Hvar mun ég eiga heima um næstu jól?
27.10.2017 | 14:23
Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna var lögfestur á Alþingi 2013. Ríkisstjórnir síðastliðin 10 ár hafa enn sem komið er einungis tekið tillit til hluta af ákvæðum hans. Þegar kemur að því hvernig búið er að börnum í íslensku samfélagi er margt ábótavant.
Hópur barna þvælist um á vergangi með foreldrum sínum vegna húsnæðisskorts og hárrar húsaleigu. Börn eru næm á tilfinningalegt ástand foreldra sinna og skynja vel óöryggi þeirra og kvíða. Viðvarandi óstöðugleiki og óvissa sem fátækar fjölskyldur glíma við kemur illa niður á börnunum. Ekki allar fjölskyldur vita svo dæmi sé tekið hvar þær munu eiga höfði sínu að að halla um næstu jól.
Flokkur fólksins mun leggja allt í sölurnar til að koma með lausnir til skemmri og lengri tíma í húsnæðismálum verði hann kjörinn á Alþingi. Skaðsemi þess að alast upp við aðstæður sem þessar eru iðulega miklar og djúpstæðar og kemur hvað verst niður á börnunum. Áhrif þess að búa við langvarandi óöryggi grefur undan trú og trausti barns á umhverfi sínu.
Það bíður þeirra flokka sem fá brautargengi í alþingiskosningum á laugardaginn og komandi ríkisstjórn ærið verkefni í þessum málum. Margir sem setið hafa á valdastóli hafa ítrekað lofað að ástandið muni batna en raunin er að það hefur versnað.
Flokkur fólksins óskar þess að fá tækifæri til að sýna að hann vill, getur og skal ganga í þessu mál af krafti fái hann tækifæri til.
Höfundur er sálfræðingur og skipar 2. sæti á framboðslista Flokks fólksins í Reykjavíkurkjördæmi norður.
Gerum grein fyrir okkar hagsmunatengslum, ef einhver eru, fyrir kosningar
27.10.2017 | 08:49
Ég var að hlusta á viðtal við Vilhjálm Árnason í morgun sem sagði að það væri bagalegt að frambjóðendur gerðu ekki grein fyrir hagsmunatengslum sínum fyrir kosningar. Þess er ekki krafist fyrr en komið er á þing. Því langar mig að setja hér fordæmi til að styðja þessi orð Vilhjálms og staðfesti hér með að hvorki ég né eiginmaðurinn eigum hluti né sitjum í stjórnum fjármálafyfirtækja. Við skuldum ekki skatta né önnur opinber gjöld og loks er gott að það komi fram að við erum ekki kröfuhafar á neina banka:)
Heimilið mitt er tjald
26.10.2017 | 19:31
Hvað skal segja? Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að lækka skatta á sama tíma og þau segja að engar frekari skerðingar verði. Engin umræða á þeim bæ um fólkið sem talað var við í fréttum sjónvarps kl. 19, fólkið sem býr í tjaldi og húsbíl vegna þess að það ræður ekki við að borga leigu á húsnæðismarkaði. Hvað hefur Miðflokkurinn sagst ætla að gera fyrir þetta fólk? Þau höfðu tækifæri í þrjú ár til að leysa þennan stóra vanda.
Mannréttindabrot gegn börnum fátækra
26.10.2017 | 14:26
Samkvæmt opinberum tölum er talið að foreldrar um níu þúsund barna séu undir lágtekjumörkum sem er með öllu óásættanlegt.
Þegar kemur að sjálfsögðum mannréttindum eins og skólagöngu verður að tryggja að börn sitji við sama borð án tillits til efnahagsstöðu foreldra þeirra. Krafa Flokks fólksins er að grunnskólar landsins verði gjaldfrjálsir með öllu og að börnum verði tryggður gjaldfrjáls og hollur matur í grunnskólum og leikskólum.
Heilbrigðiskerfið svelt
26.10.2017 | 08:31
Niðurskurður undanfarinna ára í heilbrigðisþjónustu hefur lengt biðina eftir heilbrigðisþjónustu. Þetta hefur valdið auknu álagi á heilbrigðisstofnanir og starfsfólk stofnana.
