Einelti á vinnustöðum, fræðslumyndband
15.7.2016 | 14:53
Einelti á vinnustöðum: skilgreiningar, birtingamyndir, afleiðingar, gerendur og þolendur
Finna má fleiri myndbönd um sambærilegt málefni og almennt um samskipti á KOMPÁS, þekkingar- og fræðsluvef.
Einnig á www.kolbrunbaldurs.is
Framkoma og hegðun í krefjandi aðstæðum
15.7.2016 | 10:25
Samskipti á vinnustað, myndband á KOMPÁS
24.6.2016 | 10:28
Hér er eitt af myndböndunum sem finna má á KOMPÁS, fræðslu- og þekkingarvef um miðlun hagnýtra upplýsinga.
Myndbandið fjallar um samskipti á vinnustað og samskipti almennt.
Grunnur að góðum samskiptum
Á KOMPÁS má einnig finna stutt myndbönd sem fjalla um birtingarmyndir eineltis, orsakir, einkenni og aðstæður þolenda og gerenda, verkferla og verklag við úrvinnslu eineltiskvartanna á vinnustöðum
Sjá einnig upplýsingar á www.kolbrunbaldurs.is
Að setja mörk og segja skilið við meðvirkni og þörfina að þóknast
1.5.2016 | 14:01
Það býr í flestu fólki þörf og löngun til að hjálpa og styðja sína nánustu og einnig aðra bæði þá sem við umgöngumst en líka ókunnugt fólk. Og þannig á það að vera. Okkur ber að huga að náunganum, rétta honum hjálparhönd og eftir atvikum stíga út fyrir þægindarammann til að aðstoða aðra. Góðmennska og hjálsemi er eitt aðallímið í samfélagi eins og okkar.
En hjálpsemi á sína öfgafullu og ýktu birtingamynd eins og allt annað. Það er t.d. þegar hjálpsemin er drifin áfram af tilfinngum meðvirkni og þörfinni fyrir að þóknast. Fólk sem er krefjandi og þurftarfrekt gengur iðulega á lagið gagnvart þeim sem eiga erfitt með að segja nei eða setja eðlileg mörk. Gagnvart krefjandi fólki upplifa hinir meðvirku sig oft í stöðu bjargvættar eða verndara. Í þessum tilfellum getur hjálp-, og greiðsemin farið að vinna gegn þeim sjálfum og er jafnframt ekkert endilega að gagnast þeim sem hana þiggur. Sá sem er læstur inn í boxi meðvirkni leyfir oft hinum krefjandi einstaklingi að ná stjórn á sér og stýra líðan sinni. Sé hann ósáttur og vansæll, er meðvirki hjálparaðilinn það líka.
Krefjandi einstaklingar
Þegar talað er um að einhver sé krefjandi er verið að vísa til fólks sem er ítrekað að biðja um eitthvað sem það þarfnast eða kvarta yfir að vanta og nota þá samskipti s.s. að heimta, nöldra eða kvabba. Stundum er það vegna þess að þeim finnst þeir eiga bágt og geti ekki aðra björg sér veitt. Þeir sem eru frekir á aðra, (stundum vísað til sem orkusugur) er oft fólk sem líður af einhverjum orsökum illa. Sumir hafa lágt sjálfsmat og eru óöryggir með sig og/eða eru í erfiðleikum með sjálfa sig. Vegna vanlíðunar geta þeir orðið ofuruppteknir af sjálfum sér, aðstæðum sínum og tilætlunarsamir og eiga þar að leiðandi erfiðara með að setja sig í spor annarra. Þetta er einnig stundum fólkið sem finnst það fá minna en aðrir; finnst það ekki fá næga athygli; finnst að ekki sé tekið eftir verðleikum þess eða finnst að það fái ekki það sem það verðskuldar. Því finnst það jafnvel vera óheppnara en aðrir eða vera beitt meira órétti/óréttlæti en almennt gengur og gerist. Til að fá sínu framgengt, eða til að fá vorkunn og samúð notar það oft ákveðin stýritæki í samskiptum s.s. svipbrigði, fýlu, hunsun, þögn/þagnir eða aðrar neikvæðar tilfinningar og sá þannig fræi vanlíðunar og óöryggis í hjarta þeirra sem þeir umgangast.
Sá sem á erfitt með að setja öðrum mörk og er meðvirkur er iðulega viðkvæmur gagnvart þeim sem krefst mikils, enda finnst honum, í sinni meðvirkni, hann beri á einhvern hátt ábyrgð á líðan hans. Honum finnst hann skyldugur til að reyna að bæta líðan þessa einstaklings og gera hann glaðari. Í viðleitni sinni til að hjálpa fer hann jafnvel að stjórna eða plotta bak við tjöldin til að greiða leið þess sem gerir kröfurnar.
Innst inni veit hinn meðvirki stundum ósköp vel að hamingja og velgengni er að stærstum hluta í höndum hvers og eins. Engu að síður þorir hann oft ekki að að segja "nei" við hinum ýmsu kröfum eða setja nauðsynleg mörk því hann óttast sterk viðbrögð og höfnun. Ákveði hann að setja mörk fær hann jafnvel samviskubit og finnst hann hafi brugðist.
Orsakir að baki meðvirkni og þess að geta ekki sett öðrum mörk
Oft má leita orsaka meðvirkni og þess að vilja þóknast í uppeldisaðstæðum. Hugmyndir og skilaboð sem komin eru úr því umhverfi sem einstaklingurinn ólst upp í hafa iðulega mikil og oft varanleg áhrif. Ekki er óalgengt að foreldrar hafi verið fyrirmyndir og tekur einstaklingurinn ýmsar venjur og siði upp eftir því hverju hann vandist á sínu bernskuheimili. Hafi viðkomandi horft upp á meðvirka hegðun foreldris t.a.m. á heimili þar sem annað foreldri var alkóhólisti eða haldið alvarlegum geðrænum erfiðleikum, er allt eins líklegt og hann tileinki sér samsvarandi hegðun og viðbrögð í samskiptum við aðra.
Segja stopp við meðvirkni og að vera sífellt að reyna að þóknast
Ef ekki eru sett mörk er víst að einhverjir gangi á lagið og geri ítrekaðar kröfur sem erfitt getur verið að mæta. Jafnvel þótt þeim hafi verið mætt, koma bara nýjar og fleiri. Sá sem ekki getur sett mörk og er meðvirkur á það á hættu að vera ofnotaður og jafnvel misnotaður. Af vorkunn og samviskubiti heldur hann oft engu að síður áfram að leita leiða til að uppfylla kröfur og telur sig með því vera að bæta líðan þess sem krefst eða biður.
Það hefur verið margsýnt fram á að þeir sem ekki setja mörk eru í hættu á að fara fram úr sjálfum sér, verða ofurþreyttir og fullir streitu og kvíða með tilheyrandi fylgifiskum. Stundum eru þeir fylgifiskar alls kyns andlegir og líkamlegir kvillar og eða ánetjun á áfengi, mat eða öðru sem þeim finnst geta sefað álagið.
Þegar svo er komið þarf að grisja bæði kröfur sem aðrir gera og einnig kröfur sem viðkomandi gerir til sjálfs sín. Fyrsta skrefið er að láta af allri stjórn, viðurkenna vanmátt sinn í málum sem viðkomandi hefur ekki eða á ekki að hafa með að gera. Láta verður af allri stjórnsemi, vélabrögðum og tilraunum til að stjórna umhverfinu hvort heldur leynt eða ljóst. Leggja verður áherslu á að vera heiðarlegur, opinn og einlægur gagnvart sjálfum sér og öðrum. Afneitun og bæling eða réttlæting af einhverri sort á ekki heima í þessari vegferð.
Skoða þarf hvað er mitt og hvað er annarra að gera, skipuleggja, annast um o.s.frv. Horfast þarf í augu við hvernig hræðsla við að vera ekki vinsæll, skemmtilegur eða duglegur hefur stjórnað og hvernig viðkomandi hefur e.t.v. um langt skeið verið að þóknast öðrum af ótta við að vera gagnrýndur, baktalaður eða jafnvel hataður. Feiri spurningar geta hjálpað til að kortleggja sjálfan sig í þessari vinnu:
Hvert er mitt hlutverk?
Hvar liggur mín ábyrgð?
Hef ég verið að fara duldar leiðir til að stjórna?
Er ég einhvers staðar að vinna bak við tjöldin til að hafa áhrif?
Þessi vinna reynist mörgum erfið því þeir óttast svo mjög höfnun, eða að "viðkomandi" verði sér reiðir, sárir eða fari í fýlu í versta falli hætti jafnvel að tala við þá. Þó er það vitað að þeir sem geta ekki sett öðrum mörk geta allt eins komist að því að þegar þeim vantar sjálfum hjálp eru þeir sem hann hefur verið að liðsinna svo mikið ekki endilega reiðubúnir að gjalda líku líkt. Þeir sem setja sjálfum sér og öðrum eðlileg mörk eru mikið líklegri til að öðlast bæði ríkari sjálfsvirðingu og virðingu annarra.
