fengið leiðbeiningar ef hann er t.d. óöruggur með hvað hann skal gera telji hann að brotið sé á sér á vinnustaðnum.
Dæmi um verkferli:
- Teymið ræðir við tilkynnandann til að fá ítarlegri upplýsingar
- Teymið ræðir við aðra sem kunna að hafa upplýsingar eða vitneskju um málið
- Teymið gerir aðgerðaráætlun og leggur undir þann sem tilkynnir. Hann nýtur jafnframt viðeigandi og nauðsynlegrar leiðbeiningar frá eineltisteyminu. Dæmi um atriði sem ákveðin eru í samráði við þann sem tilkynnir:
a) Hvernig upplýsingaöflun skuli háttað
b) Vinnsluhraði málsins
c) Hvenær talað er við meintan geranda.
Telji sá sem tilkynnir að honum sé ógnað á vinnustaðnum, sé t.d. ekki vært eftir að hafa kvartað, er skoðað með hvaða hætti hægt er að tryggja öryggi hans/líðan á meðan málið er kannað nánar t.d.:
a) Með tilfærslu eða breytingum á staðsetningu aðila á vinnustaðnum
b) Bjóða tilkynnanda upp á sveigjanleika í starfi telji hann það nauðsynlegt eða tímabundið leyfi frá störfum
- Meintur gerandi er boðaður í viðtal og upplýstur um efni kvörtunarinnar og honum gefinn kostur á að bregðast við
- Þegar rætt hefur verið við alla hlutaðeigandi aðila leggur teymið mat á heildarmynd málsins og upplýsir aðila um niðurstöður sínar með munnlegum og skriflegum hætti.
Sé það mat teymisins að kvörtun eigi við rök að styðjast þurfa stjórnendur að ákveða hvaða afleiðingar skulu vera fyrir geranda og hvernig hlúa skal að þolandanum. Í alvarlegustu málum af þessu tagi gæti atvinnurekandi, ef um opinbera stofnun er að ræða, ákveðið að grípa til aðgerða sambærilegar þeim sem sem kveðið er á um í Lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins (1996 nr. 70). Sé grunur um lögbrot er tilkynnandi jafnframt hvattur til snúa sér með málið til lögreglu.
Sé það mat teymisins að kvörtun eigi ekki við rök að styðjast þarf engu að síður að vinna í málinu sem dæmi skoða aðstæður eða atburðarás sem leiddi til þess að starfsmaður taldi sig knúinn til að kvarta yfir öðrum starfsmanni. Vinna að því að koma samskiptum aftur í viðunandi horf og að öllum geti liðið vel á vinnustaðnum.
Nánar um úrvinnsluferlið:
Aðgerðir/íhlutun taka mið af fjölmörgum þáttum þ.m.t.:
a) Alvarleika kvörtunarinnar
b) Hvort um sé að ræða nýtt mál eða endurtekna hegðun
Upplýsingar/gögn sem verða til í einstöku máli og varða aðila þess skulu vera aðgengileg aðilum málsins.
Forvarnir á vinnustað
Á öllum tímum, óháð því hvort kvörtunarmál sé í vinnslu ætti fyrirtæki/stofnun að stuðla að markvissum forvörnum gegn óæskilegri hegðun á vinnustað eins og kveðið er á um í reglugerð nr.1000/2004. Samhliða úrvinnslu er auk þess skoðað hvernig:
a) Forvörnum er háttað og hvort ganga þurfi röskar fram í forvarnarvinnu
b) Samskiptum stjórnenda og starfsmanna er háttað
c) Hægt sé að betrumbæta staðarbrag enn frekar enda er jákvæður staðarbragur helsta forvörn gegn kynferðislegri áreitni og einelti.
Málalok og eftirfylgni
Máli lýkur þegar sá sem tilkynnir lætur vita að sú hegðun sem kvartað er yfir sé hætt.
Mál er tekið upp að nýju ef þörf þykir. Fylgst verður áfram með málsaðilum. Einnig er liður í eftirfylgni að veita málsaðilum, stundum vinnustaðnum í heild sinni, viðeigandi stuðning eða aðra aðstoð sem á við hverju sinni. Viðbragðsáætlun er endurskoðuð reglulega og í samræmi við reynslu af vinnslu mála sem tilkynnt er um á vinnustaðnum.
Hvað get ÉG gert?
23.12.2017 | 09:30
Aðdragandi jóla er gleðitími fyrir marga, börn jafnt sem fullorðna. Jólin eru hátíð barna og kæti þeirra og tilhlökkun er sennilega einn af hápunktum tilveru þeirra. Í samfélagi okkar finnst mörgum það vera sjálfsagt að börn séu áhyggjulaus, geti notið bernskunnar og hlakkað til ýmissa viðburða í lífinu. Allt um kring eru allsnægtir og úrvalið hefur aldrei verið meira hvort heldur af mat, fatnaði, leikföngum eða öðru afþreyingarefni. Það skýtur því skökku við að vita að hér búa börn sem hafa það slæmt og líður illa þrátt fyrir allt tal um rífandi góðæri. Margir þeirra sem komu illa út úr hruninu eru enn að berjast í bökkum. Húsnæðisvandi og hátt leiguverð eru meðal þátta sem standa fyrir þrifum. Staðfest er að það hafa ekki allar fjölskyldur húsaskjól. Sumar fá að halla höfði hjá vinum eða ættingjum í skamman tíma í einu eða búa í húsnæði sem ekki er mönnum bjóðandi.