Stefna Flokks fólksins í heilbrigðismálum er að veita þá grunnþjónustu sem mörkuð er í lögum um heilbrigðisstofnanir og að margra mánaða biðlistar í aðgerðir eða greiningar heyri sögunni til. Undanfarin ár hafa verið allt að tveggja ára biðlistar í aðgerðir, á Barna- og unglingageðdeild og Þroska-og hegðunarmiðstöð.
Íslenska heilbrigðisstéttin býr yfir dýrmætum mannauði. Hluti sérfræðinga er reyndar löngu farinn af landi brott vegna versnandi starfskjara og vinnuumhverfis og fundið sér eftirsóknarverðari tækifæri á erlendri grundu þar sem störf þeirra eru betur metin að verðleikum. Það er á ábyrgð stjórnvalda að gera starfsumhverfið í íslenska heilbrigðiskerfinu aðlaðandi og eftirsóknarvert. Í dag vantar nokkur hundruð hjúkrunarfræðinga til starfa. Þar er ekki einungis launamálum og lélegu starfsumhverfi um að kenna. Undirmönnun og álag á heilbrigðisstarfsfólk er líka ástæðan. Flokkur fólksins krefst tafarlausra úrbóta í heilbrigðismálum.
Í síðustu fjárlögum var niðurskurðarhnífnum enn beitt af krafti á heilbrigðiskerfið. Í auknum mæli er verið að leggja grunn að einkareknum fyrirtækjum sem sinna grunnheilbrigðisþjónustu og sérhæfðum lækningum.
Einkavæðing er dýr lausn. Almenningur greiðir komugjald en ríkið borgar afganginn. Einkaaðilar eru milliliðir sem fá arð úr fyrirtækjum sínum. Hægt er að bera saman annars vegar bandaríska kerfið og hins vegar danska kerfið og er hið bandaríska kerfið tvöfalt dýrara.
Flokkur fólksins vill styrkja þessa meginstoð sem almenna heilbrigðiskerfið er. Veita þarf meira fjármagni beint og milliliðalaust í opinberar heilbrigðisstofnanir, heilsugæsluna og á Landspítalann. Þegar fjárframlög aukast er hægt að endurskipuleggja þjónustuna með það að leiðarljósi að fjölga heilbrigðisstarfsmönnum, létta álagið á starfsfólk og bæta starfsumhverfið. Í kjölfarið má ætla að grynnki á biðlistum. Biðlistar til tveggja ára eru með öllu óviðunandi og skýrt merki um langvarandi fjársvelti í þennan málaflokk.
Kolbrún Baldursdóttir er sálfræðingur og skipar 2. sæti á framboðslista Flokks fólksins í Reykjavíkurkjördæmi Norður.
Heilbrigðisstarfsfólki ætlað að hlaupa hraðar, gera meira
25.10.2017 | 18:32
Flokkur fólksins vill styrkja þessa meginstoð sem almenna heilbrigðiskerfið er. Veita þarf meira fjármagni beint og milliliðalaust í opinberar heilbrigðisstofnanir, heilsugæsluna og á Landspítalann. Þegar fjárframlög aukast er hægt að endurskipuleggja þjónustuna með það að leiðarljósi að fjölga heilbrigðisstarfsmönnum, létta álagið á starfsfólk og bæta starfsumhverfið. Í kjölfarið má ætla að grynnki á biðlistum. Biðlistar til tveggja ára eru með öllu óviðunandi og skýrt merki um langvarandi fjársvelti í þennan málaflokk.
Sjá greinina Heilbrigðiskerfið svelt í heild sinni hér
Höfundur er sálfræðingur og skipar 2. sæti á framboðslista Flokks fólksins í Reykjavíkurkjördæmi Norður.
Flokkur fólksins segir NEI við áfengissölu í matvöruverslunum og lögleiðingu kannabisefna
23.10.2017 | 20:15
Flokkur fólksins hefur skýra stefnu þegar kemur að vernd barna og ungmenna. Hann virðir þá vernd sem stjórnarskráin og Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna veitir. Í 3. grein Barnasáttmálans segir að Allar ákvarðanir eða ráðstafanir yfirvalda sem varða börn skulu byggðar á því sem börnum er fyrir bestu. Áfengissala í matvöruverslunum eða lögleiðing kannabisefna er börnum ekki fyrir bestu. Við þessu segir Flokkur fólksins NEI.