Þeir sem eiga erfitt með að segja nei hafa kannski lengi verið að ganga á eigin varaforða og eru farnir að finna fyrir togstreitu og pirringi sem oftar en ekki beinist síðan að einhverjum allt öðrum. Áður en svo langt er gengið er ekki úr vegi að fara yfir verkefnalistann og athuga hvort ekki megi grisja hann. Leiðin út úr ofurábyrgð og meðvirkni hefst í okkar eigin hugsanagangi. Spyrja þarf sjálfan sig:
- Hver er tilgangurinn og markmið með þessu verki ...?
- Vil ég gera þetta?
- Þarf ég að gera þetta?
- Hvers vænti ég ef ég geri þetta...?
- Fyrir hvern er ég að gera þetta..?
- Hver segir að ég eigi að gera þetta...?
- Hvaðan koma þessar væntingar/kröfur..?
- Hef ég verið beðin um þetta...?
- Á ég að segja nei við þessu..? þar sem þetta er á könnu annars?
Það er á hvers manns ábyrgð að setja mörkin fyrir sig og umfram allt, ekki láta stjórnast af ótta við höfnun eða ótta við að verða ekki elskaður og dáður, virtur eða vinsæll. Neikvæðar hugsanir um aðra manneskju er vandamál þess sem á þær hugsanir en ekki þess sem þær eru um.
Í blíðu og stríðu
21.4.2016 | 10:30
Sambandsvandi á sér ýmsar birtingamyndir. Stundum eru árekstrar vegna mismunandi væntinga, gildismats eða ólíkra persónuleikaþátta sem rekast illa saman. Einnig vegna trúnaðarbrests, tortryggni og vantrausts sem stundum á rætur að rekja til framhjáhalds eða tilfinningalegra samskipta annars aðilans við aðra manneskju.
Stundum liggur vandinn í "valdabaráttu", þörfinni að stjórna. Þá einkennast samskiptin af því að annar eða báðir aðilar finnst þeir þurfa ávallt að hafa síðasta orðið og telja sig alltaf hafa rétt fyrir sér. Í öðrum tilfellum liggur vandinn í andlegum og/eða líkamlegum erfiðleikum eða ofbeldishegðun sem má rekja til skapgerðabresta og/eða geðrænna erfiðleika. Pör sem eru mikið að þrasa, rífast um allt og ekkert eru stödd á einhverjum óskilgreindum stríðsvettvangi en vita ekkert endilega alltaf um hvað þau eru að rífast eða út á hvað ágreiningurinn gengur. Stundum er vandinn fjölþættur og á rætur að rekja í mörgum þáttum Langvarandi vandi er oftar en ekki farinn að hafa skaðleg áhrif á alla fjölskylduna.
Sé "valdabarátta" til staðar í upphafi sambands eða fljótlega eftir að aðilar byrja saman er líklegt að hún loði við og verði til staðar áfram nema aðilar geri sér grein fyrir vandamálinu og taki meðvituð, ákveðin skref til að leysa það. Pör sem eru hætt að tala saman lýsa því oft að fyrst í sambandinu hafi þau geta talað endalaust saman en svo hafi samskiptavandi með tilheyrandi vansæld, svekkelsi og öðrum fylgikvillum leitt þau smám saman inn í þögn eða langvinna "fýlu."
Ráðgjöf
Í mörgum tilfellum tekst með aðkomu þriðja aðila að bæta sambandið sé á annað borð vilji beggja til þess. Stundum hefur annar aðilinn ákveðið að yfirgefa sambandið en vill fara milda leið að því með því að fara í ráðgjöf og geta þá sagt við sjálfan sig og aðra að allt hafi verið reynt. Með því að fara í ráðgjöf fær sá aðili sem hefur ákveðið innra með sér að vilja skilnað frekari fullvissu um hvort það sé sú leið sem hann vill raunverulega fara.
Rót vandans leitað
Eitt af fyrstu skrefum fagaðilans er að skoða rót vandans eða upphaf hans og hvernig hann hefur þróast. Í sumum tilfellum, t.d. ef vandinn liggur í íþyngjandi hegðun annars eða beggja aðila þarf að fara hina leiðina í vinnslunni þ.e. að breyta/stilla/milda eða aðlaga atferlið sem um ræðir til að gefa rými og tíma til að skoða nánar rót vandans. Til að skilja vandann og þróun hans betur er oft gagnlegt að skoða á hvaða forsendum aðilar byrjuðu saman og á hvernig grunni sambandið er byggt? Stundum segir fólk að "hjónabandið" hafi meira svona "atvikast", eitt leitt að öðru og að eðlilegt framhald hafi verið hjónaband.
Í öðrum tilfellum segir fólk að sambandið sé byggt á traustum grunni ástar og virðingar og vissu um að hjónabandið væri eins skotheldur ráðahagur og hugsast gæti. Dæmi eru þó um að fólk segi að það hafi skynjað að "þetta" myndi hvorki ganga vel né lengi en samt ákveðið að ganga í hjónaband í þeirri von að hlutirnir myndu þróast með jákvæðum hætti. Það er einnig nokkuð algengt að ákvörðun um að ganga í hjónaband sé tilkomin til að tryggja erfðarréttindi enda séu þá komin börn og eignir og aðilar ákveðnir í að vera saman. Flestir ganga vissulega í hjónaband með væntingar um að hjónabandið haldi í gegnum súrt og sætt, í blíðu og stríðu.
Í para- og hjónaráðgjöf er skoðað hvaða tilfinningar og væntingar eru tengdar við aðstoð fagaðila. Báðir aðilar tjá sig um hvað þeim finnst jákvætt í sambandinu og hvað þeim finnst að þurfi að laga. Kanna þarf hvort aðilar vilja fara í að byggja upp og laga sambandið eða hvort öðrum aðilanum eða jafnvel báðum finnist sambandið hreinlega hafa runnið sitt skeið og séu þeir þá allt eins að leita eftir skilnaðarráðgjöf. Í mörgum tilfellum eru aðilar óvissir hvað þeir vilja, hugsanir og tilfinningar sveiflast til og óttast eiginlega bæði að halda sambandinu áfram en kannski enn meira "að skilja."
Þessi mál eins og önnur geta verið afar ólík. Stundum eru aðilar komnir til sálfræðings til að fá aðstoð hans við að breyta maka sínum, jafnvel í grundvallaratriðum. Vissulega geta allir gert breytingar á eigin hugsun, viðhorfum sem leiðir til breyttrar og þá bættrar hegðunar. Til að sjá nauðsyn þess að breyta eigin atferli þarf viðkomandi að hafa innsæi í "sjálfan sig", vera tilbúinn að horfa með gagnrýnum augum á sinn hlut í málum, viðurkenna eigin mistök og geta sýnt sveigjanleika í samskiptum. Að baki breytingum sem þessum þarf að vera einlæga löngun til að vilja leggja sitt að mörkum til að bæta samskiptin við makann. Oft vill fólk leggja mikið á sig til að bæta sambandið þegar komið er inn á gólf sálfræðings.
Vinnslan
Fyrir fagaðilann er að finna út hvað aðilar vilja gera og hvort það er samhugur um að laga sambandið þannig að báðum geti liðið vel í því. Í vinnslunni felst að hjálpa aðilum að greina aðalatriði frá aukaatriðum, hvað það er sem aðilum finnst skipta máli þegar upp er staðið. Greina þarf hvort um er að ræða einhvern einn grunnvanda sem leitt hefur til ýmiskonar fylgivanda, eða hvort sambandið er komið í einhvern vítahring sem finna þarf leið til að klippa á. Í vinnslunni felst m.a. að setja markmið og gera áætlanir um hvernig nálgast skuli markmiðið. Allar tillögur og hugmyndir um betrumbætur eru unnar í samráði við parið enda vinnan þeirra þegar heim er komið. Fólk er "misopið" og oft finnst hinum "lokaða" einstaklingi betra að ræða viðkvæm mál sem þessi með aðstoð þriðja aðila.