Fátækt er í öðrum tilfellum fylgifiskur eða afleiðing annarra vandamála t.d. veikinda, þar með talið geðrænna veikinda eða fíknivanda. Börn foreldra sem glíma við langvinn veikindi, líkamleg eða geðræn, sitja oft ekki við sama borð og börn heilbrigðra foreldra. Sama má segja um börn þeirra sem búa á heimilum þar sem áfengis- eða fíknivandi er til staðar þótt slíkur vandi spyrji ekki um félagslega stöðu eða efnahagslega afkomu. Annar hópur barna sem líða þjáningar eru börn sem búa á ofbeldisheimilum. Heimilisofbeldi finnst í öllum tegundum fjölskyldna, óháð efnahag og félagslegri stöðu.
Börnin á þessum heimilum sem hér hefur verið lýst hlakka oft ekkert til jólanna né annarra hátíða nema síður sé. Sum segjast hata jólin. Kvíði og áhyggjur varna því að þau finni fyrir tilhlökkun. Áhyggjur barna í þessum aðstæðum snúast oft um hvernig ástandið verði á heimilinu á aðfangadagskvöld þegar jólin ganga í garð. Verður mamma komin í glas fyrir mat? Náum við að opna pakkana áður en pabbi sofnar? Verður rifist og slegist eins og í fyrra? Hvert get ég flúið þegar lætin byrja? Kemur eitthvert lið heim?
Þau sem eiga yngri systkini eru jafnvel komin með plan B og jafnvel C. Þessi börn hafa lært af reynslu sem hefur rænt þau barnæskunni og eru að axla ábyrgð eins og þau væru fullorðin. Þau reyna að halda væntingum í lágmarki, þá verða vonbrigðin minni. Ef þetta sleppur til um þessi jól þá er það bara bónus. Mörg eru búin að þrauthugsa hvort og þá hvað þau geti gert til að draga úr líkunum á að foreldrar þeirra skemmi jólin. Ó, hvað það væri nú gaman ef við gætum borðað saman jólamatinn, opnað pakkana, hlegið og grínast og farið svo áhyggjulaus að sofa. Kannski verður það þannig um þessi jól?
Verndandi þættir
Meðal verndandi þátta er að láta okkur þessi börn varða, vera meðvituð um þau og aðstæður þeirra og vera tilbúin að grípa inn í. Verndandi þáttur gegn fátækt er samfélagið og samstaða ættingja eða nágranna. Tilfinningatengsl við einhverja utan heimilis getur skipt sköpum, verið akkeri og haldreipi, styrkur og stuðningur. Okkur ber að vera meðvituð um líðan og aðbúnað ekki eingöngu okkar barna heldur allra barna sem verða á vegi okkar: barna vina okkar, vina og bekkjarfélaga barna okkar, barna samstarsfélaga eða barna nágranna. Ef við höfum áhyggjur af einhverju þessara barna þá þarf að spyrja: Hvað get ég gert í stöðunni sem gagnast þessu barni?
Ábyrgð, meðvitund og stundum þor er það sem þarf til að stíga inn í aðstæður eða atburðarás ef óttast er að hagsmunum barns sé ábótavant eða þær séu ekki boðlegar því. Stundum er nauðsynlegt að tilkynna mál til Barnaverndar eða hringja á lögreglu í tilfellum þar sem grunur leikur á um að heimilisofbeldi og/eða stjórnlaus neysla sé í gangi. Ef við verðum þess áskynja að barn býr við óviðunandi aðstæður er aðeins eitt sem ekki má gera og það er AÐ GERA EKKI NEITT.
Kaupa greiningu og losna við biðlista
13.12.2017 | 15:47
Slík staða ýti undir ójöfnuð. Efnaminni foreldrar verði að taka lán eða bíða. Greining sé algert lykilatriði til að fá viðeigandi þjónustu og aðstoð. Kolbrún segir afar mikilvægt að greining barna gangi hratt fyrir sig því annars sé hætta á að vandamál stækki og hlaði utan á sig.
Foreldrar hvattir til að kaupa greiningar á stofu út í bæ fyrir börn sín vegna biðlista hjá sálfræðingum skóla
13.12.2017 | 08:37
Vanlíðan barns sem tengist námi og námsgetu er merki um að eitthvað sé að. Það má ekki dragast lengi að greina vandann og veita viðeigandi úrræði ef barnið á ekki missa trú á sjálfu sér. Biðlisti í greiningu hjá Sálfræðiþjónustu skóla er langur. Foreldrum er bent á einkareknar stofur. Ekki allir foreldrar hafa ráð á að kaupa slíka þjónustu sem kostar aldrei minna en 100 þúsund