Tveir frambjóðendur, báðir sálfræðingar, annar frá Flokki fólksins og hinn frá Framsókn ræða stefnur flokkanna í heilbrigðis- og skólamálum og margt fleira sem varðar velferð barna í íslensku samfélagi. Hér er slóðin:
Fátæk börn á Íslandi
21.10.2017 | 18:54
1. Ég er leiður því ég get sjaldnast fengið það sama og vinir mínir. Ekki til peningur segir mamma þegar ég spyr hvenær ég fæ nýjasta tölvuleikinn. Kannski í afmælis eða jólagjöf segir pabbi stundum þegar ég spyr hann. Það þýðir lítil að tala um þetta. Verst þykir mér að geta ekki boðið vinum mínum heim. Ég vil ekki að þau sjái að ég á ekki herbergi og hvað er þröngt hjá okkur. Svo ef einhver vinur minn kæmi og yrði svangur þá er oft ekki mikið til í ísskápnum handa honum. En verst er að mamma og pabbi hafa ekki efni á að leyfa mér að fara á íshokkínámskeiðið eins og besti vinur minn fær.
2. Við mamma búum í einu litlu herbergi. Mamma og pabbi misstu allt í Hruninu. Við áttum fyrirtæki. Ég veit ekki hvenær við fáum íbúð. Ég hlakka mest til að fá íbúð þar sem ég get farið í sturtu. Við höfum ekkert svoleiðis núna. Ég fer í sturtu í sundi þegar ég þarf að fara í bað. Ég veit það þýðir ekki að kvarta. Það er bara engin peningur til. Ef ég eignaðist pening myndi ég kaupa mér föndurdót. Mér finnst allt í lagi að vera í gömlum fötum úr Rauða Kross búðunum á meðan mér er ekki strítt.
Flokkur fólksins vill útrýma fátækt á Íslandi og krefst þess að ekkert íslenskt barn búi við fátækt. Velmegandi þjóð eins og Ísland þar sem lífskjör og hagsæld eru almennt góð á ekki að líða fátækt.
Greinina má sjá í heild sinni á visir.is.
Fátæk börn á Íslandi
Börn eiga ekki að þurfa að bíða eftir þjónustu í allt að tvö ár
17.10.2017 | 11:42
Flokkur fólksins setur skólastarf í öndvegi og leggur áherslu á sjálfsstyrkingu, mannleg samskipti, virðingu og kærleika. Mæta þarf barninu á einstaklingsgrundvelli svo hægt sé að mæta þörfum þess og gefa því kost á að njóta getu og færni sinnar.
Komi í ljós að barn glími við vanda af einhverju tagi skiptir snemmtæk íhlutun mestu máli til að barn fái viðeigandi þjónustu. Eins og staðan er í dag þarf barn sem glímir við námserfiðleika, félags- eða tilfinningarvanda að bíða í allt að tvö ár eftir að fá frumgreiningu á sínum vanda á vegum sveitarfélaga. Slík greining er forsenda þess að barn fái framhaldsgreiningu hjá Barna- og unglingadeild og Þroska- og hegðunarmiðstöð sem einnig er með margra mánaða biðlista. Biðlistar til talmeinafræðinga eru jafnlangir.
Flokkur fólksins vill ná niður biðlistum og eyða þeim hið fyrsta. Börn eiga ekki að þurfa að bíða eftir þjónustu sem þessari mánuðum saman. Forsenda þess að hægt sé að velja viðeigandi úrræði og finna leið til lausna á vanda eða vanlíðan barns er að fagleg greining liggi fyrir. Á meðan barnið bíður er hætta á að sjálfsmat þess beri hnekki og það fyllist óöryggi með sjálft sig. Aðgengi að þjónustu fagaðila til handa börnum, greiningum og meðferðum í þeim tilfellum sem það er metið nauðsynlegt þarf að verða betra og jafnara á landsvísu.
Hvar á að taka peningana?
15.10.2017 | 12:11
Þetta er spurning sem allir stjórnmálaflokkarnir fá um þessar mundir þegar loforðin streyma fram um hvernig þeir ætla að bæta samfélagið.