Mál eru misalvarleg og djúpstæð. Erfiðustu málin eru þau sem orðið hefur tilfinningarlegt trúnaðarbrot milli aðila sem dæmi vegna framhjáhalds eða að annar aðilinn hefur verið í tilfinningalegu skriflegu sambandi við einhvern annan án tillits til hvort um stefnumót hafi verið að ræða eða ekki. Verði trúnaðarbrot er fótum trausts oft kippt undan þeim sem óttast að hann hafi verið svikin eða sé um það bil að verða svikin. Þegar tortryggni og vantraust hefur sáð sér getur verið afar erfitt að ná aftur fyrri stað í sambandinu. Tortryggni er eins og eitur sem býr um sig í iðrunum og skýtur upp kollinum við hið minnsta áreiti. Minning um trúnaðarbrot er iðulega geymd en ekki gleymd og er afar mismunandi hvort fólk nái takti að nýju og hvort þá sá taktur endist.
Öllum pörum er það hollt að spyrja sig hvort og hversu mikið þau þekkja hvort annað. Spyrja:
Ríkir traust, virðing, samheldni og gagnkvæmur skilningur milli okkar?
Getum við bæði átt okkar einstaklingslíf og samlíf/fjölskyldulíf án þess að eiga von á gagnrýni, óheiðarleika eða óeðlilegum höftum?
Ákvarðanir sem varða alla fjölskylduna svo sem þær sem hafa að gera með fjármál, búsetu, tímasetningu viðburða og tímalengd, börnin og annað grundvallarskipulag fjölskyldunnar verða að vera sameiginlegar.
Góð samskipti eru númer eitt og því meira gegnsæi, opin samskipti, hreinskilni og einlægni sem ríkir í sambandinu því meiri líkur eru á að það lifi og verði farsælt. Lífsstíll beggja þarf einnig að eiga saman og fólk þarf að geta talað saman, skilið hvort annað, hlustað á hvert annað og sett sig í spor hvers annars ef sambandið á að verða farsælt fyrir báða aðila. Farsælt samband einkennist ekki bara af því að vera rekið eins og gott fyrirtæki heldur að aðilar hlakki til að koma heim, hlakki til að hittast og vera saman og langi í nánd og samveru við hvort annað.
Þessi grein er byggð á viðtali við KB sem birtist í Brúðkaupsblaði Morgunblaðsins 15. apríl 2016
Meðvirkni í pólitík
10.4.2016 | 12:44
Allir geta í ákveðnum aðstæðum verið meðvirkir. Meðvirkni er andlegt ástand sem án fyrirvara og oft núvitundar skríður upp eftir bakinu og nær hálstaki á viðkomandi. Meðvirkni spyr hvorki um kyn, aldur, vitsmunaþroska, menntunarstig, félagslega stöðu, þjóðerni, trú eða nokkuð annað.
Mikið hefur verið talað um meðvirkni í þeim ósköpum sem gengið hafa á í stjórnmálunum að undanförnu. Upphaflega og lengst af var hugtakið meðvirkni(codependence) aðallega notað í tengslum við streituna sem fólk upplifir við að búa með alkóhólista eða fíkli.
Meðvirkni í stjórnmálum
Þegar talað er um meðvirkni í pólitík snýst hún oft um tryggð við samflokksmenn og stefnu. Djúpstæð tryggðartilfinning getur náð slíkum tökum á einstaklingi að hann er tilbúinn að ganga fram fyrir skjöldu og verja jafnvel vafasama hegðun samflokksmanns síns.
Feluleikur er eitt aðalsmerki meðvirkni. Reynt er að fela hinn raunverulega vanda eða í það minnsta alvarleika hans. Hugurinn fer á fullt að finna viðeigandi túlkun á "vandanum" og þeim raunveruleika sem umlykur hann. Reynt er að finna mildari vinkla og stundum er gripið til hreinnar afneitunar og bælingar með tilheyrandi réttlætingum. Allt skal gert til að halda ímyndinni jákvæðri út á við.
Í þessu ástandi tapar hinn meðvirki oft dómgreind sinni og hreinlega dettur úr tengslum við sitt innra sjálf. Hann byrjar að hagræða hlutum, jafnvel ljúga að sjálfum sér án þess að gera sér grein fyrir því.
Stundum er eins og einhvers konar sjálfvirkni taki við og hugur viðkomanda og tilfinningar læsast inn í boxi sem er allt að því brynvarið gegn rökum og jafnvel staðreyndum. Ekkert nær í gegn. Þess vegna er oft talað um meðvirkni sem sjúkdóm. Ástandið getur orðið geigvænlegt og fólk sem reynir að ná til hins meðvirka horfir á fjarrænt augnaráðið og hlustar á óminn af síendurteknum frösum sem verður eins og biluð grammófónplata. Hinn meðvirki hefur stimplað inn í huga sinn ákveðna útskýringu eða réttlætingu sem hann endurtekur í sífellu í þeirri von um að stimpla hana inn í huga annarra. Því oftar sem hann endurtekur sig því sannfærðari verður hann um að þetta sé sannleikurinn og að þeir sem halda einhverju öðru fram skorti skilning eða séu bara vitlausir, jafnvel vondir?
Hvað viðheldur meðvirkni?
Það getur verið flókið samspil ólíkra þátta sem orsakar og viðheldur meðvirknihugsun og hegðun. Ástæður og orsakir liggja m.a. í persónuleika-uppeldis- og aðstæðubundnum þáttum. Þegar horft er orsakir meðvirkni í stjórnmálum er auk skuldbindingar um tryggð einnig að spila inn í tilfinningar eins og samviskusemi, trúin að vera ómissandi og að sjálfsögðu væntumþykja og kannski einnig meðaumkun með þeim sem meðvirknin snýst um.
Meðvirkir einstaklingar kjósa oft, vegna eigin óöryggis, að vera frekar "fylgjendur" fremur en frumkvöðlar. Þeir sem hafa, af óttablandinni virðingu fylgt liði að baki t.d. "einræðisherrum" af einhverri sort eru oft mjög meðvirkir með leiðtoga sínum. Þeir standa jafnvel með honum út yfir gröf og dauða og gildir þá einu þótt sá hinn sami hafi gerst sekur um siðferðisbrot eða glæp.
Meðvirkniástand felur einnig í sér vissa eigingirni. Hinn meðvirki óttast um eigin hag spili hann ekki með. Hann óttast að vera "hent út" og utan hópsins muni hann e.t.v. ekki spjara sig nógu vel? Hann veltir fyrir sér eigin stöðu fari hann gegn hópmenningunni s.s. orðspori, hlutverkamissi, fjárhagslegri og félagslegri afkomu sinni og öryggi. Oft skortir einfaldlega kjark og áræðni til að mótmæla ríkjandi skoðun hópsins. Sá sem finnur að hann er hvorki sammála né sáttur og ákveður að fylgja eigin sannfæringu í aðstæðum sem þessum þarf að hafa stórt bein í nefinu og breitt bak. Hann þarf að vera tilbúinn að taka afleiðingunum kjósi hann að mótmæla og finnast að eigin samviska sé meira virði en þær. Stundum gerist það að samviskan sem kraumar undir niðri tekur völdin og brýtur sér leið gegnum meðvirknimúrinn. Varnirnar bresta þá stundum eins og spilaborg og manneskjunni finnst hún verða að bakka út ef sjálfsvirðingin á ekki að hljóta skaða af.
Gæfusmiðurinn
3.3.2016 | 13:25
Það er óhemju mikið lagt á börn sem alast upp við ótryggar fjölskylduaðstæður eins og drykkju foreldra, andleg veikindi þeirra eða heimilisofbeldi.
Þetta eru börnin sem aldrei geta vitað fyrirfram hvernig ástandið er heima þegar þau koma úr skólanum. Þrátt fyrir óvissu og óöryggi læra mörg að gæta leyndarmálsins. Mörg forðast að koma heim með vini sína og sum reyna að halda sig sem mest hjá vinum eða ættingjum eins og ömmu og afa ef þau eiga þess kost. Börn sem eiga yngri systkin finnst mörgum þau verða að vera til staðar á heimilinu til að geta verndað yngri systkini eða staðið vörð um foreldri ef þau óttast að ástandið verði slæmt á heimilinu.
Barn sem elst upp við erfiðar heimilisaðstæður sem þessar fer oftar en ekki á mis við hvatningu, fræðslu og viðhlítandi umönnun. Sum eru hreinlega vanrækt. Glími þetta sama barn einnig sjálft við einhverja röskun t.a.m. ADHD eða aðra röskun getur staða þess verið sérlega bágborin. Sama má segja um börnin sem eru að takast á við einhver afbrigði námserfiðleika, félagsleg vandamál eða annan vitsmunaþroskavanda.
Sjúktog skaðlegt samskiptakerfi s.s. öskur, hótanir, viðvarandi rifrildi eða langvarandi þagnir og samskiptaleysi eru algengar á heimilum þar sem foreldrar glíma við geðræn veikindi, fíkni- eða reiðstjórnunarvanda. Sum börn tileinka sér neikvæðan talsmáta sem þau heyra á heimilinu þar sem þau þekkja e.t.v. ekkert annað og telja samskipti sem þessi einfaldlega eðlileg. Mörg börn sem alast upp við erfiðar aðstæður eins og þessar koma út í lífið með brotna sjálfsmynd, vanmáttarkennd og óöryggi í félagslegum aðstæðum.
