Veit ekki svarið
28.7.2015 | 08:52
Í viðtalinu var farið um víðan völl á eineltismálum. Meðal þess sem var spurt var hversu algengt ég teldi að einelti viðgengist á vinnustöðum? Þessari spurningu get ég ekki svarað því ég veit hreinlega ekki svarið. Í raun er kannski ekki hægt að vita neitt nákvæmlega um tíðni eineltis á vinnustöðum því hér er um falið vandamál að ræða. Það eru ekki allir sem segja frá því ef þeir eru að verða fyrir endurtekinni neikvæðri hegðun eða framkomu eða að þeir átta sig á því að um "einelti" geti verið að ræða.
Önnur ástæða þessa að erfitt er að svara þessari spurningu er að skilgreiningar á einelti eru ekki allar eins. Skilgreiningar eru vissulega nauðsynlegar enda auka þær skilning og meðvitund. Ef skilgreining er of niðurnjörvuð eða þröng er hún ekki endilega gagnleg. Burtséð frá skilgreiningum hlýtur mælikvarðinn á hvar mörkin liggja í samskiptum ávallt að vera huglægt mat og upplifun sérhvers manns eða konu.
Flest okkar er alla vega umhugað um að draga úr einelti í allri sinni myndi hvort heldur í skóla, tómstundum eða á vinnustað. Umræðan um góða samskiptahætti verður að vera í gangi allt árið um kring og tvinnast með fjölbreyttum hætti inn í starfsemi skóla, tómstundafélaga og vinnustaði. Öðruvísi er varla árangurs að vænta hvorki til skemmri né lengri tíma. Sé aðeins um tímabundið átak að ræða má ætla að hlutirnir falli fljótt í sama farið enda þótt þeir þokist eitthvað áleiðs.
Jákvæður staðabragur og uppbyggjandi menning er grundvöllur þess að fólkinu á vinnustaðnum geti liði vel. Líði starfsfólkinu vel t.d. í skólum má ætla að það hafi jákvæð áhrif á börnin, hópmenningu og líðan.
Þegar rætt er um samskipti er vert að byrja ávallt á að líta í eigin barm áður en maður fer að tjá sig mikið um hegðun og framkomu annarra.
- Er ég að taka ábyrgð á eigin framkomu/hegðun?
- Líður einhverjum illa í návist minni?
- Get ég veitt einhverjum stuðning eða rétt hjálparhönd á mínum vinnustað?
- Geri ég yfirmanni viðvart, verði ég vitni að einelti?
Munum að það er ekkert grátt svæði þegar kemur að framkomu við aðra. Koma á vel fram við alla hvernig svo sem þeir eru og hvað svo sem manni kann að finnast um þá.
Stjórnun og stjórnunarstíll skiptir miklu máli þegar kemur að staðarmenningu og líðan starfsfólksins. Góður stjórnandi er ekki bara góð fyrirmynd og myndar jákvæð tengsl við starfsfólkið heldur gefur einnig skýr skilaboð um samskiptareglur. Sannarlega afgreiðir hann ekki kvartanir út af borðinu að óathuguðu máli. Liður í forvörnum á vinnustað og viðhaldi á jákvæðum staðarbrag eru allir eftirfarandi þættir:
- Starfsmannaviðtöl árlega
- Skýrar starfslýsingar
- Starfsánægjukannanir
- Starfsmannafundir
- Samverustundir
Munum að einelti er lögbrot. Um er að ræða yfirgang/valdníðslu gagnvart öðrum. Einelti er talið vera ein algengasta mynd ofbeldis
Vinnsla eineltismála
Viðbragðsáætlun þarf ekki aðeins að vera til heldur einnig að vera aðgengileg. Viðbragðsáætlun mótar viðhorf og kallar á stefnumótun. Hún hvetur til skilnings, þekkingaröflunar og markvissrar vinnubragða. Viðbragðsáætlun er rammi/vegvísir sem skapar starfsfólki öryggi. Auk þess er hún upplýsandi t.d. kveður á um hverjir vinna í málum og lýsir ferli kvörtunarmála með einföldum hætti.
Eins mikilvæg og viðbragðsáætlun er, er tilkynningarblað á heimasíðu stofnunar eða fyrirtækis ekki síður mikilvægt. Tilkynningareyðublað er heilmikil forvörn í sjálfu sér en umfram allt gefur slíkt eyðublað til kynna að stofnun/fyrirtæki VILL vita ef einhver telur á sér brotið til að hægt sé að taka á málinu.
Skrifleg kvörtun á þar til gerðu tilkynningareyðublaði inniheldur lýsingu á atviki, atburðarrás, aðstæðum, hver/hverjir, hvar og hvenær. Skrifleg tilkynning er líklegri til að skila markvissari vinnubrögðum en munnleg tilkynning. Tilkynningareyðublað veitir foreldrum og starfsfólki öryggi og það besta við tilkynningareyðublaðið er að ALLIR GETA NOTAÐ ÞAÐ.
Mál af þessu tagi leysast iðulega ef tekið er á því strax og ferlið unnið í samvinnu og samráði við tilkynnanda (ef barn þá foreldra þess). Ávísun á vandamál er ef:
- Hunsað að ræða um samskiptahætti og reglur með markvissum hætti bæði meðal starfsfólks og í barnahópnum
- Sagt að ,,stríðni/einelti sé tekið alvarlega en það síðan ekki gert
- Reynt að bíða af sér vandann, þagga málið
- Yfirmenn eru í vörn/afneitun, vilja ekki horfast í augu við kvörtunina
- Einhver starfsmaður/yfirmaður er meðvirkur?
Hvað einkennir góðan yfirmann?
24.7.2015 | 08:59
Í síðustu tveimur greinum hefur verið fjallað um vanhæfa yfirmenn á sviði samskiptamála og einnig yfirmenn sem leggja starfsmenn sína í einelti. Sá sem misnotar vald sitt í yfirmannastöðu skortir án efa leiðtogahæfileika. Hann er heldur ekki alltaf heiðarlegur og réttsýnn. Hann baktalar jafnvel starfsfólk og leggur á ráðin baksviðs. Hann á það til að halda upplýsingum frá starfsfólki. Þessi yfirmaður lætur sér líðan starfsfólks oft í léttu rúmi liggja. Hann hefur sveiflukenndan stjórnunarstíl og er óútreiknanlegur í skapi.
En hvað er það þá sem einkennir góðan yfirmann? Góður yfirmaður gerir að sjálfsögðu kröfur til starfsmanna sinna um að skila góðri vinnu og að þeir hafi hagsmuni vinnustaðarins í heiðri í hvívetna. Sé yfirmaðurinn góður leiðtogi langar starfsfólki öllu jafnan að leggja sig fram, sjálfs síns vegna og vinnustaðarins. Metnaður yfirmannsins ætti að smitast auðveldlega yfir til starfsmannanna, líði þeim vel í vinnunni.
Farsæll yfirmaður lætur sig nærumhverfið varða. Hann heldur starfsfólkinu upplýstu um nauðsynleg vinnutengd atriði og gefur skýr skilaboð um samskiptareglur. Stjórnunarstíll hans er gegnsær og fyrirsjáanlegur.