Flokkur fólksins vill að lífeyrissjóðakerfið verði endurskoðað, meðal annars að staðgreiðsla skatta sé greidd við inngreiðslu í sjóðina en ekki við útgreiðslu úr þeim eins og hún er núna. Þetta mun auka tekjur ríkissjóðs um tugi milljarða króna á ári sem hægt væri að setja t.a.m. í heilbrigðiskerfið, gjaldfrjálsa grunnheilbrigðisþjónustu og til að uppræta biðlista.
Gjaldfrjáls grunnheilbrigðisþjónusta og jöfn tækifæri til sálfræðiaðstoðar
15.10.2017 | 11:08
Hér er niðurlag greinar Sálfræðiþjónusta forvörn gegn sjálsvígum sem sjá má í heild sinni á visi.is
Flokkur fólksins vill að grunnheilbrigðisþjónusta verði gjaldfrjáls. Vinna þarf í því að efla sálfræðiþjónustu í landinu annars vegar með því að þjónustan verði niðurgreidd eins og í nágrannalöndum okkar og hins vegar að heilsugæslustöðvar verði fullmannaðar sálfræðingum til að sinna öllum aldurshópum. Með þessum hætti geta allir haft jafnan aðgang að sálfræðiþjónustu og sömu tækifæri til að leita sálfræðiaðstoðar án tillits til efnahags eða fjárhagslegrar afkomu.
Einstaklingar eldri en 18 ára sem glíma við þunglyndi og kvíða með tilheyrandi fylgifiskum hafa oft ekki efni á sálfræðiaðstoð. Fólk getur að sjálfsögðu leitað til geðlækna og er sú þjónusta niðurgreidd af ríkinu. Bið eftir tíma hjá geðlækni er í sumum tilfellum býsna löng. Fólk hefur vissulega aðgang að bráðamóttöku í neyðartilfellum.
Einstaklingnum ber að hafa frelsi til að velja sér þá þjónustu sem hann telur að best mæti sínum sérþörfum hverju sinni. Þetta val þarf að geta verið óháð efnahag og fjárhagslegri afkomu. Væri sálfræðiþjónusta niðurgreidd eins og geðlæknaþjónusta gæti einstaklingurinn valið hvort hann vilji leysa úr sálrænum vanda sínum og ná bættari líðan með því að sækja meðferð hjá sálfræðingi eða fara í viðtal hjá geðlækni og jafnvel fá ávísuð geðlyf í sama tilgangi. Í mörgum tilfellum, sérstaklega þeim erfiðustu, þarf fólk þjónustu beggja fagaðila.
Eins og málin standa í dag hafa ekki allir jöfn tækifæri til að nýta sér sálfræðiþjónustu. Í raun má segja að sálfræðiþjónusta standi einungis þeim efnameiri til boða. Það þykir mörgum óskiljanlegt af hverju Íslendingum hefur ekki tekist að fylgja nágrannalöndum sínum í þessu efnum. Sálfræðiþjónusta er hluti af grunnheilbrigðisþjónustu í löndum sem við viljum bera okkur saman við.
Það er löngu tímabært að sálfræðiþjónusta verði hluti af þeirri grunnheilbrigðisþjónustu sem almannatryggingakerfið tekur þátt í að greiða niður. Forvarnarúrræðin á borð við sálfræðiaðstoð þurfa að vera aðgengileg öllum án tillits til efnahags.
Síðastliðinn áratug hafa sálfræðingar ítrekað reynt að fá ráðamenn til að sjá mikilvægi þess að niðurgreiða sálfræðiþjónustu m.a. með því að sýna fram á þann sparnað sem slíkur samningur myndi skapa í heilbrigðiskerfinu. Líklegt er að með tilkomu niðurgreiðslna á sálfræðiþjónustu geti dregið úr geðlyfjakostnaði. Væri slíkur þjónustusamningur til getur sálfræðiþjónusta sem slík flokkast sem raunhæf forvörn gegn sjálfsvígum og sjálfsvígstilraunum sem og öðrum erfiðleikum og vandamálum sem upp kunna að koma í lífi sérhvers einstaklings.