Þeir sem hafa verið aldir upp á heimilum þar sem sjúkt samskiptakerfi var við lýði, eiga oft sem fullorðið fólk erfitt með að lesa í aðstæður. Þeim hættir einnig til að oftúlka eða jafnvel misskilja orð og atferli. Einstaklingur með brotna sjálfsmynd á það einnig til að gera óraunhæfar kröfur til sjálfs síns og stundum einnig til annarra. Brotinni sjálfsmynd fylgir iðulega sjálfsgagnrýni og sjálfsniðurrif. Séu gerð mistök á einstaklingur með neikvæða sjálfsmynd afar erfitt með að fyrirgefa sér. Hugsanir á borð viðég er ómögulegur, ég er alltaf að gera mig að fífli, ég klúðra alltaf öllu eða það gengur aldrei neitt upp hjá mér vilja sækja á.
Óttinn við höfnun og neikvætt almenningsálit er daglegur ferðafélagi einstaklings sem hefur ekki mikla trú á sjálfum sér og líður illa í eigin skinni. Sé honum hrósað, þá líður honum jafnvel bara enn verr því honum finnst hann ekki eiga hrósið skilið. Hann einfaldlega trúir ekki að hann geti hafa gert eitthvað gott. Í samskiptum við aðra eru varnir einstaklings sem líður illa með sjálfan sig oft miklar. Sumir eiga í erfiðleikum með hreinskilni og finnst erfitt að tjá skoðanir sínar og tilfinningar. Að sama skapi getur hann átt erfitt með að setja ekki bara sjálfum sér mörk heldur einnig öðrum. Einstaklingur sem er með mikla minnimáttarkennd á iðulega erfitt með að taka gagnrýni. Hin minnsta athugasemd getur í verstu tilfellum framkallað sterk varnarviðbrögð sem leiðir af sér tilfinningu vonleysis og vangetu.
Þeim sem líður með þessum hætti hefur stundum skerta sjálfsvirðingu og tilfinning um verðleika getur verið dauf. Stundum nær minnimáttarkennd, pirringur og jafnvel öfund stjórninni, ekki bara á hugsun heldur einnig á atferli. Þá er stundum eins og sefjun finnst í því að skapa óreiðu. Tilgangurinn, meðvitaður eða ómeðvitaður, er e.t.v. á þessari stundu ekki alltaf ljós manneskjunni og leiði fylgir oft í kjölfarið.
Einstaklingi sem óttast að öðrum finnist hann lítils virði finnst sem hann geti ekki átt mikla hamingju skilið. Gangi honum vel og allt virðist ganga honum í haginn fyllist hann jafnvel óöryggi og kvíða. Hann er þess jafnvel fullviss að velgengni geti ekki varað lengi.
Þeim einstaklingi sem hér hefur verið líst finnur sig stundum í nánu sambandi við annan aðila sem glímir við sambærilegan vanda, stundum fíknivanda með tilheyrandi fylgifiskum.
Börn frá heimilum þar foreldri glímir við alvarleg andleg veikindi, þekkja e.t.v. fátt annað en skipulagsleysi, óvæntar uppákomur og óreiðu í uppvexti sínum. Þegar komið er á fullorðinsárin er þess vegna stundum ofuráhersla lögð á reglu og skipulag.
Birtingarmyndirnar eru margar s.s. ofur- hreinsi- og tiltektarþörf. Einnig rík þörf á að stjórna öðrum og hafa fulla stjórn á umhverfinu. Fyrirhyggjan, eins nauðsynleg og hún er, getur auðveldlega gengið út í öfgar. Allt þarf helst að vera fullkomið, en samt er aldrei neitt nógu gott. Hálfa glasið er áfram séð sem hálftómt en aldrei hálffullt. Stundum eru öfgarnar alveg í hina áttina þegar óreiða og skipulagsleysi nær yfirtökum í lífi einstaklingsins.
Það er vissulega mjög sammannlegt að efast stundum um sjálfan sig og finnast maður ekki vera að standa sig. Sjálfsöryggi sérhvers einstaklings tekur mið af mörgu, s.s félagslegum aðstæðum hverju sinni og hvort viðkomandi telji sig standast eigin væntingar og annarra. En fyrir þann sem er alinn upp í umhverfi þar sem reglur og norm voru hunsuð og almennum umönnunarþáttum jafnvel ekki sinnt, er baráttan við vanmáttartilfinninguna og óttinn við höfnun stundum daglegt brauð.
Þrátt fyrir erfiða bernsku virðast samt margir koma með eindæmum sterkir út í lífið. Þeim tekst, stundum með góðra manna hjálp að að átta sig á samhengi hlutanna, vinna með sjálfið og taka ákvarðanir sem koma þeim til góða til skemmri eða lengri tíma.
Ástæðan er sú að það eru ótal aðrar breytur, innri sem ytri sem hafa áhrif á heildarútkomuna. Sum börn eru svo lánsöm að hafa kynnst í uppvexti sínum, fólki sem tók þau að sér. Ömmur og afar geta verið sannir bjargvættir svo fremi sem þau eru ekki meðvirk með hinu sjúka foreldri. Sumir eru svo lánsamir að hafa persónuleikaeinkenni, s.s. gott mótlætaþol, þrjósku í jákvæðri merkingu, stolt og þrautseigju. Þættir sem þessir hjálpa þeim að berjast við fortíðardrauga og forðar þeim frá að festast í hlutverki fórnarlambsins.
En það kostar að jafnaði mikla og stöðuga vinnu að slíta af sér íþyngjandi fortíðarhlekki. Það kostar vinnu sem aðeins manneskjan sjálf getur unnið. Aðstoð fagfólks og ýmis handhæg meðferðarverkfæri eru oft nauðsynleg í þessari vinnu og stundum hjálpar lyfjameðferð til að slíta vítahring neikvæðra hugsana. Hafi einstaklingurinn yfir höfuð löngun til að ná tökum á tilverunni og verða skipstjóri á eigin fleyi þá er það góð byrjun.
Þegar unnið er með sjálfsmyndina eru bakslög óhjákvæmileg. Sjálfvirkar neikvæðar hugsanir vilja oft halda áfram að skjóta upp kollinum og framkalla hina gamalkunnu vonda líðan. Tilfinningin um hvað maður á bágt vill loða við og hvað aðrir voru vondir, ómögulegir og hvernig þeir brugðust. Tilfinningar sem búið hafa innra með manneskjunni frá barnsaldri hverfa ekki svo glatt. Þær komu til vegna ákveðinna aðstæðna. Stundum þarf einfaldlega að sætta sig við að þær verða verða þarna eitthvað áfram. Þær fá þá sína sérstöku skúffu en umfram allt má ekki leyfa þeim að stjórna daglegum athöfnum og ákvörðunum.
Sá dagur getur markað nýtt upphaf þegar manneskjan segir við sjálfan sig Ég er minnar gæfu smiður. Þar með ákveður viðkomandi að hefja hreinsun í hausnum á sér og taka til í sínu lífi. Hálfnað er verk þá hafið er segir máltækið. Vinnan felst m.a. í að forgangsraða, henda út úreltum hugsunum sem bara láta manni líða illa. Hlúa þess í stað að styrkleikunum og beina sjónum að því góða sem er innra og allt um kring. Sem fullorðinn er það aldrei of seint að byrja að taka stjórn á því sem maður getur í raun og sann stjórnað, sjálfum sér.
Fyrirmyndarþingmaðurinn, er hann til?
20.12.2015 | 12:30
Fyrirmyndarþingmaðurinn er sá sem er heiðarlegur, yfirvegaður, vinnusamur, málefnalegur en einnig beittur. Umfram allt þarf hann að hafa almenna hagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi og forðast allt sérhagsmunapot.
Situr þessi þingmaður á þingi núna?
Á þessu haustþingi hefur ýmislegt gengið á eins og oft áður. Þingmenn hafa talað um andlegt ofbeldi, verstu verkstjórn þingsins hingað til, gerræðisleg vinnubrögð o.s.frv.
Verðum við sem þjóð ekki að fara að huga að alvöru breytingum til að laga þetta?
Ef samskipti eiga að verða jákvæðari og heilbrigðari á þinginu hlýtur að verða að breyta vinnufyrirkomulaginu.
Frá því að elstu menn muna hafa samskipti á þingi átt það til að vera á lágu plani, karp, þras og ásakanir sem ganga á víxl. Margir segja kannski bara "hva, er þetta ekki bara eins og þetta á að vera? Svona eru jú stjórnmálin?"