Hann er næmur á líðan fólks og hugmyndaríkur þegar kemur að lausn ágreiningsmála. Góður yfirmaður veit að öll vandamál leysast ekki af sjálfu sér. Hann hefur þess vegna tiltæka viðbragðsáætlun og skapar lausnarfarveg fyrir vandamál sem upp kunna að koma. Góður yfirmaður hvetur starfsfólkið til að gera skaðvalda óvirka, séu þeir á staðnum og upplýsa um neikvæða hegðun, verði hennar vart. Hann ber heilsu og hag allra á staðnum fyrir brjósti sér. Yfirmaður sem hefur þessa þætti í heiðri er líklegur til að vera í heilbrigðu og jákvæðu sambandi við starfsfólkið.
Jákvæðum staðarbrag er m.a. viðhaldið með því að skapa vettvang fyrir umræðu og hvatningu. Ræða þarf um hvernig almenn starfsánægja sé í þágu allra. Umræðan ætti ekki að vera á neinn hátt háð því að kvörtun eða eineltismál sé í ferli. Stjórnendur vinnustaða hafa margar leiðir til að mynda og viðhalda góðum tengslum. Nefna má hið hefðbundna:
- Starfsmannaviðtöl
- Skýrar starfslýsingar
- Starfsánægjukannanir
- Reglulegir starfsmannafundir
Það þarf ekki að kosta mikið fé að kanna líðan starfsfólks. Fáeinar spurningar geta gefið upplýsingar um staðarmenninguna og ríkjandi andrúmsloft. Helst er að marka svörin séu þau nafnlaus:
- Hvernig líður þér með yfirmanninn?
- Kostir og gallar yfirmannsins?
- Hvernig líður þér í vinnunni?
- Hvaða þætti ertu ánægð(ur) með á vinnustaðnum?
- Hvað er það helst sem þú myndir vilja að breyttist á vinnustaðnum?
Öll erum við breysk og áður en ævinni lýkur má næstum fullyrða að einhvern tímann á lífsleiðinni sýnum við neikvæða hegðun og framkomu. Það er mikilvægt þegar talað er um neikvæða framkomu fólks að gera alltaf ráð fyrir að það sé að þroskast og læra nýja hluti og geti þar að leiðandi bætt sig á þessu sviði sem öðru. Það krefst vissulega innsæis að geta horft á sjálfan sig með gagnrýnum hætti og axlað ábyrgð á eigin hegðun. Yfirmenn, eins og allir aðrir verða að geta sett sig í spor starfsmanna sinna. Einnig er gott viðmið að spyrja sig hvernig maður vill að aðrir komi fram við sig. Sé þeim þetta gefið, geta þeir tekið meðvitaða ákvörðun um að breyta framkomu sinni, taka upp nýjan samskiptastíl, þar með talinn nýjan og bættan stjórnunarstíl.
Greinin er birt í Fréttablaðinu 24. júlí
www.kolbrunbaldurs.is
Vanvirki og kjarklausi yfirmaðurinn
21.7.2015 | 22:32
Í síðust grein í þessari þriggja greinaröð var fjallað um hvað einkennir yfirmann sem leggur starfsmann sinn í einelti. Í þessari grein verður skoðað nánar hvað einkennir yfirmann sem er vanvirkur þegar kemur að því að taka á samskiptamálum. Þessi yfirmaður er ekki endilega reiður eða hatursfullur eða uppfullur af minnimáttarkennd. Vel kann einnig að vera að hann láti sér annt um starfsfólk sitt. Það sem háir þessari týpu af yfirmanni er að hann hefur ekki færni eða getu til að taka á samskiptamálum sem upp koma. Stundum skortir hann einfaldlega kjark til að takast á við tilfinningaleg vandamál. Finni þeir sig í aðstæðum þar sem tilfinningar ráða ríkjum, fyllast þeir óöryggi, verða klaufalegir og vita ekki hvað á að segja eða gera. Sumum fallast hendur ef einhver í návist þeirra sýnir tilfinningaleg viðbrögð, t.d. brestur í grát eða brotnar saman. Þá er aðgerðarleysið stundum réttlætt með því að segja að verið sé að gera úlfalda úr mýflugu. Svona yfirmanni kann jafnvel að finnast starfsmaðurinn sem kvartar vera með tómt vesen.
Yfirmaður sem er lítill mannþekkjari og veikgeðja lætur oft undan þrýstingi. Sé á staðnum starfsmaður sem býr yfir óheilindum, hatri í garð annars (annarra) þá getur hann jafnvel náð að stjórna yfirmanni sem hér er lýst. Yfirmaðurinn verður þá eins konar leppur þessa starfsmanns og finnst þá auðveldara að leyfa honum að taka stjórnina. Sé kvartað yfir framkomu þessa starfsmanns þá hunsar yfirmaðurinn jafnvel kvörtunina. Með því að loka eyrunum er loku fyrir það skotið að málið verði skoðað og leitt til lykta. Þar með er yfirmaðurinn óbeint að styðja gerandann og veita honum leyfi til að halda meintri háttsemi sinni áfram. Þannig getur það gerst að yfirmaðurinn sé óbeinn þátttakandi jafnvel í einelti þar sem hann neitaði að taka málið til athugunar og setja það í viðeigandi ferli. Einelti í sinni víðustu mynd þrífst vel undir stjórn yfirmanns sem er vanvirkur: veikgeðja og atkvæðalítill þegar kemur að samskiptamálum.
Það er afar íþyngjandi þegar stjórnandi sem er slakur í samskiptum vermir yfirmannsstól stofnunar eða fyrirtækis árum saman. Jafnvel þótt stjórnandinn sjálfur hafi ekki gerst sekur um slæma framkomu gagnvart starfsmanni er líklegt að á vinnustaðnum þrífist alls kyns óværa þar sem yfirmanninum skortir burði til að taka á málum með viðeigandi hætti. Nái neikvæð menning að festa sig i sessi (vondur mórall) verður vinnustaðurinn smám sama eitraður. Mannaskipti eru þá oft tíð. Nýir starfsmenn, bjartsýnir og ferskir, eru kannski ráðnir til starfa. Þegar þeir finna að staðurinn er sýktur hverfa einhverjir þeirra á braut. Sumir neyðast e.t.v. til að vera um kyrrt þar sem ekki er endilega hlaupið að því að fá aðra vinnu. Þetta er sérstaklega erfitt ef um er að ræða sérhæft starfsfólk sem sinnir sérhæfðum störfum. Aðrir reyna að þrauka því að þeim hugnast ekki að láta vanhæfan stjórnanda og vondan móral hrekja sig á brott.
Í þessari og síðustu grein um þetta málefni sem birt var í Fréttablaðinu í síðustu viku hefur verið fjallað um yfirmenn sem eru gerendur eineltis og yfirmenn sem eru vanvirkir þegar kemur að því að taka á samskiptamálum. Yfirmaður, hversu vanhæfur og slæmur sem hann er, veit auðvitað að hann þarf að eiga einhverja stuðningsmenn, svona já menn. Yfirmaðurinn velur sér það fólk sem hann finnur og veit að hann getur stjórnað. Hann velur sér fólk sem ber helst óttablandna virðingu fyrir honum og þá sem honum finnst ekki ógna sér eða stöðu sinni á neinn hátt. Fylgismenn yfirmannsins kjósa e.t.v. að sjá hann í öðru og jákvæðara ljósi en hinir sem eru ekki útvaldir. Einhverjir sem eru í innsta hring gætu einnig verið búnir að meta stöðuna þannig að betra sé að vera þarna megin borðs og tryggja þannig að þeir verði ekki sjálfir skotmarkið. Með því að ganga í rétta liðið verður lífið í vinnunni þolanlegra og óöryggið minna?