Sálfræðingar eru nú komnir á flestar heilsugæslustöðvar landsins og ber því að fagna. Sálfræðiþjónustan er gjaldfrjáls fyrir börn frá 0 til 18 ára og konur sem vísað er af Mæðravernd. Enn vantar töluvert upp á að fullmanna allar stöður sálfræðinga. Fjármagnið sem var eyrnamerkt til aukningar sálfræðiþjónustu m.a. fyrir fullorðna skilaði sér ekki sem skyldi til heilsugæslustöðva. Þær stöðvar sem myndu vilja bæta við stöðuhlutfall sálfræðings þyrftu þá að taka það af öðrum rekstrarlið t.d. fækka öðru starfsfólki. Engar skýringar hafa fengist á af hverju þeir fjármunir sem eyrnamerktir voru til að auka stöðuhlutfall sálfræðinga skiluðu sér ekki þangað sem þeim var ætlað. Niðurstaðan er sú að aðeins þær stöðvar sem voru með rekstrarafgang gátu aukið við stöðugildi sálfræðings til að sinna aldurshópnum sem er eldri en 18 ára.
Kolbrún Baldursdóttir er sálfræðingur og skipar 2. sæti á framboðslista Flokks fólksins í Reykjavíkurkjördæmi norður.
Aukið fé til fræðslu og forvarna í skólum og sjálfsstyrkingu fyrir börnin
15.10.2017 | 10:11
Femínistafélag Háskóla Íslands boðaði til málþings um kynferðisofbeldi þar sem fulltrúum stjórnmálaflokkanna var boðið að koma og svara hvað okkar flokkur ætlaði að gera í málefnum kynferðisofbeldis á Íslandi hljóti hann brautargengi í komandi kosningum.
Flokkur fólksins:
- Vill veita auknu fé í viðvarandi fræðslu og forvarna í skólum og sjálfstyrkingu fyrir börnin
-Ljúka hið fyrsta heildstæðri aðgerðaráætlun ríkisins í kynferðisofbeldismálum en hún hefur legið á borði stjórnvalda um langa hríð
- Vill að grunnheilbrigðisþjónusta verði gjaldfrjáls
- Vill að aðgengi að sálfræðiþjónustu verði jafnt um allt land án tillits til efnahagslegrar afkomu
Flokkur fólksins:
- Hefur Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi í öllum málefnum er varða börn
-Leggur áherslu á að börn fái alltaf hlustun og njóti ávallt vafans segi þau frá ofbeldi
- Leggur áherslu á samvinnu skóla, grasrótarsamtaka og heimila í þessum málum sem öðrum er varðar börn
- Leggur áherslu á fræðslu um viðbrögð fullorðinna ef barn segir frá ofbeldi
- Leggur áherslu á fræðslu til stofnana og fagstétta um tilkynningarskylduna
Margt annað var rætt sem Flokkur fólksins tók undir þar á meðal að staða brotaþola í ofbeldismálum er óviðunandi. Brotaþolar verða að fá aukna aðkomu að eigin málum!

Dýraníð, finna þarf gerendur dýraníðs og hjálpa þeim að stöðva atferlið
18.9.2017 | 19:24
Barnaníðingar kasta gjarnan út netum sínum á Netinu
30.8.2017 | 13:22
Ég vil leggja áherslu á það sem kom fram í viðtali við Berg Þór í Kastljósinu í gær er varðar aðdraganda að kynnum barnaníðinga við fórnalömb sín á Netinu, hversu langur og lúmskur aðdragandinn getur verið.
Hér koma glefsur úr fræðsluerindinu
MINN LÍKAMI, MÍN SÁL
Barnaníðingar kasta gjarnan út netum sínum á Netinu.
Þar fara oft fram fyrstu kynni
Níðingurinn segist oft vera annar en hann er. Hann byggir upp trúnað, traust og vináttu barnsins jafnvel í langan tíma t.d. með því að:
Segjast vera vinur, skilja vel hugsunar og líðan barnsins, sýnir því umhyggju, segist hafa oft liðið eins og að hann vilji hjálpa því
Reynir að grafa undan trausti þess gagnvart fjölskyldu
Lofar gjöfum, peningum eða annarri skemmtun
Þegar trúnaður hefur myndast þá tekur hann næsta skref og vill fá barnið til að ganga lengra t.d.:
Taka af sér (alls kyns) myndir og senda sér
Fá barn/ungling til að fækka fötum, afklæðast fyrir framan vefmyndavél og vera þannig þátttakandi eða áhorfandi kynferðislegra tilburða og/eða hlusta með sér á klámfengið tal
Fá barn/ungling til að hitta sig
Ofbeldi gagnvart börnum af hvers lags tagi er málaflokkur sem aldrei má sofna í samfélagsumræðunni.