Til að auka líkur á jákvæðum samskiptum og faglegum vinnubrögðum þarf að finna stjórnarandstöðunni annan farveg til að koma málum að, taka þátt og hafa áhrif. Hægt að horfa til þinga sem eru að virka vel? Til dæmis þar sem minnihluti og meirihluti vinna saman, ræða saman, mætast í umdeildum málum og eiga vitrænar samræður þjóð sinni til heilla. Þetta má sjá t.d. á danska þinginu.
Er kannski bara mannskemmandi að vera í stjórnarandstöðu?
Á Alþingi Íslendinga er eina tæki stjórnarandstöðunnar að beita málþófi og senda stjórnarliðum tóninn, beitt orð sem stundum verða, í hita leiksins helst til of hvöss. Við þessar aðstæður er stutt í pirring og ergelsi. Stjórnarliðar eru iðulega margir hverjir engu skárri og svara til baka á sama lága planinu.
En það hlýtur að reyna oft á þolrifin að vera í stjórnarandstöðu. Að vera kosin til áhrifa þar sem þér er ætlað að standa þig en fá síðan litla hlustun hvað þá að geta komið að breytingum. Svo slæm hafa samskiptin orðið og andrúmsloftið að þingmenn hafa að undanförnu talað um andlegt ofbeldi og að persónulegar árásir eigi sér stað milli einstaka þingmanna.
Hvað er átt við þegar talað er um að eitthvað sé persónulegt?
Þegar viðhorf og skoðun einhvers er tengt þér sem persónu, t.d. "að þú hafir þessa skoðun því þú sért svo vitlaus eða illa upplýst(ur)" eða ef slíkt er sett í samband við útlit, hugmyndafræði, aðstæður, gildi, kyn eða trú þá er talað um að eitthvað sé persónulegt. Manneskjan sem þessu er beint að upplifir að verið sé að gera lítið úr henni, hæðast að henni eða verið sé að níða hana.
Vondur mórall á þinginu?
Sé þess aðgætt að fara ekki yfir mörkin í samskiptum og reyna að halda þeim á sæmilega kurteislegum nótum er ekki loku fyrir það skotið að menn geti átt þokkalegt samstarfssamband þrátt fyrir að vera á öndverðum meiði í stórum og erfiðum málum. Einstakir sem senda hvor öðrum tóninn endrum og sinnum eru engu að síður félagar og jafnvel vinir utan þingsalar.
Það er vel hægt að vera málefnalegur en samt beittur og ákveðinn. Það má gagnrýna vinnubrögð, meðhöndlun máls, aðgerðarleysi eða lýsa yfir óánægju með verklag eða hvað eina án þess að ráðast á manneskjuna sjálfa sem persónu.
En þegar einhverjum finnst hann með öllu áhrifalaus enda þótt hann sé á launum við að "hafa áhrif" getur kannski verið erfitt að halda yfirvegun. Í þessum aðstæðum finnur fólk gjarnan til vanmáttar, finnst það komið út í horn. Alveg sama hversu aðstæður eru slæmar og staðan oft vonlaus er neikvæð framkoma og dónaskapur alltaf á ábyrgð þess sem hana sýnir. Hver og einn verður að gera upp við sig hvort hann sé sáttur við framkomu sína og samskipti við samstarfsfélaga sína.
Þingmaður sem er mjög dónalegur og grófur í tali gagnvart öðrum þingmanni styrkir varla stöðu sína. Reyndar er eins og sumum sem á slíkt hlusta finnist þetta auka virðingu og vegsemd viðkomandi þingmanns og vera merki um kraftmikinn og áræðinn þingmann. Sumir hafa e.t.v. gaman af þessu, finnst þetta flott, hugsa já láttu hann bara hafa það o.s.frv. Í öðrum kann að hlakka, hugsa kannski gott á helvítið, eða já og þetta eru nú ráðamennirnir sem þjóðin kaus o.s.frv., fjör á þinginu ha!
Þingmenn eru fyrirmyndir
Hafa skal í huga að þingmenn eru fyrirmyndir. Börn og unglingar heyra fréttir af hamaganginum á þinginu. Alist börn upp við að horfa á fullorðið fólk tala með þessum hætti hvert við annað er hætta á að þau telji þetta vera eðlilegur talsmáti og viðurkennd framkoma. Sumt fullorðið fólk af báðum kynjum tekur sjálft þátt í persónulegu skítkasti t.d. á samfélagsmiðlunum þar sem þeir láta móðan mása um einhverja manneskju og spara þá ekki ljótu orðin. Margir hugsa kannski, fyrst þingmenn leyfa sér að tala svona illa um þessa manneskju get ég gert það líka?
Gera þingmenn sér yfir höfuð grein fyrir hversu sterk fyrirmynd þeir eru bæði gagnvart fullorðnum og börnum?
Andlegt ofbeldi
3.12.2015 | 16:30
Þegar talað er um að einhver sé beittur andlegu ofbeldi er oftast átt við ofbeldi sem varir yfir einhvern tíma frekar en t.d. einstaka neikvæða framkomu sem sýnd er vegna mikils pirrings eða skyndilegrar reiði. Þá getur verið um að ræða ákveðnar aðstæður þar sem ágreiningur er í gangi, deilur eða óvæntar uppákomur hafa átt sér stað.
Andlegt ofbeldi í sinni verstu mynd getur verið afar dulið, stundum þannig að það tekur þann sem fyrir því verður jafnvel einhvern tíma að átta sig á að hann er beittur því. Í andlegu ofbeldi felst ekki alltaf bara ljót orð eða hótanir heldur er "ofbeldið" sýnt með ýmsu líkamsmáli s.s. tónninn í röddu getur verið ógnandi, einnig svipbrigði og fleira í tjáningunni sem ætlað er að styðja við ljótu orðin og svívirðingarnar.
Sem dæmi, væri ég beitt grófu andlegu ofbeldi af einhverjum er ég að vísa í orðbundna og/eða táknræna hegðun/framkomu sem ég upplifi særandi, niðurlægjandi, hótandi eða meiðandi á einhvern hátt.
Ég væri að skynja/upplifa a.m.k.eitthvað eða allt af eftirfarandi:
Fjandsamlega framkomu viðkomandi gagnvart mér og að hann/hún vilji stjórna mér
Niðurlægingu, skömm þar sem viðkomandi, stundum í viðurvist annarra, gerir lítið úr mér, gagnrýnir mig, reynir að gera mig að athlægi eða vill sem oftast benda á og gera mikið úr "göllum" sem honum eða henni finnst ég hafa. Gagnrýnin er yfirleitt mjög persónuleg og varðar þá oft vitsmuni (vera heimskur) og/eða útlit.
Gerandi andlegs ofbeldis í sinni verstu mynd gagnrýnir e.t.v. einnig ákvarðanir sem ég hef tekið eða ekki tekið, eða eitthvað sem ég hef gert eða ekki gert, sagt eða ekki sagt, hvernig ég hef staðið mig o.s.frv.
Í stuttu máli hvað eina í mínu fari og atferli er ekki nógu gott heldur vill gerandinn benda stöðugt á hversu ómöguleg manneskja ég er. Hann gerir sér því far um að koma því á framfæri sem oftast og með sem skýrustum hætti og jafnvel við sem flest tækifæri.
Í andlegu ofbeldi felst oft illkvittni, eins og sá sem beitir því óski þess að illa fari fyrir manneskjunni sem hann beitir ofbeldinu eða í það minnsta óskar hann þess að hún geri mistök. Þá er jafnvel eins og hlakki yfir gerandanum. Þá hefur hann einnig enn meira milli handanna til að spila úr þegar hann vill sverta og svívirða manneskjuna sem hann beitir ofbeldinu.
Ef einhver segist vera beittur andlegu ofbeldi er hann eða hún oftast að vísa í eitthvað viðvarandi, endurtekið, eitthvað sem manneskjunni finnst hún búa við (á heimili eða vinnustað) og sem vofi yfir henni. Um er að ræða eitthvað sem hún getur vænst en veit kannski ekki alveg nákvæmlega hvenær, í hvernig mynd eða við hvaða aðstæður það birtist næst.
Það sem einkennir persónuleika geranda andlegs ofbeldis er ekki bara að vera gagnrýninn og dómharður heldur vill hann gefa af sér mynd þess aðila sem veit allt best, sé sterkur og sá sem hefur valdið. Þess vegna notar hann tækifæri sem gefast til að niðurlægja manneskjuna sem hann beitir ofbeldinu því þá finnst honum hann vera að upphefja sig. Þá finnst honum hann vera að styrkja sig og skerpa enn frekar á þessum mikla mun á sér og "hinum", sér í hag, hinum síðarnefnda í óhag.