Í þriðju og síðustu greininni í þessum greinaflokki sem einnig verður birt í Fréttablaðinu innan tíðar verður fjallað um hvað einkennir góðan yfirmann og stjórnanda.
Kolbrún Baldursdóttir, sálfræðingur
www.kolbrunbaldurs.is
Greinin er birt í Fréttablaðinu 21. júlí 2015
Þegar yfirmaður er gerandi eineltis
21.7.2015 | 08:29
Ekki er öllum gefið að vera góður stjórnandi eða yfirmaður. Því miður eru dæmi um yfirmenn á alls kyns vinnustöðum sem skortir flest það sem telst prýða góðan yfirmann. Ekki er hægt að fullyrða um hvort einelti sé algengar hjá kvenyfirmönnum eða karlyfirmönnum. Vandamálið er dulið því ekki allir sem upplifa sig lagða í einelti af yfirmanni sínum segja frá því. Ganga má út frá því að langstærsti hópur yfirmanna séu góðir og faglegir yfirmenn. Í þessari grein sem er sú fyrsta af þremur verður fjallað um þá yfirmenn sem eru ekki færir um að eiga jákvæð og góð samskipti við starfsfólk sitt og eru jafnvel gerendur eineltis. Hvernig getur það gerst að vanhæfur stjórnandi fær yfirmannsstöðu? Auðvitað getur verið um að ræða eiganda fyrirtækis sem er þá jafnframt yfirmaður og stjórnandi. Í öðrum tilfellum liggur svarið ekki á lausu og væri í raun ágætis rannsóknarefni.
Það sem m.a. einkennir yfirmann sem leggur starfsmann í einelti er valdafíkn, það að ráða, beita og misbeita valdi þóknist honum svo. Ekki er ósennilegt að yfirmaður sem er valdafíkinn búi einnig yfir öðrum neikvæðum skapgerðareinkennum sem birtast í samskiptum við aðra. Lýsing, kannski nokkuð ýkt, á yfirmanni sem er gerandi eineltis gæti litið einhvern veginn svona út:
Lund hans og skap er óútreiknanlegt, sveiflukennt allt eftir því hvernig liggur á honum hverju sinni. Sé hann pirraður lætur hann það gjarnan bitna á starfsfólkinu og verður fljótt reiður mæti hann mótbyr. Það kitlar hann jafnvel að finna að hann getur með lund sinni, líkamsmáli og samskiptaháttum valdið óöryggi á vinnustaðnum.
Þegar manneskja sem hér er lýst er ráðin sem yfirmaður er varla von á góðu ef litið er til samskipta á vinnustaðnum. Einhverjir gætu séð þessa yfirmanntýpu sem ákveðinn og sjálfstæðan aðila. Hins vegar má mikið frekar ætla að neikvæð framkoma hans sé drifin áfram af vanlíðan, minnimáttarkennd og óöryggi. Orsakir geta verið flóknar og átt rætur að rekja í samspili persónueinkenna, félagslegs bakgrunns og hvernig einstaklingurinn upplifir stöðu sína á staðnum. Þessi tegund af yfirmanni kemur oft vel fyrir út á við. Hann er e.t.v. vinamargur og kannski ágætur maki og foreldri? Tjái hann sig um vinnustaðinn opinberlega gæti hann vel birst sem hæfur stjórnandi sem tekur frumkvæði og hrindir hlutum í framkvæmd.
Á vinnustað sem stjórnað er af yfirmanni eins og hér er lýst getur hæglega þrifist einelti og stundum er yfirmaðurinn sjálfur gerandinn. Valdafíkinn stjórnandi sem er auk þess fullur af minnimáttarkennd er ekki ólíklegur til að níðast með einhverjum hætti á starfsmanni/starfsmönnum. Hann veifar valdasprotanum og undirstrikar með honum hver það er sem hefur heill og hamingju starfsfólksins í hendi sér. Einn af helstu fylgikvillum minnimáttarkenndar er afbrýðisemi og öfund. Þessi tegund af yfirmanni óttast að einhver skyggi á sig. Upplifi hann að einhver ógni sér gæti hann gripið til þess að lítillækka þann, gera hann ótrúverðugan eða nota vald sitt og áhrif til að koma honum illa með einhverjum hætti. Starfsmaðurinn er þá kannski fluttur til í starfi eða aðrar leiðir fundnar með það að markmiði að losna við hann.
Liður í að minna starfsfólkið á hver ræður er að vera gagnrýninn, dómharður og óútreiknanlegur. Að vera óútreiknanlegur er tækni sem er til þess fallin að grafa undan öryggistilfinningu starfsmanna. Skilaboðin eru að enginn skuli halda að hann geti verið öruggur með stöðu sína. Þessi yfirmaður fylgist vel með fólkinu á staðnum og notar til þess ýmsar leiðir, leyndar og ljósar. Sumum kann að finnast að þessi yfirmaður hreinlega bíði færis á að geta tekið einhvern á beinið. Þegar starfsmaður er tekinn á beinið er það oft gert með hörku og óbilgirni. Sá sem einu sinni upplifir yfirmanninn í þessum aðstæðum vill fyrir alla muni ekki lenda í þeim aftur. Í næstu grein verður fjallað um vanvirka yfirmanninn sem verður stundum, vegna aðgerðarleysis, óbeinn þátttakandi eineltis á vinnustaðnum.
Kolbrún Baldursdóttir, sálfræðingur
www.kolbrunbaldurs.is
Fyrsta grein af þremur
Birt í Fréttablaðinu 16. júlí 2015
Tengsl þunglyndis og sjálfsvígstilrauna
20.7.2015 | 10:50
Ég rakst á fyrstu blaðagreinina sem ég skrifaði, þá nýútskrifaður sálfræðingur. Greinin var birt í Morgunblaðinu 12. janúar 1992 og fjallaði um að sýnt hafi verið fram á að tengsl eru á milli þunglyndis og sjálfsvígstilrauna unglinga.
Ég minnist þess að einhverjum fannst hér talað helst til of opinskátt um viðkvæmt málefni og að með því væri jafnvel verið að "planta" hugmyndinni um sjálfsvíg í höfuðið á unglingum. Nú hins vegar vita flestir að þöggun bjargar engum. Mér sýnist greinin hafa staðist tímans tönn bara nokkuð vel.
Sjálfsvíg. Sýnt hefur verið fram á að tengsl eru á milli þunglyndis og sjálfsvígstilrauna unglinga
Ef unglingur fer að sýna skyndileg merki um leiða, sorg, kvíða og vonleysi í meiri mæli en eðlilegt þykir ef taka má mið af hans fyrra hegðunarmynstri og persónueinkennum getur það verið merki um þunglyndi. Lystarleysi eða áhugaleysi á fæðu sem áður þótti góð samfara þyngdarminnkun er einnig talið geta verið eitt af einkennum þunglyndis. Þunglyndi gæti einnig sýnt sig .í aukinni matarlyst og aukinni líkamsþyngd. Algengt er að svefnleysi, að vakna mjög snemma á morgnana eða óreglulegar svefnvenjur séu einnig einkenni af þunglyndi. Önnur þunglyndiseinkenni geta verið félagsleg einangrun, skyndileg hegðunarbreyting, auknir hegðunarerfiðleikar heima við, merki um lygar, óregluleg skólasókn, lágar einkunnir og aukin áfengis- eða eiturlyfjaneysla. Þunglyndi birtist einnig oft í ergelsi, kvíða, stressi og sjálfsgagnrýni. Þessu fylgir oft lágt sjálfsmat og vangaveltur um sjálfsmorð. Ennfremur eru einkenni þunglyndis oft sjónvarpsgláp í ríkari mæli en eðlilegt þykir, kæruleysi, almennt áhugaleysi og skortur á líkamlegum þrifnaði. Síðast má nefna merki um áhættusama hegðun og tíð smáslys sem merki um þunglyndi.