Fræðsluerindið MINN LÍKAMI, MÍN SÁL er ætlað foreldrum, skólum og íþróttafélögum.
Farið er m.a. í eftirfarandi efnisatriði:
Helstu birtingamyndir kynferðisofbeldis
Hvaða börn eru helst í áhættuhópi?
Hvar getur misnotkun m.a. átt sér stað?
Þegar gerandi er nákominn
Forvarnir, fræðsla og fyrirbyggjandi aðgerðir
Samvinna skóla/grasrótasamtaka og heimila
Viðbrögð fullorðinna þegar barn segir frá
Vísbendingar um misnotkun
Á kolbrunbaldurs.is má nálgast nánari upplýsingar um þjónustu Sálfræðistofunnar þar á meðal fræðslu í boði.
Einnig er þar að finna eftirfarandi fræðslu- og viðtalsþætti um ofbeldismál þar á meðal kynferðisofbeldi gagnvart börnum:
SASA
SASA er félagsskapur karla og kvenna sem hafa sameiginlega reynslu af því að hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi einhvern tímann á lífsleiðinni.
Minn líkami, mín sál
Farið er yfir helstu atriði er varða varnir gegn kynferðisofbeldi gegn börnum.
Ofbeldi á meðgöngu
Viðtal við Hallfríði Kristínu Jónsdóttur.
Ýmsar hliðar heimilisofbeldis
Rætt við Sigþrúði Guðmundsdóttur, framkvæmdarstýru Kvennaathvarfsins.
Karlar til ábyrgðar
Viðtal við sálfræðingana Andrés Ragnarsson og Einar Gylfa Jónsson um meðferð fyrir karla sem beita ofbeldi á heimili sínu.
Kynferðisleg áreitni á vinnustað
Viðtal við Brynhildi Flovez, lögfræðing.
Þakklát fyrir að tilheyra þessari þjóð og eiga þess kost að njóta hennar menningar.
17.6.2017 | 19:38
Ég var við hátíðarhöldin í morgun á Austurvelli og það er satt sem fram hefur komið að lögreglan var ekki bara sýnileg heldur einnig býsna hávaðasöm á köflum. Eftir því var tekið að í miðjum kórsöng mátti heyra, "skipanir, hróp og köll" er varða siði í tengslum við að standa heiðursvörð.
En allt var þetta afar hátíðlegt og dásamlegt að heyra þjóðsönginn sunginn einmitt við þessar aðstæður. Það er ekki annað hægt en að fyllast þakklæti fyrir að tilheyra þessari þjóð og eiga þess kost að njóta hennar menningar. En það er eins og við vitum ekkert sjálfgefið.
Má ég fá að skreppa á klósettið hjá þér?
14.6.2017 | 19:42
"Efnahagsástandið er gott um þessar mundir á Íslandi og jafnvel betra en nokkurn tíman áður". Þetta kom fram í fréttum í kvöld. Á sama tíma er aukning í tilfellum þar sem fjölskyldur búa við óviðunandi aðstæður, hafa sem dæmi ekki aðgang að eldhúsi, baðaðstöðu, jafnvel ekki salerni. Fram hefur einnig komið að sá hópur sem býr í ósamþykktu húsnæði s.s. iðnaðarhúsnæði hefur stækkað.
Gleymum ekki góða fólkinu sem hefur sinnt sínum störfum með fötluðu fólki af alúð, nærgætni og fagmennsku
16.2.2017 | 19:52
Mitt í þeim fréttum sem nú berast um ofbeldi starfsmanna gegn fötluðu fólki þar sem það var vistað langar mig að beina athygli að þeim fjölmörgu starfsmönnum sem hafa ávallt sinnt starfi sínu með fötluðu fólki af alúð og nærgætni. Það hlýtur að vera erfiðara en tárum taki að vera í þeirra sporum nú þegar fréttir um ofbeldi og vanrækslu þessa varnalausa minnihlutahóps berast. Gleymum ekki góða fólkinu sem hefur verið í þessum störfum og sinnt því af natni og fagmennsku!!