Í framkomu geranda andlegs ofbeldis (í sinni verstu mynd) má iðulega finna mikla stjórnsemi, ósveigjanleika, óbilgirni og ósanngirni sem er liður í að valda manneskjunni sem beitt er ofbeldinu sem mestri vanlíðan og sérstaklega vanlíðan með sjálfa sig.
Hvar eru mörkin?
Sá sem sýnir annarri manneskju neikvæða framkomu er ekki endilega gerandi "andlegs ofbeldis", sér í lagi ef viðkomandi sýnir ekki slíka framkomu að öllu jöfnu og jafnvel mjög sjaldan. Sennilega hafa flestir einhvern tíman sagt ljóta hluti við manneskju t.d. í bræðiskasti eða í ergelsi t.d. ef deilur eru í gangi eða ef manni ofbýður eitthvað í fari einhvers.
Reglan er engu að síður ávallt sú að þegar einhver segist beittur ofbeldi að gera þá aldrei lítið úr upplifun manneskjunnar hvort heldur hún sé að andlegu eða líkamlegu ofbeldi þar með talið ofbeldi eins og einelti. Á vinnustöðum skal þess vegna ávallt skoða slíkar kvartanir vandlega. Sama gildir um heimilisofbeldi. Þann vanda verður samfélagið að berjast gegn, allir sem einn.
Samantekt
Sá sem beitir andlegu ofbeldi notar það til að stjórna og brjóta niður sjálfsmynd og sjálfsvirðingu manneskjunnar sem hann beitir ofbeldinu. Afleiðingin verður m.a. sú þolandinn fer að líta á sig með neikvæðum augum og trúa að hann/hún sé ómöguleg manneskja, ónýt manneskja, síðri en aðrir, manneskja sem geti ekkert, kunni ekkert, skilji ekkert og sé gagnslaus. Markmiðið með ofbeldinu, meðvitað eða ómeðvitað er að minnka manneskjuna og planta inn í hana vanlíðan og óöryggi um sjálfa sig. Mjög oft er markmið gerandans einnig að gera manneskjuna háða sér, eða aðstæðunum, fá hana til að trúa að hún geti ekki staðið ein eða verið sjálfstæð og megi bara þakka fyrir að einhver vilji vera með henni eða að ekki sé bara búið að reka hana sé um að ræða vinnustað.
Hvað býr innra með geranda andlegs ofbeldis er efni í annan pistil.
Hrafn Jökulsson, eldhugi og hugsjónarmaður sem fær fólk með sér
20.11.2015 | 16:45
Hrafn Jökulsson hlaut í dag Viðurkenningu Barnaheilla Save the Children á Íslandi árið 2015. Með Hrafni á myndinni eru Stefán Þór Herbertsson, Erna Reynisdóttir, Róbert Lagerman og Kolbrún Baldursdóttir.
(Úr ræðu formanns)
"Hrafn hefur verið óþreytandi við hugsjónastarf á Íslandi og Grænlandi. Hann og félagar hans í skákfélaginu Hróknum hafa ásamt nánum samstarfsfélaga, Stefáni Þór Herbertssyni, formanni KALAK, vinafélagi Íslands og Grænlands boðað fagnaðarerindi skákar og vináttu meðal Austur-Grænlendinga.
Hrafn er landsþekktur eldhugi og rithöfundur og frábær fyrirmynd. Óhætt er að segja að hann hugsi stórt og kunni að virkja fólk til þátttöku í ævintýrum sínum. Hann er vel meðvitaður um mikilvægi þess að börn hafi trú á sér og veit að gott sjálfstraust byggir á mörgum stólpum. Sá andlegi grunnur sem Hrafn og félagar hans hafa styrkt með því að kenna börnum skákíþróttina felur í sér fjölþætta færni. Hún þjálfar m.a. sjónminni og sjónræna rökhugsun, þjálfar barn í að hugsa sjálfstætt, viðhafa gagnrýna hugsun, fást við óhlutbundin viðfangsefni og finna rökleg tengsl.
Þannig leggur skákíþróttin svo ótal margt á vogarskálar þroska barns sem hana stundar. Auk einbeitingar sem skákin krefst, þolinmæði og sjálfsaga, auðgar íþróttin ímyndunaraflið og iðkendur læra að hugsa í lausnum. Skákíþróttin kallar á hugrekki, að þora að taka ákvörðun og hún þjálfar iðkendur í að lesa í, greina og meta stöðu.
Félagslegur ávinningur þeirra sem stunda skákíþróttina á sér einnig margar hliðar. Tengsl myndast þótt aðilar hafi það eina markmið sameiginlegt, að tefla skák og ætla að vinna hana.
Þannig getur skákborðið laðað að börn frá gjörólíkum menningarheimum, eins og Hrafn lýsir sjálfur:
Skákin er einfaldlega frábært tæki til þess að efla samskipti og vináttu enda þarf enga tungumálakunnáttu til að læra leikreglurnar og allir geta verið með.
Þetta viðhorf samrýmist vel hugsjónum Barnaheilla, sem hafa lagt mikla áherslu á VINÁTTUNA með t.a.m. Vináttuverkefni Barnaheilla sem á þriðja tug leikskóla hafa tekið upp frá og með byrjun næsta árs. Viðhorfið styður jafnframt það sem Barnaheill á Íslandi hefur reglulega minnt á í ræðu og riti og það er rétt barna til tómstunda og þátttöku í lífi og leik, óháð stöðu foreldra þeirra í þjóðfélaginu.
Skákin hentar þannig einstaklega vel í samfélagi eins og á Grænlandi þar sem landfræðilegar aðstæður og mannfæð bjóða börnum almennt ekki upp á mörg tækifæri til tómstundaiðkunar. Með skáklandnámi Hróksins og KALAK á Grænlandi hefur fjöldi Grænlenskra barna fengið tækifæri til að þroska með sér þá færni sem skákíþróttin veitir, sem þau hefðu mögulega annars farið á mis við.
Skákfélagið Hrókurinn var stofnað í kringum aldamótin af Hrafni og félögum hans sem tefldu saman á Grandrokk og naut félagið mikillar velgengni. Það átti fyrir rest 13 gullpeninga og var Íslandsmeistari í skák. Vinafélag Grænlands og Íslands, KALAK, var stofnað í Norræna Húsinu í Reykjavík miðvikudaginn 4. mars 1992 og voru stofnfélagar 43.
Skáklandnám Hróksins og Kalak á Grænlandi hófst um 2003 en á þeim tíma var skák nær óþekkt á Grænlandi. Alþjóðlegt skákmót var haldið í fyrsta sinn á Grænlandi það sama ár.
Í gegnum skákina hafa þessar tvær þjóðir, Ísland og Grænland orðið sem ein fjölskylda en, Við erum ein fjölskylda, er einmitt kjörorð skákmanna. ´
Síðan þá hafa liðsmenn Hróksins og Kalak ekki einvörðungu heimsótt fjölda bæja og þorpa og kennt börnum skák heldur hafa einnig gefið börnum á Grænlandi gjafir svo sem taflsett, fatnað og aðrar nauðsynjavörur.
Og að lokum er gaman að nefna að Hrafn og Hrókurinn hefur frá upphafi verið virkur þátttakandi í því sem kallað er sundkrakkaverkefni Kalak, vinafélags Íslands og Grænlands. Á hverju ári, undanfarin 10 ár, hefur 11 ára börnum frá litlu þorpunum á austurströnd Grænlands verið boðið til Íslands, að læra sund og kynnast íslensku samfélagi".
Úr ræðu formanns Barnaheilla- Save the Children á Íslandi við afhendingu viðurkenningar Barnaheilla 2015. Athöfnin var haldin 20. nóvember á afmæli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
LÍFSBÓKIN, þáttur um félags- og sálfræðileg málefni
16.11.2015 | 15:35
Þættirnir LÍFSBÓKIN (4 alls) voru keyptir af útvarpsstöðinni Útvarpi Sögu og hafa nú allir verið sendir út.
Hægt er að hlusta á þá undir linknum Eldri þættir á heimasíðu Útvarp Saga
16. nóvember Flýtingar í grunnskólum
Meginþema:
Í þættinum er fjallað um þegar barni er flýtt um bekk og stundi námi með ári eldri krökkum. Einnig ef barni er flýtt með þeim hætti að það fer einu ári fyrr í grunnskóla. Að flýta barni í námi er ákvörðun sem vanda þarf vel til. Eftir að barni hefur verið flýtt upp um bekk er ekki aftur snúið í raun. Þegar barni er flýtt með þeim hætti að það byrjar ári fyrr í skóla kemur það oft í kjölfar þess að tekið hefur verið eftir því að það er óvenju bráðþroska miða við jafnaldra.