Það skal tekið fram að allar þessar breytingar eru eðlilegar á unglingsárunum að einhverju leyti. Það er ekki fyrr en margar slíkar breytingar koma saman í ríkari mæli en eðlilegt þykir, að um geti verið að ræða þunglyndi.
Sýnt hefur verið fram á að tengsl eru á milli þunglyndis og sjálfsmorðstilraunar. Hvernig getur foreldri eða aðstandandi unglings merkt að unglingurinn er hugsanlega í sjálfsmorðshugleiðingum?
Tal um sjálfsmorðsaðferðir, líf eftir dauðann og þess háttar getur gefið til kynna að viðkomandi er að hugsa um sjálfsmorð. Ef unglingurinn hefur tilhneigingu til þunglyndis, er mesta hættan á sjálfsmorði þegar þunglyndinu fer að létta. í dýpstu lægð þunglyndis hefur viðkomandi einstaklingur sjaldnar andlega eða líkamlega orku til að fremja sjálfsmorð. Ef einstaklingur hefur ákveðið að fremja sjálfsmorð hefst áætlun um aðferð, stund og stað. Plön af þessu tagi eru oft ákveðin með góðum fyrirvara. Þegar aðferðin til sjálfsmorðs hefur verið ákveðin má ætla að viðkomandi unglingi sé alvara. Alltaf skal taka hugleiðingar um sjálfsmorð alvarlega, jafnvel þótt þeim sé ætlað að vera grín. Sumir einstaklingar sem hafa ákveðið að fremja sjálfsmorð eiga það til að gefa góðum vinum persónulega hluti sem þeim hefur þótt vænt um og vilja þar af leiðandi koma í góðar hendur áður en þeir deyja.
Rannsóknir hafa sýnt að stór hluti karlmanna sem framið hafa sjálfsmorð hafa átt við ýmis hegðunarvandkvæði, fíkniefni og/eða áfengissýki að stríða. Kvenmenn, hins vegar, sem gert hafa tilraun til sjálfsmorðs hafa í mörgum tilvikum átt við þunglyndi að stríða. Ennfremur hafa þeir einstaklingar frekar haft tilhneigingu til að fremja sjálfsmorð sem af einhverjum ástæðum þjást af feimni eða öðrum félagslegum samskiptaörðugleikum, eru bitrir og/eða reiðir í garð sjálfs síns og annarra. Stúlkur reyna að fremja sjálfsmorð oftar en drengir en drengjum tekst yfirleitt betur en stúlkum að fullgera verknaðinn. Aðalástæðan er sú að drengir nota frekar aðferðir sem virka fljótt og algerlega eins og byssukúlur í höfuð, reipi um háls eða koltvísýringseitrun úr bíl. Stúlkur gera frekar tilraun með aðferðir eins og of stóran skammt lyfja eða reyna að skera á slagæð. Þessar aðferðir virka, blessunarlega, ekki alltaf sem skyldi. Niðurstaðan er þar af leiðandi sú að fleiri stúlkur en drengir gera tilraun til sjálfsmorðs en færri stúlkum en drengjum tekst að fremja sjálfsmorð þegar upp er staðið.
Sú aðferð sem töluvert hefur verið notuð til að finna út hvort þeir einstaklingar sem framið hafa sjálfsmorð eigi eitthvað sameiginlegt með hverjum öðrum eða með þeim sem hafa ekki gert tilraun til sjálfsmorðs er kölluð sálfræðileg krufning" eða psychological autopsy." Þessi aðferð felur í sér könnun á lífi þeirra aðila sem hafa framið sjálfsmorð. Rannsakandinn hefur samband við alla þá sem voru nátengdir hinum látna og á þann hátt kemst hann að hvernig lífi viðkomandi einstaklings var háttað.
Aðferð sem þessi veitir ýmsar upplýsingar sem varpað gætu ljósi á þær ástæður og orsakir sem hugsanlega liggja til grundvallar sjálfsmorðinu. Hér er um að ræða yfirlitsrannsókn yfir liðna atburði þar sem valinn samanburðarhópur er notaður sem viðmið. Það sem komið hefur fram úr slíkum rannsóknum er m.a. það að sjálfsmorð er sjaldan framið í fljótræði og hugsunarleysi. Hér er frekar um að ræða atburð sem hefur verið ákveðinn með góðum fyrirvara. Einnig má nefna að sjálfsmorð virðist sjaldan vera framið sem viðbragð við einum ákveðnum atburði heldur er sjálfsmorð oftar lokaatriði í lengra ferli óhamingju og vonleysis. Hins vegar getur atburður eins og lág skólaeinkunn eða ástarsorg, svo eitthvað sé nefnt, hrint sjálfsmorðstilraun sem lengi hefur verið í bígerð í framkvæmd.
Yfirleitt segir einstaklingur sem hefur ákveðið að fremja sjálfsmorð einhverjum frá ákvörðun sinni beint eða óbeint. Sumir fræðimenn telja að um sé að ræða leynda ósk um að reynt verði að koma í veg fyrir að sjálfsmorðstilraunin takist þar sem undir niðri langi unglingnum ekki til að stytta sér aldur heldur sé að gefa merki um að sálfræðiaðstoðar sé þörf. Þegar unglingur segir frá sjálfsmorðshugleiðingum sínum er honum oft ekki trúað, eða ef hann segir óbeint frá hugleiðingum sínum þá uppgötvar áheyrandinn oft ekki hvað fólst í skilaboðunum fyrr en um seinan. Gott er að vera á varðbergi gagnvart slíku tali og ávallt að taka unglinga alvarlega í þessum efnum. Ef foreldrar eða aðstandendur komast að því að barn þeirra er í sjálfsmorðshugleiðingum er ekki hjá því komist að ræða málið við viðkomandi einstakling. Á mörgum heimilum er umræða um sjálfsmorð bönnuð af ótta við að viðkomandi unglingur fái hugmynd til að framkvæma verknaðinn eða læri hluti sem auð- velda honum eða henni framkvæmdina. Ef bannað er að ræða um sjálfsmorð á heimilum eiga foreldrar það á hættu að komast aldrei að viðhorfum barna sinna til þess máls fyrr en jafnvel um seinan. Ef grunur er fyrir hendi um að unglingur sé í sjálfsmorðshugleiðingum er nauðsynlegt að ganga á unglinginn og fá hann til að tala um málið. Góð hlustun skiptir miklu máli og best er að forðast að bregðast við með hneykslun, ásökunum, skömmum eða gagnrýni. Markmið áheyranda í þessu tilviki, hvort sem um er að ræða foreldra eða aðra aðstandendur, ætti að vera að fá unglinginn til að treysta sér, hleypa sér inn í hugarheim sinn svo hægt sé að hjálpa honum að vinna á því vonleysi sem gripið hefur um sig. Ef upp kemur hvað hrjáir unglinginn verður hlustandinn að meta alvarleika ástandsins og taka ákvörðun samkvæmt því. Ástæður fyrir sjálfsmorðstilraunum geta verið margvíslegar. Öðrum en unglingnum getur þótt ástæðurnar af léttvægum og skammvinnum toga en í augum unglingsins geta þær verið fullgildar ástæður til að stytta sér aldur. Unglingur sem ákveðið hefur að fyrirfara sér þarf ekki endilega að eiga við geðræn vandamál að stríða. Hér getur verið um að ræða langvarandi óhamingju og vonleysi sem rekja má til ýmissa persónulegra eða félagslegra ástæðna. Algengt er að unglingur sem fremur sjálfsmorð hafi um lengri eða skemmri tíma verið að velta fyrir sér ýmsum leiðum út úr óhamingju sinni en að lokum komist að þeirri niðurstöðu að sjálfsmorð sé sú eina. Það sem síðan verður til þess að unglingurinn framkvæmir verknaðinn getur verið allt frá höfnun í fótboltafélag til alvarlegra geðsjúkdóma. Sum vandamál má ætla að leysist af sjálfu sér ef viðkomandi vill gefa þeim tíma og þar af leiðandi mun sjálfsmorðshættan hverfa. Önnur vandamál eru erfiðari viðfangs sem veldur því að sjálfsmorðshugleiðingar geta verið viðloðandi um ókominn tíma. í slíkum tilvikum þarf sá sem veit um sjálfsmorðshugleiðingar unglingsins að vera á varðbergi og gera viðeigandi ráð- stafanir. í vesta falli getur þurft að fá aðstoð neyðarþjónustu og fá einstaklinginn lagðan inn. Hér er um að ræða persónu sem hefur ótvírætt gefið í skyn að hann eða hún ætli að stytta sér aldur og er ekki tilbúinn að þiggja aðstoð af neinu tagi. Viðkomandi getur einnig talið öðrum trú um að hættan sé ekki lengur fyrir hendi jafnvel þótt hann sé ennþá ákveðinn í að gera tilraun. í slíkum tilvikum er erfitt að meta hættuna en ef talið er að hún sé ennþá fyrir hendi getur verið ráðlegt að vera í sambandi við geðlækni eða annað fagfólk sem getur síðan reynt að fylgjast með hegðunarmynstri og hegðunarbreytingum einstaklingsins eins náið og hægt er.
Fáeinar staðreyndir um sjálfsmorð
Ein af megin ástæðum fyrir því að einstaklingur gerir tilraun til sjálfsmorðs felur í mörgum tilvikum í sér aðra mikilvæga persónu í lífi einstaklingsins. Hér getur verið um að ræða rof á ástarsambandi, erfið- leika í samskiptum við foreldra, o.s.frv.
Flestir þeir sem gera sjálfsmorðstilraun eru í vafa hvort þeir vilja lifa eða deyja. í mörgum tilvikum reynir viðkomandi að kalla á hjálp strax eftir að sjálfsmorðstilrauninni hefur verið hrint í framkvæmd. Þetta á auðvitað einungis við í þeim tilvikum þegar einstaklingurinn missir ekki meðvitund strax eftir að tilraun hefur verið gerð til sjálfsvígsins, heldur fær einhvern umhugsunarfrest. Hér getur verið um að ræða tilfelli þegar viðkomandi hefur tekið of stóran skammt af lyfjum eða skorið á slagæð.
Jafnvel þótt þunglyndi sé oft tengt sjálfsmorðshugleiðingum hafa ekki allir þeir sem fremja sjálfsmorð þunglyndistilhneigingar. Sumir eru kvíðafullir, hræddir, líkamlega fatlaðir eða vilja einfaldlega flýja þann veruleika sem þeir lifa í.
Alkóhólismi/fíkniefnaneysla og sjálfsmorð haldast oft í hendur, þ.e. þeir sem fremja sjálfsmorð hafa oft einnig átt við áfengis/fíkniefnavandamál að stríða.
Margir þeir sem fremja sjálfsmorð hafa aldrei verið sjúkdómsgreindir með geðræn vandamál.
Með því að spyrja einstakling sem er að hugleiða sjálfsmorð beint að því hvort hann sé í sjálfsmorðshugleiðingum minnkar oft kvíði og streita sem viðkomandi hefur þróað með sér samfara áætlun um að framkvæma sjálfsvígið.
Sjálfsmorð eiga sér stað í öllum aldurshópum, stéttum og kynþáttum.
Ef rannsóknir á sjálfsmorðum eru skoðaðar, kemur í ljós að meiri en helmingur úrtaksins hafði gert tilraun til að leita sálfræðilegrar aðstoðar einhvern tímann síðustu 6 mánuði áður en hann gerði tilraun til sjálfsmorðs. Í mörgum tilvikum hefur sá einstaklingur sem tekst að fremja sjálfsmorð gert misheppnaða tilraun(ir) áður á lífsferli sínum.
Þeir sem hafa gert tilraun(ir) til sjálfsmorðs en mistekist eru í þeim hóp einstaklinga sem eru í hvað mestri hættu á að endurtaka tilraunina.
Höfundur er sálfræðingur hjá Fangelsismálastofnun ríkisins og námsráðgjafi í Menntaskólanum við Hamrahlíð.
Mun einhver hlusta?
3.7.2015 | 12:09
"Heimilisofbeldi er ekki nýtt fyrirbæri heldur hefur verið til frá örófi alda. Víða um heim er heimilisofbeldi álitið einkamál fjölskyldunnar og óviðkomandi öðru fólki.
Áður en "barnavernd" ruddi sér til rúms hér á landi með barnaverndarlögum árið 1932 þótti ofbeldi gagnvart börnum jafnvel ekkert tiltökumál. Mörg börn voru á heimilum sínum beitt harðræði í skjóli uppeldis eða í uppeldisskyni.
Öll viljum við geta litið á heimilið sem griðastað sem veitir öryggi og ró. Þannig er því ekki farið á heimilum þar sem annað eða báðir foreldrarnir beita ofbeldi. Þá er heimilið jafnvel hættulegasti staðurinn til að vera á.
Ofbeldi getur verið andlegt, líkamlegt og kynferðislegt. Sá sem beitir fjölskyldu sína ofbeldi eirir stundum engum fjölskyldumeðlimi og gildir þá einu hvort um sé að ræða ung börn eða fullorðna heimilismenn.
Þótt ofbeldinu sé e.t.v. ekki beint að börnunum á heimilinu fara þau ekki varhluta af því. Þar sem heimilisofbeldi ríkir verða börnin nánast undantekningalaust vitni að því með einum eða öðrum hætti. Börn eru næm á tilfinningalegt ástand foreldra sinna og skynja vel óttablandið andrúmsloft heimilislífs þar sem ofbeldi viðgengst. Við slíkar aðstæður ríkir óstöðugleiki á heimili og viðvarandi óvissa um hvort vænta megi ofbeldisuppákomu í dag, á morgun, á jólum eða páskum. Skaðsemi þessara aðstæðna er iðulega mikil og djúpstæð. Líkamlegur skaði grær ef til vill að mestu en hinn sálræni getur varað ævilangt."