Í þættinum verður rætt við Ingu Westman en hún er móðir drengs sem ákveðið var að yrði færður upp um bekk og einnig er rætt við unga menn,þá Jón Steinarsson og Hjörvar Óla Sigurðsson en báðir stunduðu nám með ári eldri krökkum.
5. nóvember Ættleiðingar á Íslandi
Meginþema:
Öll þráum við að tilheyra fjölskyldu með einum eða öðrum hætti og oft án umhugsunar væntum við þess að eignast okkar eigin barn.
Það getur tekið mikið á, tíma, þrek og oft mikla angist ef í ljós koma vandamál tengd því að eignast barn þegar þráin að verða foreldri er yfirþyrmand. Ættleiðing er valkostur sem fjölmargir í þessum sporum kjósa að skoða og velja. Ættleiðing er þó ekki einungis möguleiki í þeim tilfellum hjóna sem geta ekki eignast barn. Þetta er meðal annars valmöguleiki samkynhneigðra hjóna. Um nokkurt skeið hafa einhleypir einnig átt þess kost að ættleiða börn ekki einungis íslensk börn heldur einnig börn erlendis frá.
Í þættinum verður fjalla um hvernig þessum málum er háttað hér á Íslandi og rætt við Sigríði Grétu Þorsteinsdóttur og Kristbjörgu Ólafsdóttur sem ásamt mökum sínum hafa ættleitt börn erlendis frá.
14. október Einelti á vinnustað
Meginþema:
Afleiðingar eineltis geta verið alvarlegar og lita oft ævi þess sem fyrir því verður. Einelti sem varir í einhvern tíma skaðar sjálfsmyndina. Hvaða þolandi eineltis kannast ekki við tilfinninguna um að finnast hann vera ómögulegur, finnast hann ekki geta treyst neinum lengur, jafnvel ekki sjálfum sér þegar kemur að því að meta og lesa í aðstæður og samskipti? Birtingarmyndir eineltis á vinnustað geta verið mismunandi.
Í þættinum er fjallað m.a. um helstu birtingamyndir, helstu einkenni og aðstæður þolenda og gerenda og síðast en ekki síst hvaða ferla vinnustaður þarf að hafa til að taka á málum af þessu tagi með faglegum og manneskjulegum hætti. Rætt er við Jón Þór Aðalsteinsson sem upplifði að hafa verið lagður í einelti á fyrri vinnustað sínum. Segir hann frá því hvernig verkstjórinn beitti hann og aðra starfsmenn andlegu og líkamlegu ofbeldi.
5. október ADHD og stúlkur
Meginþema:
Þátturinn fjallar um stúlkur og ADHD. ADHD er skammstöfun fyrir Attention Deficite and hyberactivity disorder.
Barn sem glímir við ADHD og fær ekki aðstoð við hæfi i formi hvatningar og aðlögunar og stundum lyfjameðferðar er í hættu með að missa trú á sjálft sig og upplifa óöryggi í félagslegum aðstæðum. Í þættinum er fjallað um ADHD með sérstaka áherslu á stúlkur. Einkenni hjá stúlkum geta birst með ólíkum hætti en hjá drengjum. Leitað mun fanga m.a. í gögn adhd samtakanna sem finna á vefnum adhd.is. og rætt er við Sæunni Kristjánsdóttur, móður stúlku sem glímir við ADHD.
Umsjónarmaður þáttanna og dagskrágerð annaðist Kolbrún Baldursdóttir
Þú ferð í taugarnar á mér
9.11.2015 | 19:47
Sjá grein sem birt var í Fréttablaðinu í gær 8. nóvember 2015 á Degi gegn einelti.
Þeir sem eru andstyggilegir við aðra manneskju og leggja kerfiðsbundið fæð á hana hafa kannski, af einhverjum orsökum, aldrei elskað sjálfan sig?
Þráin að eignast barn
5.11.2015 | 09:59
Þátturinn LÍFSBÓKIN verður sendur út í dag, fimmtudag 5. nóvember kl. 17 á Útvarpi Sögu. Fjallað er um ættleiðingar á Íslandi.
Viðtöl eru við Sigríði Grétu Þorsteinsdóttur og Kristbjörgu Ólafsdóttur.
Meginþema:
Öll þráum við að tilheyra fjölskyldu með einum eða öðrum hætti og oft án umhugsunar væntum við þess að eignast okkar eigin barn.
Það tekur mikið á, tíma, þrek og oft mikla angist ef í ljós koma vandamál tengd því að eignast barn þegar þráin að verða foreldri er yfirþyrmandi mikil. Ættleiðing er valkostur sem fjölmargir í þessum sporum kjósa að skoða og velja.
Ættleiðing er þó ekki einungis möguleiki í þeim tilfellum hjóna sem geta ekki eignast barn. Þetta er meðal annars valmöguleiki samkynhneigðra hjóna. Og um nokkurt skeið hafa einhleypir einnig átt þess kost að ættleiða börn ekki einungis íslensk börn heldur einnig börn erlendis frá.
Í þættinum verður fjalla um hvernig þessum málum er háttað hér á Íslandi og rætt við foreldra sem hafa ættleitt börn erlendis frá.
Þátturinn var gerður í september 2014.
Hlustum á börnin!
16.10.2015 | 20:01
Áhrif skilnaðar á börn
31.8.2015 | 09:24
Tímarnir hafa breyst. Í grunnskóla eða barnaskóla eins og það hét minnist ég þess að hafa verið eina skilnaðarbarnið í bekknum. Gagnvart skilnaði foreldra var í þá daga takmarkaður skilningur.
Hvernig líður skilnaðarbörnum í dag?
Skilnaður er aldrei auðveldur. Skilnaður hefur alltaf einhver áhrif á börnin jafnvel þótt reynt sé að halda þeim sem mest utan við hann. Sú breyting sem á sér stað við skilnað þ.e. að foreldrar flytja í sundur hefur oftast mikil áhrif á börnin. Þau eru ekki lengur að vakna á morgnana með báða foreldra sína á heimilinu. Hversu mikil og djúpstæð áhrif fer eftir ótal breytum svo sem aldri, þroska og tengsl barnsins við foreldra sína.
Margt hefur breyst á 50 árum. Án þess að hafa einhverjar rannsóknarniðurstöður til að styðjast við, þá vil ég engu að síður fullyrða að í sumum tilvikum er hægt að finna bekk þar sem jafnvel helmingur barnanna eiga foreldrar sem ekki búa saman.
Samhliða þeirri staðreynd að skilnuðum hefur fjölgað hefur viðhorf til skilnaðar almennt séð breyst. Núna eru foreldrar og þeir sem sinna börnum hvort heldur í skóla eða í tómstundum farin að skilja betur áhrif skilnaðar á börn og mögulegar afleiðinga hans á sálarlíf barnanna.
Góðir foreldrar sem setja hagsmuni barna sinna í forgang reyna þess vegna að vanda sig og leitast við sem mest þeir geta að lágmarka og milda neikvæðustu þættina sem skilnaðinum fylgir.
Undir hvaða kringumstæðum er skaðsemin mest?
Alvarlegar og langvinnar afleiðingar skilnaðar á börnin eru helst í þeim tilvikum þar sem skilnaðurinn hefur haft langan og átakamikinn aðdraganda og þar sem börnin hafa jafnvel orðið á milli í hatrömmum deilum foreldra sinna. Ekki bætir úr skák ef foreldrarnir halda áfram eftir skilnaðinn að deila og skammast út í hvort annað fyrir framan börnin og börnin verða jafnvel bitbein þeirra.
Börnunum í þessum tilfellum finnst jafnvel stundum skilnaður foreldra sinna vera þeim að kenna. Vanlíðan þeirra er oft mikil, þau upplifa óöryggi, vonleysi og sorg. Barni sem líður með þessum hætti á erfitt með að gleðjast, hlakka til og slaka á í félagslegum samskiptum. Sjálfsmat þeirra býður hnekki og oft reyna þau að láta sig "hverfa", í það minnsta, láta lítið fyrir sér fara. Sum hætta að bjóða vinum sínum heim því þau vilja ekki að neinn viti um skilnaðinn.
Þeir sem eru að íhuga skilnað eða standa e.t.v. í erfiðum og sársaukafullum skilnaði verða að huga sérstaklega að andlegri líðan barna sinna í skilnaðarferlinu. Þeir verða að gæta þess að erfiðar tilfinningar, reiði og e.t.v. biturleiki þeirra bitni undir engum kringumstæðum á börnunum.
Að setja sig í spor barna sinna undir þessum kringumstæðum ætti ekki að vera erfitt fyrir neitt foreldri. Prófa í smástund að ímynda sér að vera barnið sitt sem er að reyna að skilja af hverju mamma og pabbi vilja ekki vera lengur saman og af hverju þau þurfa að vera svona reið við hvort annað.