(Upphaf greinarinnar Mun einhver hlusta? höf.KB). Megininntak hennar er að segi barn frá ofbeldi á heimili má ekki bregðast að á það sé hlustað.
Sjá meira um þessi mál í Blaði Barnaheilla 2015, sem nú er í dreifingu. Hægt er að nálgast eintak á skrifstofu Barnaheilla- Save the Children á Ísland á Háaleitisbraut 13. Í Blaðinu eru m.a. upplýsingar um starf og verkefni Samtakanna á Íslandi auk fjölda áhugaverðra greina m.a. um ofbeldi/einelti/heimilisofbeldi.
Vináttan í forgrunni í leikskólum landsins
24.6.2015 | 20:20
Árlegt Fréttablað Barnaheilla- Save the Children á Íslandi kom út í dag. Selma Björk Hermannsdóttir, nemandi í Fjölbrautarskóla Garðabæjar segir frá minningum sínum um einelti sem byrjaði í leikskóla.
Meginþema blaðsins í ár er "Vináttan í forgrunni" en eitt af stóru verkefnum Barnaheilla á Íslandi er forvarnarverkefni gegn einelti í leikskólum.
Selma Björk Hermannsdóttir fæddist með skarð í vör og hefur kynnst flestum birtingarmyndum eineltis frá því hún var í leikskóla. Hún og faðir hennar ræða þessa reynslu, en einnig eru í blaðinu greinar um fátækt, heimilisofbeldi, mismunun, börn í fjölmiðlum, ungmennaráð Barnaheilla og ýmislegt fleira.
Í blaðinu má jafnframt lesa um markmið og áherslur Barnaheilla. Við hjá Barnaheill vonumst til að sem flestir fái tækifæri til að lesa blaðið okkar:)
Blaðinu verður dreift um allt land en einnig er hægt að nálgast eintak á skrifstofu Barnaheilla á Háaleitisbraut 13.
Vitlaust gefið? Vangaveltur um reiðina
18.6.2015 | 11:58
Því er ekki að leyna að það er pirringur og reiði í samfélaginu sem tengist m.a. því að mörgum finnst vera vitlaust gefið.
Einhverjir kunna að furða sig á því hve reiðin er djúpstæð eins og sjá mátti á Austurvelli í gær, 17. júní. Í ljósi þess sem gengið hefur á í samfélaginu undanfarin ár er þetta kannski ekkert skrýtið? Margir eru einfaldlega enn tættir eftir Hrunið og hafa ekki náð sér almennilega aftur á strik. Þetta á ekki síst við um þá sem töpuðu aleigu sinni, sparnaðinum, fé sem einhverjir voru búnir að leggja til hliðar til að geta notið t.d. efri áranna.
Þrátt fyrir að vera örþjóð búa í samfélaginu margir og ólíkir hagsmunahópar. Mörgum finnst sem dregið hafi enn meira í sundur með einstaka hópum og að þeir sem hafi það skítt hafi það enn meira skítt nú en áður og þeir sem hafa það gott (fjárhagslega) eru fjárhagslega sterkari nú en nokkru sinni fyrr.
Reiði og pirringur fólks á sér þannig án efa ólíkar rætur og orsakir. Flestir eru þó sennilega reiðir út í þann hluta stjórnvalda sem þeim finnst hygla ákveðnum hópum. Þeim þykir forgangsröðunin röng og ákvarðanir stjórnvalda hafa í ýmsum málum verið ósanngjarnar.
Kannski er fólk líka reitt vegna þess að það óttast að "sagan" (aðdragandi Hrunsins)sé hugsanlega að endurtaka sig og spilling: vinavæðing og hagsmunapot vera ennþá blákaldur veruleiki.
Það sem virðist m.a. hafa viðhaldið reiðinni eru nokkrar stórar ákvarðanir og aðgerðir ríkisstjórnarinnar sem oftar en ekki virðast koma betur út fyrir þá sem meira hafa milli handanna en hinna, sem eiga lítið. Í þessu sambandi má nefna sérstaklega skuldaleiðréttinguna en mörgum finnst einmitt að með þeirri aðgerð hafi verið vitlaust gefið.
Það sem huga þarf að þegar barn hefur grunnskólagöngu
21.5.2015 | 15:50
Góður undirbúningur undir grunnskólagöngu getur skipt sköpum fyrir líðan barns öll grunnskólaárin.
Það er eitt og annað sem mikilvægt er fyrir foreldra að huga að áður en skólinn byrjar í ágúst. Upplagt er einnig að nota sumarið til að kenna og þjálfa ýmsa þætti s.s.:
Að getað bjargað sér í búningsklefanum
Skrúfa frá/fyrir sturtu
Þurrka sér
Passa upp á dótið sitt
Huga þarf sérstaklega að börnunum sem kvíða skólagöngunni.
Í þeim tilfellum er mikilvægt að foreldrar ræði við kennarann um að barnið sé kvíðið svo hægt sé að undirbúa fyrstu dagana í skólanum með tilliti til þess.
Dæmi um mótvægisaðgerðir sem geta hjálpað barninu:
Hafa samráð hvernig tekið er á móti barninu að morgni
Finna barninu tengilið í matsal/frímínútum
Biðja kennara um að hafa barninu nálægt sér í skólastofunni þar til það kemst yfir mesta kvíðann
Ef kennari á að geta veitt barni viðhlítandi stuðning hvort heldur vegna persónulegra þátta eða aðstæðna þá þarf hann að vita ef t.d.:
Barnið á við veikindi að stríða, skerðingu/fötlun
Sérþarfir, veikleikar/styrkleikar sem vitað er um á þessu stigi
Sérstakar venjur eða siði
Einnig:
Ef einhver í fjölskyldunni er langveikur
Ef nýlega hefur orðið andlát í fjölskyldunni, skilnaður eða aðrar stórar breytingar
Ef skilnaður stendur fyrir dyrum og hvernig umgengni muni þá verða háttað
Í 45 mínútna fræðsluerindi er farið er yfir þessi helstu atriði sem huga þarf að þegar barn byrjar í grunnskóla. Einnig verður farið nokkrum orðum um þroska og þarfir þessa aldurskeiðs, leiðir sem auka samskiptafærni foreldra við börn sín. Síðast en ekki síst hvernig foreldrar geta með markvissum hætti lagt grunn að sterkri sjálfsmynd og sjálfsöryggi barna sinna.
Skólar geta pantað erindið með tölvupósti á netfangið:
kolbrunbald@simnet.is
Nýliðun í stjórn Barnaheilla- Save the Children á Íslandi
21.5.2015 | 08:52
Á aðalfundi Barnaheilla, þriðjudaginn 11. maí sl. gengu nýjir inn í stjórn þeir Már Másson, Ólafur Guðmundsson og Bjarni Karlsson.
Í stjórn sitja sem fyrr Kolbrún Baldursdóttir, formaður, Sigríður Olgeirsdóttir, varaformaður, María Sólbergsdóttir, Þórarinn Eldjárn, Helga Sverrisdóttir, Guðrún Kristinsdóttir og Gunnar Hrafn Jónsson.
Barnaheill- Save the Children á Íslandi eru frjáls félagasamtök sem stofnuð voru árið 1989. Þau eiga aðild að Save the Children International en að þeim standa 30 landsfélög sem starfa í 120 löndum. Samtökin hafa barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna að leiðarljósi í öllu sínu starfi og eru helstu áherslur barátta gegn ofbeldi á börnum, heilbrigðismál og að rödd barna heyrist betur í íslensku samfélagi.
Á myndinni eru frá vinstri:
Erna Reynisdóttir, framkvæmdastjóri og stjórnarliðarnir: Már Másson, Helga Sverrisdóttir, Ólafur Guðmundsson, Guðrún Kristinsdóttir, Kolbrún Baldursdóttir, formaður, Þórarinn Eldjárn, María Sólbergsdóttir og Bjarni Karlsson. Á myndina vantar Gunnar Hrafn Jónsson og Sigríði Olgeirsdóttur.
Réttindi skilnaðarbarna. 10 boðorð
17.5.2015 | 12:59
Réttindi skilnaðarbarna
1. Að barnið sé vel búið undir áhrif og afleiðingar skilnaðar og foreldrar ræði opinskátt við barnið, hvað skilnaður felur í sér
2. Að barnið fái að vita að það eigi ekki neina "sök" á skilnaðinum
3. Að barnið fái útskýringar á skilnaðinum og - ef mögulegt er - skilning á því að skilnaður foreldranna sé hugsanleg lausn á vanda þeirra
4. Að barnið sé ekki látið ráða, hvort foreldranna fari með forsjá þess
5. Að barnið geti helst verið áfram í sínu umhverfi. Að það þurfi ekki að skipta um leik.- eða grunnskóla og verði öllu jafnan fyrir sem minnstri röskun
6. Að þörfum barnsins fyrir umgengni við það foreldri sem ekki hefur forsjá sé uppfyllt og að barnið fái í auknum mæli, samhliða auknum þroska, að vera með í ákvarðanatöku varðandi umgengni
7. Að barninu sé tryggð umgengni við fjölskyldur beggja foreldra, ekki síst afa og ömmur
8. Að foreldrar hlífi barninu við eigin vandamálum og að barnið þurfi ekki að hlusta á illt umtal um hitt foreldrið
9. Að barnið sé ekki meðhöndlað sem fullorðið og taki á sig hjálparhlutverk gagnvart foreldri
10. Að foreldrar hugsi hvort barnið sé tilbúið ætli þeir að stofna nýja fjölskyldu. Að foreldrar gæti í það minnsta að undirbúa barnið vel ef breytingar á heimilishögum þess standa fyrir dyrum
Er ekkert að draga úr spillingu hér á landi?
11.4.2015 | 13:10
Eitt af því sem maður var að vona að kæmi út úr frjármálahruninu var að draga myndi úr spillingu eða hyglunum í íslensku samfélagi.
Margir eru sammála um að finna megi spillingu víða hér á landi. Í þessu sambandi má nefna allt frá óeðlilegum viðskiptaháttum stjórnenda, ráðandi hluthafa sem greiða sér of há laun og alls kyns viðskipti tengdra aðila.
Á pólitíska sviðinu má nefna fyrirgreiðslupólitík eða þegar ráðamenn ráða vini og/eða ættingja í valdamikil embætti. Kannski getur einhver enn þann dag í dag beitt áhrifum sínum og komið vini eða vandamanni ofarlega á lista stjórnmálaflokks?
Þegar tengsl fá að ráða er mun meiri hætta á að gengið sé framhjá hæfu fólki, umsækjendum sem hafa jafnvel árum saman verið að sanka að sér menntun og reynslu sem krafist er til ákveðinna starfa. En fátt virðist stundum duga til ef ekki er réttu tengslunum fyrir að fara.
Draumurinn lifir enn hjá fjölmörgum um að draga megi úr spillingu. Til að eitthvað breytist þarf vitundarvakningu, heiðarlegt og réttsýnt fólk, sjálfsgagnrýni og almennilegt eftirlit.
Vandinn er, að þegar heyrt er af djúpstæðum spillingarmálum upplifa margir oft bara vanmátt og tilfinningu um áhrifaleysi. Ef meirihluti landsmanna telur að hann sé áhrifalaus, geti hvort eð er ekkert gert í þessu mun spilling af ýmsum toga halda áfram að þrífast og dafna í innviðum þjóðfélagsins.
Einelti - hvað er til ráða?
Fimmtudagsfræðsla í Gerðubergi 12. mars kl. 17.00- 18.30
Opin fræðsla fyrir foreldra í Breiðholti.
Þjónustumiðstöð Breiðholts í samvinnu við Menntun Núna og Borgarbókasafnið Menningarhús Gerðubergi.
Fræðsla um einelti og gagnleg ráð fyrir foreldra, börn og unglinga.
Fyrirlesari er Kolbrún Baldursdóttir sálfræðingur á Heilsugæslunni Mjódd og höfundur bókarinnar EKKI MEIR, bók um eineltismál fyrir starfsfólk skóla, íþrótta- og æskulýðsfélög, foreldra og börn.
Boðið er upp á afþreyingu fyrir börnin á bókasafni á meðan á fræðslunni stendur.
Allir velkomnir.
Thursday education for the family
Service Centre in Breiðholt in collaboration with Education Now and Gerðuberg Culture House.
12. March from 17:00- 18:30
Bullying - what can be done. Education about bullying and useful tips for parents, children and adolescents. Kolbrún Baldursdóttir psychologist at Heilsugæslan in Mjódd.
We offer entertainment for children in the library during the education process.
Everyone is welcome.
http://www.kolbrunbaldurs.is/
Hrós ein besta næring fyrir sjálfsmatið
28.2.2015 | 17:45
Í dag 1. mars er Alþjóðlegi hrósdagurinn. Reyndar hefur hann ekki verið hafður í hávegum hér á Íslandi en það sakar sannarlega ekki þar sem flestum þykir hrósið gott.
Hvatning, hrós og örvun eru meðal kjarnaþátta farsæls sambands og uppeldis. Vissulega er hægt að kæfa með of miklu hrósi. Og stundum finnst þeim sem er hrósað að hann sé ekki hróssins verðugur. Ef hrósað er fyrir allt og ekki neitt missir hrósið marks og verður yfirborðskennt og virkar jafnvel falskt.
Þessu er eins farið með börnin. Ef þau sjá ekki tengingu milli hróss sem þau fá og þess sem verið er að hrósa fyrir, missir hrósið gildi sitt og virkar þá hvorki sem hvatning né næring fyrir sjálfsmatið.
Barn sem er alið upp við mikla og viðvarandi hvatningu og hrós þegar við á er líklegt til að þroska með sér jákvæða og sterka sjálfsmynd. Sterk sjálfsmynd er meðal þess sem styrkir persónulegt og félagslegt öryggi. Barn sem býr yfir slíkum styrkleikum finnur og veit að það getur með jákvæðri hugsun og hegðun náð markmiðum sínum og gefið að sama skapi af sér til umhverfisins. Þetta barn er líklegt til að þróa með sér sjálfsvirðingu en það er einmitt hún sem er öflugasta vörnin gegn t.d. hópþrýstingi. Einstaklingur sem ber virðingu fyrir sjálfum sér er síður líklegur til að vilja gera eitthvað sem getur skaðað heilsu hans s.s. að neyta vímuefna. Jákvæð sjálfsmynd er þannig ein öflugasta forvörn sem völ er á. Þess vegna er um að gera að vera óspar á hrós þegar tækifæri gefst.