Börn sem beita ofbeldi
26.8.2015 | 11:01
Sjá umfjöllun á Fréttanetinu
Uppeldi sem samanstendur af kærleika, festu, hvatningu, hrósi og fræðslu er líklegt til að skila góðum árangri. Markmiðið er að barnið vaxi og verði sjálfstæð, gefandi, ábyrg og hugsandi manneskja sem skilur og skynjar með hvaða hætti hún getur stuðlað að betra samfélagi fyrir sjálfa sig og aðra. Ekkert barn er nákvæmlega eins og annað. Engu að síður er ákveðinn kjarni sem skiptir sköpum í uppeldi ef það á að takast eins vel og kostur er.
Það er aldrei of mikið af ástúð í uppeldinu. Hins vegar rugla sumir foreldrar saman ástúð og ofdekri. Dæmi um þetta er þegar foreldrar allt að kæfa barnið sitt af því sem þau telja vera umhyggju og góðsemi en er í raun eftirlæti, markaleysi og jafnvel meðvirkni. Þegar þannig er háttað er stundum verið að uppfylla þarfir foreldranna frekar en barnsins. Enda þótt um góðan ásetning er að ræða á meðvirkni með barni sínu oft rætur að rekja til vanlíðunar og óöryggis foreldranna. Foreldrum sem glíma sjálfir við andlega vanlíðan skortir stundum þrek og áræðni til að setja börnum sínum mörk. Sektarkennd verður til þess að þeir gefa frekar eftir og treysta sér ekki til að gera kröfur sem hæfir aldri barnanna og þroska. Þannig geta sálræn veikindi foreldra veikt þau í foreldrahlutverkinu.
Neikvæð áhrif markaleysis
Sumir foreldrar segja e.t.v. að þeir séu eftirlátir við börn sín vegna þess að þeir elski þau svo mikið og séu jafnvel slæmir foreldrar ef þeir banni barni sínu of oft eða neiti kröfum þeirra. En væntumþykja hefur ekkert að gera með hversu mikið barnið fær að stjórna eða fær af veraldlegum gæðum. Mörgum foreldrum verður þetta ljóst þegar neikvæð áhrif markaleysis eða ofdekurs sýna sig t.d. þegar, í stað þakklætis og ánægju koma enn meiri kröfur, vansæld og óánægja. Þegar svo er komið getur verið þrautinni þyngri að ætla þá að fara að setja reglur og ramma. Grundvöllur foreldrakærleiks er að setja hagsmuni barnsins ávallt í forgang. Í því felst að leiðbeina því, setja því mörk, veita því festu og aðhald. Foreldrarnir ráða. Þeir vita hvað barninu er fyrir bestu og þeir bera ábyrgð á því til 18 ára aldurs.
Reglurammi samfélagsins er til þess gerður að styðja foreldra í uppeldishlutverkinu. Markmiðið er að vernda og kenna barninu nauðsynleg atriði sem það þarfnast til að auka líkur á velfarnaði í lífinu. Oft kemur sá tími að barnið líkar illa við reglurnar, finnst þær ósanngjarnar og finnst foreldrar sínir vera bæði vondir og leiðinlegir. Þegar sú staða kemur upp verða foreldrar að standa fast á sínu og minna sig á hvers hagsmuna verið er að gæta með reglunum og hvaða tilgangi þeim er ætlað að þjóna. Vissulega er mikilvægt að hlusta á barnið sitt og nauðsynlegt er að geta sýnt sveigjanleika þegar svo ber við. Með viðeigandi festu og aðhaldi í uppeldinu sem hæfir aldri og þroska hverju sinni eru foreldrar að sýna í verki að þau elska barnið sitt og vilja gera allt sem þarf til að hámarka möguleika þess á að skapa sér hamingjuríkt líf.
Hvað er svona mikilvægt við ramma, reglur, festu og aga?
Með því að skorast undan að setja upp viðhlítandi ramma í kringum barnið, setja því mörk og gera viðeigandi kröfur til þess er verið að svíkja barnið um tækifæri til frekari félags- og persónuþroska. Það er verið að svíkja það um að öðlast aukinn skilning og innsæi í fjölmargar leikreglur umhverfisins; að læra ýmsa færniþætti, standast kröfur, setja sig í spor annarra, beita sjálfsaga, þekkja eigin takmörk, átta sig á persónulegum mörkum annarra, getu til að taka ábyrgð, sinna skyldum og margt fleira. Áhrif og afleiðingar af markalausu uppeldi koma ekki einungis fram í persónulegum þáttum heldur einnig þegar barnið þarf að eiga samskipti við aðra, axla ábyrgð og taka afleiðingum á eigin gjörðum.
Er hægt að hrósa of mikið?
Hvatning, hrós og örvun eru meðal kjarnaþátta farsæls uppeldis og getur, ef rétt er notað, aldrei orðið of mikið. Vissulega er hægt að kæfa barnið af innantómu hrósi eins og öllu öðru. Ef barnið sér sjaldan tengingu milli hróss sem það fær og þess sem verið er að hrósa því fyrir, missir hrósið gildi sitt smám saman. Barn sem alið er upp við mikla og viðvarandi hvatningu og hrós þegar við á er líklegt til að þroska með sér jákvæða og sterka sjálfsmynd sem stuðlar að auknu persónulegu og félagslegu öryggi. Barn sem býr yfir slíkum styrkleikum, finnur og veit að það getur með jákvæðri hugsun og hegðun náð markmiðum sínum og haft góð áhrif á umhverfið. Þetta barn er líklegt til að þróa með sér sjálfsvirðingu en það er einmitt hún sem er öflugasta vörnin gegn ytri vá. Einstaklingur sem ber virðingu fyrir sjálfum sér er síður líklegur til að ákveða að gera eitthvað sem t.d. getur skaðað heilsu hans. Fátt annað er eins skotheld forvörn og sjálfsvirðing sem og jákvæð sjálfsmynd.
Fræðsla í uppeldi
Fræðsla í uppeldi verður seint ofmetin. Hægt er að fræða barnið sitt með því að nota:
- Umræður, samtöl, bein fyrirmæli og leiðbeiningar
- Með sýnikennslu, (barnið horfir á fyrirmyndir) og einnig með leikrænni tjáningu
- Kennsluefni: bækur, sjónvarpsefni, hljóðbækur og annað efni sem hlustað er á í sjónvarpi, tölvu eða útvarpi.
Þessar aðferðir eru ýmist notaðar í sitt hvoru lagi eða saman, allt eftir aldri og þroska barnsins og hvað verið er að kenna hverju sinni. Mikilvægt er að nota sem oftast dæmi úr persónulegu lífi barnsins því þá á það mestu möguleikana á að tileinka sér skilaboðin.
Það sem kenna þarf um leið og aldur og þroski leyfir:
Samkennd, setja sig í spor annarra, hlúa að þeim sem þess þarfnast þegar þess er kostur. Að koma ávallt vel fram við aðra líka þá sem manni finnst ekki skemmtilegir eða áhugaverðir.
Að hirða vel um sjálfan sig og umhverfi sitt (í samræmi við aldur og þroska).
Að tjá tilfinningar, þarfir, segja hvað maður vill og þarf, hvers maður óskar og væntir.
Að hlusta á hvað aðrir eru að segja.
Að gæta að sér í umhverfinu, fara varlega og meta áhættur (í samræmi við aldur og þroska).
Að hlíta fyrirmælum foreldra, kennara og annarra sem annast uppeldi barnsins.
Að gera ávallt sitt besta.
Að beita sjálfan sig aga, læra að stundum þarf að bíða og einnig læra að æfingin skapar meistarann.
Að taka ábyrgð á eigin gjörðum þar á meðal mistökum, ekki kenna öðrum um ef illa fer heldur horfa í eigin barm og spyrja, hvað gat ég gert öðruvísi? Hvað kenndi þetta mér?
Gera má ráð fyrir að flest allir foreldrar vilji aðeins það besta fyrir börn sín. Uppeldi er þar engin undantekning. Finnist foreldrum þeim skorta frekari fræðslu og þjálfun við uppeldi barna sinna bjóðast þeim tækifæri til að sækja uppeldistækninámskeið eða sækja viðtöl hjá fagaðila.
Kolbrún Baldursdóttir, sálfræðingur
www.kolbrunbaldurs.is
Mun einhver hlusta?
28.7.2015 | 19:52
Mun einhver hlusta?
Grein um börn sem alast upp við heimilisofbeldi og alvarleika þess þegar þau reyna að segja frá því en fá jafnvel ekki hlustun eða ekki er tekið mark á orðum þeirra.
Kolbrún Baldursdóttir sálfræðingur og formaður stjórnar Barnaheilla - Save the Children á Íslandi.
Greinin birtist í Blaði Barnaheilla.