Myndin er fengin af vefnum A smile from að child.
Vinátta öflug forvörn gegn stríðni og einelti
7.12.2014 | 10:19
Eitt það mikilvægasta sem við getum gefið börnum okkar er jákvæð sjálfsmynd. Í jákvæðri sjálfsmynd felst að þau trúi á sjálfa sig, að þau finni og skynji að aðrir hafa trú á þeim og að þeim líði vel í eigin skinni. Stríðni og einelti getur auðveldlega brotið niður sjálfsmynd barns sem fyrir því verður.
Vináttu-verkefni Barnaheilla á Íslandi felur í sér fjölbreytt kennsluverkfæri í máli, myndum, leik og leikrænni tjáningu til að kenna þeim að koma ávallt fram við hvert annað af virðingu og kurteisi. Verkefnið er sérsniðið fyrir leikskólabörn. Vinátta og vinsamleg samskipti eru öflug forvörn gegn stríðni og einelti.
Vináttuverkefni Barnaheilla
14.10.2014 | 20:30
Í febrúar 2014 undirrituðu Barnaheill - Save the Children á Íslandi samstarfsamning við við Mary Fonden og systrasamtökin Red barnet - Save the Children í Danmörku um notkun námsefnisins Fri for mobberi sem er forvarnarverkefni gegn einelti í leikskólum og yngstu bekkjum grunnskóla. Hér á landi ber efnið nafnið Vinátta, en það hefur skírskotun til þeira gilda sem verkefnið byggist á. Þau eru: Umhyggja, virðing, umburðarlyndi og hugrekki. Fyrst um sinn þýða, staðfæra og framleiða Barnaheill það efni sem ætlað er börnum á leikskólum en þangað á einelti oft rætur að rekja þó að það sé algengast á miðstigi grunnskóla. Mikilvægt er að hefja forvarnarstarf strax á leikskólastigi með því að vinna með góðan skólabrag, jákvæð samskipti og vinsemd og virðingu fyrir fjölbreytni í nemendahópnum.
Fri for mobberi hefur reynst mjög einfalt/hagkvæmt í notkun. Um er að ræða tösku sem inniheldur nemendaefni og kennsluleiðbeiningar fyrir starfsfólk auk efnis til að nota með foreldrum. Starfsfólk fær fræðslu og þjálfun til að nota efnið. Hægt er að flétta vinnu með Fri for mobberi inn í flesta vinnu og námssvið leikskólans þar sem gert er ráð fyrir fjölbreyttum vinnubrögðum svo sem hlustun, umræðum, tjáningu í leik, tónlist og hreyfingu úti sem inni. Fri for mobberi er nú þegar notað á Grænlandi og í Eistlandi auk Danmerkur. Jafnframt hafa fjölmörg önnur ríki sýnt því áhuga. Mikil ánægja er með verkefnið þar sem það er notað og rannsóknir í Danmörku leiða í ljós mjög góðan árangur af notkun þess. Barnaheill gera ráð fyrir samstarfi við háskóla á Íslandi um rannsóknir á árangri af notkun efnisins hér á landi. Samtökin hafa kynnt efnið fulltrúum nokkurra sveitarfélaga, fulltrúum í mennta- og menningarmálaráðuneytinu, leikskólakennurum og háskólasamfélaginu. Það er samdóma álit allra þeirra, sem hafa fengið kynningu á efninu, að mikil þörf sé á slíku efni í íslensku skólakerfi.
Sex leikskólar í jafnmörgum sveitarfélögum taka þátt í tilraunavinnu með verkefnið veturinn 2014- 2015. Þeir eru leikskólarnir Kirkjuból í Garðabæ, Álfaheiði í Kópavogi, Vesturkot í Hafnarfirði, Leikskóli Seltjarnarness, Hlíð í Mosfellsbæ og Ugluklettur í Borgarbyggð.
Haustið 2015 mun fleiri leikskólum standa til boða að taka þátt í verkefninu. Barnaheill Save the Children á Íslandi vinna nú að því að afla fjár til að geta staðið straum að framleiðslu og dreifingu efnisins svo að allir leikskólar og sveitarfélög hér á landi geti notið góðs af í framtíðinni.
Bangsinn á myndinni er Blær bangsi, sem er táknmynd vináttunnar í Vináttu-verkefninu. Blær minnir börn á að vera öllum góður félagi og sýna hvert öðru umburðarlyndi, hugrekki, virðingu og umhyggju.
Upplýsingar þessar er að finna á vef Barnaheilla-Save the children á Íslandi www.barnaheill.is
Átakanleg upplifun
24.7.2014 | 09:53
Þetta var átakanleg upplifun í gær. Stríðsglæpir Ísraelsmanna hafa sannarlega tekið á margan Íslendinginn sem finnur sárt til með íbúum á Gasasvæðinu.
Persónulega finnst mér viðbrögð íslenskra stjórnvalda afar lin. Enda þótt forsætisráðherra og hans fólk sé eitthvað að sýna lit má lesa milli lína að ábyrgðin er einnig talin liggja hjá þolendunum. Enn má heyra setningu eins og Ísraelsmenn eiga nú rétt á að verja sig.
Það skortir verulega á skýra viðurkenningu íslenskra stjórnvalda á að Ísrael beri fulla ábyrgð á þessum fjöldamorðum. Hér er verið að brjóta á þjóð sem á þess ekki kost að verja sig, sem er fullkomlega minni máttar auk þess sem hún hefur verið girt af og fangelsuð í eigin landi.
Auðvitað getur íslenska þjóðin sýnt sterkar í verki andúð sína á árásum Ísraels á Gasa.
En til þess þarf þor og dug íslenskra stjórnvalda
Fiskistofa flytur til Akureyrar. Ömurleg ákvörðun
27.6.2014 | 19:28
Ömurleg aðgerð. Starfsmönnum boðin áfallahjálp segir allt sem segja þarf um hversu alvarleg og íþyngjandi þessi ákvörðun er fyrir starfsmenn Fiskistofu og fjölskyldur þeirra.
Ætlast forsætisráðherra til að þeir rífi sig upp með rótum og flytji norður eins og ekkert sé.
Hvað eru börnin mörg sem þessi ákvörðun nær til og hefur áhrif á?
Nú þarf forsætisráðherra að kanna hvort hann geti ekki sett sig í spor annarra, prófa að ímynda sér að hann væri einn af þessum starfsmönnum sem ætti börn í skóla hér og maka með vinnu. Með einni svona ákvörðun, sem er til þess eins að afla atkvæða, er lífi fjölmargra snúið á haus.
DAGUR BARNSINS ER Í DAG 25. maí
25.5.2014 | 17:17
Síðasta sunnudag í maímánuði ár hvert er Dagur barnsins - opinber íslenskur dagur sem komið var á árið 2007 til heiðurs börnum.
Í tilefni dagsins frumsýndu nemendur í 10. bekk í Austurbæjarskóla glænýtt tónlistarmyndband um fátækt.
Lagið var verkefni sem nemendur unnu með Barnaheill- Save the children á Íslandi.
Ég hvet alla til að hlusta á þetta frábæra myndband.
Ekki öll börn sitja við sama borð þegar kemur að lífsins gæðum, möguleikum og tækifærum í lífinu.
Þessu þurfum við að breyta.
![]() |
Kynntu mannréttindamyndband |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |